Punktar

Bera á höndum sér

Punktar

Hvergi á vesturlöndum tíðkast, að embættismenn láti málsgögn hverfa. Jafnvel á Ítalíu mafíunnar eru gömul skjöl varðveitt. Að lokum tekin upp í stafrænt form til að leita í. Bara hér á Íslandi mynda embættismenn keðju um Robert Downey, áður Róbert Árna Hreiðarsson. Dæmdur fyrir barnaníð gegn fjórum stúlkum árið 2008. Síðan hefur kerfið borið hann á höndum sér. Jafnvel gefið honum nýja „æru“ á leyndan hátt. Nú hefur hann aftur verið kærður fyrir barnaníð. Þá gerist það, að gögn fyrri mála finnast ekki. Taka þarf í alvöru á þessu. Rannsaka hvarf skjalanna. Hver ber ábyrgð á því? Er net barnaníðinga meðal embættismanna og Sjálfstæðisflokksins?

Lífskjaramunur: Í 24 sæti

Punktar

Lífskjaramunur: Í 24 sæti
Fjölþjóðasamtökin OXFAM hafa gefið út tölur, sem sýna, að Ísland gerir langminnst norðurlanda í að jafna lífskjörin. Skoðuð voru átján atriði varðandi útgjöld til velferðar, mismunar í skattlagningu og löggjafar gegn ójöfnuði á vinnumarkaði. Norðurlönd, sem við berum okkur helzt saman við, taka fjögur af sex hæstu sætum listans. Ísland kemur þar langt á eftir, í 24. sæti. Það stafar af markvissri minnkun stuðnings við velferðarfólk, svo sem aldraða, öryrkja og sjúklinga. Líka af minni skattheimtu á ríka og meiri á fátæka. Gerðir ríkisstjórnarinnar stefna á aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Hér er ríkisstjórn hinna ríku fyrir hina ríkustu.

OXFAM

GUARDIAN

Viðráðanlegur vandi

Punktar

Þrátt fyrir dagleg grátköst hagsmunaaðila fjölgar ferðafólki sífellt á Íslandi. Á þessu ári fjölgar þeim um minnst 40% frá fyrra ári. Eftir að hafa fjölgað um 25% á ári í mörg ár. Alls ekki eru hinar minnstu líkur á, að ferðamönnum fækki næstu árin. Fjölgunin verður þó hægari en á þessu ári. Það er bara hið bezta mál. Tími er kominn til, að ríkisstjórnin fjölgi kömrum um fleiri en núll stykki á ári. Og tími er kominn til, að okrarar úti á landi verði látnir fá róandi sprautur. Á höfuðborgarsvæðinu er verðlag í fínu lagi, svona svipað og í Osló. En það mundi hefna sín að fara upp fyrir Osló í verði. Ferðavandinn er almennt viðráðanlegur.

Efnilegur bræðingur

Punktar

Flokkur fólksins hélt ágætlega sóttan baráttufund í Háskólabíói í vikunni. Þar var mikið af gömlu fólki og öryrkjum. Í þeim hópum er að finna marga, sem hafa verið illa leiknir af róttækum hægri nýfrjálshyggjubófum ríkisstjórnarinnar. Í þennan hóp bætist við ýmislegt fólk, sem er uppi á háa c-i út af flugvellinum í Reykjavík. Einnig ýmislegt fólk, er hefur áhyggjur af múslimum og raunar fleiri útlendingum. Inga Snæland er vinsæll formaður og hefur náð til sín framafólki í hópum ýmiss konar sérhagsmuna. Þessi blanda getur dúkkað upp hvar sem er, til hægri eða vinstri. Getur náð þingmannafylgi, því flestir hata gamla fjórflokkinn.

Þögn er vond

Punktar

Hálfur milljarður fæst í ríkiskassann, þegar lokið er þeim málum, sem þegar eru hafin í kjölfar leyniskjala um skattaskjól. Mest er þetta auðlegðarskattur, sem stinga átti undan. Nöfn hafa ekki verið gefin upp. Ekki heldur, hvort eitthvað af upphæðinni er sekt, sem venjulegt fólk þarf að sæta. Vonandi sleppa þjófarnir ekki bara með að skila þýfinu. Í Mossack Fonseca skjölunum frá Panama voru alls 410 íslenskir skattaðilar. Örlítill minnihluti þeirra hefur verið rannsakaður til fulls. Við vitum ekki, hvort hin falla á tíma. Enginn treystir embættismönnum bananaríkis, ekki heldur ríkisskattstjóra og skattrannsóknastjóra. Þögn er vond.

