Punktar

Flakið dregið út

Punktar

Davíð fer ekki í borgina. Endastöð í pólitík var 10% fylgi í forsetakosningunum í fyrra. Einnig var hann afleitur borgarstjóri í eldgamla daga. Þá voru monthús reist, ráðhús og Perla, en klóakið látið danka. Davíð taldi enga frægð felast í að koma klósettmálum borgarbúa í lag. Það þurfti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til að sameina klóakið og reisa hreinsistöðvar úti við sjó. Hún gerði Reykjavík að nútíma hreinlætisborg. Davíð var síðasti borgarstjórinn, sem óð skítinn eins og í eldgamla daga, blessuð sé minning hans. Mikið ímyndunarafl þarf til að fara í kirkjugarðinn í Hádegismálum að draga út flakið af mislukkuðum borgarstjóra.

Ærulausir heiðursmenn

Punktar

Í gamla daga réði ég fólk í vinnu. „Og svo er ég með tvo meðmælendur“, segir karl með hatt. Ég spyr hverja. Hann svarar: „Þeir vilja ekki láta nafns síns getið, en þeir eru annálaðir heiðursmenn.“ Brynjar Níelsson þingmaður á jafn einkennileg samtöl þessa dagana við fjölmiðlamenn. Hinn víðkunni sjálfstæðismaður Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, hefur fengið verjanda á alþingi götunnar. Brynjar veit nöfn þessara heiðursmanna úr Sjálfstæðisflokknum, en segir þau ekki koma okkur við. Allir sjálfstæðismenn eru heiðursmenn. Auðvitað eru þeir líka ærulausir fyrir að skrifa upp á Róbert og að vilja alls ekki, að við vitum það.

Rotturnar löngu flúnar

Punktar

Nokkur ár eru síðan vitað var, að Costco kæmi til Íslands. Stjórnendur Haga hófu fyrir ári að losa sig við hlutafé í eigin fyrirtæki. Rotturnar vissu þá, að Bónus og Hagkaup mundu lenda í jarðskjálfta í sumar út af Costco. En lífeyrissjóðirnir, hvað gerðu þeir, aðaleigendur Haga? Þeir héldu áfram að kaupa hlutabréf í Högum, eins og enginn væri morgundagurinn. Hafa aldrei skilið, að umboðsmenn fólks verða að fara varlega í fjárfestingum. Alls ekki ana beint út fyrirsjáanlegt hrun. Það minnir okkur á, að núverandi eignarform og rekstrarform lífeyrissjóða er dautt. Það gengur ekki, að fábjánar höndli sem blindfullir með helztu eigur almennings.

Svarað út í hött

Punktar

Kvörtunum um verri stöðu heilbrigði og velferðar er aldrei svarað málefnalega af ríkisstjórninni. Upplýsingum um stóraukinn stéttamun hér á landi er svarað með góðri stöðu meðalfólks. Upplýsingum um stóraukinn veikindakostnað fólks er svarað með hækkun á krónutölu allra heilsuútgjalda milli ára. Upplýsingum um verri stöðu aldraðra, öryrkja og sjúklinga er svarað með góðri stöðu meðalfólks. Fréttum um uppsprengdan húsnæðiskostnað ungs fólks er svarað með hugleiðingum um fjölgun íbúða síðar. En fólk getur ekki haft húsnæði í góðvilja ráðherra. Og oftast er kvörtunum beinlínis svarað út í hött með bulli un, að forgangsraðað sé í þágu heilsu og velferðar.

Fokið í flest skjól

Punktar

Fokið er í flest skjól manna eins og Donald Trump og Recep Tayyip Erdoğan. Trump hefur sent starfsfólki bandaríska landbúnaðar-ráðuneytisins skipun um að forðast orðið „loftslagsbreytingar“ í texta. Trump er einn fárra, sem ekki trúa vísindum um loftslagsbreytingar og telja sig vita betur. Hann er í stríði við staðreyndir, sem stinga í stúf við gráðugan vilja hans sjálfs. Erdoğan er að því leyti verri, að hann er kominn í stríð við allar staðreyndir. Hefur látið loka í Tyrklandi fyrir aðgang að alfræðibókinni Wikipedia á vefnum. Loka heimsins mestu og beztu uppsprettu þekkingar í heiminum. Telur sig geta flutt landið aftur til miðalda.

