Punktar

Vinstri græn í sókn

Punktar

Þekki ekki könnunarstofuna Zenter og bíð enn eftir einhverjum af þeim gömlu. En þetta segir Zenter:

26,4% Sjálfstæðisflokkur
22,8% Vinstri græn
12,5% Píratar
10,5% Framsókn
9,8%  Flokkur fólksins
9,0%  Samfylkingin
5,6%  Björt framtíð
2,7%  Viðreisn
1,7%  Dögun

Pólitíska spennan magnast

Punktar

Spennandi verða næstu skoðanakannanir ábyrgra könnuða. Þar munum við í fyrsta skipti sjá, hvernig landið liggur í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman verið martröð þjóðarinnar, bófaflokkur í gervi stjórnmálaflokks. Meðreiðarsveinar hans verða varla tilkippilegir í frekari þjónustu. Miklu máli skiptir, hvernig Vinstri græn koma fyrir í baráttunni. Segja þau skilið við kvótagreifana og sætta þau sig við nýja stjórnarskrá? Eru þau til vinstri eða hægri? Píratar hafa haldið kjörfylginu, hvernig spila þeir út kortunum? Minnstu flokkarnir sjá örlög sín, góð eða vond eftir atvikum, í tölum fyrstu kannana.

Ýkjulaust gælunafn

Punktar

Kosningabaráttan er hafin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sleppt út eiturpöddum sínum, sem birtast ein af annarri á fésbók. Þetta eru ærulaus andlit, sem við þekkjum frá fyrra ári. Skítadreifarar eru þeir kallaðir. Ráðamönnum flokksins líkar ekki að kallast perravinaflokkurinn, sem er rétt hjá þeim. Gæludýr flokksins einskorðast ekki við perravini og heldur ekki bófavini. Flokkurinn sjálfur er virkur sem bófaflokkur og það er rétta orðið yfir hann. Fullur af bófum, bæði sem áhrifafólk og kjósendur. Takmarkast ekki við perravini, nær yfir allt heildarsvið bófa. Réttnefni hans er ýkjulaust og það er Bófaflokkurinn.

Fjölbreytt framboð

Punktar

Hægri flokkar verða fleiri í boði en haldið er fram, ekki bara bófaflokkurinn. Viðreisn er líka hægri, bara Evrópu- og markaðsvænni. Erlendir flokkar að hætti Flokks fólksins hafa lent í hægra faðmi, til dæmis í Noregi. Framsókn hefur tvö andlit, vinstra og hægra, notist eftir þörfum við myndun ríkisstjórnar. Björt framtíð hefur ekkert andlit og ekkert innihald, notist eftir þörfum við myndun ríkisstjórnar. Vinstri græn eru græn Framsókn, marktæk í umhverfismálum. Að öðru leyti íhaldssöm á forna pólitík. Samfylking krata er á miðjunni, góðviljaður og getulítill flokkur. Smáflokkar fá ekki þingmenn. Að venju mun ég kjósa pírata.

Orð yfirgnæfa gerðir

Punktar

Sjö vikur eru til kosninga. Stefnuskrár flokkanna verða líkar því, sem þær voru fyrir ári. Meira pláss verður þó notað um málin, sem vanrækt hafa verið á árinu. Meira um aðgerðir gegn fátækt, gegn öldrun, örorku, vanheilsu og heimilisleysi ungs fólks. Fráfarandi stjórnarflokkar munu einkum hafa hátt í von um, að orð sín skyggi á gerðir sínar. Sjálfstæðisflokkur mun setja fram sósíaldemókratíska stefnu til að fela öfgahægri-frjálshyggju sína. Sama mun Viðreisn gera. Tími sannleikans er löngu liðinn í pólitík. Leiðindafólk mun benda á misræmið og að venju talið vera leiðinlegt. Áttavilltir kjósendur munu hafa ýmis færi á mistökum.

