Punktar

Nató er úr fókus

Punktar

Nató var upphaflega stofnað til að stöðva yfirgang Sovétríkjanna í Evrópu. Var bandalag Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, kennt við Atlantshafið. Eftir lok kalda stríðsins er hlutverk þess breytt. Bandaríkin þrýsta því að taka þátt í hernaði í öðrum álfum, einkum í Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku. Stríð Bandaríkjanna hafa verið samfellt fát á þessum svæðum heimsins. Ég sé ekki neinn tilgang Evrópu að taka þátt í harmleiknum, sem þessi stríð hafa verið og eru enn. Sýrland og Írak og Jemen eru samfelld rúst. Bandaríkin halla sér einkum að mestu vandræðaríkjum svæðisins, Ísrael og Sádi-Arabíu. Nató þarf að losa sig frá þessu ofur-klúðri.

Aðeins einn flokkur

Punktar

Allir þingflokkar nema Píratar hafa verið í ríkisstjórn minnst eitt kjörtímabil af þremur síðustu. Enginn þeirra hefur reynt að lögfesta stjórnarskrá fólksins. Enginn þeirra hefur reynt að koma á raunverði kvótaleigu með því að setja hana á uppboð. Enginn hefur reynt að opna skjöl og fundi stjórnsýslu og stjórnmála til að fólk sjái vinnubrögðin. Enginn hefur reynt að efna loforðin um stórfellda eflingu spítala og heilsugæzlu. Enginn hefur reynt að koma böndum á ferðaþjónustu með eðlilegum vaski. Einn flokkur hefur verið í andstöðu allan þennan tíma aðgerðaleysis. Píratar eru eini flokkurinn, sem mun verða við óskum þjóðarinnar.

Skjálftar eru hafnir

Punktar

Söfnun allra nýrra verðmæta í hirzlur hinna allra ríkustu mun kljúfa þjóðir í tvo andstæðinga. Þeir mörgu, sem hingað til hafa trúað á amerískan draum um aðild að sældinni, munu gefast upp fyrir veruleikanum. Líklegt er að þetta verði fyrst í Bandaríkjunum, þar sem nýfrjálshyggju hefur harðast verið beitt. Bandaríkjamenn geta verið ofstopamenn, ef þeir telja á sig hallað. Íslendingar eru öðru vísi, afkomendur þræla. Munu áfram nudda sér utan í auðgreifana. Treysti mér ekki til að spá tímasetningu, en kjör Trumps og uppgangur Bernie Sanders sýna ólguna í samfélaginu. Byltingar og gos gera ekki boð á undan sér, en skjálftar eru hafnir.

Ekki bara heimska

Punktar

Pólitíkusar vita, að þjóðin hafnar einkarekstri í heilsukerfinu. Aðeins 1-3% styðja hann. Því lofa allir flokkar fyrir kosningar að efla opinberan rekstur heilsukerfisins. Meira að segja er hægt að verðmeta, hvað fólk talar um. 86.761 manns skora á stjórnvöld að auka ríkisfé í heilsu úr 9% í 11% landsframleiðslu. Skýrara verður það ekki. Svo varð Óttarr Proppé heilsuráðherra. Hann efnir ekki loforðið, sveltir heilsustofnanir til að ná fé í einkarekstur. Skipar í staðinn nefnd, sem á að safna gögnum um málið. Á þeirri leið eru tvær stoppistöðvar: 5 ára sovétáætlun og fjárlög ársins. Verður ekki bara útskýrt sem heimska Proppés.

Þjóðin vill ríkisrekstur

Punktar

Í hverri könnun á fætur annarri kemur í ljós, að yfirgnæfandi meirihluti okkar styður ríkisrekstur heilsuþjónustu. Bara eitt prósent vill, að einkaaðilar sjái um rekstur sjúkrahúsa. Tvö prósent, að þeir reki heilsugæslustöðvar og þrjú prósent hjúkrunarheimili. Segja má, að þjóðin sé ekki meira um neitt sammála en opinberan rekstur. Í áskorun, sem Kári Stefánsson safnaði fyrir ári, samþykktu 86.761 manns, að skora á ríkið að leggja 11% landsframleiðslu til heilsumála. Nú renna 9% til þeirra eftir mikinn niðurskurð og einkavinavæðingu. Ríkisstjórnin vinnur í máli þessu þvert á vilja nánast alls þorra íslenzku þjóðarinnar.

