Punktar

Siðblinda í pólitík

Punktar

Siðblindingar fylla ekki bara fangelsin, heldur einnig framboðslista. Þetta er fólkið, sem fær sitt fram með brosi og undirferli. Bak við meintar hugsjónir er falin græðgin, sem knýr siðblindingja. Þeir eiga mjög auðvelt með að blekkja þig og koma fram sem mannvinir. Taki þeir þátt í spurningaleik, fatta þeir, hvaða spurningar eru að leita að siðblindu, og svara samkvæmt því. Kunna öll trikkin. Formaður bófanna og fjármálaráðherra er siðblindingi, sem og borgarstjóraefni flokksins. Sá spekúlerar í lóðum, byggingarétti, byggð út í sjó, sem býr til fé úr engu. Um síðir verður unnt að greina siðblindu með heilaskönnun.

Íhald og endurræsing

Punktar

Skipting flokka er tæpast lengur milli hægri og vinstri flokka, heldur milli íhalds og endurræsingar. Fjórflokkurinn allur er íhald, vill sem minnstu breyta. Þar fara fremstir í flokki Vinstri græn og bófaflokkur Sjálfstæðis. Það er ekki að ástæðulausu, að fólk talar um þræði í stjórnarmyndun þeirra tveggja. Vinstri græn hafa þó sérstaklega talað hlýlega til Samfylkingarinnar, sem er þriðja hjól fjórflokksins. Fjórða hjólið er svo Framsókn, sú gamla og sú nýja. Þegar bófarnir mynduðu stjórn með VG, höfðu þeir um að velja ýmsa möguleika á íhaldi í stjórn. Enda óttast Vinstri græn endurræsingu Pírata, sem hagsmunaaðilum líkar alls ekki.

Fátækrahús í Vatnsmýri

Punktar

Íbúðirnar 800, sem verið er að reisa í Vatnsmýri, þurfa að vera á færi fátæks fólks, kosta 25 milljónir eða minna. Borgin þarf að setja stopp á allar nýjar íbúðir, sem auglýstar eru á geðveikar tölur, svo sem 500 milljónir króna. Allar íbúðir, sem reistar verða í Vatnsmýri, eiga að henta því fólki, sem sárast vantar þak yfir höfuðið. Staðurinn er í návígi við tvo stærstu háskóla landsins og ótal vinnustaði. Sérstaklega þarf að banna, að íbúðirnar séu notaðar fyrir túrista. Íbúðir fyrir fátæka eiga ekki að vera uppi á heiðum, t.d. Hólmsheiði, heldur í nágrenni miðborgarinnar. Athugist af þeim, sem mynda meirihluta eftir kosningar.

Kosningar breyta litlu

Punktar

Nýja skoðanakönnunin sýnir svipað fylgi og verið hefur síðustu vikur. Framsókn og Sósíalistar ná hvor um sig einum fulltrúa í borgarstjórn. Píratar bæta við sig einum fulltrúa og fá tvo. Aðeins helmingur spurðra gefur upp afstöðu, svo þessar breytingar eru ekki á vísa að róa. Baráttan hefur verið dauf í höfuðborginni og búast má við lélegri kosningasókn. Reikna má með, að fráfarandi meirihluti verði í stórum dráttum áfram við völd, því fáir vilja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Píratar eru komnir til að vera og Sósíalistar hafa náð fótfestu. Aðrir nýir og nýlegir flokkar fara erindisleysu. Gamli, ljóti fjórflokkurinn heldur enn velli.

Fólk fattar falsið

Punktar

Sem betur fer reynist lítill áhugi á samanburðarfræði Ríkisútvarpsins og eins fjölmiðils annars, sem ég man ekki hver er. Fólk hefur ekki áhuga á að komast að raun um fjarlægðina milli stefnumála þess sjálfs og hinna ýmsu flokka. Fattar, að flokkarnir hafa allir nærri sömu stefnu: Að fjármagna allan andskotann. Fattar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sósíaldemókratíska stefnu, en stundar allt annað: Tugmilljarða stuld á þjóðareignum. Fattar, að þjóðrembingar geta kallað sig Vinstri græn fyrir kosningar, en gerast últra-hægri eftir kosningar. Traust fólks á pólitíkinni hefur réttilega fokið burt í stormi endalausra lyga og blekkinga.

