Punktar

Hér er sáralítið okur

Punktar

Ísland er smávegis í samkeppni við Noreg um ferðamenn. Þetta eru tvö af dýrustu löndum heims. Vita allir, sem hugsa um að koma. Verð á Íslandi er talið vera náttúrulögmál, en ekki okur. Við eigum ekki að keppa við önnur lönd í verðlagi. Hingað kemur hvort sem er bara brot af ferðamannastraumi heimsins, innan við 1%. Flestir eru þeir mjög ánægðir og segja frá því. Efni frá Íslandi er áberandi í erlendu ferðaefni. Frægðarfólk og kvikmyndir hafa gífurleg áhrif. Við þurfum að vísu að hafa góða skipan á verði, en það mun samt ekki hafa mikil áhrif. Ísland er dýrt land og á að vera dýrt. Við eigum að keppa í gæðum, en ekki í verði.

Fjárhagsleg sifjaspell

Punktar

Sérgrein lögmanna er að toga og teygja tungumálið. Ríkisendurskoðandi hefur ákveðið, að karl og öll fyrirtæki, sem hann á 100%, séu ótengdir aðilar. Þetta, eins og margt annað, er ákveðið til að auðvelda skattsvik. Af sömu ástæðum eru feðgarnir Björgólfur og Björgólfur ekki tengdir aðilar. Ekki heldur Sigmundur Davíð og frú. Þetta eru allt aðilar ótengdir með öllu. Þannig er búið að skilgreina upp á nýtt skattalega merkingu orðsins „tengdur“. Hún er önnur en hin hefðbundna merking. Fyrir stuttu voru skattsvik kölluð skattasniðganga og hættu þá að vera skattsvik. Þetta hugarfar er sérgrein lögfræðingastéttarinnar.

Píratar eru gamaldags

Punktar

Píratar hafa ekki fundið fjölina sína. Haga sér svipað og aðrir flokkar. Líta á alþingi sem uppsprettu umræðna. Þegar ríkisstjórn og alþingi eru í óeðlilega löngu sumarfríi, halda málsvarar flokksins að sér höndum. Eins og alþingi eigi að stjórna umræðunni. Hún lokar ekki, þótt alþingi loki. Þingmenn flokksins eru flestir með tærnar upp í loft, þegar umræður standa utan alþingis. Koma flestir ekkert fram á Pírataspjallinu. Á heimasíðunni er ekki einu sinni vísað á innra spjall flokksins, sem er nánast dautt. Það er beinlínis fráleitt, að píratar séu lítt sýnilegir í hinum stafræna heimi. Eitthvað er afspyrnu gamaldags við þetta.

Bilun í Moggavélinni

Punktar

Ég er spurður, hvers vegna ekki fleiri en fimmtán prósent kjósi Pírata. Það er af því að Íslendingar eru hrædd smáþjóð á skeri, barin og svelt af höfðingjum í meira en þrjátíu kynslóðir, reiðubúin af leggjast í duftið í lofgerð til kvalara sinna. Slíkir aumingjar fremja aldrei byltingu, heldur hrekjast um í lífsins ólgusjó. Láta bófaflokkinn ræna af sér hundrað milljörðum á hverju ári. Þetta gerist nánast fyrir opnum tjöldum. Hér á elliheimilinu hitti ég kerlingar niðri í anddyri. Þær óskapast yfir, að Mogginn skuli ekki vera kominn í póstkassann  þeirra. Ég segi þeim að lofa og prísa guð almáttugan fyrir bilun í Moggavélinni.

Fylgisleysið háir ekki

Punktar

Fylgi Sjálfstæðisflokksins er komið niður fyrir 25% í skoðanakönnunum. Í krafti þessa minnihluta fara bófarnir með stjórn landsins. Nota tvo lamaða flokka sem hækjur. Helmingur af tapi Flokksins fór yfir á lömuðu flokkana. Helztu flokkar stjórnarandstöðunnar hafa óbreytt fylgi. Almennt er fylgi flokka ótrúlega traust könnun eftir könnun. Ekkert bannar bófaflokknum að stjórna landinu áfram næstu þrjú árin í skjóli 27% fylgis stjórnarinnar. Minni stuðningur hefur held ég ekki mælst við ríkisstjórn. Flest verður ógæfu Íslendinga að vopni. Stjórnin heldur ró sinni, gerir fátt annað en ýta inn einkavinavæðingu og hlaða undir greifa.