Góð byrjun lofar góðu

Punktar

Píratar hafa tíu manns á alþingi á þessu kjörtímabili og þar með fjármagn til aðstoðarfólks fyrir þingmenn. Alls er þetta myndarlegur hópur, sem hefur haldið merki flokksins vel á lofti, misjafnlega þó. Þau, sem borið hefur mest á, hafa flest staðið sig vel. Sýnt þekkingu á málefnum og betri framtíðarsýn er þingmenn annarra flokka. Þótt flokkurinn sé í stjórnarandstöðu, er hann vel sýnilegur og rödd hans skýr. Þegar dregur að næstu kosningum, hafa píratar frambærilegt lið til að vinna flokknum aukið fylgi. Fólk, sem þekkir takmörk og möguleika þingsins og kann til verka á þeim vettvangi. Þjóðin venst pírötum og treystir þeim betur.

Fáir þjóðrembdir

Punktar

Efast um, að Íslendingar séu þjóðrembdari en aðrir. Allir Norðmenn, sem ég þekki, halda þjóðardaginn mjög hátíðlegan og gera mikið með fánann sinn. Bandaríkin eru svo sér á parti í þjóðrembu, hafa hann við skrifborð sitt, klæðast honum jafnvel. Þjóðrembingar eru að vísu fyrirferðarmiklir á íslenzkri fésbók. En mér sýnist mál þeirra snúast meira um lóð undir mosku í Sogamýri fremur er um lóð yfirleitt. Lítið er um, að pólitíkusar vefji um sig fánanum. Man helzt eftir Árna Johnsen og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Enn hefur enginn náð árangri með sérhæfðan flokk þjóðrembu. Rembusagnfræði Jónasar frá Hriflu er steindauð bók í íslenzkum nútíma.

Valtað yfir vinina

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn reynir að valta yfir svonefnda samstarfsflokka. Yfirleitt gefast þeir upp fyrir eimlest stóra bófaflokksins. Hann mun stöðva allar útgáfur af endurbótum á kvótagreifakerfinu. Sumir þingmenn hans hafa beinlínis gortað af harðvítugri andstöðu sinni. Þeir vita sig geta fengið samstöðu með þingmönnum Framsóknar og Birni Val Gíslasyni, þingmanni Vinstri grænna, ef til vill líka Steingrími J. Sigfússyni. Helzta mál Viðreisnar, jafnlaunavottun, hefur á sama hátt verið fryst í nefnd. Litlu flokkarnir virðast hafa sætt sig við yfirganginn. Til dæmis hefur Björt framtíð látið ofsóknir á Landspítalann yfir sig ganga.

Flókinn vinskapur í eyðimörkinni

Punktar

Shia-múslimar hafa völd í Íran og að mestu leyti í Írak. Sunni-múslimar hafa völd í Sádi-Arabíu, Egyptalandi og Tyrklandi. Talibanar og Íslamska ríkið eru greinar af sunni. Sádi-Arabar halda uppi flestum af klerkaskólum, sem predika fjandsemi við vesturlönd. Þeir taka jafnframt ekki við neinum flóttamönnum úr blóðbaðinu í Sýrlandi. Þeir kaupa ógrynni af hergögnum af Bandaríkjunum og selja þeim olíu. Eru aðalbandamenn Bandaríkjanna í miðausturlöndum. Hins vegar telja Bandaríkjamenn, einkum Trump, að Íran sé mesti óvinurinn í löndum múslima. Er Íran þó einna spakast á svæðinu. En blóðbaðið í Sýrlandi lafir á lyginni einni.

Aurskriður í Andakíl

Punktar

Orkustjórar og verkfræðingar þeirra telja sig vera guði. Reisa stíflur, sem bila og hleypa flóði af vatni og aur yfir láglendið, sjá Andakílsá. Munum eftir Steingrímsstöð. Reisa turna og setja upp loftlínur, sem verða hvarvetna fyrir augum fólks, er hugðist horfa á land. Munum mörgu Búrfellslínurnar. Stífla vatn í uppistöðulón með misjafnri vatnshæð eftir árstíðum. Búa til breiða aurbakka, sem fjúka upp í þurrkatíð. Reisa efnaiðnað, sem spúir eimyrju yfir land og þjóð. Munum kísilverið í Helguvík. Sjálfskipaðir guðir halda, að náttúran verði tamin. Hugsa fram að næsta gosi. Tilraunir til að leika guði eyðileggja sambýlið við náttúruna.

