Punktar

Hóflegar væntingar

Punktar

Fari kosningar eftir síðustu skoðanakönnun má telja víst, að Vinstri græn verði kjölfestuflokkur þjóðarinnar. Eina mikilvæga andstaðan við bófaflokkinn. Litlu flokkarnir kringum tíu prósentin gera bezt í að biðja Vinstri græn um að taka sig í ríkisstjórnina. Vald þeirra verður væntanlega mun minna en Vinstri grænna. Þeir gætu þó komið einu eða tveimur málum fram, sem er betra en ekki neitt. En ólíklegt er, að neinn kraftur verði settur í stjórnarskrána eða að uppboð á leigukvóta verði tekin upp. Íhaldið í Vinstri grænum mun setja því stólinn fyrir dyrnar. Fólk verður bara að sætta sig við árangurinn af fyrsta skrefinu, rothöggi á bófaflokkinn.

Mýtur atvinnurekenda

Punktar

Samtök atvinnurekenda eru í hringferð um landið til stuðnings pólitískum armi sínum. Þau fara með nokkrar mýtur, sem ljúft er að leiðrétta. Þegar talað er um mun þeirra ríkustu og fátækustu, á að nota eignir, en ekki tekjur. Í þeim felst vaxandi ójöfnuður. Þegar talað er um laun í evrum, á að nota nýtt gengi, en ekki gamalt. Þá kemur í ljós láglaunastaða Íslands. Þegar talað er um skiptingu þjóðartekna, þarf að taka tillit til „hækkunar í hafi“. Þá kemur í ljós lélegur hluti launafólks. Vegna „hækkunar í hafi“ er skattþyngd á stóreignafólk of lág. Mýtur atvinnurekenda eru þannig allar hefðbundið og ómarktækt hagsmunarugl.

Óþörf forsjárhyggja

Punktar

ISNIC, eigandi íslenzka lénsins .is hefur góðar reglur um skil á milli veitu og miðils. Isnic vill fara varlega í að loka síðum, af því að einhverjum líki ekki innihald þeirra. Afskiptaleysi er einmitt það rétta. Ef þér líkar ekki einhver síða, geturðu forðast hana. Þú þarft ekki að banna hana, það er forsjárhyggja úr hófi. Bandaríska nýnazistasíðan Daily Stormer er ekki á vegum hryðjuverkahóps, heldur fólks, sem er pínulítið ruglað í kollinum. Rugludallar eiga heima á netinu eins og aðrir, enda getur enginn skilið með vissu milli rugludalla og annarra. Í nútímanum æðir forsjárhyggja fram og er orðin að töluverðum vanda.

Sjúkraskýli Íslands

Punktar

Landspítalinn er hornsteinn íslenzkra heilsumála, kennsluspítali starfsliðs og samband landsins við erlenda lækningaþróun. Samt er hann enginn alvöruspítali eins og hliðstæð háskólasjúkrahús í Vestur-Evrópu. Hann líkist frekar því, sem kalla mætti sjúkraskýli á ófriðarsvæði. Eftir aðgerð er sjúklingum meira eða minna kastað út ótímabært til að rýma fyrir nýjum aðgerðum. Sjúklingar liggja á göngum og jafnvel í bílgeymslu, svo nefnt sé frægasta dæmið. Álag á starfsfólk er langt út úr kortinu. Skurðlæknar ná ekki yfir að þjálfa hinar ýmsu tæknilegu aðgerðir, sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Það mundi kosta marga milljarða á ári og er þess virði.

Bófaflokkurinn óstjórntækur

Punktar

Þinglið bófaflokksins er óstjórntækt. Þingmenn flokksins hlaupa út og suður. Gerðu ekki athugasemd við fjárlög stjórnarinnar. Sömdu svo sín í milli að fella frumvarpið fyrir jól og sprengja stjórnina. Sigríður Andersen dómsmála notar tíu þumalfingur og fjögur handabök í ráðuneytinu. Bjarni sjálfur tók hvorki mark á ráðherrum hækjuflokka né stjórnarsáttmála. Tók í praxís við heilsuráðuneytinu af Óttari Proppé. Frítekjumark aldraðra sveiflast milli hækkunar í loforðalista og lækkunar í fjárlögum. Sjálfstæðis var alltaf órólega aflið í ríkisstjórninni. Hún varð síðan sjálfdauð, þegar Björt framtíð hafnaði algeru áhrifaleysi sínu.