Undiralda á leiðinni

Punktar

Undiralda ungra, sem alast upp í leikskólum og skólum er einkar nútímaleg. Unga fólkið er víðsýnt, lítur á mismunandi hópa sem jafninga, telur fólk eiga að vera gott við hvert annað, styður menntun og heilsu. Allur þorrinn hugsar félagslega að norrænum hætti. Hafnar rasisma, stéttaskiptingu, auðhyggju og græðgi. Efast um trúarjátningar eins og kristni, sósíalisma og kapítalisma. Hægri og vinstri þjóðremba á þarna lítið fylgi, sömuleiðis hægri og vinstri sértrú af ýmsu tagi. Fylgi slíka flokka verður lítið og minnka mun fylgi flokka, sem eru markaðir af fjórflokknum, til dæmis fylgjandi kvótagreifum og andvígir nýrri stjórnarskrá.

Segið upp orkusamningum

Punktar

Nærtækasta mál á dagskrá er að segja upp orkusamningum við stóriðju. Ástæðan er, að hún hefur haft ráðamenn landsins að fífli áratugum saman með „hækkun í hafi“. Þannig hefur henni tekizt að komast undan tekjuskatti. Gera má stóriðjunni þann kost að greiða svindlið til baka. Að öðrum kosti verði orkan boðin út að nýju eftir tvö ár. Ljóst er, að þjóðarsátt verður ekki um fleiri orkuver og því hætta á orkuskorti í landinu. M.a. vegna rafbíla. Skorturinn leysist með því að loka stóriðjunni, sem lægst greiðir orkuverð. Lítum á orkuver landsins sem takmarkaða þjóðarauðlind. Okkur ber að rukka auðlindarentu af stórnotendum. Eins og verður hjá kvótagreifum í fiski.

Flokkun flokkanna

Punktar

Skilgreining flokka er ekki hægri og vinstri. Í vikunni benti ég á skyldleika Sjálfstæðis, Framsóknar og Vinstri grænna. Þetta eru allt íhaldsflokkar, sem vilja sem minnstar breytingar á hinni pólitísku svínastíu. Svo eru þrír flokkar evrópusinnaðir, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin. Ramba flestir á jaðri þess að koma ekki inn manni. Síðan eru það nýju, litlu flokkarnir. Á hægri jaðri alþýðuflokka eru þrír, Flokkur fólksins, Þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn, sem er öllum illa við útlenda. Á vinstri jaðri eru Alþýðufylkingin og Sósíalistar múlti-kúlti. Í miðju er svo einn framtíðarflokkur og það eru auðvitað Píratar.

Bændur á borgaralaun

Punktar

Áratugir eru síðan ég hóf skrif um takmörkun sauðfjárræktar. Tillaga mín var, að sauðfjárbændur fengju eins konar borgaralaun. Fyrir það eitt að vera til og halda uppi sportbúskap í dreifðum byggðum. Ljóst var þá og enn augljósara er nú, að annars andast sauðfjárbúskapur og dreifbýli. Tillagan gerir ráð fyrir, að sauðfjárbændur framleiði eins og þeim sýnist, en ríkið hafi engin afskipti af því. Hvorki framleiðslustyrkir né niðurgreiðslur. Bara borgaralaun án neinnar framleiðsluskyldu. Við blasir, að vélmenni úreldi ýmsar stéttir, sem þurfi að fara á borgaralaun. Ágætt er, að sauðfjárbændur brjóti ísinn í borgaralaunum.

Ný útsetning trúar

Punktar

Öldungaráð íslams-klerka í Bretlandi er að hefja útsetningu á trúnni innan ramma brezkra laga og siða á 21. öld. Með því yrði stigið mikilvægt skref til friðar milli trúarhópa í landinu. Sumir klerkar múslima hafa predikað róttæka andstöðu við vestræn gildi. Hafa stuðlað að aukinni spennu í landinu. Öldungaráðið vill draga úr spennunni. Hætta predikunum í andstöðu við vestræn gildi. Tekið verður á atriðum eins og barnagiftingum, umskurði kvenna, sæmdarmorðum og heimaofbeldi. Kannski er þarna að birtast lausn á tilveru miðaldatrúar í vestrænu samfélagi. Sem hlýtur að fela í sér aðlögun íslams að femínisma, trúleysi og vísindahyggju.

