Punktar

Skilningur hafinn

Punktar

Alþjóða efnahagsstofnanir eru farnar að birta tölur, sem sýna stöðnun í hagsæld vesturlanda. Allur svonefndur hagvöxtur lendir í klóm ríkasta prósents fólksins, en ekkert til fátækustu tíu prósentanna. Stafar af, að hagfræði vesturlanda gerði nýfrjálshyggju að trúarbrögðum. Ferlið var svipað hér á landi. Langan tíma tók að fatta, að trúarbrögðin enda með ósköpum. Lengst er það komið í Bandaríkjunum. Þar eru borgarkjarnar að breytast í þriðja heims skrímsli með útigangsfólki um allar trissur. Þar er fólkið að byrja að skilja, að svona getur það ekki lengur gengið. Jafnvel kviknar á peru hagfræðinga. Þeir byrja að kveðja gömlu trúarbrögðin sín.

Þá var ég ungur

Punktar

Þegar ég var ungur, hélt ég, að á Íslandi væri ókeypis velferð að norrænum hætti. Líklega var það nokkurn veginn rétt í þá daga. Nú veit ég, að ekki lengur ríkir hér ókeypis velferð. Fólk borgar sjálft vaxandi hluta. Fátækir eru látnir borga sitt krabbamein. Margir neita sér beinlínis um læknishjálp og lyfjakaup. Þessi stefna er keyrð fram af pólitísku trúarofstæki, þótt ríflegur meirihluti kjósenda vilji ókeypis velferð. Ég fylgi þeim meirihluta, en er ekki sósíalisti. Tel þetta vera ástand, sem þarf að laga og verði lagað. Felur bara í sér mannlega samstöðu, burtséð frá gömlum kreddum. Sem hafa um áratugi stolið öllum hagvexti Íslands.

Úldin lögguepli

Punktar

Um daginn var kallað í lögreglu vegna árásar. Hún kom og setti fórnarlambið í handjárn og fangelsi, en sleppti árásarmanninum. Fórnarlambið er frá Palestínu, en lengi búsett á Íslandi. Löggan laug, að fórnardýrið hafi verið með hníf, en tókst ekki að sýna neitt sönnunargagn, Löggan laug, að árásarmaðurinn hafir verið vopnlaus, en hann var með hnúajárn. Starfsfólk á staðnum staðfesti þessa frásögn, svo og öryggismyndavélar. Engar skýringar hafa fengizt hjá löggunni, þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Hreinsa þarf rasista úr löggunni og sömuleiðis þá yfirmenn, sem vernda rasistalöggur. Sum eplin við Hlemm eru greinilega úldin.

Einangraður Trump

Punktar

Trump einangraðist í loftslagsmálum á stórveldafundinum í Hamborg. Öll nítján ríkin fyrir utan Bandaríkin ítrekuðu þá stefnu sína að verja lofslagið hér á jörð. Theresa May frá Bretlandi og Angela Merkel frá Þýzkalandi skömmuðu Trump fyrir framgönguna. Ekki fer hjá því, að almenningur í þessum nítján ríkjum standi með ályktuninni og fólki þyki Trump vera ómerkilegur. Öðru máli gegnir um Bandaríkin, þar sem fólk hefur afar brenglaða sýn á umheiminn. Það sér þó, að þeirra eigið fífl stendur eitt gegn öllum. Niðurstaða fundarins í Hamborg er ekki líkleg til að stuðla að vilja til að halda áfram aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Í grænum hvelli

Punktar

Orkuveita Reykjavíkur og borgarstjórnin ætluðu að þegja í hel umhverfisslysið við Faxaskjól. Þar runnu á hverri sekúndu 750 lítrar af óhreinu skólpi út í fjöruna síðan 26. júní. Í tíu daga var ástandið slíkt. Heilbrigðiseftirlit og Orkuveitan segja þetta „bagalegt“. Bagalegt? Burt með orkuveitustjórann og aðra þá, sem sinntu ekki eftirliti með skólpi í Reykjavík. Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra í tvær vikur. Fram að þessu var hann daglega í fréttum að klippa borða af minnsta tilefni. Hvorki dugir að þegja sem fastast né kalla þetta bagalegt. Laga þarf ástandið í grænum hvelli og biðjast opinberlega afsökunar.