Afleiðingar einkavina

Punktar

Einkavinavæðing opinberrar þjónustu hefur í flestum tilvikum sömu afleiðingar. Þegar opinberar einokunarstofnanir eru hlutafélagavæddar, er innleidd græðgi einkabransans. Þegar svo er farið skrefinu lengra og opinberar einokunarstofnanir eru seldar, leikur fjandinn lausum hala. Nýir stjórnendur hata jafnt kúnna sína og starfsfólk. Kemur fram í þrýstingi á aukin afköst í vinnu og í lakari þjónustu við þolendur einokunarþjónustunnar. Þetta sést í nágrannalöndunum, þar sem reynt hefur verið að einkavæða opinbera þjónustu. Því þarf ekki að gera slíkt hér, við vitum um erlenda reynslu. Grunnþjónusta ríkisins á yfirleitt að vera ríkisrekin.

Póstur hverfur víða

Punktar

Man ekki til þess, að póstur týndist í gamla daga, þegar hann var ríkisstofnun. Eftir að hann var einkavinavæddur fyrir skít og kanil, komu öðru hverju fréttir af týndum pósti. Síðast af týndum pósti í hverfum 107, 108 og 170. Sama er að segja um nágrannalönd, þar sem nýfrjálshyggja hefur kallað á einkavinavæðingu. Í Svíþjóð týndust 5,5 milljón sendibréfa hjá Postnord. Í Örebro hafa sumir ekki fengið póst í tvo mánuði hjá Bring. Allar tilraunir til einkavinavæðingar hér og annars staðar leiða til verri þjónustu. Það gildir um útivistun pósts, kennslu, heilsugæzlu, skurðlækninga, sjúkrahótela og mötuneyta. Þetta er fullreynt mál.

Gerbreyttur heimur

Punktar

Tæknivæðing og sjálfvirkni eru að byrja að gerbreyta heiminum. Til að bregðast við því, nýtist okkur hvorki sósíalismi né nýfrjálshyggja. Við blasir, að vélar munu taka við hlutverki fólks á fjölmennum vinnustöðum. Draumurinn verður þá ekki full atvinna, heldur fullt frelsi. Fólk ræður, hvort það vinnur og hversu mikið. Fólk fær borgaralaun, hvort sem það vinnur mikið, lítið eða ekki. Jafnframt felst velferð í, að heilsa og skóli verða ókeypis fyrir alla. Velferð og borgaralaun tryggja öllum mannsæmandi líf, en örorkubætur, sjúkrabætur og ellibætur falla niður. Þessi framtíð liggur í augum uppi, en samt tala bara Píratar um hana.

Almennt vantraust

Punktar

Því meira traust milli manna, þeim mun auðveldari eru öll samskipti. Vantraust kallar á vanda. Á svartan markað, á skattsvik, á ættingjadekur, pilsfaldapólitík. Ítalía er stórt dæmi um algert vantraust. Fólk treystir ekki ríkinu til að halda uppi fjárhagslögum og eðlilegum mannaráðningum. Ekki dómstólum til að leysa mál á eðlilega stuttum tíma. Ísland er lítið mildara að þessu leyti. Allur kapítalismi fer gegnum ríkið og kallast pilsfaldakapítalismi. Enginn treystir neinu orði frá pólitíkusi. Treystir ekki eftirlitsstofnunum til að vinna vinnuna sína. Bremsar hagkerfið. Uppruni skorts á trausti er fávitalegt val kjósenda á pólitíkusum.

Rétt skrimt í auðræði

Punktar

Verði nýfrjálshyggjan ekki stöðvuð á Vesturlöndum, mun ríkja auðræði auðgreifa og aðrir munu rétt skrimta eftir getu. Sama gildir um Ísland og önnur þróuð lönd. Skattar á hina ríkustu hafa verið stórlækkaðir eða afnumdir. Auðveldara er að fela aurinn á aflandseyjum en að borga skatt. Hefur ekki látið brauðmola falla niður til fátæklinga. Þvert á móti er ryksugað daglega. Kreppuvaldar á borð við Goldman Sachs fara lóðbeint á hausinn, allt afskrifað og þeim gefið skattfé til endurlífgunar. Við þekkjum þetta líka hér. Sumir borga alls engan tekjuskatt, til dæmis álverin hérna. Kvótagreifar ráða sjálfir, hvað fer út hljótt úr hagkerfinu.