Punktar

Takk fyrir fésbókina

Punktar

Öfugt við marga notendur fésbókar er reynsla mín góð og batnandi. Almenn málefni eru yfirgnæfandi, kisumyndum hefur snarfækkað. Ef ég hef áhuga á einum málaflokki,  gerist ég áskrifandi. Almenna fréttalínan, sem ég fæ, er þó bezti parturinn. Að vísu tekur meiri tíma að rúlla yfir þetta, kannski klukkutíma á dag. Fólk hefur vanizt að skrifa stuttan texta, það hjálpar. Kári Stefáns er þó enn of langorður fyrir fésbók, Gunnar Smári hefur lært að takmarka sig. Bróðir hans, Sigurjón M. Egilsson, er þrælvanur úr fréttunum. Þeir eru meðal höfunda, sem mest áhrif hafa haft á mig sem blogghöfund og fésbókartröll. Hér er nóg til af góðum og vel sögðum staðreyndum.

Ofstækið er að linast

Punktar

Tryggð ofstækismanna í stjórn Reykjavíkur við óþolandi skipulagshugmyndir eru að byrja að linast. Nú er hætt að tala um brautarteina eða loftlínur rafmagns og einfaldlega talað um hraðferðir strætisvagna. Þá eru oddvitarnir komnir niður á jörðina. Auðvelt er að efla strætó, hjólreiðar og göngur án þess að „tefja fyrir“ bílaumferð eins og áður var lagt til í einu af plöggum ofstækismanna. Ástæðulaust er að kljúfa kjósendur í tvo hópa með því að ráðast gegn einkabílisma. Betra er að efla allar samgöngur og leggja Miklubraut í stokk eða göng á 3 km kafla. Svo þarf líka að ráðast gegn ofstæki í þéttingu byggðar í elztu hverfum borgarinnar.

Grátkórinn hafinn á ný

Punktar

Grátkór kvótagreifa er að nýju hafinn að hætti Kristjáns Ragnarssonar. Forstjóri Samherja er orðinn forsöngvari, Þorsteinn Már Baldvinsson. Í fyrra fengu greifar afslátt hægri stjórnar af auðlindarentu fyrir 882 fyrirtæki. Nú er undirbúinn enn frekari afsláttur á vegum hægri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna hefur forustu um breytinguna. Gervallur Sjálfstæðisflokkurinn styður breytinguna, enda stríðir hún gegn markaðslögmálum. Sjávarútvegurinn hefur um áratugi verið rekinn undir pilsfaldi ríkisins og verður svo enn um sinn. Auðvitað eiga uppboð veiðileyfa að ráða auðlindarentu greifanna.

Katrín er afstæð

Punktar

Katrín Jakobsdóttir treystir sér ekki til að bæta pólitíkina. Hún hefur afstæðar skoðanir, er ekki staðföst. Lítur ekki á, að sitt hlutverk sé að breyta menningu stjórnmálanna. Sættir sig við, að fjárglæframaður, sem fékk 130 milljarða afskrifaða, sé fjármálaráðherra. Sættir sig við, að dómsmálaráðherra, tvídæmd í Hæstarétti, segi eitt í dag og annað á morgun. Hún frestar nýrri stjórnarskrá. Sættir sig við, að tveir ráðherrar séu beinlínis þjónar tveggja kvótagreifa. Hún varðveitir gamla og spillta Ísland, fetar ekki eitt skref í átt til nýja Íslands. Hún er forsætisráðherra ríkisstjórnar, sem þjónar þessu 1%, sem á næstum allar eignir.

Stokkur eða göng

Punktar

Hef í rúman áratug mælt með Miklubraut í stokk, allt frá Landspítala um Lönguhlíð, Kringlumýrarbraut, Háaleitisbraut og Grensásveg. Ofan á stokknum má hafa brautir fyrir gangandi fólk og hjólandi, auk gífurlega víðáttumikils svæðis, sem má annað hvort hafa grænt eða til bygginga. Hugsanlega er skynsamlegra að bora en grafa og fara þá dýpra með brautina. Við höfum mikla reynslu af jarðgöngum. Göng trufla heldur ekki umferð ofanjarðar á framkvæmdatímanum. Reisa má bílastæðahús við Landspítalann og Umferðarmiðstöðina. Loks má bora áfram undir Þingholtin og tengja saman Miklubraut og Sæbraut. Þetta er þveröfugt við núverandi skipulagsstefnu.