Verðlaunaðir æruleysingjar

Punktar

Ýmsir menn með laskaða æru hafa fengið eins konar uppreist hennar, án þess að til skjalanna hafi komið valinkunnir heiðursmenn. Geir Haarde klúðraði kreppu út í algert bankahrun. Verðlaunaður með sendiherraembætti í Washington. Davíð Oddsson klúðraði öllu, sem hægt var að klúðra í Seðlabankanum. Hreinsaði bankann að innan af öllum gjaldeyri og kastaði í gjaldþrota Kaupþing. Verðlaunaður með ritstjórn Morgunblaðsins. Þeir ættu að sitja inni með þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni. Sem földu fé sitt í skattaskjóli á aflandseyju. Sigmundur Davíð sagði þó af sér, en þjóðin verðlaunaði Bjarna með forsætisráðherrastól.

Ærulausir menn

Punktar

Á ferli um internetið er rugl um, að Ríkisútvarpið hafi ekki haft gögn um aðild Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að Panama-peningum. Útvarpið fékk þessi gögn að láni, en ekki gefins. Engin falsfrétt er, að Sigmundur Davíð er svo spilltur, að hann varð að segja af sér. Gögnin um Panama eru í eigu samtaka blaðamanna ýmissa landa um birtingu falinna gagna. Ókleift er að búa til einhvern nautaskít um, að fréttir upp úr þessum viðurkenndu gögnum séu falsfréttir. Nautaskíturinn er bara liður í tilraun til að laska Ríkisútvarpið og stétt blaðamanna. Sigmundur Davíð hefur alls enga æru, ekki frekar en Panama-félagi hans, Bjarni Benediktsson.

Í Róm eins og Rómverji

Punktar

„Í Róm gerir þú eins og Rómverji“. Alþekkt spakmæli, sem flestir skilja. Þýðir, að á Íslandi hagar þú þér eins og Íslendingur. Hvar sem ég er í heiminum, fer ég eftir siðum þess lands. Það er sjálfsögð kurteisi. Ófært er, að hingað geti komið fólk, sem neitar að fylgja okkar siðum. Frægt er vesenið með erlenda ferðamenn á sundstöðum. Vilji þeir ekki hlíta vel upp settum reglum um hreinlæti, eiga þeir að láta sundstaði vera. Ættu að fá sekt að auki. Vilji múslimar ekki sætta sig við bílstjórn eða fararstjórn kvenna, á bara að skilja þá eftir. Sekta ætti þá að auki fyrir dónaskap við gestgjafalandið. Í mannasiðum gildir ekkert múlti-kúlti.

Ósýnilega huldufólkið

Punktar

Ég efast um, að Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þekki nokkurn, sem hefur minna en milljón í ráðstöfunartekjur á mánuði. Efast um, að þeir eigi vin, sem hefur minna en tvær milljónir. Heimur þeirra endar í einni milljón. Annað telja þeir bara vera sögur upp úr Grimms ævintýrum, þegar fátækir voru til. Geta líka vísað til þess, að statistík miðja á íslenzkum excel-gröfum hafi það bara helvíti gott. Botninn er einhvers staðar úti í mýri, húsnæðislaus ungmenni, aldraðir, öryrkjar og sjúklingar. Þessir hópar dragast aftur úr við hverja hækkun í prósentum. Þetta er ósýnilega huldufólkið.

Róttæka miðjan

Punktar

Góð pólitík er að vera róttæk/ur en íhald hvorki til hægri eða vinstri. Velja bara þá leið, sem samkomulag er um, að sé til bóta hverju sinni. Vera síðan nógu fljót/ur til að velja enn betri leið, þegar hún birtist. Ég kalla slíkt róttæka miðju. Það eru píratar. Stefna þeirra er byggð frá grunni á fundum í grasrótinni. Í kosningunum buðu þeir heilsteypta framfarastefnu. Hvorki sósíal né kapítal. Bar af kerfisflokkum til vinstri og hægri. Náði ekki fram að ganga, því að þjóðin er íhald. Hallar sér að þeim kvalara, sem hún er vönust. Það er bófaflokkurinn, sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Sem magnar misrétti stétta og hirðir þjóðarauðinn.