Hækjum Bjarna fækkar

Punktar

Guðni forseti og Bjarni kjölfesta reyndu að fá Framsókn inn í stjórnina í stað Bjartrar framtíðar. Sigurður dýralæknir sagði einfaldlega „Nei takk“. Viðreisn lýsti yfir, að hún hafnaði Bjarna kjölfestu og Sigríði leyndarráði í embættum ráðherra. Benedikt hefur misst tökin á flokki sínum. Hefur frestað ákvörðun um aðild fram yfir helgi. Er Engeyjarættin klofin? Kannski býður Gylfi öðrum lausu sætin, úr því hann er orðinn aðili að spilaborginni. Allt samanlagt sýnir vel, hversu dauð ríkisstjórnin er. Ekki getur bófaflokkur verið einn í stjórn með sín 25%, fer bara með kassann til Tortóla. Bjarni kjölfestulausi að verða hækjulaus.

Martröð að ljúka

Punktar

Sjálfstæðisflokkur er ekki stjórnmálaflokkur og trúflokkur eða fótboltaflokkur og lífsstílsflokkur. Hann er einfaldlega bófaflokkur, martröð á samfélaginu síðan fyrir aldamót. Hrokafullur með afbrigðum, hefur lengi vanizt því að ráða öllu, sem skiptir hann máli. Það er, að eitt prósent þjóðarinnar komi milljörðum árlega undan skiptum og geti falið í skattaskjóli á aflandseyjum. Mér er alveg fyrirmunað að skilja, hvernig formanni bófanna dettur í hug orðið „kjölfesta“ í tengslum við martröðina. Samkvæmt könnunum styður fjórðungur þjóðarinnar þetta fyrirbæri. Kominn er tími til að vakna af martröðinni, kosningar nálgast ört.

Engin er kjölfestan

Punktar

Flokkur, sem í heilan áratug hefur ekki haldið saman ríkisstjórnum undir sinni stjórn, telst ekki nein kjölfesta. Flokkur, sem ævinlega leiðir samflokka ríkisstjórnar i fylgisglötun, telst ekki nein kjölfesta. Flokkur, sem segist elska alþýðuna, en gengur erinda auðgreifa, telst ekki nein kjölfesta. Þar á ofan er Bjarni Ben engin kjölfesta, þótt snoppufríður sé. Hann er uppgjafa fjárglæframaður úr Vafningi og Borgun og þar á ofan grunnmúraður og hrokafullur Panamaprins. Hann veit ekkert um kjör alþýðunnar og enn síður um kjör þeirra 10%, sem sitja á þjóðfélagsbotninum. Hann er aðalbófi pólitísks ræningjaflokks.

Dauðaleit að framhaldslífi

Punktar

Bjarni Ben var enn í felum, þegar þetta er skrifað um fjögurleytið. Hann hefur þó lofað blaðamannafundi áður en sólarhringur er liðinn frá flótta Bjartrar undan eiturgufum bófaflokksins. Bjarna nægði ekki að hlusta á þingflokkinn. Þurfti líka fund með yfirmönnum sínum, talsmönnum kvótagreifa. Er að reyna að finna leiðir til að segja ekki af sér. Allir flokkar aðrir hafa lýst yfir, að nýjar kosningar séu eðlilegastar. Eina ljósið í myrkri Bjarna er, að Framsókn muni óbeint hafa áhuga á samstarfi, sem Viðreisn kærir sig ekki um. Það er stundum erfitt dauðastríðið. Og öfgafjárlög nýfrjálshyggjunnar eru líka dauð.

Kosningar strax

Punktar

Jæja, þá kom að því. Lokið þriðju skammtímastjórn bófaflokksins í röð og þeirri skammlífustu. Viðreisn neitar að láta Framsókn draga stjórnina að landi. Og of dýrkeypt verður að fá Pírata til að afgreiða öfgafjárlögin. Bófaflokkurinn er hreint eitur og drepur alla flokka í samstarfi. Flestir kjósendur eru andvígir skattafríðindum bófa og svelti heilsu og skóla. Því verða kosningar strax, sem þýðir í byrjun nóvember. Þær munu koma mörgum flokkum illa. Framsókn er klofin, Brynjar orðinn talsmaður bófaflokksins, Björt framtíð og Viðreisn í sárum eftir samstarf við bófana. Allir flokkar auralausir og þurfa að borga byggðakosningar í vor.

