Punktar

Gagnrýni er ekki hatur

Punktar

Nú til dags er farið að skilgreina gagnrýni kruss og þvers sem hatursorðræðu. Til dæmis er gagnrýni á trúarbrögð, á þjóðskipulag, stöðu stjórnmála, á lélegt eða rangt mataræði, gagnrýni á klæðaburð. Ég er sagður múslimafóbi fyrir rökstudda gagnrýni á bókstafstrúnað sumra múslimaklerka. Álitsgjafar eru oft sagðir stunda hatursorðræðu fyrir að gagnrýna jafnlaunavottun, gagnrýna ofát og offitu og svo framvegis. Samfélagið verður að þola vel rökstudda gagnrýni. Fólk þarf að þola umræðu, sem er þeim ekki að skapi. Stundum eru rétttrúuð að reyna að stöðva umræðu, sannfærð um ágæti eigin skoðana. Þau eiga eftir að þurfa að þola mikið.

Sérhópar á fésbók

Punktar

Sérhóparnir á fésbókinni eru þægilegir og koma mér að góðu gagni. Skemmtilegast finnst mér að skoða „Gamlar ljósmyndir“. Þær sýna mér, hvað betur hefði farið í skipulagi Reykjavíkur, ef borgarstjórn hefði ekki legið marflöt undir verktökum. Pólitískt er mest vit í „Pírataspjallinu“. Þar er bezt framtíðarsýnin og öflugur stuðningur við þá, sem minnst mega sín. Eigandi „Sósíalistaflokksins“ bað mig ekki trufla nýja flokkinn með nærveru minni. Þótt ég hafi þannig ljúflega verið rekinn úr flokknum, kíki ég stundum þangað. Skrítið er, að eigandi flokks skuli samtímis segja 300.000 kr. vera há laun blaðamanna og vill samt ekki borga þau.

Hatrið á aumingjum

Punktar

Á síðasta kjörtímabili gaus upp hatur á öryrkjum, gamlingjum og sjúklingum. Vegna þvættings frá ríkisendurskoðanda um svindl og svínarí í greiðslum til aumingja. Sturluð þingkona í forsæti fjárhagsnefndar alþingis fór mikinn um fláttskap öryrkja, gamlingja og sjúklinga. Vigdís Hauksdóttir blómstraði. Sjúkratryggingar Íslands tóku upp hatrið, undir stjórn Steingríms Ara Arasonar. Aumingjar landsins voru teiknaðir upp sem skúrkar. Í vetur kom í ljós, að tölurnar voru þvættingur, sem ríkisendurskoðandi afsakaði. Enn byggir ríkisstjórnin á þessum grófu mistökum og notar hvert tækifæri til að níðast á öryrkjum, gamlingjum og sjúklingum.

Kusu íslamskt einræði

Punktar

Með naumum meirihluta ákváðu Tyrkir í gær að sigla í átt til miðalda undir stjórn einræðisherra. Samþykktu harðari íslamisma í stað lýðræðis, sem hefur ríkt þar í landi frá valdatöku Mustafa Kemal Tyrkjaföður. Tyrkir hafa á einu ári snúið sér frá Evrópu og Evrópusambandinu og tekið upp harðstjórn. Stjórnarandstæðingar, blaðamenn, herforingjar og fleiri sitja í fangelsum tugþúsundum saman. Recep Erdoğan forseti hefur þar á ofan höfðað meiðyrðamál gegn þúsundum einstaklinga. Svartir efnahagstímar eru framundan í Tyrklandi og ferðaþjónusta í rúst. Istanbul hættir að vera fjölþjóðlegur Mikligarður og Tyrkjakonur verða annars flokks.

Blái bletturinn

Punktar

Þótt höf séu alls staðar að hitna á jörðinni, er einn blettur alltaf er að kólna. Það er hafið suðvestur af Íslandi. Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur bendir enn einu sinni í bloggi sínu á undantekninguna. Getur stafað af, að Golfstraumurinn sé að linast og hægja á sér, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar á Íslandi. Stjórnvöld hafa þó ekki sýnt neinn áhuga á að bregðast við bréfum frá Haraldi um þetta efni. Fræðimenn hafa spáð því, að kólnun þessa bletts í hafinu muni verða hraðari þegar fram líður. Kannski kemur að því, að við getum hætt að rífast um kvóta á fiski, ef og þegar ekkert verður að rífast um. Þorskurinn bara farinn.

