Punktar

Falskar staðreyndir

Punktar

Almannatenglar telja sig hafa uppgötvað, að séu staðreyndir erfiðar flokkum, sé bezta ráðið að framleiða falskar staðreyndir. Þær séu svo endurteknar nógu lengi til að kjósendur fari að trúa upplognum staðreyndum. Bófaflokkurinn er með röð af fölskum staðreyndum, studdum gröfum og súlum. Í fölsku staðreyndunum er haldið fram, að fé til heilsuþjónustu hafi sprungið út. Að bil milli ríkra og fátækra hafi minnkað. Staðreyndirnar eru þveröfugar. En það skiptir ekki máli fyrir bófaflokkinn, sem reynir bara að draga til sín fylgi hinna fáfróðustu. Keppir í fjölbreyttu og vinsælu lýðskrumi við Sigmundista og Flokk fólksins.

Að draga úr ójöfnuði

Punktar

Hér á landi og almennt á Vesturlöndum hefur skattbyrði láglaunafólks aukizt, en skattbyrði auðjöfra minnkað síðustu áratugi. Munur ríkra og fátækra hefur aukizt verulega, samanber tölur OXFAM. Við munum minnka muninn eftir stjórnarskiptin. Hækka persónuafslátt, hækka skattleysismörk. Vonandi tökum við aftur upp skatt á stóreignir, þó ekki á eigin íbúð. Síðasta ríkisstjórn lagði þennan skatt niður. Einnig munum við færa fjármagnstekjuskatt nær vinnutekjuskatti. Við munum loka fyrir holur í skattakerfinu, skattleggja kennitöluflakk og alla „hækkun í hafi“. Þetta er í stórum dráttum það, sem píratar vilja gera til að draga úr ójöfnuði.

Augljóst ofsóknaræði

Punktar

Hatur Sigmundar Davíðs á fjölmiðlum minnir á Donald Trump. Telur þá meðal annars hafa myndað samsæri gegn sér að tilhlutan George Soros auðkýfings. Hvernig Soros hefur komið með sér að borði Guardian og Stundinni er mér óskiljanlegt, enda hefur Sigmundur ekki skýrt það nánar. Athyglisvert er, að hann getur fabúlerað óskilgreindar ofsóknir gegn sér án þess að stjarfir stuðningsmenn fari að efast. Þetta er augljóst ofsóknaræði, sem ekki er gott vegarnesti stjórnmálamanns. Þið sjáið, hvernig stjórnarmyndunarviðræður munu ganga, þegar Sigmundur rýkur brott af fundi eða mætir ekki á fundi. Hann er ágætis dæmi um óstjórntækan pólitíkus.

Bezta fólkið sígur

Punktar

Píratar síga í könnunum, enda hafa þau beztu stefnuna. Vilja lækka skatta fólks með hærri skattleysismörkum. Vilja auka gegnsæi í pólitík, stofnunum og bönkum. Og girða fyrir aðild bófa að stjórnmálum með því að gegnumlýsa þá. Píratar eru með góðar lausnir fyrir húsnæðislausa, lægri byggingakostnað og lægri vexti. Þau vilja láta gamlingja fá það til baka, sem tekið hefur verið af þeim, afturvirkt eins og laun þingmanna. Vilja ná fullri auðlindarentu af kvótagreifum og fullum auðlegðarskatti af ofsaríkum. Vilja, að allir fái ókeypis heilsuþjónustu. Hafa útskýrt fjármögnun allra þessara góðu verka. Kjósendur hallast meira að skrumi.

Tveir eins manns flokkar

Punktar

Tveir flokkar skera sig úr. Hvor tveggja er eins manns flokkur, sem byggist bara á lýðskrumi. Sigmundur Davíð er ósamstarfshæfur og verður aldrei í ríkisstjórn framar. Auðvelt er að sjá af reynslunni, að hann vinnur ekki með öðrum og getur það hreinlega ekki. Mætir ekki í vinnu. Getur hins vegar látið illa í ræðustóli eins og sölumaður snákaolíu, sem gabbar sveitamanninn. Inga Sæland er að sumu leyti svipuð, samt ekki beinlínis klikkuð. En lýðskrumið flýtur viðstöðulaust upp úr henni. Ég á erfitt með að sjá hana í ríkisstjórn. Þau tvö eru afturhvarf til fortíðar, þegar predikarar gátu dáleitt fjölda fávita inn í rússíbana.

