Punktar

Símtalið fræga birt

Punktar

Endurbirt hefur verið símtal Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde klukkan 11.57 mán­udag­inn 6. októ­ber 2008. Símtalið var leyndó í 9 ár, en er nú birt í framhaldi af kröfu útgáfufélags Kjarnans. Skrítið, að Davíð segir í kynningu símtalsins, að fjárlaganefnd hafi aldrei spurt sig um innihaldið. Reynir að flytja leyndóið yfir á herðar nefndarinnar, þótt sjálfur hafi hann alltaf þvælzt fyrir birtingu þess. Í símtalinu segist hann geta skafið síðustu 50 milljarða evra Seðlabankans til að hindra gjaldþrot Kaupþings, en þá mundu Landsbankinn og Glitnir hrynja sama dag. Kaupþing fékk aurinn, en bankakerfið hrundi. Þarna díla herrar, sem bera ekkert skynbragð á verkefni sín.

Harmurinn er verstur

Punktar

Fésbókarskrif vinstri grænna einkennast ekki af reiði, heldur harmi. Sem er mun alvarlegra mál. Flokkurinn er hvorki vinstri né grænn. Hann er þjóðvarnarflokkur, flokkur Möðruvellinga, flokkur fyrrverandi framsóknarfólks. Myndar þrenningu íhaldsflokka með Framsókn og Sjálfstæðis. Um leið taka vinstri græn inn á sig allan pólitíska bófaflokkinn. Fyrirhugað stjórnarsamkomulag er bara pappír, sem Sjálfstæðisflokkurinn mun hunza. Hefur alltaf hagað sér eins og honum þóknast. Og verður ekki siðvæddur með breiðu brosi. Ferðalag Katrínar mun hafa varanlegt krabbamein í farteskinu. Flokkseigendur spáðu ekki í harminn, sem lamar flokkinn.

Katrín orðin fullorðins

Punktar

Katrín Jakobsdóttir var fyrst í viðræðum um ríkisstjórn á svokölluðum vinstri kanti. Þær viðræður voru allt í plati, eins og síðar kom í ljós. Á þeim vinstri dögum fóru flokkeigendur Vinstri grænna hörðum orðum um Sjálfstæðisflokkinn sem óstjórntækan flokk. Á sama tíma vissu þeir, að vinstra kjaftæðið var bara plat, ætlunin var að fara í stjórn með bófunum. Þeir skiptu svo um skoðun á einni nóttu, fóru að tala um ágæti þess „að styrkja innviðina“ og „leggja í þá vegferð“ „að tryggja stöðugleikann“ „á breiddina“. Slíkt innihaldsleysi þjáir þá, sem verja U-beygjuna. Katrín er orðin „fullorðins“ í valdabaráttu tómarúmsins.

Gegnherílandi kemur heim

Punktar

Vinstri græn og forverar þeirra viku frá sósíalisma á dögum Einars Olgeirssonar. Færðu sig yfir í gegnherílandi þjóðrembu Ragnars Arnalds. Topparnir vildu verða fullorðins. Glöddust ákaft, er þeir fengu að koma andaktugir í hádegis-smørrebrød hjá Styrmi á Mogga. Sem löngu síðar sagði: „Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Þeir sömu héldu veizlu, þegar Svavar varð sendiherra, orðinn fullorðins. Nú eru þeir orðnir flokkseigendur og herinn farinn. Telja flokkinn orðinn fullorðins í faðmi bófa. Nú eru Steingrímur, Hjörleifur og Svavar kátir. Síður kjósendur flokksins.

Vellíðan í kvölunum

Punktar

Þetta verður afleit stjórn, hreint íhald. Deilum um skatta verður slegið á frest með því að hafa þá óbreytta, lágtekjufólki í óhag. Viðurkennt er, að bófar geti verið ráðherrar, Stjórnarskráin verður látin eiga sig, en teygt og togað í liði, sem sátt er um. Kvótarentan verður óbreytt, þjóðinni í óhag, einn þriðji hluti af rentunni í Grænlandi. Verst er, að stjórnarsáttmálinn gildir bara fyrir hækjur, en ekki fyrir stórflokkinn. Ráðherrar hans munu hafa samráð við fjármálaráðherra um að hunza eða fresta framkvæmd liða, sem eru auðgreifum ekki að skapi. Þetta er einmitt stjórnin, sem kjósendur pöntuðu. Líður bezt, þar sem þeir eru kvaldastir.