Siðblindir pólitíkusar

Punktar

Flestir pólitíkusar eru siðblindir. Ljúga að kjósendum, lofa og svíkja, það er siðblindingjum svo auðvelt. Þiggja prófkjörsfé af hagsmunaaðilum og gæta hagsmuna þeirra. Siðblindingjar og pólitíkusar eru sjálfhverfir, tillitslausir, lygarar fram í fingurgómana, án sektarkenndar, yfirborðslegir og sleipir. Skoðaðu texta þeirra í fjölmiðlum og sjáðu, hvernig þeir dansa til og frá og brosa framan í alla. Taka enga ábyrgð á gerðum sínum. Mundu, þegar Benedikt skýrði frá afnámi tíuþúsund króna seðilsins. Hrósaði sjálfum sér, en snérist á punktinum, er hann fattaði, að enginn vildi afnámið. Sagðist ekki einu sinni hafa lesið skjalið.

Leyndarmál bófaflokksins

Punktar

Sí og æ heyri ég fréttir af misheppnuðum tilraunum þingmanna stjórnarandstöðunnar til að fá að sjá gögn, sem máli skipta. Ráðherrar og embættismenn þverskallast við að sýna leyndarskjöl. Þekktasta dæmið núna er uppreist æru helzta barnadólgs landsins, Roberts Downey, áður Róberts Árna Hreiðarssonar. Ekki fæst gefið upp, hver var hin „eðlilega meðhöndlun“ málsins. Hverjar voru forsendurnar. Hverjir voru hinir „valinkunnu meðmælendur“ Róberts. Þarna er mikill þagnarmúr ráðherra og embættismanna Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson faldi sig í sex vikur og kenndi að lokum látnum ráðherra um skandalinn. Enn er skrítna ærumálið leyndó.

Verð hækkar – ekki laun

Punktar

Stóraukin eftirspurn veldur því, að gisting á Íslandi hefur hækkað í verði um 60% á tveimur árum, 2015-2017. Ekki virðast laun valda þessari hækkun. Kvörtunum til verkalýðsfélaga um vangreiðslur launa hefur fjölgað á þessum tíma. Unglingar og útlendingar fá ekki laun eftir samningum. Einkum eru frádráttarliðir notaðir eða starfsfólk talið vera sjálfboðaliðar. Verkalýðsfélög virðast ekki ráða við græðgi atvinnurekenda. Þurfa hjálp frá ríkisvaldinu, svo sem aðstoð lögreglunnar. Svipað er raunar að segja um byggingaiðnaðinn. Þar er víða útlendingum greitt lægra kaup en samningar gera ráð fyrir. Græðgi er svartur blettur á íslenzku atvinnulífi.

Flokkur gegn þjóðinni

Punktar

Skoðanakönnun sýnir enn einu sinni, að við viljum ekki einkavæða Ríkisútvarpið. Jafnvel kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja það ekki, svo eindreginn er vilji þjóðarinnar. Þetta er eins og með heilsustofnanir. Yfirgnæfandi meirihluti fólks vill, að þær séu reknar af ríkinu og veiti ókeypis þjónustu. Lengi hefur þjóðin verið sammála um norrænu og þýzku mörkin á einkarekstri og opinberum rekstri. Bandaríska kerfið nýtur einskis stuðnings hér á landi. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að vinna samkvæmt vilja þjóðarinnar, þegar hann fjársveltir ríkisrekstur til að koma fyrir einkarekstri. Hann þjónar bara sérvitrum vilja ofsatrúarmanna.

Herða hengingarólina

Punktar

Fyrir hálfri öld fór ég að skamma samtök og afurðastöðvar bænda fyrir þrælahald. Hvatti til, að bændur yrðu leystir úr hengingarólinni. Viðurkennt, að þeir stunda ekki atvinnuveg, heldur lífsstíl, eins konar félagslegt úrræði. Borga ætti þeim borgaralaun fyrir að vera til, en ekki til að gera neitt. Þeir mættu síðan selja afurðir án styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna. Þá fékk ég kveðjuna: Óvinur bænda. Nú eru bændur enn í vanda í gamla kerfinu. Samtök þeirra benda þeim á að hjúfra sig að bönkum og sníkja lán. Samtökin vilja að venju hafa bændur til að fóðra afurðastöðvarnar. Hvetja því þá til að leyfa bönkunum að herða hengingarólina.