Horn skella á nösum

Punktar

Nýjasta skoðanakönnunin sýnir nokkurn veginn tvær fylkingar. Annars vegar undir forustu Vinstri grænna og stuðningi Pírata og Samfylkingarinnar, 46,7%. Hins vegar örlítið smærri hóp undir forustu Sjálfstæðisflokksins og stuðningi Simma, Framsóknar og Flokks fólksins, 45,1%. Ég efast þó um, að Simmi og Framsókn fari saman í stjórn. En þetta eru kostirnir, annað hvort þrír flokkar til vinstri eða fjórir flokkar til hægri og í lýðskrumi. Síðari útgáfan er nánast óframkvæmanleg og yrði aldrei nein kjölfesta. Hugsið ykkur Sigmund, Bjarna og Ingu á sama tíma í kasti. „Horn skella á nösum og hnútur fljúga um borð“, eins og á Glæsivöllum. Niðurstaðan verður svo VG+D.

Tryllt öskur ráðherra

Punktar

Bjarni Ben er að missa kúlið út af fréttum heima og erlendis um streitu hans við að sameina brask og stjórnmál. Á laugardaginn reifst hann við blaðakonu á 365, svo heyrðist vítt um húsið. Fólki brá þar við tryllt öskur forsætisráðherra. Á mánudaginn var hann svo leiðréttur af Guardian, einna áreiðanlegustu heimildinni í fréttabransanum. Búast má því við, að tryllt öskur Bjarna verði endurtekin víðar á skrifstofum fjölmiðla. Hann sér fram á fylgistap í kosningum og missi hans á stöðu formanns. Bófaflokkurinn getur ekki unað við formann, sem sleppir sér og öskrar. Ekki frekar en Framsókn gat unað við trylltan Sigmund Davíð.

Fjölflokka Viðreisn

Punktar

Benedikt frændi hallar sér að bófaflokknum. Segir, að skrítin mál, sem tengjast Bjarna Ben. séu að fullu útskýrð og eðlileg. Ekki hafi verið þörf á að slíta stjórninni. Þorsteinn Víglundsson hallar sér hins vegar að Karli Marx. Segir, að þeir skaffi, sem geta, og þeir fái, sem þurfa. Þriðja stefna flokksins er Þorgerðar Katrínar. Segir, að markaður sé allra meina bót, ekki sízt í heilsugeiranum. Er á sömu línu og kreddufólk nýfrjálshyggju. Svo virðist, sem kjósendur skilji ekki þessa þríeinu þverstæður, því að fylgi Viðreisnar mælist nánast ekkert. Allar stefnur í einum flokki virka undarlega. Skrítinn flokkur Viðreisn.

Líka svona bilaðir

Punktar

Sigmundur Davíð er hættur að hlaupa út í miðju fjölmiðlaviðtali. Nú hleypur hann út á síðustu sekúndunni, meðan annað forustufólk stjórnmálaflokka kveður siðum samkvæmt eða knúsast jafnvel. Sigmundur vill ekki tala við annað fólk. Ekki einu sinni væntanlegt samstarfsfólk á þingi. Þú nærð ekki samkomulagi við Sigmund, hann gargar bara. Gersamlega óstjórntækur. Flytur órökstudda óra og telur aðra sitja á svikráðum við sig. Býður sig fram til alþingis, en mætir nánast aldrei. Mesti óþurftarmaður íslenzkra stjórnmála. Hefur misst upprunalega hirð sína, en nær þó áhuga fjórtán þúsund kjósenda. Eru þeir líka svona bilaðir í hugsun?

Bezta mögulega líf

Punktar

Flokkarnir keppast um að lofa fólki gulli og grænum skógum. Vaxtalitlum íbúðum, hærri skattleysismörkum, efndum svikinna loforða. Bófaflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn og Framsókn lofuðu þessu í fyrri ríkisstjórnum. Nánast allir flokkar þegja um fjármögnun loforðanna. Píratar segja þau kosta auðlegðarskatt á þá ríkustu og minni afgang á ríkisreikningi. Þannig gengur dæmið upp, en ekki með innantómum loforðum. Bófaflokkurinn hins vegar segir okkur, að allir hafi það ofsalega gott og að við búum við bezta mögulega stjórnarfar. Þar hefur hann sagt í tæp fjörtíu ár. Og enn trúa um 50 þúsund manns, að þau lifi í ævintýri hans.