Villikettir Bjarna Ben

Punktar

Sjálfstæðisflokkur Bjarna Ben gegnir í ríkisstjórninni sömu óróarullu og Vinstri grænir í stjórn Jóhönnu, hlutverki villikattanna. Gat ekki smalað villiköttum síns þingflokks eins og Jóhanna gat ekki. Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður flokksins orðar það: „Það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem nánast í öllum málum hlupu út og suður. Þeir gátu ekki staðið við stjórnarsáttmálann og gátu ekki staðið við það sem formaður flokksins hafði samið um við aðra í stjórninni. Það var líka ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem klúðraði málinu, er felldi loks ríkisstjórnina – og sami ráðherra hafði raunar áður klúðrað skipun dómara við nýtt millidómsstig. Og nú hefur forystumaður innan þingflokksins upplýst að þingmenn hans hafi verið búnir að ákveða að að fella fjárlagafrumvarpið og þar með ríkisstjórnina fyrir jól.”

Hækkun í hafi

Punktar

Hækkun í hafi er gömul. Fyrstir voru heildsalar, sem lögðu 10% ofan á kaupverð erlendis og létu setja inn á einkareikninga þar, framhjá skatti og íslenzkum hagtölum. Næst komu álverin, sem hækkuðu verð á súráli á leiðinni til Íslands með sömu afleiðingum. Þau fundu líka upp á greiðslum fyrir tæknilega ráðgjöf í útlöndum og okurvexti erlendra systurfyrirtækja. Nýjastir eru kvótagreifar, sem héldu niðri fiskverði innanlands og hækkuðu það síðan milli fyrirtækja erlendis. Allt framhjá skiptum, sköttum og hagtölum Íslands. Áætlað hefur verið, að ýmsar tegundir af „hækkun í hafi“ kosti þjóðina yfir hundrað milljarða á ári hverju.

Deyr í karlrembustíl

Punktar

Að óbreyttu verða karlar í öllum toppsætum framboðslista Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal Brynjar Níelsson, karlremba landsins númer eitt. Skoðanakannanir sýna þetta við hæfi. Kjósendur flokksins eru flestir karlar, feðraveldið sjálft. Þess vegna er flokkurinn orðinn svona gráðugur og frekur. Konurnar styðja frekar Vinstri græn, þar sem konur eru í fyrirrúmi. Heil syrpa af þungavigtarkonum Sjálfstæðis hefur sagt sig úr flokknum. Segja „fullreynt að hreyfa við þeim íhaldssömu skoðunum og gildum sem ríkja um jafnréttismál í Sjálfstæðisflokknum.“ Þannig deyr flokkurinn smám saman út sem sérvitringaklúbbur í karlrembustíl.

Tveir vilja breytingar

Punktar

Tveir flokkar vilja halda stjórnarskránni til streitu. Píratar og Samfylkingin vilja álykta. Vinstri græn kæra sig ekki um hana frekar en gerir annað íhald á þingi, Sjálfstæðis, Framsókn, Viðreisn og Björt framtíð. Vinstri græn vildu þó miðla málum, sem Sjálfstæðis hafnaði. Kannski er orðið úrelt að skipta flokkum í hægri og vinstri. Það, sem skilur á milli, er íhald og breyting. Flestir eru íhald. Þar á meðal auðvitað Sjálfsstæðis, Björt framtíð og Viðreisn, Flokkur fólksins, Sigmundarflokkur og einkum og sér í lagi Vinstri græn, kjölfesta skoðanakannana. Píratar vilja miklar breytingar og Samfylkingin dálitlar.

Hægri sundrung

Punktar

Líklega verður brottför Sigmundar Davíðs leiða til endurkomu ýmissa, sem hafa yfirgefið Framsókn á síðustu árum. Gæti leitt til þess, að Framsókn fengi eins marga kjósendur og síðast eða fleiri. Miðflokkur Sigmundar Davíðs mun hindra ýmsa Framsóknarmenn í að fara til Sjálfstæðis. Flokkur hans verður hægra megin við miðju, svo sem títt er um Miðflokka erlendis. Þá verður orðið sex flokka val á hægri kantinum. Fyrir utan þessa þrjá flokka eru þar einnig Flokkur fólksins, Viðreisn og Björt framtíð. Til vinstri eru Vinstri græn, Píratar og Samfylking, bara þrír flokkar. Vinstri sundrungu er að ljúka og hægri sundrung er hafin.