Dauðateygjur bræðsludraums

Punktar

Dauðateygjur United Silicon marka endalok bræðslualdar. Hófst 1970 með álbræðslu í Straumsvík og náði hámarki tryllings við Kárahnjúka 2007. Þá var fyrir löngu séð, að tombóluverð fékkst fyrir íslenzka fossa. Að „hækkun í hafi“ gerði allar bræðslur tekjuskattsfríar. Ævintýri stóriðjunnar var samfelld harmsaga þjóðar með heimska og spillta valdamenn. Ráðgerð var röð hitavirkjana á Reykjanesskaga. En í ljós kom, að í Hellisheiði var síður en svo endurnýjanleg orka, Þar á ofan var hún eitraður andskoti. Enn er reynt að plata sveitamanninn. Lexían lærist samt. Fokheld Helguvík er stopp. Fleiri bræðslur verða ekki reistar á Íslandi.

Allsráðandi Sjálfstæðis

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu, stóru og smáu, í ríkisstjórninni. Einstakir ráðherrar annarra flokka mega bulla út og suður, jafnvel dögum saman. Bjarni þegir bara og sólar sig í fríinu. Þegar Benedikt frændi er búinn að tala sig hásan um fráleitan búvörusamning, segir Bjarni bara: Samningar munu standa. Og málið er úr sögunni. Litlu flokkarnir í ríkisstjórninni mælast ekki með neinn þingmann í könnunum. Stundum segir Björt eitthvað óljóst, en Bjarni nennir ekki einu sinni að segja henni að halda kjafti. Proppé er alveg horfinn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ræða heilsumálin. Fólk gerir ekki ágreining við Flokkinn.

Teflon-Katrín

Punktar

Katrín Jakobsdóttir er ein af þessum fáu teflon-húðuðu í pólitík. Getur ekkert rangt gert og siglir áfram í brosmildu aðgerðaleysi, jafnvel sem menntaráðherra. Hún er að losna við Björn Val. Steingrímur J. flýgur vonandi í kjölfarið. VG þurfa að slíta náin tengsl við kvótagreifa og gerast alvöru vinstri flokkur. Það mistekst í þjónustu við ríkasta prósentið. Og í tryggð við nýfrjálshyggju banka og fjármála. VG þurfa að brjóta nýfrjálshyggju niður og stöðva einkavinavæðingu grunnstoða samfélagsins, heilsu, velferðar, skóla og húsnæðis. Fyrst og fremst þurfa Vinstri græn að slíta sig frá fjórflokknum, sem er undir stjórn bófa.

Endurholdgun Samfylkingar

Punktar

Hef enga trú á, að fylgi Samfylkingarinnar hressist við að breyta nafni hennar í Jafnaðarflokkinn. Líði flokksmönnum eitthvað betur eftir breytinguna er tilgangi hennar náð. Samfylkingunni fylgir fnykur af valdaskeiði Ingibjargar Sólrúnar og Árna Páls. Þá gerðist hún hægri flokkur Blairista. Gleymist ekki, en dofnar í tímans rás. Hafi eitthvað af fylgi hennar farið á hægri flokkana Viðreisn og Bjarta framtíð, skilar það sér ekki til baka í könnunum. Jafnaðarflokkur þarf að keppa við Vinstri græn og aðra vinstri flokka um hylli alþýðunnar. Kannski hefur Logi Einarsson þann kjörþokka, sem dugi flokknum til pólitískrar endurholdgunar.

Íslenzka lifir

Punktar

Íslenzka deyr ekki, þótt bókakaup hafi skyndilega minnkað um þriðjung. Höfum nóg að lesa, þótt bóklestur hafi minnkað. Að vísu hefur lestur sumpart færst yfir á ensku. Íslenzkir bókaútgefendur eru of hræddir við rafbækur. Við lesum auðvitað heilmikið á skjá, fréttir og frægð, margt af því á íslenzku. Og ekki gleyma, að við skrifum margfalt fleiri en áður gerðu. Fésbókin er full af skemmtilegum sögum úr lífi fólks. Fyrir aldamót skrifuðu bara skriftlærðir. Nú skrifa allir, hver á sinni íslenzku. Það er flott, þótt kennarar mínir í skriftarskólanum MR snúi sér í gröfinni. Íslenzka er notuð hversdags, stundum í nýstárlegu formi.