Góð breyting í bænum

Punktar

Reykjavík er eina borgin, sem ég þekki og hefur leyft rútuakstur upp á dyrum hótela í þröngum miðbæ. Alls staðar gengur fólk eða fær leigubíl síðasta spölinn. Borgin hefur nú bannað rútuakstur að mestu leyti vestan Hringbrautar. Á svæðinu eru rútupláss, þar sem þú getur væntanlega skipt yfir í leigubíla. Eða strætó, ef það hentar betur. Rútur hafa hingað til valdið miklum stíflum á þessu svæði og ama fyrir íbúa og almennan akstur. Enginn ágreiningur er um málið, bara þetta venjulega væl hagsmunaaðila. Auðvitað þarf að fjölga leigubílum af þessu tilefni og verður væntanlega gert. Ekki er allt öfugsnúið í borgarskipulaginu.

Færir til fé

Punktar

Ríkisstjórnin vill leysa allan velferðarvanda með að færa til peninga. Þannig styttir hún biðlista með að lengja biðlista í hjartaþræðingu. Hún gerir dýr lyf ódýrari með að hækka verð ódýrari lyfja. Hún setur fé í einkavinavæðingu með að svelta Landspítalann um peninga. Vitleysingarnir, sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn, telja þetta hið bezta mál. Þegar kvartað er um fjárskort, flytur ríkisstjórnin fé frá einum stað til annars. Hún fæst ekki til fjármagna nauðsynlega velferð. Hún hefur slegið svo mikið af auðlindarentu og auðlegðarskatti, að hún hefur ekki alvörupeninga til neins góðs. Þetta kallast ofstækisfull hægri nýfrjálshyggja.

Goggun í ríkisstjórn

Punktar

Viðreisn er að reyna að koma tveimur málum sínum fram í ríkisstjórninni. Hækka auðlindarentu um sex milljarða og bjarga 300 eigendum íbúða undan Íbúðalánasjóði. Sjálfstæðisflokknum finnst þetta ekki fyndið. Hann ákvað í upphafi að samþykkja engar gerðir samstarfsflokka sinna. Þeir hefðu þann eina tilgang að vera hækjur. Björt framtíð skilur þann tilgang sinn ágætlega og er ekki með mótþróa. Enda er þar frekar heimskt fólk. Viðreisn hefur harðari skráp og vill sýna, að hún hafi átt erindi í prívatstjórn bófaflokksins. Fyrir hönd kvótagreifa skipar Davíð Oddsson Bjarna Benedikts að hefja gagnsókn. Fylgist með framvindu hér á jonas.is.

Hægri-vinstri er úrelt

Punktar

Tölum enn um vinstri og hægri í pólitík, þótt veruleikinn sé flóknari. Álit fólks fer eftir aðstæðum. Sé búið að reka harða hægri pólitík með árásum á velferðina, breytast viðmiðin. Fólk, sem annars væri talið á miðju, virðist vera til vinstri í stuðningi sínum við velferð. Þannig er staðan hér. Allur þorri þjóðarinnar er andvígur niðurskurði velferðar. Í næstu kosningum mun tilræðisfólk gegn velferð bíða mikinn hnekki. Fólk telur varðveizlu velferðar skipta meira máli en flest annað. Þegar Píratar segjast vera róttækur flokkur á miðjunni, en hafa samt aukna velferð á oddinum, er það ekkert undarlegt. Það er eðlilegt í pólitísku stöðunni.

Evrópumaran

Punktar

Maran á vinstri stjórninni var einæði Jóhönnu Sigurðardóttur í Evrópumálinu. Hún hugðist troða aðild upp á samstarfsflokkinn í ríkisstjórn og á þjóðina alla. Hún kunni sér ekki hóf, klauf samstarfsflokkinn og skilaði flokki sínum fylgisleysi. Þannig má ekki böðlast með mál, sem hefur of lítinn stuðning. Tími Evrópuaðildar verður ekki kominn fyrr en eftir eitthvert hrun, sem sannfærir fólk um nauðsyn hennar. Ár eftir ár og áratug er alger minnihluti fyrir aðild að Evrópu. Ég sé það, þótt ég sé fylgjandi aðild. Í pólitík þýðir ekki að böðlast áfram gegn vilja fólks. Hægri stjórninni getur t.d. orðið hált á að böðlast lengi á heilsukerfinu.

