Punktar

Með ofurbros á yztu brún

Punktar

Meðan Katrín hélt upp á stjórnarmyndunina, rak dómsmálaráðherra hennar lítið barn úr landi undir lögregluvernd. Þegar vika var liðin af stjórn Katrínar, voru gefin út bandarísk fjárlög, sem fela í sér endurheimt herliðsins á Keflavíkurvelli. Þar á milli sagði Katrín, að hér væri ekki til siðs að spilltir ráðherrar segi af sér. Þar með þarf helmingur ríkisstjórnar hennar ekki að segja af sér. Veifa í staðinn aflátsbréfi Katrínar. Um þær mundir er vestrænir leiðtogar fordæmdu aðgerðir Trump vegna Jerúsalem, lýsti Katrín yfir vonbrigðum með þær. Meðan hyldýpið blasir við henni, þeim mun breiðar brosir hún. Íslenzki ofur-pólitíkusinn með ofurbrosið.

Ráðherrum er orða vant

Punktar

Ríkisstjórnin byrjar varlega og flestir ráðherrar fela sig. Katrín Jakobsdóttir segist þó verða fyrir vonbrigðum með upphlaup Donald Trump vegna Jerúsalem. Flestir vestrænir leiðtogar kusu að fordæma upphlaupið, er sýnir harðari andstöðu. þeirra. Og Katrín segir fátt um bandarískar hugleiðingar um að senda hingað aftur her í land. Svandís Svavarsdóttir segir enga einkavæðingu í heilsu verða á sinni vakt. Flestir flokksmenn töldu að hún mundi snúa við leyndó einkavæðingu síðasta kjörtímabils. En hún vill bara stöðva, ekki snúa við. Dregur nokkuð úr slagkrafti orða hennar. Og Katrín segir afsagnir ónýtra ráðherra ekki til siðs hér á landi.

Mannasiðir ráðherra

Punktar

Hætt er við, að mannasiðabók ráðherra fái erfiðar fæðingarhríðir. Sjálf Katrín Jakobsdóttir hefur logið út og suður um fyrirætlanir sínar í vor og sumar. Bjarni Benediktsson er á kafi í að skrapa upp ríkisfé handa Engeyingum. Sigurður Ingi eyðilagði heila Fiskistofu til að gera hana bitlausa. Sigríður Andersen brýtur lög til hægri og vinstri. Ásmundur Daði er í þjónustu Kaupfélags Skagfirðinga og Kristján Þór er vinnuþræll og áður stjórnarmaður Samherja. Hvorugur ætti að sjást á almannafæri. Ásmundur gubbar meira að segja á fólk og stundar innbrot. Burt með dólgana. Guðmundur Ingi einn er húsum hæfur, kurteis og kann fagið fram í fingurgóma.

Fjölbreytt rafmagnsöld

Punktar

Víðtæk skipulagsmistök hafa að venju verið framin í Reykjavík síðustu árin. Verst er, að þétting byggðar verður ekki aftur tekin. Nema fólk telji málið  svo vont, að sprengja þurfi upp nýlega steypu, einkum við umferðarhorn, hraðbrautir og í húsagörðum gömlu Reykjavíkur. Verktakar hafa tekið öll völd í samskiptum við Skipulagsstofnun og Skipulagsráð. Bjóða gámaklasa út í lóðarhorn og glerblokkir í húsagörðum. Dagur B. Eggertsson hefur að mestu sloppið við ábyrgð, en gagnrýnin beinist að Hjálmari Sveinssyni. Hann er ekki sagður hafa neitt fegurðarskyn. Og vita minna en þú og ég um framtíð umferðar á rafmagnsöld fjölbreyttra farartækja.

Mannasiðabókin mín

Punktar

Af ókunnum ástæðum gaf systir mín mér mannasiðabók, þegar ég var um tvítugt. Þar var kennt, hvernig karlar ættu að daðra við konur. Bjóða í mat á huggulegum stað. Þú fylgir henni heim og kveður hana. Þetta gerist í þrígang. Þið getið splittað reikningnum, ef konan vill. Í þriðja skiptið máttu kyssa konuna. Í fjórða skiptið færðu að koma inn á herbergi til hennar. Bannað er að vera fullur. Ég efast um, að flagarar þyldu að fara gegnum svona ferli. Það felur líka í sér, að þið hafið spjallað heilmikið saman og fundið, hvort ykkur líður vel með það. Ætti ekki að kenna Esquire Etiquette eða aðra slíka í menntaskólum, líklegra þó yngri útgáfu?