Haraldur Sigurðsson

Nota bæði munnvikin

Punktar

Lífeyrissjóðir stéttarfélaga eiga mikinn hlut í fréttnæmum fyrirtækjum. Til dæmis 38% í Granda, sem sagði upp hundrað Skagamönnum til að flytja vinnslu austur á land. Lífeyrissjóðirnir eiga líka stóra hluti í fréttnæmum leigufélögum, sem raka að sér íbúðum og snarhækka leigu. Eiga líka stóra hluti í verzlunarkeðjum með matvæli, sem hækka verð, þótt krónan hækki. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum hafa hag af gengissveiflum, vaxtahækkunum, okri á íbúðaleigu og lokun kvótagreifa á vinnslulínum. Verkalýðsrekendur heimta hærri laun með öðru munnvikinu og vinna að lægri kaupmætti með hinu munnvikinu. Þessu gerspillta kerfi þarf að bylta strax.

Proppé er týndur

Punktar

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er týndur. Svarar engum beiðnum um fréttaviðtöl og lætur hvergi sjá sig. Hefur nefnilega svikið öll loforð, sem hann gaf fyrst fyrir hönd Bjartrar framtíðar og síðan við stjórnarmyndun. Hefur uppgötvað að engir peningar séu til. Það er vegna stórkarlalegra tekjulækkana í kvótarentu og auðlegðarskatti í þágu eigenda Sjálfstæðisflokksins. Proppé dregur engar vitrænar ályktanir af því ferli, heldur strýkur ljúflega um handarhvílu ráðherrastólsins. Honum nægði að pósa fínn í tauinu. En nú duga látalætin ekki lengur. Fólk áttar sig á, að loforð vísa bara inn í óvissa framtíð, án neinna haldbærra framkvæmda.

Gegnsæi sýnir glæpina

Punktar

Algert gegnsæi er öflugasta vopnið til að ná fram lýðræði. Gegnsæi hins opinbera, banka, fyrirtækja, einstaklinga. Leyndarhyggja er enn alls ráðandi. Fólk fær að vita það, sem það er talið þurfa að vita, og ekkert umfram það. Hinn dæmigerði andstæðingur lýðræðis er forsætisráðherra okkar, sem lá á tveimur mikilvægum skýrslum um siðblindu sína fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Þannig falsaði hann þá mynd, sem kjósendur sáu. Allir fundir ríkisstjórnar, embætta, fyrirtækja eiga að vera opnir og sömuleiðis plögg, sem skoðuð eru á þessum fundum. Það er ekki að ástæðulausu, sem valdafólk forðast þetta: Gegnsæið kemur upp um glæpina.

Hér er þrælahald

Punktar

Enn hefur ekki tekizt að koma á lýðræði í neinu landi, þótt rúmar tvær aldir séu frá frönsku byltingunni. Alls staðar ráða valdamenn, sem ljúga að þrælum sínum og svíkja kosningaloforð. Sjáið bara Viðreisn og Bjarta framtíð. Ríkisstjórnin lafir á lygum og svikum valdafólks flokka. Leyndarhyggja er alls ráðandi, samanber þögn forsætisráðherra um tvær skýrslur fram yfir kosningar og stjórnarmyndun. Með því að stýra upplýsingum og stjórna fjölmiðlum tekst þeim að halda okkur þrælunum tiltölulega þægum. Slíkar aðferðir nota þeir enn til að ræna og rupla verðmætum þjóðarinnar, samanber Engeyinga og kvótagreifa. Þetta er þrælahald, ekki lýðræði.

Miðstéttin er kalin

Punktar

Efri miðstétt er skipuð vel launuðum yfirmönnum og deildarstjórum, öðrum en þeim, sem eru beinlínis eigendur. Þessi hópur er kjarninn í fylgi Sjálfstæðisflokksins. Fyrir fjórum áratugum hafði hann sýn yfir þjóðfélagið í heild og trúði á boðorð á  borð við: Stétt með stétt. Meðal þingmanna Flokksins voru sjómenn og verkamenn. Sjálfstæðisflokkurinn átti þá töluverð ítök í verkalýðshreyfingunni. Núna hugsar efri miðstétt allt öðru vísi. Hefur engan áhuga á Stétt með stétt. Hugsar bara um sig og sína fjölskyldu. Þessi breyting hefur kalið Flokkinn og eytt miskunnsemi. Hún hefur seint og um síðir tekið trú á tilgátur, sem leiða til borgarastríðs.

