Punktar

Engin siðbót í sýn

Punktar

Hér verður engin siðbót meðan þjóðin styður fjórflokkana. Þeir eru allir flokkar sérhagsmuna. Hafa áratugum saman stutt viðamikinn þjófnað þjóðartekna, einkum með hækkun í hafi. Fiskur, ál, ferðaþjónusta og innflutningur hækka í hafi á ýmsa vegu. Þannig eru yfir 100 milljarðar teknir úr landsframleiðslu án skatta og skipta. Þetta þýfi þarf ríkið að endurheimta. Og eiga þá fyrir ókeypis lúxus sjúkraþjónustu eins og á öðrum norðurlöndum, eiga fyrir borgaralaunum og smíði þúsunda smáíbúða fyrir ungt fólk. Um þetta er rifizt áratugum saman í hringekju fjórflokksins. Jafnvel í góðæri eins og nú, finnst fjórflokki ofurríkra óbærilegt að afturkalla þjófnaðinn og veita öllum góða ævi.

Allt stendur fast

Punktar

Ríkisstjórnin virðist leggja áherzlu á, að hér verði áfram allt eins og alltaf hefur verið. Bófaflokkurinn tryggir öruggt rennsli fjár framhjá landsframleiðslu okkar. Framsóknarflokkurinn hefur þar á ofan líf vinnslustöðva landbúnaðarins á sinni könnu. Vinstri græn staðfesta réttmætið. Að einkavæðing megi skríða inn í laumi. Aldraðir og öryrkjar verði áfram ofsóttir. Ríkið hafi ekki frumkvæði að reisn 2000 ódýrra smáíbúða. Allt íhaldsflokkar hinna þjóðrembdu stjórnmála 100 ára fullveldistímans. Þjóðin styður eindregið þann séríslenzka, úldna forarpytt. Nýir alvöruflokkar eiga of erfitt uppdráttar, til dæmis Píratar, bezta valið.

Versta fjárfestingin

Punktar

Fjárfesting Arion banka og lífeyrissjóðanna í United Silicon stórverksmiðjunni í Reykjanesbæ hefur verið afskrifuð um fimm milljarða og verður meiri, þegar yfir líkur. Taprekstur á dauðri verksmiðju er 2,5 milljarðar á ári. Sennilega einn mesti skandallinn frá fjármálahruninu. Hvorki bankinn né lífeyrissjóðirnir lærðu neitt á hruninu. Áfram er vaðið í stjórnlausra glæfra með fyrirgreiðslum ríkisins og orkuvera þess. Ekki er að sjá, að neinn stjórnenda bankans og sjóðanna ætli að axla ábyrgð á ofurtjóninu og ganga í sjóinn. Mantra þeirra er: Gengur betur næst. Tímabært er að stöðva fjárfestingar fávita lífeyrissjóða með handafli ríkisins.

Hatur á gamlingjum

Punktar

Mér er óskiljanlegt, hvers vegna íhaldsflokkarnir hata sína traustustu kjósendur svona mikið. Gamla fólkið hefur ár eftir ár setið eftir hækkunum annarra hópa. Stjórnarflokkar sinna þessu ekki með litla fingri, ekki einu sinni Vinstri græn. Reyna jafnvel að hækka lífeyrisaldur til að þræla öldruðum meira út. Svipað er að segja um öryrkja. Alls kyns sérhagsmunir aðrir fá hins vegar ótrúleg fríðindi, landbúnaður og vinnsla búvöru. 3000-3500 aldraðir eru á elliheimilum með 68.000 króna vasapeninga á mánuði. Greiðslur lífeyrissjóða hafa hækkað um 10% á ári, en greiðslur Tryggingastofnunar hafa staðið í stað. Nóg er samt af óskattlögðu fé.

Ekkert lögbann án dóms

Punktar

Þing­menn Pírata hafa lagt fram frum­varp um að ekki megi leggja lög­bann á miðlun fjöl­miðla án und­an­geng­ins úr­skúrðar héraðsdóms. Sýslumaður Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu hindraði Stundina í að birta áfram upplýsingar um fjár­glæfra Bjarna Bene­dikts­son­ar í aðdrag­anda banka­hruns­ins 2008. Sú ákvörðun sýslumanns var ruddaleg stíflun á tjáningarfrelsi og stendur enn. Til­gang­ur frum­varps­ Pírata er að tryggja, að ekki verði mögu­leiki fyr­ir lög­banns-krefjanda að stöðva miðlun fjöl­miðils án aðkomu dóm­stóla. Fjöl­miðlafrelsi er einn horn­steina lýðveld­is­ins og virkar ekki, ef löglausir sýslumenn eru í þjónustu valdamesta bófaflokksins.

