Punktar

Hefðbundin reddingastjórn

Punktar

Katrín Jakobsdóttir og flokkarnir kringum hana hafa lært mikið frá misheppnaðri tilraun fyrir ári. Þá lak allt kruss og þvers, en nú mæla allir sömu möntru. Hún ætlar sér að mynda tæpustu mögulega meirihlutastjórn og veit, hvað til þess þarf. Upplitið á forustuliði flokkanna er mjög bjart og brosið nær út að eyrum. Þessi stjórn ætlar að standa í tvö kjörtímabil, átta ár. Jafnvel Sigurður Ingi er afar heiðríkur. Framundan er tími skelfingar hjá bófaflokknum, sem sér fram á ótalmörg ár úti í kuldanum. Nýja stjórnin hefur gefið sér að rífast ekki innbyrðis, heldur vera reddingastjórn að hefðbundnum hætti. Reddar velferð og ýmsum réttlætismálum.

Þolanleg eða glæsileg

Punktar

Erfitt getur orðið að smala köttum í eins manns meirihluta. Betra er að semja við Flokk fólksins og Viðreisn um stjórnaraðild. Aukinn meirihluti treystir stjórnina í sessi. Og færir henni líka meirihluta þeirra, sem greiddi atkvæði. Skynsamlegt er líka að halda fjarlægð Framsóknar frá flokki Panama-prinsins. Og að halda útibúi hægri stefnu frá flokki hins Panama-prinsins. Séu bara Sjálfstæðis- og Miðflokkur utan stjórnar, er stjórnin í meira samræmi við vilja heiðarlegs fólks. Fjögurra flokka stjórn er þolanleg, en sex flokka stjórn er töluvert glæsilegri. Hef ekki heldur trú á, að fjölgun aðila tefji mikið fyrir myndun ríkisstjórnar.

Framsókn flækir málin

Punktar

Tilraunir Katrínar Jakobsdóttur til myndunar ríkisstjórnar truflast af meintri þörf Framsóknar og Sigmundar Panamaprins fyrir sættir. Framsókn metur stöðu sína svo sterka, að hún geti leyst innanflokksvanda með töf á myndun ríkisstjórnar. Katrín verður því að reyna til fulls að skipta Framsókn út fyrir Flokk fólksins og Viðreisn. Inga Sæland hefur beinlíns hvatt til þess, enda nær hún frekar fram stefnu sinni í vinstri ríkisstjórn en í ríkisstjórn Panama-prinsa. Katrín verður að passa sig á, að láta Framsókn ekki ná haustaki á stjórnarmyndun. Framsókn er enginn töfrasproti. Hún situr uppi með erfiða sérhagsmuni gegn almannahagsmunum.

Innflutt láglaunafólk

Punktar

Frjálsir flutningar fólks milli landa Evrópu eru tæki til að flytja frá fallandi stöðum til staða tækifæranna. Því er búizt við 23.400 manna fjölgun þjóðarinnar á næstu fimm árum. Þorri fjölgunarinnar er útlent fólk, sem sækir í láglaunastörf í byggingum, fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Á sama tíma flytja fleiri Íslendingar utan, annað hvort á eftirlaunaaldri eða að sækjast eftir betur borguðum störfum. Þessi skipti á fólki fjölga láglaunafólki og halda niðri lágmarkslaunum. Auka álag á opinbera velferð og heilsugæzlu. Gott fyrir stórfyrirtæki, en vont fyrir fátæka og ríkisvaldið. Við þurfum tækifæri til að tempra þessi skipti á þjóðum.

Auðveldasta stjórnin

Punktar

Auðveldast er að mynda fjölflokka ríkisstjórn, sem leggur langtíma-hugsjónir til hliðar. Einbeitir sér að aukinni velferð, en geymir Evrópuaðild, stjórnarskrá og nýjan gjaldmiðil til hliðar. Slík stjórn ætti að geta orðið nokkuð traust með öflugan þingmeirihluta. Hún hefði engan Panama-prins og meirihluti ráðherrastóla væri skipaður konum. Þetta væri flott stjórn með flotta siðferðilega ímynd innan lands og utan. Þetta væri friðarstjórn, ekki bara stjórn fyrrverandi minnihluta. Ég býst við, að Lilja Alfreðs, Þorgerður Katrín og Inga Sæland sjái allar, að slík stjórn yrði meiriháttar tímamót eftir hrakningana á vegum Panama-prinsanna.

