Punktar

Vantar rödd fátækra

Punktar

Vel ráðið er hjá þremur minnihlutaflokkum á alþingi að mynda málefnabandalag. Þeir eru allir breytingaflokkar, öfugt við kyrrstöðuflokka meirihlutans. Píratar, Samfylkingin og Viðreisn eiga margt sameiginlegt, miklu frekar en þeir, sem skipa ríkisstjórnina. Stjórnarskráin, kvótakerfið, landbúnaðarkerfið og viðræður við Evrópu eru sameiginleg stórmál. Mér þætti gott, ef Inga Sæland frá Flokki fólksins fengi aðild að þessum klúbbi. Þar þarf að vera hrein rödd fátækra. Húsnæðislausir, láglaunafólk, öryrkjar og öldungar hafa sterka rödd í þeim flokki. Mundi bæta mynd þriggja flokka, sem myndaðir eru af miðstéttarfólki og skortir rödd almennings.

Skattalækkun vel stæðra

Punktar

Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að lækka neðra þrep tekjuskatts á þann hátt, að fólk með yfir 835 þúsund króna mánaðartekjur fær þrefalt hærri afslátt en fólk á lágmarkslaunum. Í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins að færa skattbyrði af vel stæðu fólki yfir á fátæklinga. Hækkun persónuafsláttar hefði hins vegar skilað öllum tekjuhópunum jafnri skattalækkun. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á hinni ójöfnu dreifingu skattalækkunarinnar með myndrænum hætti í sjónvarpinu. Þetta fyrsta verk stjórnarinnar sýnir, að í stórum dráttum er þetta sama ríkisstjórn og hin fyrri. Þetta er stjórn Sjálfstæðisflokksins og hinna ríku.

Óhófleg sáttfýsi

Punktar

Prinsípfesta er ekki elítismi eða verkleysa fremur en að opnun í alla enda hafi  sáttfýsi og vinnusemi í för með sér. Prinsípfesta og sáttfýsi hafa hvort um sig neikvæðar hliðarverkanir. Nú stöndum við andspænis þeirri vissu, sem áður var bara grunur, að einn flokkur er hreinn bófaflokkur. Í Sjálfstæðisflokknum eru nánast allir fjárglæframenn landsins, þar á meðal formaðurinn. Flokkurinn er krabbamein í pólitíkinni, rétt eins mafían væri beinn aðili að stjórn Ítalíu. Svik og svindl, lögleysa og leyndarhyggja einkenna flokkinn. Vinstri grænum ber engin lýðræðisleg skylda til að leysa stjórnarkreppu í samstarfi við bófa-smáflokk með 25% fylgi.

Vinstri grænar virkjanir

Punktar

Þjóðvarnarfólk í sveitum hefur ekkert á móti orkuverum í sveitum sínum, ef þau eru innan við 10 MW og þurfa ekki umhverfismat. Draumur fólks snýst um tímabundin verkefni fyrir vinnuvélar sínar. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur áhuga á að reisa 50-60 slík orkuver í héraðinu. Hvar sem fólk er statt í sýslunum, hefur það þá orkuver í augsýn. Hlýtur að vera mikill unaður öllu þjóðvarnarfólki og öðrum kjósendum forseta alþingis. Ekki veitir af að hafa landverndarstjóra og Svandísi Svavarsdóttur sem ráðherra til að verjast áreitni þingeyskra þjóðvarnarsinna og hers Steingríms. Þar mun hrikta einna fyrst í stjórnarsamstarfinu. Innan Vinstri grænna sem oftar.

Evra betri en króna

Punktar

Hér er rekinn farsalegur áróður gegn meginlandi Evrópu og einkum evru. Birtar eru fréttir um, að evran sé að hrapa, en aldrei um, að hún sé að rísa. Samt er evran mjög stabíl, öfugt við fallandi pund. Evran hefur hækkað úr 0,7 pundum í 0,9 pund frá árinu 2013 til dagsins í dag. Skammt er til þeirra tímamóta að evran fari upp fyrir verðgildi pundsins. Alls konar vandræði í Evrópu hafa ekki megnað að draga úr risi evrunnar. Ekki vandræðin í Grikklandi og ekki erfiðleikar ríkja við Miðjarðarhafið. Slík vandræði eru að lagast og framtíðin er björt hjá evrunni. Við ættum sem fyrst að taka upp evru og fjölnotkun alþjóðlegra mynta, kasta krónunni.