Höfnum miðaldaþrá

Punktar

Biblían er líklega litlu skárri en kóraninn. Munurinn er, að ekki er farið eftir biblíunni, en kóraninn er orðrétt í heiðri hafður. Bókstafstrúarmenn eru fáir í kristni, en fjölmennir í íslam. Á ferðum mínum um lönd múslima hef ég komizt á þá skoðun, að konur séu þar hálfur karl. Þær fá hálfan arf og vitnisburður þeirra er metinn að hálfu. Þeim er refsað fyrir að láta nauðga sér. Börn eru bara leikföng pedófíla. Við munum ekki samþykkja neina slíka karlrembu hér á landi. Við munum t.d. ekki taka upp kynjaskiptan strætó, þótt svo sé gert á einum stað í Svíþjóð. Við munum taka við múslimum, en algerlega hafna öllum miðaldaóskum þeirra, ÖLLUM.

Við viljum líka frelsi

Punktar

Sósíalistar vilja jöfnuð og bræðralag. Franska byltingin vildi FRELSI, jöfnuð og bræðralag. Hún var einkum framin af miðstéttafólki, bylting gegn forréttindum aðals og klerka. Sameiginleg bylting vinstri og hægri fólks. Hér er svipuð staða. Forréttindafólk ræður ríkjum og rekur pilsfaldakapítalisma, þar sem ríkidæmi næst undir pilsfaldi ríkisins. Með forréttindum að aflakvóta, að einkavinavæðingu, að leyndum upplýsingum. Fólk getur verið borgaralegt og lagt áherzlu á frelsi til viðbótar jöfnuði og bræðralagi. En samt verið byltingarsinnað. Franska byltingin frá 1789 er ekki enn komin til Íslands og er ekki endilega vinstra fyrirbæri.

Farandþrælar í verbúðum

Punktar

Nú er aftur komið í tízku að reisa verbúðir. Í gamla daga voru þær einkum fyrir farandþræla á vertíð. Hinar nýju verða svipaðar. Fyrirtæki bjóða vinnu og húsnæði í einum pakka til að geta ráðið farandfólk. Hentar auðvitað bezt, þegar vinna er árstíðabundin. Til dæmis í byggingum, sem eru fólksfrekari á sumrin. Þá er hægt að flytja inn sumarþræla og bjóða lausar íbúðir til leigu á haustin. Ikea verður ekki versta dæmið um þetta, en dæmin verða fleiri. Skinney-Þinganes er á svipuðu róli og nokkur smærri fyrirtæki. Um leið og fólk missir vinnuna, missir það íbúð sina. Þannig ná framtakssamir atvinnurekendur fastari tökum á vinnuþrælum sínum.

Burt með krónuna

Punktar

Íslenzk króna er eins konar hengingaról, sem hindrar lága vexti. Þegar við losnum við krónuna, fáum við fljótlega svipaða vexti og nágrannaþjóðirnar. Seðlabankinn fær erlend lán með 1% vöxtum og getur sjálfur eða gegnum Landsbankann veitt fólki húsnæðislán með 2% vöxtum. Landsbankinn verður eins konar húsnæðis-sparisjóður. Verðbólga vaxta verður úr sögunni. Ríkið tekur enga ábyrgð á öðrum bönkum og hrun lenda ekki lengur á herðum almennings. Við fáum að lifa eðlilegu lífi eins og aðrar þjóðir. Atvinnuástand verður traust, í stað þess að fara á flug og steypast niður. Rugl er að reyna að reka hér þjóðfélag, byggt á minnsta gjaldmiðli heims.

Ekki sósíalisti

Punktar

Er ekki sósíalisti, þótt ég vilji efla velferð. Lít ekki á átökin í samfélaginu sem vinstri-hægri stríð. Pólitíkin skiptist samt í tvennt. Annars vegar bófarnir, sem efla auðgreifa á kostnað smælingja. Hins vegar heiðarlegir, sem vilja frelsi, jöfnuð og bræðralag. Því vil ég skattleggja sérleyfi til fiskveiða og hátekjur. Þess vegna vil ég hækka útgjöld til heilbrigðismála í 11% eftir forskrift Kára Stefánssonar. Því vil ég jafnsetja öryrkja, öldunga og sjúklinga við annað fólk. Þess vegna vil ég hafa heilsu, skóla ókeypis og vel launaða kennara. Þetta kemur ekki hægri-vinstri við. Heldur er þetta bein afleiðing heilbrigðrar hugsunar.