2 toppar og 1 fífl

Punktar

Efast um, að Donald Trump hafi nokkuð að gera í búrið með Vladimír Putín. Sá síðari er skarpgreindur og slægur, veit hvað hann vill. Yfirleitt er vont fyrir Trump að fara mikið úr landi, því að hann er vond auglýsing fyrir Bandaríkin. Heimskur maður og ófarsæll, algerlega laus við nokkra þekkingu á utanríkismálum. Gráglettið var, að Angela Merkel skyldi bjóða konu hans og dóttur í ferð um grænan iðnað í Þýzkalandi. Hún er eini leiðtoginn í hinum vestræna heimi nú um stundir. Ætti að vera í búrinu með Pútín. Mundi stíga þétt í báða fætur. Sjáið, hvernig hún hefur höndlað hægri stefnu samhliða miklum stuðningi við flóttafólk.

Hryðjuverk ríkisstjórnar

Punktar

Íslenzk heilsugæzla er góð tæknilega og hæfnislega. Vandinn felst fyrst og fremst í ágengum tilraunum últra-hægri ríkisstjórnar til að einkavæða reksturinn. Gerir það með því að svelta Landspítalann og heilsugæzlustöðvar. Kannanir sýna, að stór meirihluti kjósenda hafnar tilrauninni. Meirihlutinn vill, að ríkisstjórnin hætti fautaskap, sem kostar mannslíf. Því miður ber nærri helmingur kjósenda ábyrgð á þessum ósköpum. Þeim er siðferðilega skylt að neita bófaflokkum um atkvæði sitt. Sjálfstæðisflokkurinn og fylginautar í Bjartri framtíð og Viðreisn þurfa að fá varanlega hvíld frá óhæfu sinni. Kannanir sýna, að allur þorri þjóðarinnar vill opinbera heilsuþjónustu.

Siðlaus og svikull

Punktar

Í stað lýsingarorðanna Siðlaus og Svikull hafa pólitíkusar búið til orðskrípið Stjórntækur. Pólitíkusar og pólitískir flokkar eru taldir stjórntækir, vilji þeir gefa eftir öll yfirlýst stefnumál fyrir ráðherrastóla. Sýnishorn af slíku eru Viðreisn og Björt framtíð, sem sitja í stjórn með bófaflokki. Pólitíkusar og pólitískir flokkar, sem vilja negla stefnuna í gerðum ríkisstjórnar, eru nefndir Óstjórntækir. Þessari skrítnu hugsun er einkum haldið fram í DV upp á síðkastið. Endalaust hafa verið gefin loforð um nýja stjórnarskrá, norræna velferð og uppboð veiðileyfa, án þess að meint sé neitt með því. Það kallast að vera Stjórntækur.

Siðblinda sem listgrein

Punktar

Siðblindingjar eru flestir í Sjálfstæðisflokknum. Gerðir hans stefna yfirleitt að auknu svigrúmi til skattsvika og skattalækkana ríkra. Þær stefna að forgangi svonefndra pilsfaldakapítalista, sem mjólka ríkið. Auðveldast er að sjá gegnum siðblindingja af orðum þeirra, því að lygin er þeim töm. Þeir ljúga því sem þeim hentar hverju sinni. Oft má sjá þetta ferli um vikur, mánuði og ár. Þeir lofa tilteknum gerðum fyrir kosningar og gera svo allt annað og gagnstætt strax eftir þær. Margir kjósendur láta sig þetta litlu eða engu skipta. Þegar siðblindir sjá, að þeir komast upp með lygina, magna þeir hana og reyna að gera að listgrein.

Tapa alls staðar

Punktar

Bandaríkin eru á hálum ís. Æsa almenningsálitið gegn óþrifastjórn Norður-Kóreu með misnotkun hlýðinna fjölmiðla. Eru samtímis að abbast upp á Íran. Er fólk ekki búið að fá nóg af hernaði Bandaríkjanna í Asíu? Fyrst náðu þau bara jöfnu við Norður-Kóreu. Svo töpuðu Bandaríkin fyrir Norður-Víetnam. Frægar eru myndirnar af stjórnlausum tilraunum fólks til að flýja upp í þyrlu af þaki sendiráðsins í Saigon. Næst kom stríð gegn Afganistan, sem nú er nánast samfelld rúst, án þess að komið hafi að gagni. Svo Írak og loks Sýrland, samfelld geðveiki bandarísks flughernaðar. Bandaríkin tapa alls staðar. Það hefur sýnt sig fimm sinnum í röð.

