Punktar

Næsta bylting

Punktar

Vextir geta ekki lengi verið miklu hærri en hagvöxtur. Fólk og fyrirtæki geta ekki borgað meiri vexti en sem nemur rekstrarafgangi fjölskyldu eða fyrirtækis. Misræmið leiðir til þess, að arður fjármagnseigenda sprengir hagkerfið. Verðmæti færast hratt frá launatekjum yfir til fjármagnstekna. Það er í hróplegu ósamræmi við jöfnuð, réttlæti og lýðræði. Mun hverfa í næstu byltingu, er hlýtur að vera á næsta leiti. Ört vaxandi munur ofsaríkra og bláfátækra hlýtur að leiða til slíks ferils. Hér á landi stefnir ríkisstjórnin óhikað að því, í kjölfar Bandaríkjanna. Byltingin mun síðan fela í sér ofursköttun ofurfjár og gerbreyttan bankarekstur.

Píratar vísa veginn

Punktar

Sé engar líkur á, að órói innan Pírata standi í vegi myndunar ríkisstjórnar á grundvelli stjórnarandstöðunnar. Það er áróður stjórnarflokkanna, sem eiga í auknum erfiðleikum með að ná samstöðu um stefnumál. Þeir vilja telja fólki trú um, að engir geti stjórnað nema bófarnir. Píratar náðu góðum kosningum, hafa grandskoðað fjölda mála og eru með mál sín á hreinu. Vegna mjög svo hættulegs ofsa ríkisstjórnarinnar gegn fátæku, gömlu og veiku fólki, sýnast Píratar vera sósíalskir í samanburði við aðra. Þá gleymist, að mörg stefnumál þeirra fjalla um minni forsjárhyggju og meira sjálfstæði borgaranna með auknu gegnsæi kerfanna.

Feiknarlega óvinsælir

Punktar

Flestir ráðherrarnir eru samkvæmt könnun Maskínu tvöfalt óvinsælli en sem nemur vinsældum. Á botni öskutunnunnar liggur Jón Gunnarsson með fimmfaldar óvinsældir á við vinsældir. Allir formenn stjórnarflokkanna eru tvöfalt óvinsælir, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og hinn illræmdi Óttarr Proppé. Feiknarlega óvinsæl eru einnig Sigríður Andersen og Kristján Júlíusson. Jafnvægi vinsælda og óvinsælda ná aðeins Guðlaugur Þór og Þordís Kolbrún. Landsmenn hafa lítið álit á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þykir þeir hafa staðið sig illa. Ef til vill er teflonið farið að nuddast af Bjarna Ben og öðrum svikurum við kosningaloforðin.

Sprengið þá

Punktar

Þekktasti rannsóknablaðamaður heims er Seymour Hersh. Kom upp um hryðjuverkin í My Lai 1968 og Abu Ghraib 2003 og hefur lengi verið sérfræðingur Independent í málefnum Miðausturlanda. Í DIE WELT birtist gagnrýni hans á fréttir frá Sýrlandi, þar sem Assad Sýrlandsforseta og Wladimir Pútín Rússlandsforseta er kennt um helztu loftárásir í Sýrlandi. Í raun eru þær oftast framdar af bandaríska hernum með hjálp rússneska hersins. Þoturnar eru bandarískar, stjórnturnar rússneskir. Fréttir um sarín-gasárásir Assad eru skáldaðar. Fjölmiðlar birta enn í dag áróður leyniþjónusta, þótt rannsóknir sýni, að hann sé hreinn skáldskapur. Stríðsfundir Bandaríkjanna felast í, að Trump, sem les engin gögn, gargar: „Sprengið þá“.

Vændi er fag

Punktar

Skynsamlegt væri að leyfa kaup og sölu á vændi. Svo er í Þýzkalandi, þar sem fylgzt er með heilsu og velferð vændisfólks. Passað er upp á, að það sé sjálfs sín ráðandi, ekki á vegum þrælahaldara. Víða hafa þýzkar borgarstjórnir byggt þekkt vændishús, þar sem vændisfólk leigir ódýrt þægilegar íbúðir og tekur á móti viðskiptafólki. Eins og fíkniefni er vændi ekki fyrirbæri, sem hægt er að banna. Það fer bara á svarta markaðinn, ef forsjárhyggjan fer úr hófi fram. Vændisfólk á að njóta verndar sem venjulegir borgarar með réttindi og skyldur borgara og borga skatta eins og annað fólk. Gott væri líka, ef tryggð væru góð laun í faginu.