Stjórn án Panama-prinsa

Punktar

Tilraunir stjórnarmyndunar ganga vel hjá Katrínu Jakobsdóttur. Í grunni stefnir hún að stjórn fráfarandi andstöðu, í ljósi þess, að þáverandi ríkisstjórn kolféll í kosningunum. Til viðbótar kæmi hugsanlega Viðreisn. Viðræður um þetta eru í fullum gangi, Sjálfstæðisflokknum til mikillar gremju. Til greina kemur líka að taka inn Flokk fólksins. Stjórnin gæti þá verið frá fjórflokka upp í sexflokka. Sérkenni stjórnarinnar er, að hún skilur eftir bófaflokka Panamaprinsana beggja. Það er stórkostleg landhreinsun, sem mætti sem lengst standa. Við erum búin að fá upp í kok af útblásnum siðblindingjum, sem hafa tröllriðið kosningabaráttunni.

Katalúnja nær sjálfstæði

Punktar

Ýmis dæmi eru um minnihlutaþjóðir, sem una ekki að vera í ríki með fjölmennari þjóð. Þekktustu dæmin eru Kúrdar og Katalúnar. Nær okkur eru Baskar og Skotar. Slík mál þarf að höndla af mikilli gætni. Falangistastjórnin á Spáni hefur ekki borið gæfu til þess gagnvart Katalúnju. Saga Kúrda sýnir, að harkan sex mun ekki duga. Katalúnar munu öðlast sjálfstæði, ef þeir vilja. Og þeir munu vilja það eftir óeirðir spænskra villimanna. Allt slíkt framferði stappar stálinu í minnihlutaþjóðir. Þetta er ekki spurning um praktíska niðurstöðu, heldur ferli, sem enginn getur stjórnað. Bretar hafa sýnt betri lagni í samskiptum við Skota.

Panama-stjórnin bíður

Punktar

Vilji breytingasinnar mynda ríkisstjórn, verða þeir fyrst að vinna kosningar. Því víðar, sem þeir leita samstarfs, þeim mun þyngra er undan fæti. Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar geta unnið saman og treysta hver öðrum. Eigi svo að bæta gömlu Framsókn við, þá vandast málið. Þá taka við ýmiss konar sérhagsmunir og einkahagsmunir, sem þurfa að fá sitt. Auðveldara er að prófa Viðreisn, þar eru daufari sérhagsmunir og einkahagsmunir og meira af hugsjónum. Þetta eru prófin tvö, sem Katrín Jakobsdóttir þarf að standast. Hugsanlega gæti það gengið upp á nokkrum dögum. Ef ekki, þá bíða Bjarni og Sigmundur með grautfúla Panama-stjórn.

Flottur sigurleikur

Punktar

Gagnsókn kvenna: Sex konur gangi á fund forseta og segi honum, að þær vilji mynda meirihlutastjórn. Katrín Jakobsdóttir hefur orð fyrir þeim sem formaður stærsta stjórnarflokksins. Með henni verða Lilja Alfreðsdóttir (gamla Framsókn), Helga Vala Helgadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Inga Sæland og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Þær segist vera tilbúnar að mynda sex flokka kvennastjórn. Flott útkoma á erfiðri kosningu. Aftur kæmist Ísland í heimsfréttirnar, nú fyrir kvennafrumkvæði og brottvísun Panama-greifa, en ekki fyrir einhver heimskupör. Stundum skapast tækifæri til að leika sigurleik, þrátt fyrir fyrri afleiki.

Drífðu í því

Punktar

Hafi Katrín Jakobsdóttir unnið heimavinnuna sína. Hafi hún talað hreint út við Ingu Sæland og Sigurð Inga Jóhannsson. Þá getur hún sagt Guðna Th. Jóhannessyni forseta, að hún sé nokkurn veginn tilbúin með nýja ríkisstjórn. Þá fær hún umboð til að mynda þá ríkisstjórn. Hlutirnir gerast hratt, en sumir hugsa of hægt. Ef vöfflur verða á henni, fær Bjarni Benediktsson umboðið og hangir á því í fjórar vikur. Svo einfalt er það. Katrín getur boðið Ingu, að uppfylltar verði allar kröfur hennar og hún fái velferðarráðuneytið. Getur boðið Sigurði, að varlega verði farið í kvótann og verndarhendi haldið yfir búvörusamningum. Drífðu í því.