Tugmilljarða tafatjón

Punktar

Auðjöfrar með fé í skattaskjólum eru vampírur, segir Pierre Moscovici, hagstjóri Evrópusambandsins. Vill, að Evrópa taki saman höndum að skrúfa fyrir skattsvikin. Verði gert með sérstökum lögum, svartsetningu skattaskjóla, efnahagsþvingunum og með auknu gegnsæi. En hætt hefur verið við lögsókn í sextíu málum gegn grunuðum skattsvikurum á Íslandi, Vegna tafa hjá dómstólum. Voru þar í húfi 30 milljarðar króna, vænn slatti í velferðina. Tjónið nemur milljarðatugum. Þetta er eins og annað í bananaríkinu, málsmeðferðir brenna inni á tíma. Skattrannsóknastjóri vill endurupptöku, en engin hreyfing er hjá kerfinu, gegnsýrðu af Sjálfstæðisflokknum.

Ætla sko að sjá það

Punktar

Katrín hyggst leiða stjórn fimm ráðherra Sjálfstæðisflokksins og fjögurra annarra ráðherra. Jafnframt hyggst hún innleiða betri siði í ríkisstjórn en hafa ríkt um áratugi. Andersen og aðrir últra hægri ætla að haga sér eins og venjulegt fólk, vera góð við aðra og sjá um smælingjana. Ég ætla sko að sjá það. Brynjar hyggst vinna fyrir ráðherraembætti með því að hætta furðuskrifum á fésbók.  Nytsamir sakleysingjar Vinstri grænna ætla að bjarga helmingaskiptaflokkunum og pressa siðblinduna úr þeim. Ætla sko að sjá það. Ráðherrabófar Sjálfstæðis koma ferskir úr annarri ríkisstjórn, þar sem þeir völtuðu kruss og þvers yfir samstarfsfólkið.

Taka sundur bílvélar

Punktar

Þýzka skólakerfið er töluvert frábrugðið því íslenzka. Ekki er lögð eins mikil áhersla á stúdentspróf, en meiri á iðnnám. Úr því fer fólk í tækninám og síðan í verkfræðiháskóla. Þess vegna blómstrar fíniðnaður í Þýzkalandi. Til dæmis optík, sem lýsir sér í furðutækjum sem þrædd eru gegnum þröngar æðar inn í hjartað. Læknar sjá aðgerðir sínar í örsmáum myndavélum á þráðunum. Þótt fjöldaframleiðsla hafni yfirleitt í láglauna austurlöndum fjær, hafnar hinn nákvæmi fíniðnaður í hæstlaunuðu Þýzkalandi. Friðlausir strákar, kargir í bóknámi, eru fremur látnir taka sundur bílvélar, þar sem handæði þeirra þroskast yfir í ýtrustu handlagni.

Sambræðsla afganganna

Punktar

Vinstri græn eru sambræðsla úr afgöngum, sem vildu ekki ganga í Samfylkingu krata á sínum tíma. Enn er þar hluti flokkseigendafélagsins gamla, bæði sveitagrænir og borgargrænir. Áberandi voru þjóðernissinnar, arfur frá gegnherílandi. Þar eru líka konur, sumar harðir femínistar úr Kvennalistanum. Þetta er sundurlyndur hópur, sem gengur fullur trega í fótspor Katrínar yfir skörina til íhaldsins. Sumt af þessu fólki var alltaf íhald, bara vinstra íhald. Annað telur sig enn vera til vinstri. Óhugsandi er að allir þessir hópar samþykki orðalaust að verða íhald í rúminu með heilum bófaflokki Bjarna. Meiriháttar kattasmölun er í gangi.

Köttum smalað

Punktar

Margir vilja vera lausir við Panamaprinsa í ríkisstjórn. Þar á meðal ýmis Vinstri græn. Flokkurinn er klofinn á Reykjavíkursvæðinu og landsbyggðinni. Ferð Katrínar um frumskóga íhaldsins styðja þjóðernissinnar og flokkseigendafélagið. Grænir, kvennó og vinstri eru henni andvígir. Smölun katta verður erfið og var ekki lokið um hádegi í dag. Að því búnu getur flokkurinn skipt um nafn og kallað sig Hægri svört. Katrín Jakobsdóttir er í ógöngum, hvora leiðina sem hún velur. Þetta er í þriðja sinn, sem hún reynir stjórnarmyndun og nálgast að verða talin óhæf til slíkra verka. Við getum því enn reiknað með mestu íhaldsstjórn allra tíma.

