Punktar

Nýfrjálshyggja deyr

Punktar

Fátækt er um 5% á Íslandi samkvæmt tölum Efnahagsþróunarstofnunar Evrópu, OECD. Ekki há tala í evrópskum samanburði, en samt of há. Ráðstöfunartekjur minnkuðu mikið í hruninu 2008 og hafa ekki náð sér síðan. Bilið milli ríkra og fátækra hefur aukizt í öllum ríkjum OECD. Ekki bara síðasta áratug, heldur í þrjá áratugi nýfrjálshyggjunnar. Hún hefur verið við völd í helztu hagfræðistofnunum og háskólum í þrjátíu ár. Nú er því ömurlega tímabili að ljúka. Hagfræðingar við stofnanir og háskóla eru að átta sig á, að aukið bil eyðir líminu í samfélaginu. Nýfrjálshyggjan felur ekki í sér neina bremsu á græðgi og leiðir á endanum til byltingar.

Ójöfnuður eykst

Punktar

Jöfnuður þjóðar leiðir til samstöðu hennar. Verður eins og límtré, sem veitir burðarþol. Jöfnuður er einn af þremur burðarbitum lýðræðis. Hinir eru frelsi og jafnrétti. Ójöfnuður drepur samstöðu. Verður eins og negldur bogi án burðarþols. Þar vantar límið, jöfnuðinn. Ójöfnuður er í fyrsta lagi ekki réttlátur. Í öðru lagi spillir hann samstöðunni, lætur samfélagið grotna. Bandarískir fátæklingar búa í þyrpingum húsvagna, en auðugir búa í girtum og læstum lúxushverfum. Þannig hefur nýfrjálshyggjan gert Bandaríkin að þriðja heims ríki. Fáir hafa efni á háskólanámi eða sjúkravist, en flestir hafa á hvorugu ráð. Græðgi er ekki góð.

Vítahringur allra

Punktar

Samþjöppun auðs leiðir að samþjöppun valds. Í Bandaríkjunum kosta risafyrirtæki ofsadýran prófkjörsslag frambjóðenda og hafa nánast alla þingmenn í vasanum. Öll lög eru kembd til að breyta orðalagi í þágu risafyrirtækjanna. Þetta er orðinn vítahringur, lagasetning eykur auð og auðurinn semur lögin. „Allt fyrir okkur og ekkert fyrir alla aðra.“ Á tungumáli Hannesar Hólmsteins heitir þetta: „Græðgi er góð“. Leiðin liggur burt frá kjörorði frönsku byltingarinnar: „Frelsi, jöfnuður, bræðralag,“ sem felur í sér þrjár undirstöður lýðræðis. Þessi nýfrjálshyggja Bandaríkjanna hefur í aldarþriðjung einnig sett klærnar í önnur vesturlönd.

Frelsi eða frelsi

Punktar

Er frelsi það sama og orðið þýðir í „frelsi, jöfnuður, bræðralag“? Eða er það frelsi frá ríki og skatti? Ekki var svo í frönsku byltingunni. Það var frelsi frá valdi, frá auðveldi, frá misrétti, frá fátækt, frá ólæsi, frá gerræðisdómum. Það var frelsi frá öllu valdi, ekki frelsi frá samkennd og miskunnsemi. Allra sízt felst frelsi í að „græðgi er góð“. Margir, sem upphaflega studdu Pírata, fjarlægðust, þegar flokkurinn tók í sumum málum upp stefnu, sem kalla má sósíalisma. Þeir voru of uppteknir af frelsi kaupmanna og frelsi peninga og hurfu frá Pírötum. Ég sé enga þverstæðu í fylgi Pírata við samkennd og miskunnsemi, við uppreisn fátækra.

Opin gögn um borgina

Punktar

Reykjavík hefur opnað bókhald sitt fyrir almenningi, sett það á veraldarvefinn. Þetta eru ósíuð, hrá bókhaldsgögn A-hluta borgarsjóðs. Í kjölfar aðildar pírata að meirihluta borgarstjórnar, er opin og gegnsæ stjórnsýsla orðin borgarstefna. Að þessu sinni eru þetta árin 2014, 2015 og 2016. Vonandi fylgir síðan B-hluti borgarstofnana. Öðrum sveitarfélögum, ríkinu og einkavinavæddum fyrirtækjum ber að feta í fótspor Reykjavíkur. Gegnsæi er hornsteinn lýðræðis. Til þess þarf tækni og pólitískan vilja. Með gegnsæi niður í hrágögn um fjármál og fundi á þjóðin að geta fetað sig úr myrkrinu að þekkingu um það, sem hún er að kjósa.