Ískaldur og klár

Punktar

Bjarni Benediktsson er myndarlegur og hefur sterka teflon-húð. Vekur meira traust en Sigmundur Davíð gerði. Sá var oft sveittur og hljóp út, þegar saumað var að honum. Bjarni er hins vegar ískaldur og yfirvegaður. Talaði í gær fyrir hönd heilbrigðisráðherra og sagði þau mál í fínasta standi. Afreksstandi. Hann veit, að hann er að ljúga, en deplar ekki auga. Minntist ekki heldur á Kjararáð, sem hækkaði Bjarna um 45%, meðan aumingjar sátu fastir. Bjarna tekst að síljúga og skauta hjá sannleikanum án þess að stuðningsfólkið klóri sér í höfðinu. Hann er ekki bara siðblindur, heldur veit líka, að 25% þjóðarinnar eru siðblind.

Mest í heimi

Punktar

United Silicon kísilverksmiðjan í Helguvík átti að vera stærst í heimi. Við sættum okkur ekki við minna en að vera mestir. Fyrir ári var reksturinn hafinn, og hefur gengið á afturfótunum. Fabrikkan jós auri og eimyrju yfir Keflvíkinga, sem raunar kusu þetta yfir sig á sínum tíma. Þeim hefur snúist svo hugur, að maður gengur undir manns hönd að fá ruglið stöðvað. Í tvígang hefur verksmiðjan verið stöðvuð og þrisvar hefur kviknað í henni. Ekki er hún minna þekkt fyrir ítrekaðan ofsaakstur forstjórans á Reykjanesbraut. Hann hefur nú verið rekinn, uppvís að margvíslegu svindli og svínaríi. Og fabrikkan komin í greiðslustöðvun.

Bjarni hrósar sér

Punktar

Bjarni Benediktsson hrósar Íslendingum í viðtali við Sky fyrir að hafa sett nokkra bankstera í fangelsi eftir hrun. Segir, að Bretar hefðu átt að gera slíkt hið sama, sem er rétt. Minntist samt ekki á, að málaferlin hér voru að mestu verk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Enn síður, að Sjálfstæðisflokkur Bjarna hefur reynt að skera fjárveitingar til embættis Sérstaks saksóknara og draga úr umsvifum hans. Fangelsun bankstera hefur því ekki gengið eins langt og vera skyldi. En gott er, að Bjarni hrósi sér af vinstri verkum annarra og skammi útlenda fyrir, að gera ekki slíkt hið sama. Þetta verður geymt, en ekki gleymt.

Ímyndaður forgangur

Punktar

Þorsteinn Víglundsson félagsráðherra segir í Fréttablaðinu að aldraðir séu í forgangi. Kjör þeirra hafi verið bætt mikið á þessu ári. Auðvitað tómt rugl hjá ráðherranum. Hafi aldraðir ekki atvinnu eða fjármagn eða vænan lífeyrissjóð, er líf þeirra harðara en áður. Meðan laun ráðherrans hafa hækkað um 45% í 1,8 milljónir króna, hefur lífeyrir aldraðra hækkað um 6,5% í 0,2 milljónir króna. Í einn tíunda af launum ráðherrans, sem lifir í öðrum heimi. Þetta eru einfaldar tölur um aðild ríkisins að málinu. Í auknum mæli skálda ráðherrar tölur út í loftið og minnast ekki á réttar tölur. Fjölmiðlar hafa ekki burði til að fletta gögnunum.

Stjórnað með 25%

Punktar

Verkamannaflokkurinn norski tapaði kosningunum með 27,4% atkvæða. Altjend meira en Sjálfstæðisflokkurinn hefur hér í könnunum, 25%. Hægri flokkurinn hefur sama  fylgi þar og Sjálfstæðis hér, 25%. Þar eins og hér getur hægri flokkurinn raðað upp lýðskrums-smáflokkum til að mynda ríkisstjórn. Þar á meðal róttækum flokkum útlendingahaturs. Svipað ástand er hér. Sjálfstæðisflokkurinn getur meira að segja bætt við Framsókn og væntanlegum þingflokki Flokks fólksins, Fólk mundi ekki verða vart neinnar breytingar á stjórnarfari. Fólk kýs Bjarta Framtíð og Viðreisn, Framsókn og Flokk fólksins út á lýðskrum, en forðast þá, sem geta.