Mikill lífskjaramunur

Punktar

Fjölþjóðasamtökin OXFAM hafa gefið út tölur, sem sýna, að Ísland gerir langminnst norðurlanda í að jafna lífskjörin. Skoðuð voru átján atriði varðandi útgjöld til velferðar, mismunar í skattlagningu og löggjafar gegn ójöfnuði á vinnumarkaði. Norðurlönd, sem við berum okkur helzt saman við, taka fjögur af sex hæstu sætum listans. Ísland kemur þar langt á eftir, í 12. sæti. Það stafar af markvissri minnkun stuðnings við velferðarfólk, svo sem aldraða, öryrkja og sjúklinga. Líka af minni skattheimtu á ríka og meiri á fátæka. Gerðir ríkisstjórnarinnar stefna á aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Hér er ríkisstjórn hinna ríku fyrir hina allra ríkustu.

OXFAM

GUARDIAN

Afneita fjárlögum sínum

Punktar

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar lagði um daginn fram frumvarp að fjárlögum næsta árs. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru ábyrgir fyrir því eins og aðrir í stjórninni. Nú þegar kosningabarátta er hafin vilja sumir þingmenn flokksins ekki kannast við plaggið, og allra sízt skattahækkanir þess. Ábyrgðartilfinning er að venju af skornum skammti á þeim bæ. Lögð eru fram ótal kosningaloforð og aldrei staðið við neitt þeirra. Þetta hafa verið svoddan sauðir, kjósendur flokksins. Eitthvað hefur þó verið að saxast af sauðunum samkvæmt könnunum þessa hausts. Það er ekki endalaust hægt að hafa þriðjung þjóðarinnar að fífli.

Fréttir af blóðsugunum

Punktar

Ekki er að sjá, að kosningafundur Sjálfstæðisflokksins hafi lífgað upp á slag kosninganna. Flestir talsmenn á félagsmiðlum eru óvenju þögulir. Var þó boðið upp á enn eina útgáfuna af sviknu frítekjumarki. Einn fundarmanna setti það í fyrirsögn á þreytulegu bloggi sínu. Sumir talsmenn kvarta yfir orðljótum texta um bófaflokkinn á samfélagsmiðlum. Satt er það, að ljótt er að kalla fólk bófa og perravini. Eigi að síður eru það sannyrði. Fólk er smám saman að byrja að átta sig á, að Sjálfstæðisflokkurinn er bófaflokkur út í gegn, pólitískur armur þess siðblinda og gráðuga 1%, sem hefur áratugum saman sogið blóðið úr þjóðinni.

Málstola talsmenn

Punktar

Hávær þögn hefur verið um helgina hjá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Síðasta bomban var að fiska í fúlli tjörn útlendingahaturs. Tölur könnunar um fylgishrun flokksins kölluðu á endurskoðun kosningabaráttunnar. Ef til vill kunna þeir ekki lengur á félagsmiðlana. Kannski er liðin sú tíð að menn geti lofað frítekjumarki kosningar eftir kosningar og jafnóðum svikið. Líklega er snúið að endurtaka ætíð sömu kosningaloforðin og svíkja allt jafnóðum. Virðist ekki virka nú, að minnsta kosti ekki nógu vel. Hvernig væri að prófa: Hvítvin með humrinum á elliheimilum. Frítt húsnæði fyrir alla heima hjá Bjarna. Ókeypis spark í rass hælisleitanda.

Rétt og rangt hjá Ingu

Punktar

Flokkur fólksins hefur einfalda stefnu: Aldrað fólk hefur það skítt og það er hælisleitendum að kenna. Seinni hlutinn er rangur, aukinn ójöfnuður í landinu er um að kenna því 1% þjóðarinnar, sem sogar til sín þjóðarauðinn. Bófaflokkur stjórnmálanna sér um að lækka skatta stóreignamanna og gera þeim kleift að fara með hækkun í hafi framhjá sköttum. Þannig eru hundrað milljarðar sogaðir út úr kerfinu. Til að mæta þessu er ráðizt á þau 10%, sem hafa það skítt, og á ókeypis heilsuþjónustu. Fyrri hlutinn er hins vegar réttur og út á það geta aðrir unnið með Flokki fólksins. Rangindi síðari hlutans fæla hins vegar aðra frá samstarfi.