Sigurför nýfrjálshyggju

Punktar

Nýfrjálshyggja Hayek og Friedman hóf sigurgöngu sína með Reagan 1981 og Thatcher 1979, hér með Davíð 1991. Síðan er liðinn aldarþriðjungur og árangurinn kominn í ljós. Velmegun almennings hefur staðið í stað eða rýrnað. Hagvöxturinn hefur allur lent í vösum ríkasta 1% fólksins. Í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Íslandi. Hér er norræna velferðarkerfið að hrynja undan einkavinavæðingu. Á meginlandi Norðvestur-Evrópu og í Skandinavíu eru sjúkraþjónusta og skólaþjónusta ókeypis. Þar helzt límið í samfélaginu og þjóðirnar hafa innri styrk. Hér er límið að eyðast og þjóðfélagið er gersamlega klofið. Það er niðurstaða nýfrjálshyggjunnar.

Framleiða ekki neitt

Punktar

Nútímabankar í fjárfestingum framleiða ekki neitt. Færa bara bókhaldstölur milli reikninga. Allt frá Goldman Sachs til Arion-banka eru þeir a kafi í að fá lögum breytt og fara kringum lög til að magna gróðann af engri framleiðslu. Banksterar stela frá öllum, ríkum og fátækum, jafnvel eigin hluthöfum. Þannig eru bankarnir verstu glæpahringir jarðarinnar. Búa til peninga, sem ekki fela í sér verðmæti, en framleiða í rauninni ekki neitt. Fyrir þetta reikna banksterar stjarnfræðileg laun og bónusa sér til handa. Þeir gera bandalag við pólitíkusa um að breyta heilu ríkjunum í spilavíti áhættufíkla. Afleiðingin er hvert hrunið á fætur öðru.

Isavia klúðrar Leifsstöð

Punktar

Isavia getur ekki rekið Leifsstöð. Þar ræður sama græðgin og í einkabransanum. Ekkert er hugsað um, að flugstöðin er gluggi alheimsins inn að Íslandi. Þar er allt í kaos og einkum hugsað um að draga ferðafólk um völundarhús alþjóðlegra verzlana. Hún er einfaldlega eins og aðrar flugstöðvar í heiminum, bara með meiri þrengslum. Sæti eru alltof fá, fólk situr á gólfinu. Flöskuhálsar og eilífar biðraðir of margar. Íslenzk vara hefur vikið fyrir glingurbúðum, hver annarri líkar. Mikill tóbaksreykur er í loftinu. Þetta er eins og inngangur að helvíti.

Íslenzkur talgervill

Punktar

Washington Post hefur í tvígang undanfarið birt fréttir af vaxandi líkum á dauða íslenzkrar tungu. Yngsta fólkið er tvítyngt, jafnfært á ensku og á íslenzku. Nota jafnvel ensku sín á milli. Þar á ofan fara samskipti við innflutt starfsfólk að mestu leyti fram á ensku. Foreldrar og skólar hafa ekki sinnt skyldum sínum við það, sem einkennir og sérkennir þjóðina, málið. Svo vel vil til, að Íslendingar í ábyrgðarstörfum risafyrirtækja hugbúnaðar hafa unnið forvinnu fyrir íslenzka talgervla. Í framtíðinni munu samskipti milli þjóða fara um talgervla. Getur kostað milljarð að búa til íslenzkan. Ríkisvaldinu ber hér að taka frumkvæðið.

Washington Post

Washington Post

Proppé felur sig

Punktar

Óttar Proppé skandalíserar meira en aðrir ráðherrar. Er sennilega of vitgrannur fyrir stólinn. Hleypur jafnan í felur, sé reynt að leita svara hjá honum. Ákvað að gera ekkert gegn samsæri Steingríms Ara Arasonar, forstjóra Sjúkratrygginga ríkisins, og einkavinavæðingarsinna um Klínikina í Ármúla. Landlæknir hefur mótmælt þessu samsæri en Proppé ætlar ekki að gera neitt. Sjálfstæðisflokkurinn segir ríkið ekki hafa efni á að reka Landspítalann með fullum sóma, en henda samt milljörðum í spítala einkavina. Fólk hélt, að samstarfsaðilar bófaflokksins mundu hefta græðgina og þrána í einkaarð. En Proppé leggur niður rófuna og felur sig.

