Punktar

Martröðin mildast

Punktar

Ráðagerðin um borgarlínu hefir verið þrengd niður í rúmlega hálfrar aldar gamalt fyrirbæri, „hraðferð“, með sjoppu á endastöðvum. Fyrirhugaðir strætóar verða eins og við þekkjum þá, hvorki á teinum né með raflínum í lofti, heldur á dekkjum og með stýri til að beygja. Sjoppurnar voru félagsheimili unglinga hins gamla tíma. Borgarlínan á að verða til á löngum tíma og kosta mikið, 70 milljarða. Kannski má borga verkefnið að hluta með því að selja dýrar lóðir við stoppistöðvar. En það hræðir fólk, þegar glittir í Hjálmar Sveinsson tuða um uppgjör við einkabílisma. Hann minnir þig alltaf á munkinn Savonarola í Flórens og fær margar útstrikanir.

Lífið veitir ekki verðlaun

Punktar

Táningur las ég siðaspekingana Bertrand Russell og Krishnamurti. Þeir skrifa vel um lífið og tilveruna. Af Russell lærði ég, að gæzka þyrfti engin verðlaun. Á endanum biði bara mold eða eldur. Engin verðlaunaafhending í Himnaríki eða nýju lífi. Gæzka væri sín eigin verðlaun. Gerir ráð fyrir, að fólk sé siðmenntað, hagi sér í umhverfinu, gefi stefnuljós, fari eftir öðrum skynsamlegum lögum og reglum, heilsi fólki og tali fyrst um veðrið. Hvorugur þeirra sagði mér þó, þannig að ég skildi, að sumt fólk hefur ekki samvizku, er siðblint. Slíkum fjölgaði rétt fyrir aldamót, þegar „græðgi er góð“ varð boðorð. Þeim fækkar nú aftur, sem betur fer.

Sjóðir tapa á okri

Punktar

Eitthvað verður undan að láta, þegar Costco yfirtekur fjórðung af neyzluverzlun þjóðarinnar. Hef enga trú á, að verzlunarkeðjur ráði við byltinguna. Geta ekki lækkað verð að gagni, því að þeir kunna ekki að verzla með lágri álagningu. Eru háðir okri eins og fyllibyttan brennivíni. Greifar eins og Hagar-Hagkaup-Bónus fara bara á hausinn og banksterar afskrifa andlátið. Viðskiptafólk banka borgar brúsann. Ekki má heldur gleyma lífeyrissjóðunum, sem hafa fjárfest gríðarlega í okurverzlun. Þeir munu tapa fé lífeyriseigenda og gera fólki mjög erfitt að lifa í ellinni. Þegar öll keðja spillingarinnar rofnar, verður vonandi fjandinn laus.

Áfall Theresu og Brexit

Punktar

Theresa May tapaði veðmáli sínu í brezku þingkosningunum. Ætlaði sér stóraukinn meirihluta á þingi til að létta Brexit. Missti í staðinn þann nauma meirihluta, sem hún hafði. Samsteypustjórn verður mynduð í sumar, annað hvort undir stjórn nýs foringja Íhaldsins eða Jeremy Corbyn, foringja Verkamannaflokksins. Blairistar flokksins höfðu talið Corbyn vonlausan, en annað kom á daginn. Bretar lenda nú í vandræðum með Brexit. Úrsögn var áður samþykkt með litlum meirihluta, sem er nú horfinn. Bretland getur ekki hlaupið um vængjahurð úr og inn í Evrópu, Því verður einhver frestur út útgöngu. Í London og Skotlandi andar fólk léttar.

Næsti bær við Himnaríki

Punktar

Jæja, kominn í kaupfélagið á gamals aldri, fór í Costco. Sannfærðist um það, sem flestir segja. Hér er bylting í verzlun. Ávextir og grænmeti ferskt og hræódýrt. Eplalykt eins og á jólunum fyrir 70 árum. Tómatar með bragði, ekki vatnsræktaðir eins og hér. Ber af mörgum sortum á þolanlegu verði. Hvergi skemmt stykki. Grana alvöruostur með ljúfum vínberjum. Skinkur eins og hver vill hafa. Er hættur við að flýja bófaflokkinn til Sikileyjar, þar sem mafían er komin að fótum fram. Því má búast við að ég haldi áfram að níðast á bófaflokknum hér heima, meðan ég velti tómötum um gómana. SLæðist svo kannski í rússneskt Beluga, Oscietre eða Sevruga.