Það er ekki Kanarí

Punktar

Í gamla daga fékk Sambandið um helgar að vita af fyrirhugaðri gengislækkun næsta mánudag. Þetta hélt Framsókn uppi um áratugi. Síðar tók Óli þjófur hlutverkið að sér. Jóhannes Nordal upplýsti pupulinn í gamla daga, að þetta væru ekki lækkanir, heldur gengisbreytingar. Nú fiktar Már Guðmundsson í genginu fyrir ríkisstjórn, kvótagreifa og ferðagreifa. Skyndilega léttari höft á gjaldeyriskaupum hafa leitt til straums lífeyrissjóða og annarra helztu bófa landsins með fé til útlanda. Búið að kaupa alla loftkastala innanlands. Erlendis eru kastalar traustari. Þess vegna féll krónan um 3% á mánudaginn. Ekki vegna þess, að þú fórst til Kanarí.

Leyndó, elsku leyndó

Punktar

Leyndarhyggjan er alvarlegasti þáttur umhverfisslyssins við Faxaskjól. Orkuveita Reykjavíkur og dótturfyrirtækið Veitur hugðust halda málinu leyndu. Þetta stóra mál kæmi almenningi ekki við. Þó var talað við tengiaðila borgaryfirvalda, sem kveiktu ekki á perunni. Pólitískir stjórnarmenn á borð við Halldór Halldórsson og Halldór Auðar Svansson kveiktu ekki heldur. Borgarstjóri ekki látinn vita. Dagur Eggertsson segist bara hafa lesið um það í fjölmiðlum. Þarna er hópur valdamanna í opinberum fyrirtækjum borgarinnar og í ráðhúsinu, sem telur leyndarhyggju góða. Píratar þegja hástöfum. Minnir á, að nýja stjórnarskráin hefur ekki tekið gildi.

Trump í Nixons-gryfju

Punktar

Donald Trump líkist Richard Nixon svo, að hann safnar um sig hirð siðblindingja. Nixon hafði Haldeman og Ehrlichmann og fékk Watergate innbrotið í hausinn. Trump hefur siðblindingjana Trump yngri, Kushner og Manafort. Þeir reyndu að semja við rússneska lögmanninn Veselnitskaya um gögn gegn Hilary Clinton í kosningastríði haustsins. Málið er verra fyrir Trump en Nixon að því leyti, að einn af dólgunum er sonur Trumps. Allir eiga þeir yfir sér rannsókn á meintum landráðum. Brot á kosningalögum og lögum um landráð. Tilkynna ber forseta strax um vitneskju um óeðlileg og ólögleg afskipti meintra valda-Rússa af bandarískum innanríkismálum.

Passlega blandan

Punktar

Píratar blanda frjálshyggju og jafnaðarstefnu, hægri og vinstri. Vilja norræna-þýzka velferð, skóla og heilsugæzlu. Líka vilja þeir opið og gegnsætt þjóðfélag, þar sem alþýðan sér, hvað elítan braskar. Vilja auðvelda aðgengi að upplýsingum og leyndarmálum. Vilja að forgangur að auðlindum leiði til rentu, sem rennur til ríkisins. Ýmis slík atriði eru þáttur frjálshyggju, ekki síður en jafnaðarstefnu. Enginn flokkur hefur svipaða stefnu og píratar. Vissast er að kjósa þá, því að allir aðrir þingflokkar hafa burði til svíkja óskir kjósenda sinna. Sjáið bara Viðreisn, Bjarta framtíð, Samfylkingu, Framsókn og íhaldsarm Vinstri grænna.

Fólkið talar beint

Punktar

Alls staðar eru hliðverðir að hverfa. Fólk talar beint í bloggi og á fésbók án milligöngu fjölmiðla. Fólk kaupir sér snjallsíma og nokkrar græjur í viðbót á alls hálfa milljón og fer sjálft að framleiða bíó með iMovie. Fólk kaupir forrit fyrir arkitekta og hannar eigið hús. Fólk fær sér snjalltæki, sem skrifar nótur í leiðinni. Fólk lærir að fljúga og lenda um allan heim í flughermi. Fólk lætur leiðréttingaforrit laga hjá sér íslenzkuna. Fólk skoðar deilumál í Google og kemst að sannleikanum á Wikipedia. Hvað sem segja má um vandræði nútímans, þá er morgunljóst, að geta fólk til þroskast og verða viðræðuhæft er að margfaldast.