Kókaín og kristall

Punktar

Kókaín og kristall meth eru talin hættulegri fíkniefni en áfengi, en önnur efni minna hættuleg, svo sem hass og maríúana. Áfengi hefur sums staðar verið bannað um skeið, en með litlum árangri og miklum vexti glæpasamtaka á borð við mafíuna. Mér finnst reynslan sýna, að bann fíkniefna sé gagnslaus forsjárhyggja. Betra sé að hafa fíkniefni á opinberum boðstólum, svo sem í áfengisbúðum. Þar með fáist eftirlit með innihaldi efnanna og tekjurnar renni til sameiginlega þarfa, fremur en til glæpasamtaka. Raunar finnst mér líka, að leyfa eigi vændi, en það er annað og flóknara dæmi. Bezt að fylgja fordæmi Þýzkalands, sem hefur stjórn á vændinu.

Bakland ókyrrist

Punktar

Baklandið í Viðreisn er farið að ókyrrast. Flokkurinn hefur ekki sýnt tilþrif í stjórninni. Sýni hann frumkvæði, sætir hann háði þingmanna í Sjálfstæðisflokki. Slík ókyrrð er ekki í Bjartri framtíð, sem á ekki lengur bakland. Viðreisn er þó altjend enn með 5,5% fylgi og gæti komið manni á þing í næstu kosningum. Stutt er til sveitarstjórnakosninga og baklandið vill flýta landsþingi til næsta hausts. Ekki er hægt að sjá neina hreyfingu á spurningunni um aðild Íslands að Evrópu. Og skipuð hefur verið rifrildisnefnd til að drepa á dreif uppboðum á veiðileyfum. Í sveitarstjórnakosningunum mun Björt framtíð deyja og Viðreisn fara á nástráið.

Siðblinda í tómri sál

Punktar

Flestir hafa eins konar sál, þar sem safnast upp skilningur mismunar á réttu og röngu. Börn læra af foreldrum og ættingjum, skólum og skólafélögum, og umhverfinu öllu, hvernig gott fólk hagar sér. Hjá sumum er sálin að miklu eða öllu leyti tóm. Þeir eru sagðir siðvilltir eða siðblindir. Þeir láta sig náungann engu skipta, finna ekki til með honum og koma honum ekki til hjálpar. Erfitt er að sjá gegnum siðblinda, því þeir leika hlutverk, sem hentar hverju sinni. Oftast leikur lygin þó svo lausum hala, að fórnardýrin átta sig. Siðblindingjar eru fjölmennir meðal pólitíkusa og viðskiptagreifa. Til dæmis í Sjálfstæðisflokki og bönkum.

Hunzkastu heim

Punktar

Kristín Völundardóttir er heimsk og illa innrætt. Hvað eftir annað eru ákvarðanir forstjóra Útlendingastofnunar gerðar afturreka í Innanríkisráðuneytinu. Steininn tók þó úr, þegar hún hugðist reka velgerðamanninn Bala Kam­allak­har­an úr landi eftir að hafa búið hér í rúman áratug. Tími er kominn til að taka forstjórann úr sambandi og koma henni fyrir á þar til bærri stofnun. Síðan þarf að reka þessar sjötíu lögfræðimenntuðu íhaldskerlingar hennar, sem ekkert gera af viti. Loks má læsa Útlendingastofnun og setja þar upp símsvara, sem segir: „Hunzkastu heim, helvítis útlendingurinn þinn“. Flytja síðan símtalið yfir í Innanríkisráðuneytið.

Sjálfsmorð hagstefnunnar

Punktar

Enginn hagfræðilegur ágreiningur er um meginvanda vestrænna þjóða: Tekju- og eignamunur á vesturlöndum víkkaði mjög á síðustu áratugum 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar. Hinir allra ríkustu verða sífellt ríkari, en þeir fátækustu dragast aftur úr. Án byltingar er ekkert, sem getur hindrað, að nýfrjálshyggja vesturlanda fremji sjálfsmorð. Pólitíkin verður að spyrna við fótum og jafna aðstöðu fólks. Annars endar þetta með byltingu. Fáránlegt er að ímynda sér, að fólk muni endalaust sætta sig við arðrán og sífelldar kreppur nýfrjálshyggjunnar. Við þurfum strax að skattleggja ofurtekjur, ofureignir og séraðgang að auðlindum.