Evrópa stækkar til Japans

Punktar

Evrópusambandið fór í gær fram úr Bandaríkjunum sem stærsta viðskiptaveldi heims. Gerði fríverzlunarsamning við Japan, sem stækkar áhrifasvæðið upp í 600 milljón íbúa. Tollar munu hrynja á þessu svæði og spara milljarða evra. Um leið verður evran áhrifameiri sem alheimsgjaldmiðill, ekki gefin út af neinu einkafélagi eins og dollarinn. Talið er, að samningurinn nái fljótt til Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Íslands. Ætti að efla sjávarútveg okkar og ferðaþjónustu. Vegna Brexit missa Bretar hins vegar af kostum Evrópusambandsins. Því mætti Guðlaugur Þór fara enn einu sinni fýluferð til London að gráta í faðmi Boris Johnson Brexit-greifa.

Risasamningur

Norðmenn eða Herúlar

Punktar

DNA-rannsóknir á eldfornum mannabeinum sýna, að mannkynið er tvöfalt eldra en áður var talið. Fyrir 120.000 árum í stað 60.000 ára hófust þjóðflutningar frá Afríku og dreifðust þaðan um alla jörðina. Nútímafólk ber enn í sér 4% leifar af genum frá Neanderdalsfólki og íbúar Suðurhafseyja bera í sér 5% leifar af áður óþekktum forvera mannsins, Denosovan-fólkinu. Ferðir frummannsins hafa tekið langtum meiri tíma en áður var talið og leitt til flóknari samblöndunar ættkvísla en áður var talið. Gaman verður, þegar DNA-rannsóknir geta rakið hlutföllin í stöðu Íslendinga í þessari þróunarsögu. Erum við Norðmenn eða Herúlar eða eitthvað allt annað.

Samþjöppun Evrópu

Punktar

Vesturþýzkir sósíaldemókratar samþykktu í gær að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Angelu Merkel kanzlara frá Kristilegum demókrötum. Martin Schulz, formaður krata, setur það skilyrði, að samstarfið í Evrópusambandinu verði þéttað. Það breytist smám saman úr ríkjasambandi í sambandsríki árið 2025. Sýn hans á Stór-Evrópu er þó verkalýðsvæn, fremur en stórfyrirtækjavæn sýn Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Meðan auðugu ríkin í Vestur-Evrópu sækjast eftir sterkari einingu álfunnar, heltast fátæku ríkin í Austur-Evrópu aftan úr lestinni vegna harðskeyttrar þjóðrembu og andstöðu við útlendinga, sem jaðrar við fasisma.

Konur sigra flagara

Punktar

Konur munu bera sigur af hólmi í stríði þeirra gegn kynferðislegri áreitni. Þar með munu eflast líkur þeirra á stöðuhækkunum, er óviðkomandi atriði trufla síður metorðastigann. Í upphafi stríðsins kom í ljós, að margar konur og margir karlar voru ekki sammála um, hver væru mörk daðurs og kynferðislegrar áreitni. Nú verða flagarar að sætta sig við hin nýju mörk, er konur hafa ákveðið því sem næst einar. Þetta er hið bezta mál eins og önnur kvennamál, sem hafa leitt til betri jafnstöðu kynja. Hún er raunar betri hér en víðast annars staðar, svo sem sjá má í aðild kvenna að stjórnmálum. Enn þarf að taka harðar á mismunun karla- og kvennastétta.

Röddin heyrist varla

Punktar

Svo mikill hluti þjóðarinnar telst til einhvers konar miðstéttar, að rödd fátækra heyrist nánast ekki. Flest baráttufólk, sem kallað er vinstri sinnað, er í raun miðstéttarfólk. Til dæmis fólk, sem vinnur í stjórnmálum eða félagsmálum. Það er komið í töluverða fjarlægð frá undirstéttinni og býr ekki við sömu kjör og hún. Þess vegna er hér enginn verkafólksflokkur. Sjómenn Samherja reka til dæmis erindi kvótagreifa á útifundum. Flokkur fólksins nær varla inn á þing án þess að vera í bandalagi með útlendingahöturum. Hann hlífir þannig greifunum við ábyrgðinni og færir hana yfir á valdalaust fólk. Næsta bylting mun því koma frá miðjunni.

