Punktar

Pólitíkin er frosin

Punktar

Allt er við það sama í könnunum á fylgi flokka. Mánuð eftir mánuð eru tölurnar nærri eins. Flokkur fólksins mælist nú með þingmannafylgi, en Sósíalistaflokkur Gunnars Smára mælist alls ekki. Viðreisn er komin með Bjartri Framtíð niður úr 5% botninum. Eins og ætíð reynist litlum flokkum torsótt að starfa með bófaflokknum. Þar valta frekustu karlarnir yfir allt og alla í þágu 1% ríkustu, Engeyinga og kvótagreifa. Ráðherrastólar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar reynast þeim flokkum skammgóður vermir. Hatrið á öldungum, sjúklingum, öryrkjum og heimilislausum virkar bara fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann er áskrifandi að 30%, -fáráðlingunum.

Sjúki Brexit-karlinn

Punktar

Í gamla daga var Tyrkland kallað sjúki karlinn í Evrópu, stórveldi á brauðfótum. Nú er talað um Brexit-Bretland sem sjúka karlinn. Alþjóða gjaldeyrisbankinn spáir þar og í Bandaríkjunum minni hagvexti en annars staðar í heiminum. Evran hefur reynzt sterk, hækkar í gengi gegn dollar og pundi. Frakkland og Þýzkaland eru í góðum vexti. Meiri athygli vekur gengi Miðjarðarhafslanda bandalagsins, Ítalíu, Spánar og Grikklands. Það síðasta var í fyrra talið sjúki karlinn í Evrópu, en nú hefur Bretland tekið við háðsyrðinu. Spáin fyrir Ísland er eins góð og fyrir evrulöndin. Það stafar eingöngu af sprengingu í ferðaþjónustu, sem heldur áfram.

Stéttaskipting magnast

Punktar

Hagfræðingurinn Thomas Piketty er tímamót í hagsögu. Bók hans „Capital in the 21st Century“ varð metsölubók austan hafs og vestan árið 2014. Einsdæmi meðal hagfræðibóka. Helztu háskólar heims tóku upp bókina sem kennslurit. Ekki Háskóli Íslands, sem heldur sig við úrelta fræðinga á borð við Marx og Hayek. Piketty hafnar bæði sósíalisma og kapítalisma. Hafnar líka Gini-stuðli sem nothæfu tæki í mati á stéttaskiptingu. Sjálfur er hann með margfalt yfirgripsmeiri talnarunur og töflur, sem ná aftur í frönsku byltinguna í lok átjándu aldar. Piketty varar við, að bil ríkra og fátækra hafi aukizt hratt um allan heim frá 1970 til þessa dags.

Stefnan mín í stuttu:

Punktar

1. Nýja stjórnarskráin afgreidd
2. Opin skjöl og opnir fundir
3. Skattaþyngd frá fátækum til ríkra
4. Ókeypis heilsa – ókeypis menntun
5. Frjáls uppboð á leigu aflakvóta
6. Almenningur í stjórn fyrirtækja
7. Undirbúum borgaralaun
8. Frelsi – jöfnuður – bræðralag

(Þetta er stefnan mín og svipuð stefnu Pírata. Ætti að passa öllu nútímafólki.)

Nauðganir nálgast

Punktar

Hin árlega nauðganahátíð fer að hefjast í Vestmannaeyjum. Af því tilefni hefur háttvirtur löggustjóri eyjanna leyft fréttaflutning af lögbrotum, öðrum en nauðgunum. Þær fréttir eru bannaðar eins og áður. Líklega er þetta samkvæmt óskum meirihluta bæjarbúa, að nauðganir verði framdar með friði og spekt, eins og tíðkast þar í bæ. Fólk hafði áður mikinn ama af fréttum af nauðgunum og hávaða og látum í tengslum við fréttirnar. Sá vandi er leystur með sannfærandi hætti. Eyjarskeggjar geta vaknað í timburmönnum sínum eftir hátíðina, risið forkláraðir á fætur og gengið sælir til kirkju í fullvissu um, að ekkert hafi raunar gerzt.