Væg vinstri stjórn

Punktar

Stjórnin kolféll í kosningunum. Í staðinn kemur fimm flokka stjórn með fremur vægum vinstri svip. Líklega undir forustu Katrínar, ef hún hefur kjark. Þetta verður B+F+P+S+V stjórn. Eða líka +C. Í slíkri stjórn verða engir Panama-greifar. Það er gott fyrsta skref til endurreisnar. Hún mun auka peninga í velferð. Það er annað skrefið í átt frá bófaflokknum. Hvort tveggja lagar þjóðarsáttina og bætir stöðu landsins gagnvart vestrænu almenningsáliti. Við verðum að frysta úti bófa og Panama-greifa og bæta stöðu sameiginlegra áhugamála stjórnarflokkanna. Bjarni reynir þó að hrifsa völdin í viðræðum við forseta, en það mun honum ekki takast.

Bara spurning um vilja

Punktar

Forustufólk Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata getur vel talað saman og gefið eftir í stjórnarviðræðum. Gamla Framsókn hefur hreinsað sig af Panama-prins og er farin að líta til vinstri. Katrín, Logi, Þórhildur Sunna og Sigurður Ingi geta vel talað sig saman inn í ríkisstjórn. En þau hafa of lítinn meirihluta. Þurfa að ná inn Ingu, sem verður aðeins erfiðara. Vilji er allt, sem þarf, segir máltækið. Í þessum hópi eru engar gamlar illdeilur, sem oft einkenndu pólitíska foringja í gamla daga. Spurningin er, hvort þessi hópur hefur vilja til að ráða ferðinni eða hrökklast undan síbyljandi frekju bófaflokksins undir stjórn Panama-prins.

36 vinstri þingmenn

Punktar

Þjóðin endurreisti sig ekki í gær. Vinstri græn töpuðu af mikla sigrinum, sem þeim hafði verið spáð. Allir aðrir segjast hafa unnið, þótt það gildi varla um aðra en Samfylkinguna, Miðflokkinn og Flokk fólksins. Ekki er loku fyrir skotið, að báðir Panama-prinsarnir verði í ríkisstjórn. Kjósendur hafa hlaupið út og suður í tæpan áratug. Stundum hafa þeir stigið framfaraskref og jafnan stigið þau strax til baka. Ísland er því sama díki spillingar í dag og það var í gær. Bófaflokkar Panama-prinsa hafa þriðjunginn af öllu fylgi. Bezta vonin eru Vinstri græn, Samfylkingin, gamla Framsókn, Píratar og Flokkur fólksins, alls 36 á þingi.

Engir Panama-prinsar

Punktar

Reyndir pólitíkusar taka varla í mál að reyna að vinna með Sigmundi Davíð. Hann er einfaldlega ekki stjórntækur. Of margir vita það. Gerir þrautina þyngri fyrir Bjarna Ben. Valið er er svo lítið hægra megin við miðju. Og enginn til vinstri treystir sér til slíks samstarfs. Reynslan sýnir, að það jafngildir pólitísku sjálfsvígi. Katrín verður því næsti forsætis, líklega í samstarfi Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og eins flokks í viðbót, trúlega Framsóknar. Slík stjórn verður hátíð í samanburði við fráfarandi stjórn, þótt ekki verði hraðað nýrri stjórnarskrá eða uppstokkun atvinnuvega. En þar verða engir Panama-prinsar.

Stefnan mín:

Punktar

1. Nýja stjórnarskráin afgreidd
2. Opin skjöl og opnir fundir
3. Skattaþyngd frá fátækum til ríkra
4. Ókeypis heilsa – ókeypis menntun
5. Frjáls uppboð á leigu aflakvóta
6. „Sparkassen“ að þýzkri fyrirmynd
7. Almenningur í stjórn fyrirtækja
8. Rökfræði og siðfræði kennd
9. Undirbúin borgaralaun
10.Frelsi – jöfnuður – bræðralag
Sumir flokkar bjóða sum þessi atriði og enn færri meina nokkuð með loforðum sínum. Píratar komast næst þessum lista.

(Endurbirt, fyrst birt 2017.10.24)