Tvíverknaður á Miklubraut

Punktar

Árum saman hefur oft verið bent á þægilega lausn á umferðarteppu Miklubrautar við Klambratún og slit á tengingu hennar við Lönguhlíð. Setja Miklubraut í stokk og stækka túnið í þágu gangandi og hjólandi fólks. Í staðinn var brautin lækkuð um einn metra með dýrum grjótveggjum. Nú er þeirri skrítnu framkvæmd lokið. Þá loks segir samgöngustjóri borgarinnar, að eftir nokkrar vikur komi skýrsla um að setja Miklu­braut í stokk milli Kringlu­mýr­ar­braut­ar og Snorra­braut­ar. Af hverju var þá sett stórfé í lækkun brautarinnar á þessum kafla? Það er tvíverknaður, sem léttir umferðina ekki neitt. Í samgöngum höfuðborgarinnar virðist skorta verksvit.

Sigríður óðamála

Punktar

Til hvers boðaði Sigríður Andersen til blaðamannafundar í ráðuneytinu á föstudag? Ekki sagði hún þar af sér eins og vænzt var. Í staðinn talaði hún út og suður um stofnanir á vegum ráðuneytisins, einkum lögreglunnar. Slíkt hefur ekki verið vaninn hér á landi, en er út af fyrir sig gott, ef það verður vaninn. Hún fjallaði um vanda lögreglunnar og sagði hana vera að rannsaka sín mál. Ekki fjallaði hún um tengsl kynferðisbrotamanna við Sjálfstæðisflokkinn og aðgerðir flokkseigenda til að náða þá verstu. Að lokum kom svo að niðurlaginu, að hún mundi játa syndir sínar og segja af sér. En þá þakkaði hún bara áheyrnina og skundaði til stólsins mjúka.

Skiptir ótt og títt um sverð

Punktar

Sigríður Andersen gefst ekki upp á vígvelli sínum fyrir framhaldi á ráðherradómi. Beitir nýjum sverðum í stað þeirra, sem bognað hafa eða brotnað. Nú er það orðið karlremba karlaveldis að krefjast afsagnar. Fyrir utan það séu afglöp hennar sjálfu alþingi um að kenna. Hún segist vera sérfræðingur í málinu og geta sjálf veitt sér sína sérfræðiaðstoð. Þarf ekki á neinum hæstarétti að halda til að efast um hæfni sína til að veita sér sjálfri sérfræðiaðstoð. Hún segist þjást af einelti af hálfu andmælenda á alþingi. Vörn hennar verður því hetjulegri sem hún finnur fleira nýjabrum til að halda stöðunni sem hornsteinn þrískiptingar ríkisvaldsins.

Leiðsögn fyrir nýja vendi

Punktar

Margs þarf að gæta, ef nýir vendir fara að sópa blóðsugunum út úr Eflingu, öðrum stéttarfélögum og Alþýðusambandinu. Ekki nægir að flytja innblásnar útifundaræður um bágindi láglaunafólks. Einnig þarf að koma með tillögur um lausn vandans. Í fyrsta lagi þarf að koma „hækkun í hafi“ inn í umræðuna. Það er sú staðreynd, að atvinnurekendur koma árlega tugum milljarða, ef ekki hundrað milljörðum árlega undan skiptum og sköttum. Þeir peningar eiga að koma fram í hagtölum og teljast með í sköttum og skyldum. Í öðru lagi þurfa kjósendur að styðja til valda þá flokka, sem vilja setja lög um lágmarkslaun. Ekki er nóg að boða til verkfalla.

Þau fundu sér skjól

Punktar

Skoðanakönnun MMR bendir til, að fylgi flokka sé tiltölulega fast. Vinstri græn tóku í janúar 3,5% frá Sjálfstæðisflokknum. Aðrir flokkar eru í plús eða mínus einu prósenti í mánuðinum. Athyglisverðast er, að Vinstri græn auka fylgið, þótt þau hafi sætt þungri gagnrýni fyrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Hingað til hafa flokkar glatað fylgi á samstarfi við bófana. Líklega standa Vinstri græn nær íhaldi en aðrir flokkar. Kjósendur hans eru altjend harla sáttir við samstarf um stuðning við kvótagreifa og söltun nýrrar stjórnarskrár. Sáttir við samstarf við ráðherra í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Samherja. Og samstarf við frú Andersen.