Förum til Spánar

Punktar

Á Spáni eru 3,5 milljónir íbúða tómar, því að ferðamenn eru færri en spáð var. Flestar í eigu banka, sem hafa þær ekki einu sinni í sölu. Heilu þorpin í eigu þeirra. Kaupa ætti eitt þorpið eða nokkur risahótel. Með stórum herbergjum, sem henta öldruðum og öryrkjum. Fjórum sinnum ódýrara en sambærilegt húsnæði hér. Hótelin reka herbergisþjónustu og mötuneyti á borð við svipaða öldungaþjónustu heima. Hér er starfsfólk frá Filippseyjum, svo að fólki væri eflaust sama, væri það frá Spáni. Öll lyf, sjúkraþjónusta og spítalaverk eru ókeypis í himnaríki Evrópusambandsins. Raunar ættu allir að flytja til Spánar til að útvega hér pláss fyrir pólskt verkafólk að reisa hótel og airB&B.

Seldu sál sína

Punktar

Viðsnúningur Vinstri grænna er makalaus. Fyrir stjórnaraðild sagði Katrín Jakobs:
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“ Nú segir hún, að láglaunafólk og öryrkjar eigi að hafa sig hæga. Stendur fyrir fjármálaáætlun, sem byggist á, að fátækir hafi hægt um sig, meðan forstjórar éti yfir sig. Erfitt er að sjá, að flokkar, sem áður störfuðu með Vinstri grænum, muni kæra sig framar um samstarf við þau. Þeir eru ábending til kjósenda um að kjósa ekki lýðskrumara, ef nokkrar minnstu líkur eru á að þeir selji bófum sál sína. Kjósa að minnsta kosti ekki Framsókn og Miðflokkinn, hvað þá Vinstri græn.

Römm er sú taug

Punktar

Óttast, að fylgi bófaflokksins verði meira en skoðanakannanir sýna. Hefur lag á að ná inn vafagemlingum á síðustu stundu. Fólk er orðið svo vant fjárhagslegum misþyrmingum, að það er farið að njóta þeirra. Römm er sú taug, er rekka dregur ræningjatúna til. Vonandi verður sveiflan ekki svo römm, að bófarnir komist í meirihluta í borgarstjórn. Við þurfum að þroskast nógu vel til að hindra aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Flokkur undir stjórn fjárglæframanns má ekki koma öðrum fjárglæframanni í stól borgarstjóra. Bezta hindrunin er að efla fylgi Pírata og sósíalista. Búið er að kollvarpa verkalýðsgreifum og bara bófaflokkurinn eftir.

Burðardýr mafíunnar

Punktar

Ég hef lengi bent á, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki pólitískur flokkur með einhverja stefnu á borð við kapítalisma, kommúnisma, markaðinn eða frjálshyggju. Hann er af allt öðru tagi. Eins og mafían á Sikiley. Bófaflokkur er hann og rekur þjófræði í ríkisstjórn. Stelur árlega tugum milljarða af þjóðinni með hækkun í hafi, umboðslaunum, kennitöluskiptum og afskriftum. Til að standa undir því er láglaunafólki og öðrum fátæklingum haldið niðri í 250 þúsund krónum á mánuði, þótt það kosti 500 þúsund krónur að lifa. Nú vilja bófarnir fá fjárglæframann sem borgarstjóra. Sérhver, sem nú kýs bófana, er sjálfur bófi, burðardýr mafíunnar.

Framtíðin björt og blá

Punktar

Í gamla daga gaf Sjálfstæðisflokkurinn út bláar bækur fyrir borgarkosningar. Þar var oftast brugðið upp myndum af framtíðarskipulagi. Lofað nýju skipulagi, byggðu á landfyllingum út í eyjar, monthúsum á borð við Perluna, mislægum gatnamótum og annarri paradísarmúsík. Þá var flokkurinn með 60% atkvæða, en hefur hrapað í 20% og er hættur að gefa út bláar bækur. Samfylkingin hefur tekið við framtíðartónum og boðar borgarlínu eftir tíu ár. Á að vera lík hraðferðum strætó í gamla daga. Svona músík forðar henni frá því að svara kröfu um ódýrar smáíbúðir. Hún er svo firrt, að nú koma 500 milljón króna íbúðir á markað í stað nauðsynlegra smáíbúða.