Margblessaður kóngurinn

Punktar

Norski kóngurinn stöðvaði Sturlungaöld. Því lifðu Íslendingar af Svarta dauða og aðrar hörmungar. Síðan varð kóngurinn danskur. Sendi okkur Harboe að kenna okkur að lesa. Borgaði fé til að rétta við eftir Móðuharðindin 1786, afnam vistarbandið 1894. Til allrar ógæfu varð Ísland fullvalda 1918 og síðan lýðveldi árið 1944. Síðan hefur verið hér ógæfustjórn tveggja bófaflokka, Sjálfstæðis og Framsóknar, stundum með hjálp forvera Samfylkingarinnar. Ekkert óttast bófaflokkarnir meira en Evrópusambandið, sem færir okkur lög eins og margblessaður danski kóngurinn á fyrri öldum. Tengslin við sambandið munu svo bjarga okkur frá þjóðarheimskunni.

Danir björguðu okkur

Punktar

Öldum saman hefur íslenzk pólitík snúist um, að yfirstéttin missi ekki tökin. Sem nýlenduveldi reyndu Danir hvað eftir annað að hafa heimil á ofsagræðgi íslenzkra biskupa og sýslumanna. Franska byltingin varð í Danmörku 1786, þegar borgarar í Kaupmannahöfn þvinguðu lýðræði upp á konungsveldið. Meðal krafna, sem náðu fram að ganga, var aðstoð við Íslendinga eftir Móðuharðindin. Ennfremur sala á jörðum biskupsstóla til bænda. Það var upphafið að íslenzkum nútíma. Vistarbandið var svo afnumið 1874 að dönsku frumkvæði. Íslenzka yfirstéttin var þá beygð í duftið.  Hún hamast að vísu enn í formi bófaflokksins, sem heldur gróðanum frá almenningi.

Höfnum bófaflokkum

Punktar

Alþýða manna andvarpar og segir: Þeir eru allir eins. Kvartar yfir svonefndum fjórflokki, þótt einn bófaflokkur hafi meira eða minna stjórnað landinu í heila öld. Óbeitin á fjórflokknum er ræktuð, til að alþýðan fatti ekki, að hún hefur völd. Hún er látin halda, að sama sé, hvað kosið er. Þekktir þrjótar séu skárri en nýir þrjótar. Fólk þarf að gera uppreisn í kjörklefanum. Síðast hefði fólkið átt að kjósa pírata, en getur gert það í næsta skipti. Fólk þarf að sjá gegnum newspeak almannatengla og endurreisa samfélagið. Fólk þarf að skilja, að græðgi er ekki góð, heldur firna vond. Um næga flokka er að velja aðra en bófaflokkana.

Ástin undir pilsfaldi

Punktar

Auðgreifarnir elska ríkið, því að þeir notfæra sér það. Fá milljarða afslátt af kvótaleigu. Af tekjuskatti útflutnings og ferðaþjónustu vegna hækkunar í hafi. Af innherjaupplýsingum af margs konar tagi. Raunar er nánast allur gróði á landinu fenginn undir pilsfaldi ríkisins. Um leið reka auðgreifarnir mikinn áróður gegn ríkinu og velferð þess. Þeir láta ríkið svelta spítala, skóla og alla velferð til óvinsælda. Bjóða fram einkavinarekstur í staðinn, með miklum umframkostnaði. Þeir nota fávita verkalýðsfélaga til að brenna peningum lífeyrissjóða í ábyrgðarlausu braski, sem síðan er afskrifað. Hér verða menn aðeins ríkir undir pilsfaldinum.

Mesta afrek fullveldis

Punktar

Ætla í Costco, þegar biðraðir hverfa. Samkvæmt fréttum er þessi verzlun bylting í verzlunarháttum. Hingað til hefur verið einokun, þar sem yfirmenn Krónunnar ráða verði með pílukasti í kaffitímanum. Klukkutíma síðar er Bónus kominn með verð, sem er einni krónu lægra á pakkningu. Tveimur tímum síðar eru sólarhringsbúðirnar komnar með verð, sem er tilteknum prósentum hærra en Bónus, minnst 100% hærra. Þessi hringferð einokunar er séríslenzkt fyrirbæri, sem heitir frjáls verzlun. Nú eru gamlir kaupfélagsmenn frá Bandaríkjunum komnir með búð á verði, sem minnir á erlent búðaverð. Meira afrek en samanlögð allra ráðherra frá stofnun fullveldis.

