Punktar

Sterkari en hóruhúsið

Punktar

Lýðræði er marklaust, ef það felst bara í að mæta á kjörstað eftir fjögur ár. Þú þarft að vakta lýðræðið þess á milli. Taka þátt í því. Þrír bófaflokkar fá að mynda ríkisstjórn út á loforð, sem þeir efna alls ekki. Þvert á móti hefja þeir þjófnað, sem ekki var boðaður fyrir kosningar. Þú losnar ekki við bófanna nema með því að halda vöku þinni árið um kring. Fjöldafundir á Austurvelli hafa sýnt vald fjöldans, stundum. Líka fjöldafundur ofan við Þjóðleikhúskjallarann. Bófar eru hræddir við fólk. Hræddir við varðelda, hræddir þegar bíl er hossað, hræddir þegar eggjum er kastað í hóruhúsið við Austurvöll. Þið eruð sterkari en bófarnir.

Fjölbreyttari spilling

Punktar

Spilling er fjölbreyttari en áður var. Sigríður Andersen skipar nokkur kvígildi flokksins í stöðu landsdómara. Það er úldin hefð. Þess vegna eru dómar hvað eftir gerðir afturreka af erlendum dómstólum. Færi kjósendur en áður vilja úldna hefð. Því hefur kjósendum Sjálfstæðisflokksins fækkað. Eru núna komnir í 25%. Stafar líka af, að spilling er fjölbreyttari en áður. Einkum er ítrekað reynt að svelta ríkisrekstur og bjóða upp á einkavinavæðingu sem lausn. Bankarnir leika meira eða minna lausum hala undir stjórn samskonar bófa og áður. Milljarðar af skattfé eru notaðir til auðvelda hækkun í hafi og erlend skattaskjól. Þetta er bófaflokkur.

Fokkings spilling

Punktar

Hafa má það til marks um bága stöðu fjölmiðla að gera sér meiri mat úr bölvi Jóns Þórs Ólafssonar þingpírata en umræðuefninu. Setja það í fyrirsagnir netfrétta sinna. Niðurstaða þeirra er, að Jón sé dóni, en ekki, að Sigríður Andersen sé gegnrotin af spillingu. Daginn áður var það fyrirsagnaefni netmiðla fjölmiðlanna, að lekinn um spillinguna sé mikill vandi sem skerði virðingu alþingis. Niðurstaða þeirra er, að leki sé vondur, en spilling Sigríðar eðlileg. Er raunar fokkings hræsni fjölmiðlanna. Lekinn sýnir, að gerspillt Sigríður handvaldi getulaus kvígildi bófaflokksins fram yfir hæft fólk. Hún skerti virðingu alþingis.

Kapphlaup niður á botn

Punktar

Með frjálsri milliríkjaverzlun er raunverulega átt við kapphlaup láglaunafólks niður á botninn. Framleiðsla er flutt frá Bandaríkjunum. Vestrænar iðnaðarborgir deyja, nema í Þýzkalandi, þar sem nákvæmu örsmáhlutirnir eru smíðaðir. Þeir eru svo fluttir til Suðaustur-Asíu, aðallega til Kína, þar sem samsetning hlutanna í bíla og tæki er ódýrust. Þaðan er varan flutt samsett til Bandaríkjanna. Stór hluti ferilsins er þrælavinnan í Kína, sem er studd tillitsleysi við umhverfi og náttúru. Fríverzlunarsamningar ganga út a kapphlaup aumingja niður á botn. Mikill hluti mannkyns verður að þrælum, sem fá minna kaup en til hnífs og skeiðar.

Eignir ekki heilagar

Punktar

Eignaréttur er eins og margs kyns önnur réttindi, síður en svo heilagari en annar réttur. Um nánast allan hinn vestræna heim eru eignir skattlagðar og ofureignir meira en aðrar. Burtséð, hvort þær urðu til með stuldi, með aðstöðu eða á annan viðurkenndari hátt. Eðlilegt er að leggja háa skattprósentu á gífurlegar eignir hinna hundrað eignamestu og tekjur hinna þúsund tekjuhæstu. Þetta er helzta leið samfélagsins til jöfnunar. Peningarnir eru svo væntanlega notaðir til að halda uppi ókeypis heilsuþjónustu fyrir alla, óvinnufærum öryrkjum, gamlingjum og að hjálpa húsnæðislausu fólki. Sé engan stuld fólginn í skattlagningu fyrir slíkum innviðum samfélagsins.