Eignajöfnun í samfélagi

Punktar

Hagfræðistefna Thomas Piketty segir, að eignasöfnun risafyrirtækja á kostnað almennings sé stjórnlaus. Hana þurfi að bremsa með hátekju- og auðlegðarskatti og sennilega líka með jöfnun á prósentu vinnutekjuskatts og fjármagnstekjuskatts. Íslendingar þurfa svo líka að taka auðlindarentu samkvæmt markaðslögmálinu um uppboð veiðileyfa. Þessar breytingar á skattakerfinu muni gera kleift að halda uppi norrænni velferð og taka upp borgaralaun. Við ættum líka að læra af þeim, sem bezt gengur í efnahagsmálum. Opna sæti í stjórnum fyrirtækja fyrir fulltrúa starfsfólks, neytenda, sveitarfélags og ríkisins. Það hafa Þjóðverjar lengi gert.

Þýzka leiðin bezt

Punktar

Thomas Piketty hagfræðingur notar aldagömul hagskjöl Breta, Frakka og Þjóðverja til að finna efnahagsferli þjóðanna um aldir alda. Þjóðinar hafa átt brokkgengt ferli með styrjöldum, eyðileggingu og kreppum. Þær hafa líka síðustu áratugina búið við misjöfn trúarbrögð í efnahagsmálum. Bretar fylgdu einkarekstrarstefnu Bandaríkjanna. Frakkar beittu ríkisrekstri í risafyrirtækjum. Þjóðverjar ákváðu, að gerðir fyrirtækja vörðuðu hagsmuni starfsfólks, neytenda og ríkisins. Þessir aðilar tóku sæti í stjórn einkafyrirtækja. Niðurstaðan var söm í öllum tilvikum. Þjóðverjar fóru þó mildar út úr kreppunni fyrir tíu árum og eru aflvél Evrópu.

Massíf innrás

Punktar

Kínverjar eru orðnir 1,4 milljarðar og Indverjar líka. Efri hluti miðstéttar í Kína er orðinn mjög fjölmennur, skiptir hundrað milljónum. Þetta fólk hefur efni á að ferðast til útlanda. Sama verður uppi á teningnum í Indlandi eftir fimm-sex ár. Ísland verður áfangastaður sáralítils brot þessa massa. En það er samt meira en svo, að við ráðum við það. Brot úr prósenti er meira en nóg. WOW byrjar beint pólarflug til Sjanghæ á næsta ári. Síðan fylgir beint flug til Delhi. Við munum ekki horfast í augu við stöðnun ferðaþjónustu næstu árin. Við munum þvert á móti horfast í augu við skort okkar á innviðum til að taka við þessari massífu innrás.

Hriktir í samstarfi

Punktar

Eðlilegt er, að hrikti í samstarfinu, þegar eingöngu mál Sjálfstæðisflokksins ná fram að ganga. Ráðherrar Viðreisnar hafa í framhjáhlaupi talað niður krónuna, sem allir vita, að er ónýt. Þeir hafa hækkað kvótagjald í takt við betri afkomu kvótagreifa. Þeir hafa hindrað nauðungarsölu 300 íbúða hjá Íbúðalánasjóði. Þetta finnst bófaflokknum afleitt. Ekkert hljóð heyrist hins vegar frá Bjartri framtíð, sem sér framtíðina fólgna í ráðherrastólum. Ekkert mun koma Bjartri framtíð úr jafnvægi, enda er þetta hennar síðasta þingtímabil. Viðreisn berst hins vegar við 5% lágmarkið. Þrenns konar röfl er kannski upptakturinn að alvöru mótþróa hennar.

Ruglið magnast

Punktar

Hver kaupir fimm herbergja blokkaríbúð á 198 milljónir króna? Kannski er hægt að auglýsa ruglið nógu oft til að fólk haldi það vera eðlilegt verð við Eiðistorg. Ekkert selst né leigist af verzlunarplássi í kubbunum neðan Arnarhóls. Eitthvað er bogið við fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Líklegast er verið að reyna að búa til nýtt hrun, enda eru tíu ár frá því síðasta. Það er hæfilegur tíma frá einu hruni til annars í furðulega hagkerfinu, sem við þurfum að þola. Hvaða önnur þjóð mundi þola skoppandi íslenzka krónu og stjarnfræðilega vexti? Af hverju er ég ekki fluttur til Miðjarðarhafsins, þar sem einbýlið kostar 15 milljónir króna?