Hundheiðin jól

Punktar

Jólin eru hundheiðin, forngermönsk hátíð til að fagna hækkandi sól. Flest tákn jólanna eru margfalt eldri en kristni. Þar er ljót fjölskylda Grýlu, stríðnir jólasveinar, hjólgrimmur jólaköttur, jólatré, jólakrans, jólageit, fyllerí í mat og drykk. Óðinn var líka nefndur Jólafaðir og Jólnir. Krists-Messa (Christ-mas) fellur alveg í skuggann, sömuleiðis Hanukkah Gyðinga og rauðklæddi kóka-kóla sveinninn, upprunalega Nikulás biskup í Tyrklandi. Kirkjan reyndi að taka yfir jólin, en hefur ekki tekizt. Veizlur og gjafir yfirgnæfa kirkjuferðir. Hafi Jólnir fengið samkeppni, er hún frá Mammon, en ekki frá Kristi.

Gleðileg jól!

Áfangastaður ævintýranna

Punktar

Luxury Travel Guide velur árlega Ævintýraáfangastað Evrópu. Reykjavík varð fyrir valinu um daginn eins og í fyrra. Ævintýralegur stuðningur við borgina sem áfanga lúxusferðafólks. Stillir öðrum fæti undir íslenzka ferðaþjónustu, sem hingað til hefur snúist um sérstæða náttúru og fámenni. Nú segir fagtímarit Reykjavík vera menningarborg í stórbrotnu landi með norðurljósadýrð og fjölbreytta afþreyingu. Fyrir Reykjavík er lúxus að vera menningarborg Evrópu. Kallar á enn fleira fólk, sem telur ekki aurana sína. Litlar líkur eru því á, að lát verði á straumi þess til landsins sumar og vetur. Engin leið verður lengur að þrýsta niður láglaunum.

Eitthvert mál um daginn

Punktar

Bjarni Benediktsson segir um lögbrot Sigríðar Andersen dómsráðherra við ráðningu dómara í Landsrétt. „Síðan er málið hér eitthvað til skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er að hefja einhverja athugun á því hvort það er eitthvað frekar til að læra af málinu, ef ég hef skilið það rétt.“ Varla er hægt að orða fyrirlitninguna ljósar. Bjarni þykist vera búinn að gleyma þessu einhverja máli, sem hafi orðið til smá trafala um daginn. Sjálfstæðisflokkurinn sér um sína bófa. Álitsgjafarnir kvarta auðvitað og beina orðum sínum að Katrínu Jakobsdóttir. Hún er raunar forsætisráðherra. Má búast við fleiri raunum af samneyti sínu við bófa.

Herfang í boði

Punktar

Forsætisráðherra hefur skipað sérhagsmunaaðila í nefnd til að fara yfir lög­in um fjár­reiður stjórnmálaflokka. Nefndin leggur auðvitað til, að styrkirnir hækki úr 286 milljónum á ári í 648 milljónir, meira en tvöfaldist. Þetta er samkvæmt ósk allra þingflokka nema Pírata og Flokks fólksins. Þessir tveir eru sennilega einu flokkarnir, sem taka almannahagsmuni fram yfir brútal sérhagsmuni. Yfirskinið er að koma þurfi upp reglum um auglýsingar og áróður nafnlausra eða annarra þriðju aðila. Svo sem samtökum kvótagreifa. Hin raunverulega ástæða er meint þörf flokka til að fá fólk til að borga sem mest af kostnaði bófa og kosningahernaði.

Ítrekuð falsfréttt

Punktar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir ítrekað, að heilbrigðiskerfi Íslands sé hið bezta í heimi. Það er falsfrétt, sem verður ekki réttari við að vera ítrekuð. Hundruð frétta um ástand heilsustofnana á árinu segja allt aðra sögu. Heilsukerfi okkar er bara rúst af kerfi. Langir biðlistar eru eftir þjónustu. Bið í sex-átta klukkutíma á slysadeild. Sjúklingar eru geymdir á göngum og í bílgeymslum. Landspítalinn á að telja fullvaxinn norrænn háskólaspítali, en er þó norrænum spítölum langt að baki. Senda verður sjúklinga til útlanda. Þúsundir hafa kynnzt því, að hann líkist sjúkraskýli í Sýrlandi. Áslaug Arna er bullari Flokksins.