Ólögleg Andersen

Punktar

Sigríður Andersen er hefðbundinn pólitíkus spillingar. Skipar maka Brynjars Níelssonar í landsdóm. Sjálfstæðismenn hafa lengi haft forgang að sætum dómara. Við sama tækifæri skipaði hún sem dómara einn af þeim, sem lægsta útkomu fékk hjá dómnefnd umsækjenda. Sá var einn fjögurra fallkandidata, sem Sigríður lyfti í dómarasæti. Óhæfir hafa eiga sama rétt hjá Sjálfstæðisflokknum og hæfir, enda dæmi þeir „rétt“. Sigríður gælir við nýfrjálshyggju og talar stundum í samræmi við það. En verkin hennar eru önnur, hin gamalkunna spilling bófaflokksins. Einn umsækjenda vísaði í lög og kallaði þetta „til­raun til ólög­­mætrar emb­ætt­is­­færslu“

Villutrú og rétt trú

Punktar

Þegar þrengist að nýfrjálshyggju, er Bandaríkjunum fórnað. Bandaríkin séu ekki land nýfrjálshyggju, ríkisrekstur sé mikill. Þótt ríkið borgi sumt af brúsanum eru læknisverkin stunduð á einkastofum og einkaspítölum. Því kostar heilsan 14% af landsframleiðslu þar, en ekki nema 9% hér. Við erum beðin um að bera heldur saman við Singapúr sem nýfrjálshyggju og Venezúela sem sósíalisma. Ég held þó að ríkið eigi stóran hluta atvinnulífs og húsnæðis í Singapúr og herforingjastjórn sé í Venezúela. Afneitun nýfrjálshyggju á villutrú Bandaríkjanna minnir á, að sósíalistar afneituðu Sovétinu og sögðu það ekki vera rétttrúaðan sósíalisma.

Skulda- og vaxtagildran

Punktar

Nýfrjálshyggjan leggur almenning í margs konar hlekki. Fyrst missa fótanna þeir, sem þurfa að borga meiri heilsuþjónustu. Síðan koma þeir, sem keypt hafa húsnæði út á gylliboð bankanna. Þeir lenda í skulda- og vaxtagildru og drukkna þar. Sama er að segja um þá, sem sækja í langskólanám. Drukkna í skulda- og vaxtagildru. Fólkið í sjávarplássunum lendir í gildru kvótagreifa, sem færa rekstur sinn út og suður. Ísland í klóm nýfrjálshyggju verður þrælaríki undir stjórn hundrað greifa, sem búa til hverja gildruna á fætur annarri. Þrælarnir eru svo sáttir, að 60.000 manns kjósa  áratugum saman bófaflokk kvótagreifa og annarra pilsfaldagreifa.

Segjum nei fyrir rest

Punktar

Samfélagið er ríkara en nokkru sinni fyrr. Samt virðist ekki vera til fé til að halda uppi velferð að hætti fátækari tíma. Velferðin hefur verið skorin niður til að rýma fyrir hagsmunum auðgreifa. Tekjuskattar fyrirtækja og auðgreifa hafa verið lækkaðir, niðurgreiðslur ríkisskulda hafðar of hraðar. Þar á ofan hefur ríkið neitað sér um fé frá útboðum leigukvóta og annars aðgangs að auðlindum. Öll auðsöfnun hefur lent hjá þeim allra ríkustu. Mismunur ríkra og fátækra hefur stóraukizt. Þetta erum við búin að horfa upp á í nokkra áratugi, án þess að hinn breiði massi hafi áttað sig. Samt kemur að því, að fólk rísi upp og segi nei.

Eftirlit án eftirlits

Punktar

Fjármálakerfi Íslands er nýfrjálshyggja eins og það var fyrir og í hruninu 2008. Eftirlit með bönkum og peningastraumum var eins og Davíð hannaði það. Lagði niður Þjóðhagsstofnun og stofnaði Fjármálaeftirlitið upp á þau býti, að það framkvæmdi ekkert eftirlit. Einkabankar töldu sig hafa ríkisábyrgð fyrir áhættufíkn sinni og reyndust hafa hana að nokkru leyti. Ríkið tók á sig bankana og endurreisti þá í sömu mynd. Sams konar banksterar tóku við af þeim, sem reknir voru. Við þurfum að koma því á hreint, að einn banki sé íbúðasparisjóður og hagi sér samkvæmt því. Einkabankar í áhætturekstri njóti hins vegar alls engrar ábyrgðar úr ríkissjóði.