Óstjórntækir

Punktar

Stjórnarandstaðan á að hætta að tala um, hverjir séu óstjórntækir. Ómerkilegt orð yfir skoðanaágreining. Til þess fallið að kenna einhverjum öðrum um. Miklu nær er að nota sumarið til að finna, hvað ber á milli. Taka svo sem þrjár-fjórar helztu óskir hvers flokks og bera saman. Mér sýnist víða vera samhljómur milli flokka. Skoðanakannanir benda til, að þjóðin vilji norræna velferð og uppboð veiðileyfa. Stjórnarandstaðan ætti að geta samið um slík atriði. Stundum þykjast flokkar, til dæmis Vinstri græn og Samfylkingin, hafa slíkar skoðanir, en renna ævinlega á rassinn, þegar til kastanna kemur. Út af valdamiklum íhaldsöflum innan flokkanna.

Kynóðar löggur

Punktar

Gamalmenni í Midsomar og Morse leystu létta grínið um Bond af hólmi. Alir urðu að lokum leiðir og tóku Nordique Noir fagnandi. Hetjan varð drykkfelldur, miðaldra og feitur rannsóknarlöggi, stinkandi í vinnunni, fráskilinn einbúi, nagaði svið á Umferðarmiðstöðinni og svaf í fötunum, átti táningsdóttur í dópinu. Fólk varð fljótt leitt á því. Við tók Nordique Bleu. Nýjar hetjur, magrar rannsóknarlöggur, fráskildar með smábörn, til skiptis kynóðar eða á trúnó með vinkonum. Þessar mögru kerlur eru fjörugri en feitu karlarnir og endast enn, taka bófana haustaki og rota þá á nóinu. Samsvara tíðarandanum, femínisma, og munu endast enn um sinn.

Ástæðan er einföld

Punktar

Þegar Píratar eru sagðir vera fyrirstaða vinstri stjórnar, er ástæðan einföld. Píratar eru fastir á, að lokaðir fundir og leynipappírar séu opnir almenningi. Píratar eru fastir á, að komið sé upp norrænt-þýzkri velferð í heilsu, öldrun, örorku og skólum. Píratar eru fastir á, að komið sé á uppboði leigukvóta í útgerð. Er eini flokkurinn, sem stendur fast á þessu þrennu. Hinir eru allir meira eða minna flæktir í fyrirbærið Fjórflokkurinn. Hagsmunagæzla er 100% af vinnu ríkisstjórnarflokkanna. Á líka hluta af stjórnarandstöðunni. Sá hluti mun standa vörð um sérhagsmuni auðsins. Þar er fyrirstaðan, hún er ekki pírata.

Vill herða eftirlit

Punktar

Gaman er að sjá titringinn á skrifstofu samtaka atvinnurekenda, þegar samtök á alþjóðavettvangi hverfa frá nýfrjálshyggju. Framkvæmdastjórinn, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn vera „brokkgengan“. Sök sjóðsins er að benda á þann sjálfsagða hlut, að efla þurfi fjármálaeftirlitið. Hér varð hrun vegna frosins fjármálaeftirlits. Sem enn í dag er jafn skoplegt. Fleiri fréttir verða atvinnurekendum til sárinda. Efnahagsframfarastofnunin OECD segir, að kaupmáttur hinna 10% fátækustu hafi minnkað frá aldamótum, þótt kaupmáttur meðalfólks hafi aukizt. Eitt meginmarkmiða bófaflokka í verzlun og pólitík er að auka fátækt á Íslandi.

Bjart framundan

Punktar

Meðan gisting og matur ferðafólks er ekki dýrari en í Noregi, efast ég um, að verð fæli ferðafólk. Enda sé ekki engin merki um slíkt í ummælum gesta. Fólk veit fyrirfram, að landið er dýrt. Okur er ekki til umræðu í TripAdvisor, heldur nærri eingöngu frábær matur og frábær þjónusta. Atvinnugreinin í heild hefur sannað sig rækilega á stuttum tíma. Fólk er líka ánægt með landið sjálft, með fjölbreytni umfram Noreg, eld og ís. Ísland er og verður næsti bær við „Lord of the Rings“ og „Game of Thrones“. Við þurfum bara að drífa í að bæta snyrtiaðstöðu á mikilvægum stöðum og auðvelda aðgengi að myndatökustöðum. Unnt er að margfalda bransann.