Ofsinn í náttúrunni

Punktar

Við höfum í fréttum fylgzt með auknum ofsa í náttúrunni. Eldgos á landi og undir sjó valda sjávargangi víða um heim. Skjálftar á mörkum meginfleka jarðskorpunnar hafa svipuð áhrif. Einnig jarðskrið og snjóskrið. Ekki síður stormar, sem magnast upp í hvirfilbylji og ofsarok. Skógareldar ágerast ár eftir ár. Sumt af þessu er upprunalega af mannavöldum. Ein afleiðingin af þessu öllu er aukinn sjávargangur, sem ógnar þéttbýli víð strendur landa, jafnvel heilum ríkjum. Fjölþjóðasamvinna hefur verið skrykkjótt og sætir núna afspyrnu heimskum forseta Bandaríkjanna. Við þessar aðstæður dugir ekki að afneita staðreyndum og stinga höfðinu í sandinn.

Daufari píratar

Punktar

Eftir mikinn dugnað í kosningabaráttu hafa Píratar dofnað á vefnum. Innri umræða á Fuglabjarginu er nánast dauð. Ytri umræða á Píratavefnum minnkaði og varðar pírata misjafnt. Enn er töluvert um hitting í raunheimi, en hittingur í vefheimi er lítill. Fjöldinn tók fyrir kosningar þátt í umræðu um stefnu á ótal sviðum. Úr því kom frekar vönduð og trúverðug stefna, að minnsta kosti í samanburði við aðra flokka. Vegna aðstæðna í pólitík, langvinnrar keyrslu samfélagsins til hægri, var stefnan talin til vinstri. Því valda semsagt tímabundnar aðstæður. Við eðlilegar aðstæður og norræna velferð væri stefnan á róttækri miðju. Hún ætti að seljast.

Eykst og eykst og eykst

Punktar

Ferðamönnum mun enn fjölga næstu árin. Pantanir erlendra flugfélaga á lendingum í Keflavík segja allt, sem segja þarf. Flest þeirra auka sætaframboð á næsta ári. Þetta segir meira en hryllingssögur almannatengla ferðaþjónustunnar. Búast má við Asíuflugi, sem mun fjölga Kínverjum og Japönum og síðar Indverjum. Reynsla segir okkur, að þeir noti meira fé en Englendingar, sem eru minnkandi hluti ferðafólks. Ferðafólk á Íslandi er enn innan við 1% alls ferðafólks, en í nýríku löndunum búa milljarðar. Ísland er í öðrum klassa en sólarlönd og getur jafnvel selt rok og rigningu. Og það er hreint bull, að krónan sé of há. Evran fer undir hundraðkall.

Fátækrastyrkur endurvakinn

Punktar

Þjófnaður ríkisins á fé lífeyrisfólks er kominn á endastöð. Formlega lýst yfir, að almannatryggingar séu ekki fyrsta stoð eftirlaunakerfisins. Lífeyrisfólk fær því ekki lengur ellilaun. Það þarf sjálft að vinna fyrir ellinni. Eftirlaun fá þá bara sjúklingar og öryrkjar, sem ekki gátu safnað í lífeyrissjóð. Lífeyrir var hugsaður sem viðbót við ellilaun, en hefur nú verið klófestur af ríkinu. Auðvitað er það Sjálfstæðisflokkurinn, sem stendur fyrir þessu. Hann er mesti flokkur hærri skatta, hvað varðar fátæklinga. Ríkisstjórnin hefur hætt norrænni velferð hjá gamla fólkinu. Í staðinn endurvakið gamla fátækrastyrkinn frá því fyrir 1946.

Sprekið í hafinu

Punktar

Hef litla trú á, að gengi krónunnar lækki á næstu misserum. Hefur að jafnaði verið á uppleið allt árið. Ytri skilyrði eru ekki að fara að versna. Ferðamenn verða fleiri en í fyrra og næsta ár verða þeir fleiri en í ár. Aflabrögð verða betri en í fyrra. Ég sé ekki, að slíkt gefi tilefni til lægri krónu. Dýrt fúsk í Seðlabankanum hefur ekki nein áhrif. Né heldur grátkórar hagsmunaaðila. Dollarinn er á leið niður fyrir hundraðkallinn og evran niður að hundraðkalli. Pundið er í sínu eigin Brexit-rugli og verður áfram, þegar bankarnir flýja til Frankfurt. Íslenzka krónan verður áfram sprek í gengishafinu, handónýt sem gjaldmiðill.