Flýið sem fyrst

Punktar

Katrín Jakobsdóttir var með tilraun til íhaldsstjórnar að gera bófaflokk Panama-prinsins ásættanlegan. Hún opnaði dyrnar fyrir ráðherraveldi bófaflokksins, þar sem fimm ráðherrar hans gera það, sem þeim sýnist. Festir í sessi þjófræði, sem hefur ríkt hér frá upphafi fullveldis með Hannesi Hafstein. Tugmilljörðum verður stolið frá þjóðinni á hverju ári. Margir kjósendur Vinstri grænna eru ekki hressir með það.  Verða þeir kýldir í kaf af vinum kvótagreifa? Breytingasinnar munu eiga í vök að verjast í kosningum á næstu árum. Katrín Jakobsdóttir reynir að geirnegla veldi íhaldsflokka yfir þjóðinni. Hér verður aldrei breyting, hvað þá bylting.

Ofurmáttur íhaldsflokkanna

Punktar

Þegar mest var þörfin á breytingum í stjórn landsins, reyndust margir kjósendur hrökklast í skjól stöðnunar. Þess vegna fylgir 35 þingmanna hópur íhaldsflokkunum þremur, Sjálfstæðis, Vinstri grænum og Framsókn. Breytingasinnuðum flokkum tókst ekki að ná meirihluta, bara 28 þingmanni. Þar hafna menn flokki Sigmundar, svo að þingmannatalan fer niður í 21 mann. Með því að draga Vinstri græna yfir til sín, færi þingmannatalan upp í 32 manna meirihluta. Þess vegna er kominn tími til að breytingahópurinn tali í alvöru við 4 þingmanna Ingu Sæland. Bara bull er, að hún sé óstjórntæk. Hún er beinlínis forsenda stjórnar breytingaflokka og alþýðuvina.

Uppáhalds-ríkisstjórnin

Punktar

Svona lítur út upphalds-ríkisstjórn mín: Katrín forsætis, Birgitta utanríkis, Inga Sæland velferðar, Þorgerður Katrín fjármála, Lilja Alfreðs innanríkis, Helga Vala dómsmála, ein kona á hvern hinna sex flokka og svo einhverjir kallar til uppfyllingar og kaffihitunar. Tími þeirra er liðinn að mestu, svo að brýnt er að hafa karlakvóta. Albaníu-Valdi flytur inn fallaxir. Katrín sættir alla ráðherrana og gefur gleðipillur í morgunmat, Birgitta sér um, að Íslandi sé hrósað nærri daglega í erlendum fjölmiðlum, Inga fær að framkvæma 100 milljarða fátækrahjálp, Þorgerður passar aurana og svo framvegis. Þessi ríkisstjórn verður alger bomba og  Áslaug Arna má vera kirkjuráðherra með bagal og mítur.

Íhaldið smellpassar

Punktar

Kosningarnar kölluðu á íhald og fengu það. Vinstra íhald, hægra íhald og miðju íhald opið í báða enda. Fengu öruggan meirihluta og eru að mynda stjórn. Eins og aðrir íhaldsflokkar eru þeir sammála um margt. Láta kvótagreifa í friði. Hafa stjórnarskrána áfram læsta í skúffunni. Láta vinnslu búvöru í friði. Fá stóriðju í kjördæmin. Láta krónuna og verðbólguna í friði. Hafna öllum breytingum, sem órólegir flokkar hafa stundum verið að leggja til. Pólitíkin verður eins og í gamla daga, þegar byrjað var á að skipta ráðherraembættum og endað á fögrum orðum um fróun lýðsins, sem síðan verða sett í nefnd. Smellpassar við þjóðarviljann.

Partur af íhaldinu

Punktar

Meginásar stjórnmálanna eru ekki lengur vinstri-hægri, heldur breytingar-íhald. Þrír flokkar hafna breytingum, hafa 35 þingmenn og eru að mynda íhaldsstjórn. Fjórir flokkar breytinga hafa 21 þingmenn og ná ekki meirihluta. Þrír þeirra eru komnir í samstarfshóp, en hafa ekki talað við fjórða flokkinn, Flokk fólksins. Skrítið er, að flokkur fátækra skuli ekki teljast stjórntækur. Breytingahópurinn þarf að ná Vinstri grænum yfir til sín til að vera í meirihluta. Og það virðist ekki vera gerlegt. Þeir, sem vilja breytingar á þjóðfélaginu, geta því framvegis ekki lengur reiknað með Vinstri grænum. Þau eru orðin vinstri partur íhaldsins.