Raska aldagamalli sátt

Punktar

Hornsteinn í lögum landsins frá stofnun alþingis á þjóðveldisöld til þessa dags snýst um árekstra milli landeiganda og ferðamanns. Frá upphafi þurfti að gæta hagsmuna beggja hagsmunaaðila og setja mörk við framgöngu þeirra. Þessar reglur voru fljótt svo nákvæmar og vandaðar, að þær eru óbreyttar frá því í Járnsíðu. Almannaréttur er viðurkenndur, fólk getur farið um landið utan vega, en þarf að gæta að hag eigandans. Ekki tína ber í fötu eða leyfa hesti sínum að éta heysátu. Ferðafólk má hins vegar tína ber upp í sig og leyfa hesti að kippa tuggu úr sátu. Nú vilja samtök landeigenda herða takmörk ferðafólks og raska aldagamalli sátt.

Margar tegundir umferðar

Punktar

Götur í Reykjavík vestan Snorrabrautar eru lagðar fyrir einfalda umferð. Verið er að breyta þeim í þrefalda umferð fyrir gangandi, hjól og bíla. Þá þarf að velja aðra staði fyrir höfuðæðar hverrar tegundar. Hverfisgatan hentar til dæmis ekki fyrir þrefalda umferð. Það sjá allir, sem þar fara. Færa þarf hjól yfir á aðrar og breiðari götur. Senn fer að magnast rafknúin umferð bíla, hjóla, stóla og eins manns bíla. Borgin vill líka umferð raf-strætóa. Hugsa þarf umferðardæmið upp á nýtt. Erlendis er þetta víða stórvandi. Væri ekki tilvalið ákveða hæga, frjálsa kaos, 15 km hámarkshraða í gamla bænum og afnema skiptingu akreina milli 4-8 tegunda umferðar.

Norðvestræn velferð

Punktar

Við þurfum að koma upp sömu velferð og á norðurlöndunum og í Norðvestur-Evrópu. Sömu velferð og í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýzkalandi, Frakklandi, Hollandi og Belgíu. Gera heilbrigðisþjónustu og skólaþjónustu ókeypis. Það gerum við með því að kasta út ríkisstjórninni. Afnema breytingar hennar og síðustu ríkisstjórnar á sköttum. Hækkum auðlindarentu kvótagreifa með útboði leigukvóta og setjum auðlindarentu á stóriðju og ferðaþjónustu. Endurvekjum auðlegðarskatt. Þannig fást margir tugir milljarða árlega í þessi verkefni. Þetta er létt. Vilji er allt, sem þarf. Höfuðmál okkar er að losna við baneitraða ríkisstjórn.

Ferðabransinn þolir vaskinn

Punktar

Ferðaþjónustan hefur ráðið almannaatengla til áróðurs í fjölmiðlum. Daglega les ég nokkrar hryllingssögur þaðan. Ferðamenn séu að falla frá pöntunum, einkum þeir sem mest eyðslufé hafa. Ferðaþjónustan muni hrynja, ef hún þurfi að borga sama vask og aðrir. Þetta er auðvitað útblásið, þótt þjóðfélagið þurfi raunar á minni aukningu ferðamanna að halda. Innviðir eru í ólagi. Einkum gangstígar og pallar við fjölsótta staði, svo og salerni og önnur hreinlætisaðstaða. Einnig frágangur á þjóðvegum og brúm. Í þessu þarf að drífa, áður en ferðamönnum fjölgar enn meira. Ísland hefur alltaf verið viðurkennt sem dýrt land og ferðamenn munu áfram koma.

Bara skiptimynt

Punktar

Segjum, að Kári Stefánsson hafi rétt fyrir sér. Að hér þurfi að hækka framlög til heilsu um 1,5% af landsframleiðslu. Eru 36 milljarðar króna. Skiptimynt fyrir kvótagreifa og aflandseyinga. Svo segir Bjarni Ben, að fé sé ekki til. Stafar af, að hann lækkaði auðlindarentu kvótagreifa og kom ekki á auðlindarentu á stóriðju og ferðaþjónustu. Að hann afnam auðlegðarskatt. Alls er tekjutap vegna auðgreifa tífalt það, sem vantar í heilsuna. Væri Bjarni ekki bara að þjónusta auðfólkið, gæti ríkið leyst spítalamálið og aðra heilsu, Líka látið sjúklinga, öryrkja og gamlingja fá aftur það, sem hann stal. Og líka leyst húsnæðisvanda unga fólksins.