Lög höggva á hnúta

Punktar

Flest lög á Íslandi eru þýðingar og endursagnir úr norrænum lögum, hin síðari ár mest úr Evrópulögum. Slík lög eru yfirleitt til góðs, þótt þau séu oft allmiklu ýtarlegri en þörf krefur. Snemma á þjóðveldisöld var ljóst, að setja yrði lög um atriði, sem ollu sífelldum deilum. Svo sem deilum milli landeigenda og ferðafólks á hefðbundnum leiðum. Í fornum lögum er dregin nákvæm lína milli hagsmunaðila og gildir sú lína enn. Ekki voru til lög um samskipti kaupenda og seljenda eigna. Úr því var bætt með lögum frá 2002, sem Hæstiréttur hefur túlkað með dómahefð. Nú er til dæmis ljóst, hvernig dæma ber í ágreiningi um meinta galla á gömlum húsum.

Öfgamúslimar á London Bridge

Punktar

Svo virðist sem hryðjuverkið á London Bridge hafi verið verk þriggja öfgamúslima. Þeir sjálfir féllu fyrir lögreglu. Hún hafði þó ekki upplýst nöfn og uppruna, er þetta er skrifað tólf tímum síðar. Wikipedia hafði þá í varfærnum texta upplýst, að eitt vitni hafi heyrt þá hrópa „Þetta er Allah“. Þar sem þetta gerist í lok þingkosningabaráttu í Bretlandi, verður að bíða eftir nákvæmari fréttum. En sé þetta rétt, er næsta víst, að almennt verði harðari viðhorf til múslima þar í landi og víðar um Evrópu. Ástæðulaust er þó að gera notkun internets erfiðari, eins og Theresa May lagði til í morgun. Pólitíkusar reyna að misnota hryðjuverk.

Borgarlína er ótímabær

Punktar

Fram undan eru tímamót í samgöngum. Allskonar rafknúin, sjálfkeyrð tæki bætast við markaðinn. Við vitum ekki, hvaða útgáfur verða vinsælastar. Vitum ekki, hvort rafknúinn strætó verður vinsæll. Vitum bara, að borgarlínan fyrirhugaða verður mjög dýr. Við val farartækis bætast ýmsir rafknúnir hjólastólar, vespur, reiðhjól og yfirbyggðar útgáfur af 2-4 hjóla tækjum. Ég sé mig fyrir mér fara í rafknúnum hjólastól að aftanverðu upp í rafknúinn, sjálfkeyrðan smábíl, sem tekur þriðja hluta af plássi núverandi einkabíla. Vitum ekki, hvernig akreinar, hjólreinar og gangreinar tækin munu nota. Ótímabært er að veðja á borgarlínu sem framtíðina.

10% skilin eftir

Punktar

Krónan hefur hækkað í verði síðan Seðlabankinn hóf aðgerðir í vetur til að lækka hana. Evran er komin niður í 97 krónur og pundið í 125 krónur. Felur í sér, að kaupmáttur launa eykst í stað þess að minnka, eins og Seðlabankinn vill, að ósk ríkisstjórnarinnar. Seðlabankinn er máttlaus handstýring, sem ræður ekki við ferðafólkið. Vegna rosahækkunar íbúðaverðs nýtist það ekki ungu fólki, sem reynir að koma þaki yfir höfuðið. Býr enn í foreldrahúsum. Nýtist ekki heldur öryrkjum, gamlingjum og sjúklingum, sem ekki lifa á launum, heldur á hjartahlýju velferðar. Hún hefur verið skorið niður við trog. 10% þjóðarinnar missa af ferða-góðærinu.

Landið liggur óbreytt

Punktar

Skoðanakannanir í maí sýna engan stuðning við flokkinn, sem stofnaður var með látum 1. maí. Sósíalistar eru hvergi nefndir. Nánast allt vinstra fólk fylgir Vinstri grænum með 25% atkvæða. Og Bófaflokkurinn er kominn niður á sinn botn í rúmlega 25%. Kannanir hafa verið fremur stöðugar í vetur, íhaldssama hægrið með 25% og íhaldssama vinstrið með 25%. Inn á milli er svo fjölbreytt miðja, þar sem píratar eru fremstir með 15%. Flokkarnir, sem gera bófaflokknum kleift að halda völdum, eru hvor um sig með 5% eða minna. Munu berjast við að sleppa frá útfalli í næstu kosningum. Fróðlegt verður að sjá, hvernig miðjan raðast þá upp.