Tunnan í keldunni

Punktar

Hagfræði nútímans er komin í fyndnar ógöngur. Áróðursritið Economist segir, að Þjóðverjar spari of mikið, bæði einkaaðilar og opinberir aðilar. Afleiðingin sé hrikalegur yfirballans á utanríkisviðskiptum. Jafngildi því, að Þýzkaland sé heimsins mesta ógnun við frjáls viðskipti. Sparnaður er semsagt hættuleg ógnun. Nær væri fyrir tímaritið að hvetja aðra til að fara að dæmi Þjóðverja. Spara peninginn og leggja fyrir í stað þess að eyða í sukk og svínarí. Þrátt fyrir hátt evrugengi geta þýzk tæknifyrirtæki keppt við Austur-Asíu í dollaraverði. Raunar er öll hagfræði nýfrjálshyggjunnar eins og botnlaus tunna ofaní djúpri keldu.

Íslandsmet í túrbínutrikki

Punktar

Kristján Þ. Davíðsson er dæmigerður Íslendingur Hann kann túrbínutrikkið. Er framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva. Þar er hundruðum milljóna kastað í illa rannsakaðar framkvæmdir. Hann segir: „Þessari fjárfestingu verður varla hent út um gluggann án faglegrar, gagnrýninnar umræðu,“ Notar sitt eigið sukk sem afsökun fyrir því, að varlega þurfi að fara í rannsóknir á umhverfisáhrifum. Túrbínutrikkið hófst í Laxárvirkjun, þegar reisa átti margfalt stærri virkjun en Laxárdalur þoldi. Hefur síðan ítrekað verið notað. En Kristján er sá eini, sem hefur sett rökleysuna á oddinn. Allt, sem hann spreðar, ber að samþykkja eftir á.

Á endasprettinum

Punktar

Þekkt hagfræðifólk og alþjóðasamtök eru farin að efast um Hayek og Friedman og farin að hlusta á Chomsky og Pikkety. Stjórnvöld eru síðbúnari. Nýfrjálshyggja er við völd í flestum löndum Vestur-Evrópu. Í Þýzkalandi hafa kristilegir hins vegar haft að leiðarljósi sátt milli ríkra og fátækra. Þess vegna fer Angela Merkel bil beggja með feiknargóðum efnahagsárangri. Nýfrjálshyggjan hófst til valda með Thatcher í Bretlandi 1979 og Reagan í Bandaríkjunum 1981. Hér hófst hún með Davíð 1991. Síðan hefur bilið milli ríkra og fátækra margfaldast. Lágtekjufólk býr við laun, sem eru lægri en framfærslukostaður. Þetta endar auðvitað með byltingu.

Enginn lofaði tilfærslu

Punktar

Hef hvergi séð kosningaloforð eða önnur loforð um færslu frá opinberri þjónustu yfir í einkarekstur heilsugæzlustöðva og sérhæfðra sjúkrahúsaðgerða. Að baki er leynimakk Sjálfstæðisflokksins og forstjóra Sjúkratrygginga um, að ríkið greiði kostnaðinn. Um leið er opinberi reksturinn sveltur. Þekkt fyrirbæri erlendis. Þar er fengin reynsla, sem í höfuðatriðum er slæm. Felur í sér skerta þjónustu við fátæklinga. Herðir á aukinni stéttaskiptingu, er síast hefur inn síðan rétt fyrir aldamót. Allur hagvöxtur fer til hinna allra ríkustu. Skrautklæddur fáviti frá Bjartri framtíð ber ráðherraábyrgðina. Slíkt þykir nýfrjálshyggjufólki fyndið.

Koma svo píratar

Punktar

Píratar sýndu eftir kosningar, að þeir gátu fylgt hefðbundnum leiðum til að ná fram ríkisstjórn framfara. Buðu fram tilslakanir og lögðu áherzlu á fá atriði.  Sýndu kjósendum, að þeir væru fullorðnir. Stjórntækir eins og það heitir á máli fjórflokksins. Um leið varð flokkurinn hversdagslegri, missti af unga sjarmanum, sem fylgir ungu fólki. Mér finnst vera kominn tími til, að píratar sýni, að þeir eru píratar. Fitji upp á vinnubrögðum, sem æsa pólitískar risaeðlur til að sýna sitt ljóta eðli. Hvetji fólk til að sjá, að hefðbundnir stjórnmálaflokkar eru ekkert annað en jólapakkningar um lygi, hræsni, græðgi, spillingu og siðblindu.