Þreyttur ertu orðinn

Punktar

Þetta voru skilaboðin á símanum mínum í morgun: „Þreyttur ertu orðinn“. Ég fletti nokkrum punktum og sá, að þetta var rétt. Allan elegans vantar í texta minn. Þarf að taka mér frí eða að minnsta kosti lækka dampinn á vélinni. Pistlar mínir eru orðnir alls 23.687 frá 1973 til þessa dags. Kannski fækka pistlunum um einn á dag yfir háveturinn. Og minnka skrif um pólitík, hún verður smám saman þreytandi. Ég hef verið upptekinn af þeirri vissu, að Sjálfstæðisflokkurinn væri krabbameinið í þjóðfélaginu, sjálf rótin að spillingu og svínaríi. Margir fleiri skrifa í slíkum dúr, svo þetta er ekki leyndó lengur: Að VG leiddi bófana aftur inn í helgidóminn.

Mannval í ríkisstjórn

Punktar

Mannvalið virðist vera þetta: Panamaprins (Bjarni Ben) er fjármála og þar með yfirmaður allra fagráðherra. Dómsmála (Sigríður) er sami ósiðlegi fasistinn og hún var áður. Félagsmála (Ásmundur Einar) er flokkaflakkarinn, er greiddi laun undir taxta og svindlaði á opinberum gjöldum. Sjávarútvegs (Kristján Þór) er fyrrverandi stjórnarformaður kvótagreifanna í Samherja. Utanríkis (Guðlaugur Þór) er sá, sem flutti Sjálfstæðis úr hópi íhaldsflokka í hóp fasista með Erdoğan í Tyrklandi. Gott var þó að losna við Jón Gunnarsson, sem vildi skattleggja umferð til Reykjavíkur. Guð og Allah, Búdda og Óðinn blessi Ísland og ríkisstjórnina. Og Pál sem grætur.

Orðaflaumur og bull

Punktar

Stjórnarsáttmálinn er orðaflaumur utan um, að ekki verði snert á viðkvæmum málum og að fagur vilji sé til að gera eitthvað ótiltekið á öðrum sviðum. Ótal nefndir, „þverfaglegir hópar“, á máli sáttmálans eiga að sofa á ýmsum málum. Ástæða er þó til að ætla, að umhverfismálum verði betur sinnt. Og eitthvað ætti að nást út úr bönkunum í heilbrigðismál. „Stórsóknir“, „markviss skref“ og „sóknaráætlanir“ eru ótímasettar. Fyrst og fremst er sáttmálinn innantómur orðaflaumur almannatengsla, þar sem ekki er hægt að festa hendur á neinu. Textinn hæfir auðvitað ríkisstjórn, sem snýst ekki um mál, heldur um stóla og völd ráðherra, sem sumir eru lögbrjótar.

Harmsaga hersins

Punktar

Bandaríkin hafa farið hörmulega út úr styrjöldum eftirstríðsáranna. Náði jöfnu í Kóreu, en síðan hefur sigið í ógæfuhliðina. Í Víetnam var Agent Orange málið. Svo komu Afganistan og síðan Írak. Í Persaflóastríðinu átti Patriot að vera málið. Svo flæktu Bandaríkin Atlantshafsbandalaginu í Balkanskagastríð. Allt kom fyrir ekki. Alltaf áttu töfravopn að leysa málið. Eldflaugar að hitta beint í klósett hjá vondu köllunum. Aldrei hittu flaugarnar neitt nema almenning úti um víðan völl. Bandaríski herinn hefur verið mesta manndrápsvélin á óbreyttum borgurum síðustu áratugi. Og aldrei haft nein áhrif. Nú eru það flygildin, sem eru áhrifalaus.

Svikin lengi í minni

Punktar

Fréttir af stjórnarmynduninni staðfesta ótta um að nýja stjórnin vilji helzt engu breyta. Allt verði áfram eins og það hefur verið frá aldamótum. Þá sprakk í hæstu hæðir öfgafrjálshyggja og greifadekur bófaflokksins. Eini munurinn er, að Vinstri græn taka að sér að verja íhaldið og misskiptingu auðs. Skattar verða óbreyttir að mestu. Heilsan fær einhverja aura úr bönkunum. Öll stóru málin verða látin liggja milli hluta. Þetta er fullkomna íhaldsstjórnin, þar sem breytingasinnar verða í stjórnarandstöðu. Kjósendur völdu þessa útkomu með því að taka VG fram yfir aðra kosti. VG kom aftan að fólki í þessari stjórnarmyndun. Það verður lengi munað.