Karlrembt þrælafélag

Punktar

Efling er ömurlegt stéttarfélag með fátækasta fólkið innanborðs. Hefur lítið gert fyrir félagsfólk sitt um liðna áratugi, einkum í störfum kvenna og innflytjenda. Lengi hefur verið kurr meðal félagsfólks, en stjórnarklíkan hefur látið sig það litlu skipta. Efling og VR eru stærstu félögin í Alþýðusambandinu og ráða þar mestu. Á báðum stöðum er sár biturð út af Salek-samkomulagi og undirlægjuhætti stéttarfélaga. Ef kurrinn yfirtekur þau, fer að hitna undir Gylfa Arnbjörnssyni forseta og sendisveini atvinnurekenda. Byltingin er í gangi í VR og vonandi tekst líka að ryðja karlrembdum kreppukörlunum burt úr Eflingu og öðrum þrælafélögum.

Ráðast að Gylfa sendisveini

Punktar

Lög og reglur Eflingar eru sérstaklega samdar til að gera nýjum framboðum erfitt fyrir. Þau fá ekki kjörskrá og verða að geta sér til um kosningarétt. Sumir eru borgandi félagsmenn, en samt ekki á kjörskrá. Fylgismenn nýs framboðs verða að finna 120 meðmælendur á einni viku, án þess að hafa aðgang að hinni dularfullu kjörskrá. Þetta er verkalýðsfélag, sem kærir sig ekki um lýðræði. Eigi að síður standa vonir til. að hin ágæta Sólveig Anna Jónsdóttir nái að klifra múrinn um syfjaða fráfarandi stjórn. Yrði fyrsta atlaga almennings að miðaldra karlaveldi umhverfis ASÍ og forseta þess, Gylfa Arnbjörnsson, sendisvein atvinnurekenda.

Sótsvartar skoðanir

Punktar

Einn í forvali fyrir borgarstjórn hefur sótsvartar skoðanir á velferð: „Ég hef sagt, að skattborgarinn eigi ekki að borga fyrir fólk í sjálfstortímingu, og mun ég skera niður við trog í þessum málaflokki. Það er undarlegt að hugsa til þess, að útlendir rónar ferðist heimshorna á milli til þess að leggjast á félagslega kerfið hér í Reykjavík, en þetta er raunin. Reykjavík virðist stefna í að verða einhverslags félagsleg ruslakista fyrir menn í sjálfstortímingu. Á minni vakt verður félagsleg aðstoð skorin niður við nögl. Væntanlega mun mannréttindaskrifstofa borgarinnar súpa hveljur. en óttist ekki, það mun verða mitt fyrsta verk að loka henni.“ En Viðar Guðjohnsen fékk bara 65 atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki frumskógarlögmál markaðshyggjunnar.

Siðar ekki siðleysingja

Punktar

Katrín Jakobsdóttir er eitt helzta vandamál þjóðarinnar. Hindrar eðlilega þróun mannasiða í pólitíkinni. Segir það „ekki vera hluta af pólitískri menningu hér á landi“, að ráðherrar taki ábyrgð á siðleysi sínu með því að segja af sér. Notar það sem rökstuðning fyrir frekari setu Sigríðar Andersen í ríkisstjórn. Viðheldur þannig gömlu siðleysi, sem þjóðin þarf að losna við. Ekki bara í þessu máli neitar Katrín að láta ráðherra segja af sér. Tekur ekki heldur afstöðu til þess, hvort Bjarni Benediktsson hafi brotið siðareglur. Hann lá í ár og yfir kosningar á tilbúinni skýrslu um aflandseignir auðgreifa. Katrín er því orðin framvörður hins íslenzka siðleysis.

Klofin nefnd um pilsfald

Punktar

Nefnd um rekstrarvanda einkarekinna fjölmiðla klofnaði eins og við mátti búast. Meirihluti vildi ríkistyrkja þá. Með brennivínsauglýsingum, afslætti eða afnámi vasks og auglýsingabanni á Ríkisútvarpið. Gagnið af slíku fyrir almenning er þó næsta óljóst. Tap auðmiðla stafar ekki af Ríkisútvarpinu, heldur af vefmiðlum, frímiðlun frétta og samskiptamiðlum almennings. Tækninýjungar hafa skafið af auglýsinga- og áskriftatekjum gamalla miðla. Í staðinn vilja auðmenn komast undir pilsfald ríkisins. Það er meginstefna Sjálfstæðisflokksins að mjólka ríkið í þágu auðgreifa. Og Brynjar segir gömlu flokkblöðin hafa verið skárri en blöð nútímans.