Tíu prósent eru gleymd

Punktar

Samherji á einn fulltrúa í ríkisstjórninni, Kristján Þór Júlíusson. Kaupfélag Skagfirðinga á annan fulltrúa, Ásmund Einar Daðason. Svo grunnmúrað er eignarhald kvótagreifa á þjóðfélaginu. Auk Sjálfstæðis og Framsóknar taka Vinstri græn ábyrgð á þessari hefð stéttaskiptingar. Við höfum því eitt prósent þjóðarinnar, sem lifir á að dæla þjóðarauðlindinni yfir til sín. Tæplega 80% þjóðarinnar hafa það gott eða sæmilegt og eru sátt við ástandið. Styðja ríkisstjórn, sem er byggð svona upp. Um 10% þjóðarinnar eru undirstétt, sem hefur það skítt. Þar eru húsnæðislausir, öryrkjar og aldraðir. En meirihluta finnst það bara þolanlegt eða allt í lagi.

Friður og spekt

Punktar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir styrk hinnar nýju íhaldsstjórnar, 78% gegn 22%. Fólk leitar í öryggið og finnur traust í bræðingi frá vinstri til hægri. Fólk er ekki lengur svo hrætt, að það leiti öryggis í breytingum. Af breytingaflokkunum næðu aðeins Samfylkingin og Píratar inn þingmönnum, en Viðreisn og Flokkur fólksins mundu falla út. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hægt um sig og Katrín Jakobsdóttir leikur á als oddi með allt sitt persónufylgi. Þetta verður sælutími, unz fer að gefa á bátinn. Kannski þarf að smala köttum, þegar frá líður, en nú sjást fá tilefni til slíks. Við skoðum svo málið betur, þegar breyttu fjárlögin koma fram.

Forstjórabófi stöðvaður

Punktar

Ríkisstjórnin mun auka framlög til velferðar minna en sem nemur auknum kostnaði. Þannig var það hjá fráfarandi ríkisstjórn og þeirri þar á undan. Síðan reynir forstjóri Sjúkratrygginga að deila fénu þannig, að meira fari til einkavina á borð við sjúkrahótel Albaníu-Höllu og annarra slíkra einka-sjúkrahúsa. En minna til Landspítalans, spítala alls almennings. Bófaflokkurinn á trygginga-forstjórann og hefur þetta allt í hendi sér, hvað sem segir í stjórnarsamningi. Á newspeak heitir þetta að „efla kostnaðarvitund“ aumingja. Eins og árleg hækkun á hlut sjúklinga í lyfjakostnaði. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðis mun þó stöðva þessa vitleysu.

Ekki sama tóbakið

Punktar

Stefna Pírata er hugsuð frá grunni í málefnanefndum. Hafa þróað mál, sem aðrir flokkar hafa lítið fjallað um. Til dæmis réttindi höfunda. Sum málin hafa fengið norræna eða sósíaldemókratíska niðurstöðu. Ekki vegna Samfylkingarinnar, heldur vegna þess að norræna og þýzka velferðarkerfið eru heillandi og í samræmi við hug og hjörtu fólks. Þótt stefna Pírata sé í sumu hliðstæð stefnu Samfylkingarinnar, er hún ólík í öðrum atriðum. Samfylkingin er frekar stjórnlynd, en Píratar eru frekar frjálslyndir. Að sumu leyti standa þeir nær Viðreisn en Samfylkingunni. Of mikið er gert úr spegilmyndum í samanburði á Samfylkingunni og Pírötum.

Tveir virkir ráðherrar

Punktar

Tveir ráðherrar íhaldsstjórnarinnar ætla að skera sig úr aðgerðaleysinu og starfa eins og aktívistar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlar að stöðva einkavinavæðingu fyrri ríkisstjórnar. Vill fylgja þeim eindregna þjóðarvilja, að heilsugeirinn verði rekinn af opinberum aðilum. Annar ráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlinda, hyggst líka starfa sem aktívisti. Hann vill þjóðgarð, engar raflínur á hálendinu og ekki virkja í óbyggðum á Vestfjörðum. Hann er líka vís til að dempa þingeyskar hugsjónir um 60 orkuver í sýslunni. Þessi tvö mál, heilsa landsmanna og verndun hálendis eru núna öndvegisþarfir Íslendinga.