Í lífsins ölduróti

Punktar

Flokkarnir eru komnir langt frá uppruna sínum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur færzt frá sósíaldemókratískum flokki Ólafs Thors. Er orðinn að pilsfaldaflokki fyrir fjármálabófa, sem mjólka ríkissjóð með einkavinavæðingu. Vinstri græn eru hvorki vinstri né græn, heldur sveitaíhald að hætti gömlu Framsóknar. Framsókn missti ruglaðan formann, sem lofar gulli og grænum skógum. Svo er slæðingur af litlum flokkum, sem skjótast í eyðurnar hjá reköldum gömlu flokkanna. Píratar eru eini flokkurinn með framtíðarsýn, heilbrigðan eigin fjárhag og ungan og greindan mannskap. Sá flokkur greinir frá tekjum og útgjöldum við heillandi stefnu sína.

40 ára miðstéttarfólk

Punktar

Gunnar Smári hefur reiknað út stéttarstöðu helztu frambjóðenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Komst að raun um, að þar eru fáir eða engir úr undirstéttum samfélagsins. Nánast allir eru sérfræðingar eða embættismenn úr miðstéttum, vel stætt fólk. Lítið er um gamlingja á listunum og lítið um ungt fólk. Yfirleitt eru frambjóðendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna miðstéttarfólk um fertugt. Þessir tveir flokkar hafa alveg flutt sig burt frá sínum fyrstu umbjóðendum og gæta helzt lúxusvanda fertugs miðstéttafólks. Engin furða er, þótt skríllinn laðist að rakettum með töfrabrögð, Ingu Sæland og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Gunnar Smári

Skrítnir þessir píratar

Punktar

Píratar eru öðru vísi en aðrir. Borga skuldir flokksins, taka ekki kosningalán. Eru ábyrgari en Sjálfstæðis, sem hefur ekki grynnkað á skuldum í áratug. Píratar bjóða fram ungt, heiðarlegt fólk. Bjóða rækilega stefnu, byggða á fundum þeirra og sérfræðinga. Ekki varahjól undir vagni gömlu bófanna, úreltrar stjórnarskrár, stóriðjustefnu eða styrjaldar við fátæka og húsnæðislausa. Eru klettur í hafi stjórnlauss lýðskrums nýrra flokka. Vilja vita, hvað öll þráð atriði kosta í fjárlögum. Fyrst og fremst þjóna píratar engum sérhagsmunum eins og aðrir þjóna. Hyggjast opna stjórnkerfið frá degi til dags til að hindra samsæri gegn fólkinu.

Sjálfvirkar þýðingar batna

Punktar

Nota stundum Google Translate. Sjálfvirki þýðarinn hefur batnað mikið upp á síðkastið. Núna er nokkurn veginn hægt að skilja ensku þýðinguna á íslenzkum texta. Íslenzka er eitt af fjörutíu tungumálum heimsins, sem fá úrvalsþjónustu þessa hjá Google. Þessi fjörutíu tungumál verða heimsmálin, þegar þýðingarnar þroskast enn frekar. Sæmilegar horfur eru á, að þetta takist með íslenzku. Þó er hugsanlegt, að eftir sitji erfiðir hnútar. Að því leyti er líklegt, að íslenzka breytist með tímanum, verði einfaldari og flatari. Sú þróun ræður úrslitum um, hvort íslenzka lifir eða hvort þjóðin taki smám saman upp ensku sem tungumál.

Losum okkur við bófana

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er ábyrgðarlaus. Stjórnir með honum innanborðs gefast upp innan árs. Hann vinnur fyrst og fremst fyrir 1% þjóðarinnar, þá allra ríkustu. Stefnuskrár hans fyrir kosningar eru einskis virði. Þær eru tálbeita fyrir alla hina. Yfirleitt hafa þær virkað á heimskasta hluta þjóðarinnar, en nú er fylgið komið niður í  20%. Yfirgangur flokksins og frekja eru slík, að rest af fundarfólki verður málstola. Þetta er einfaldlega flokkur hinnar íslenzku mafíu, bófaflokkur landsins. Við komumst ekkert fram á veg fyrr en við losnum við hann úr stjórn, ráðum og nefndum og embættum og dómstólum. Hann er hreint eitur í pólitíkinni.