Dagur er skárri en bófi

Punktar

Dagur er bara venjulegur borgarstjóri, sem gerir mistök, einkum í húsnæðis- og skipulagsmálum. En hann er ekki bófi. Borgarstjóraefni bófaflokksins er hins vegar þrautreyndur afskriftamaður, sem hefur farið flatt á fjárglæfrum af ýmsu tagi. Aðalkosningamál hans er að byggja hús á sjávarbotni vestan við Örfirisey. Skárra er að hafa Dag. En vonandi breytast samt valdahlutföllin í meirihlutanum þannig að verstu órarnir lagist. Ódýrar íbúðir verði til dæmis ekki reistar á þéttingarsvæðum, þar sem dýrt er að byggja og óvinsælt af nágrönnum. Einnig þarf að draga úr hatrinu á einkabílnum og smekkleysunni í skipulagi nýrra bygginga.

Ekkert framboð af ódýru

Punktar

Þótt mikið hafi verið byggt í Reykjavík á síðustu árum, hefur alls ekki verið byggt neitt fyrir fólk með lítil efni. Hér eru þó smíðuð og flutt inn smáhýsi, er kosta 25 milljónir króna. Milda þarf byggingareglur fyrir slík hús og hliðstæðar blokkaríbúðir til að spara kostnað. Borgin ber ábyrgð að mestu af íbúðaskortinum, því að hún býr til reglugerðir og gefur kost á lóðum. Hún á að hafa frumkvæði að samstarfi við ríkið, lífeyrissjóði og samvinnufélög um smíði og samsetningu húsa fyrir fátæka. Fráleitt er íbúðaleiga sé komin hátt yfir 200.000 krónur, þegar heildartekjur fátækra eru aðeins 250.000 krónur. Ætti að vera aðal kosningamálið.

Þekkja ekki fátæka

Punktar

Eignagreifar og fjárglæframenn hlaðnir milljarðaafskriftum á borð við Bjarna Ben og borgarstjóraefnið Eyþór Arnalds þekkja ekki fátækt fólk og efast um, að það sé til. Þeir þekkja bara potara, sem reyna að verða ríkir undir pilsjaðri ríkisins, afskriftum banka og kennitöluflakki. Fyrir þeim er fátækt bara slakt fjármálavit, sem sést ekki í meðaltölum og prósentum. Bjarni Ben trúir einlægt, að ljósmæður séu að sprengja upp launablöðruna með 20% kjarakröfu, þegar hann sjálfur hefur sprengt hana upp með 40% kjaratöku og auðgreifar með enn hærri kjaratöku. Hann er siðblindur og veit ekkert um þjóðina og um lífskjör einstakra hópa þjóðarinnar.

Slagur við sósíalista

Punktar

Píratar eiga í hörkuslag við Sósíalista um athygli á félagsmiðlum. Og þeir skafa af okkur fylgi með beinskeyttri stefnu í mörgum svipuðum málum. Frambjóðendur okkar þurfa að taka upp einstök mál okkar, eitt í einu, og skýra þau hvössum orðum. Frá alþingi hafa dólgarnir vanizt því að píratar gefi ekki millimetra eftir. Flestir flokkar eru næsta mállausir, en píratar geta kveðið þá í kútinn. Verið frökk eins og sósíalistar og látið sjást eitthvað nýtt á degi hverjum. Einkum um húsnæðisleysi fátækra og skort þeirra á borgaralaunum.

Borgarlína er úrelt

Punktar

Þegar tugmilljarða borgarlína verður tilbúin, er hún þegar orðin úrelt. Senn fara að koma sjálfkeyrandi skutlur, sem verða alls staðar á lausu. Þú kallar að morgni í skutlu og hún ekur þér í vinnuna. Flestar skutlur verða litlar, fyrir einn mann, en hluti verður stærri. Þú notar líka skutlur til að senda börn í skóla eða í aukatíma eða íþróttir. Þú notar skutlur á skemmtistaði og af þeim. Skutlurnar ganga fyrir rafmagni og hlaða sig sjálfar. Þú getur verið í áskrift eða keypt einstakar ferðir og hvort tveggja verður á færi fátækra. Skutlurnar eru léttar og menga lítið. Vonandi frestast borgarlínan, unz menn sjá, að hún mun verða úrelt.

Frá dyrum til dyra
Hafandi lesið þessar ýmsu athugasemdir um borgarlínu og rafskutlur, hallast ég að skutlunum. Þær flytja þig frá dyrum að dyrum. Annars þyrftir þú að ganga frá dyrum í hverfinu til að komast á strætóstopp, bíða þar eftir borgarlínu og fara með henni að öðru strætóstoppi, til að bíða eftir strætó og loks að ganga að hinm langþráðu dyrum. Rafskutlur eru miklu virkari og öflugri ferðamáti.