Kjararáð fái aumingjana

Punktar

Kjararáð úrskurðar 28-48% á tekjuhæstu hópana. Næsta mál á dagskrá er að fá ráðið til að úrskurða örorkubætur og ellilaun með sama hætti. Kjararáð hefur raunsærri sýn á kjaraþörf en ríkisstjórnin, sem heldur að öryrkjar og gamlingjar geti lifað á 200 þúsund krónum. Ár eftir ár eru þeir skildir eftir. Rétt er, að Kjararáð fái færi á að bjarga sálu sinni með því að skella 350 þúsund krónum á þessa tvo hópa. Það úrskurði jafnframt, að engir launataxtar verði lægri en það. Þá getum við farið að tala saman um borgaralaun. Öll umræða um laun og bætur eru annars fúsk meðan auðgreifum er gert kleift að stela hundruðum milljarða á ári undan skiptum.

Frá Hannesi til Katrínar

Punktar

Þetta byrjaði með Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Eingöngu klíkan fékk embætti, nema Einar Benediktsson, fram hjá honum varð ekki gengið. Æ síðan hefur íslenzk pólitík verið svindl og svínarí. Andersen er af þessari hefð, fer óðar að hefja pólitískt val á dómurum. Fólk kvartar auðvitað við forsætis og fær svarið. Katrín Jakobsdóttir vitnar í „kúltúrinn“ hér og segir Andersen ekki munu hætta í ríkisstjórn. Þar með er upplýst, að Katrín er ekki í pólitík til að bæta kúltúr í stjórnmálum. Hún er þar til að varðveita hefðir. Versta hefðin er að taka alltaf sérhagsmuni fram yfir almannahagsmunum. Það gerir stjórn Katrínar á ótal sviðum.

Uppboð veiðileyfa

Punktar

Þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata leggja til, að líkleg aukning veiðiheimilda verði boðin upp. Markaðslögmál leysi opinberar úthlutanir af hólmi. Auðveldar aðstoð við raskaðar byggðir og hefur náð góðri reynslu erlendis. Færeyingar og Norðmenn bjóða út veiðiheimildir. Núverandi kvótakerfi hefur ákaft verið gagnrýnt undanfarin ár. Tillögur um útboð hafa verið útfærðar í smáatriðum. Kvótakerfið er rekið í þágu helztu auðgreifa landsins, sem þar fá veiðiheimildir gefins að hálfu leyti. Tilboðsleiðin hins vegar á vel við, þegar úthluta á takmörkuðum gæðum. Þrír flokkar gæta hagsmuna úrelta kerfisins, Sjálfstæðis, Vinstri græn og Framsókn.

Píratar hækka 47%

Punktar

Píratar hækka um 47% frá kosningum til könnunar MMR. Voru með 9,2% atkvæða, hafa nú 13,4%. Áður var kunnugt, að þeir fá meira í könnunum en í kosningum. Taldir nenna síður fara á kjörstað en kjósendur annarra flokka. Að þessu sinni voru þeir duglegir við að aka fólki, en allt kom fyrir ekki. Allt of margir stuðningsmenn nenntu ekki. Kannski höfðu lygar Sjálfstæðis áhrif í restina. Næst hafa Píratar meiri sérstöðu. Hafa farið gegnum þrjú kjörtímabil án þátttöku í ríkisstjórn. Ekki tapað neinu trausti. Þarf næst styttri og róttækari úrdrátt stefnunnar um stjórnarskrá, gegnsæi, opna fundi, málfrelsi, kvenfrelsi, húsnæði og velferð.

Sjúklega veruleikafirrt

Punktar

Sigríður Andersen er sjúklega veruleikafirrt, einstaklega hæf til að vera ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Hæstiréttur hefur dæmt Sigríði ráðherra fyrir lögbrot. Annars staðar í Evrópu mundi ráðherrann segja af sér. Hér í bananalandi hyggst Sigríður ekki segja af sér. Ætlar að semja reglugerð, sem mun gera frekari lögbrot hennar sjálfrar fyllilega lögleg. Hún segist ekki vera sammála Hæstarétti og Hæstiréttur verður bara að hafa það. Stjórnarfarið á Íslandi er hætt að vera fyndið. Allt það ógeðslega veður uppi, enda er það augljós stefna Sjálfstæðis, sem er fremur bófaflokkur en málefnaflokkur. Stjórn hinna ríku fyrir þá allra ríkustu.