Reykvísk smekkleysa

Punktar

Verktakar, kennitöluflakkarar og mansalsgaurar hafa borgarstjórn Reykjavíkur í vasanaum. Allar hömlur fyrri tíma eru horfnar. Einu viðmiðin eru hraði og gróði. Meðan borgarstjórn spöglerar um ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk, er reistur lúxus á lúxus ofan. Byggingarflötur er úti í lóðarmörkum, bílgeymslur vantar og húsgerðin í glergámastíl. Horfin er tilfinning fyrir stíl og umhverfi. Vondur er kastalinn við Kalkofnsveg, verri er fyrirhugaður kastali við Lækjargötu og verstur er sá, sem fyrirhugaður er neðan við Gamla-Garð. Þar nær smekkleysa borgarstjórnar sínum botni. Eini gimsteinninn í þessu kvosar-helvíti er endurgert hús Rammagerðarinnar.

Tilgangsleysi fjárlaga

Punktar

Dæmigert fyrir tilgangsleysi stefnumála er, að þau eru síðust rædd á maraþonfundum tilvonandi stjórnarstjóra. Að lokum var stjórnarandstöðunni boðið upp á að gamla fjárlagafrumvarpið Benedikts Jóhannessonar. Hinn kosturinn var, að lagt yrði fram nýtt fjárlagafrumvarp. Maraþonfólkinu var alveg sama, hvor leiðin yrði farin, þau voru búin að skála í freyðivíni og velja sér ráðherrastóla. Stjórnarandstaðan hafnaði auðvitað því afleita frumvarpi, sem hún hafði séð. Ný ríkisstjórn verður því ekki kynnt fyrr en á fimmtudaginn. Hún er mynduð á dularfyllri hátt en fyrri ríkisstjórnir. Mest leyndó ríkisstjórn sögunnar. Þverast um geð er henni gegnsæi.

Katrín og gömlu gengin

Punktar

Fólk hélt, að kosningarnar snerust um þetta gamla, vinstri, hægri, miðja. En fólk vissi ekki, að gömlu flokkarnir höfðu laumast til að láta þær snúast um íhald eða breytingar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi losna við nýju Viðreisn. Framsókn vildi losna við Miðflokk Sigmundar Davíðs. Vinstri græn vildu losna við Samfylkinguna. Allt tókst. Gömlu flokkarnir sigruðu, mynda stjórn og sjá um, að ekkert breytist. Allt verði eins og það hefur alltaf verið, siðspilling, siðblinda og siðþrot. Ofan á sukkið sezt drottningin Katrín með 50% persónufylgi. Fólk veit ekkert um, hvert er innihald samsærisins. Treystir Katrínu til að sjá um, að svindl verði í hófi.

Þrýst niður kokið

Punktar

Þetta er farið að taka töluvert lengri tíma en rósrauðar yfirlýsingar Katrínar hafa gefið í skyn. Enn í dag er einhver hængur á ríkisstjórninni. Frá sjónarmiði fjórflokksins er skynsamlega staðið að verki, þess vandlega gætt, að ekkert leki út um viðræðuefnin. En allir eru kátir og farnir að þamba freyðivín, svo þetta hlýtur að fara að nálgast. Katrín myndar þessa stjórn fyrir íhaldið, hvað sem hver segir. Það er varið með því, að hún hafi ekki fyrirfram hafnað neinum brúðguma. En hver vissi, að það yrði sá ljótasti og versti. Ekki kemur á óvart, að erfiðasti hjallinn er að þrýsta samkomulaginu niður kokið á helzta vitfólki Vinstri grænna.

Gagnslaus seinkun klukku

Punktar

Fólki mun ekki líða betur, þótt tölur séu færðar til á hring klukkunnar. Vandinn stafar ekki af tölustöfum, hann stafar af árstíðabundnu myrkri. Fólk fer að tala um að færa klukkuna í nóvember, þegar það vaknar í myrkri. Einkum er þetta erfitt á norðlægum slóðum, þar sem mikill munur er á sólargangi eftir árstíðum. Þegar vorar, hættir fólk að tala um að færa klukkuna. Forfeður okkur unnu úti dag og nótt á sumrin og sváfu mestan tímann á veturna. Núna vinnur fólk sem næst átta stunda vinnudegi vetur jafnt sem sumar. Af því stafa óþægindin, en ekki af því, að þú þurfi að vakna klukkan sjö en ekki átta. Seinkun klukkunnar er gagnslaus lausn.