Hættulegar lögpersónur

Punktar

Undarlegt er, að lög telji fyrirtæki vera persónur, nánar tiltekið lögpersónur. Þetta nota stórfyrirtæki til að þykjast vera persónur, sem njóti sömu réttinda og verndar og aðrar persónur. Njóti til dæmis mannréttinda til að vaða um allan heim og færa fé út og suður. Persónur njóta samt ekki sömu réttinda og lögpersónur í Bandaríkjunum, þær eru innflytjendur ólöglegir, en fyrirtæki ekki. Fólki er mokað út, en fyrirtækjum ekki. Lögpersónur eru ekki settar í fangelsi. Mútur fyrirtækja eru taldar vera málfrelsi. Þannig eru lög skrifuð á kontórum fyrirtækja. Afnema þarf öll tengsli milli persóna annars vegar og svonefndra lögpersóna hins vegar.

Eindreginn þjóðarvilji

Punktar

Kjósendur mega ekki láta sér lynda, að hagtrúar-ofstækismenn breiði í leynum út einkavinavæðingu heilsumála. Allur þorri okkar hefur ítrekað sagt í könnunum, að hann sé algerlega andvígur slíkur ferli. Allur þorri okkar vill ríkisrekið og ókeypis heilbrigðiskerfi upp á 11% landsframleiðslu. Þetta er fullrætt mál, hvað sem hagtrúar-ofstækismenn Hayeks og Friedmans segja. Fólk trúir ekki, að græðgi sé góð. Fólk trúir ekki, að allt megi vera fyrir mig og ekkert fyrir ykkur. Þetta er þáttur í þeirri almennu skoðun Íslendinga, að innviðir samfélagsins skuli vera ríkisreknir: heilsa, skólar, vegir, hafnir, flugvellir og internet-kaplar.

Slök almannatengsli

Punktar

Almannatengsli Pírata eru slök. Margir þingmenn standa sig þó vel á þingi og hafa jafnframt samband við kjósendur, helzt á Pírataspjallinu. Smotterí er á lokaðri flokksrás, kannski eitt innlegg á viku og engin umræða, nánast dauð rás. Fleiri þing- og áhugamenn mættu vera virkir á Pírataspjallinu. Það hefur dofnað frá kosningum. Tröllin hafa verið rekin. Sama frétt á forsíðu dögum saman. Fúttið vantar. Ekki skárra hjá öðrum, en Stjórnmálaspjallið er töluvert virkara, einkum gegn múslimum. Sósíalistaflokkurinn er nokkru daufari en Pírataspjalllið og sama er að segja um Frjálshyggjufélagið. Pólitík er ekki hugleiðsla, heldur birtingar.

Frelsi frá skorti

Punktar

Frelsi er ekki frelsi frá ríki eða sköttum. Raunar er ríkið miðlægt í frelsinu, sér um, að frelsi eins takmarki ekki frelsi annars. Frelsi er frelsi frá fátækt, frelsi frá yfirmönnum, frelsi frá bófum, frelsi frá veikindum, frelsi frá höftum frelsi frá trúarofsa, frelsi frá óöryggi, frelsi frá áhyggjum, frelsi til betra lífs, frelsi til lista og menningar, frelsi til vísinda, frelsi til sérvizku. Mikilvægast af þessu er frelsi frá skorti. Í þungamiðju frelsis eru borgaralaun, laun fyrir að vera til og gera það, sem þig langar til, þar á meðal frelsi til vinnu. Í nútímanum er svo brýnast, að almenningur fái frelsi frá greifunum 100.

Hringekja valdafólks

Punktar

Þolað er í Bandaríkjunum, að menn skipti um hatta. Þingmaður gætir hags auðsins í þingnefnd. Eftir kjörtímabilið gerist hann forstjóri eða pólitískur tengill hjá risafyrirtæki og getur endað sem yfirdómari. Hringekja valdafólks er líka hafin í Evrópu, þar sem Barroso gerðist forstjóri hjá Goldman Sachs, sem áður hafði þegið að vera undir pilsfaldi Evrópusambandsins. Partur af heimsklúbbi valda og auðs. Menn hljóta kosningu vegna fjárveitinga Goldman Sachs, gæta hagsmuna þeirra í pólitík og enda í hægum sessi hjá Goldman Sachs. Í Bandaríkjunum eru nánast allir þingmenn á framfæri sérhagsmuna. Við skulum passa okkur hér, einkum á Engeyingum.