Barnið
“Þetta er kommúnismi”, sagði mamman í næstu götu. “Kennarinn hefur látið þig gera þetta”. Hún hafði frétt af blaði, sem ég handskrifaði í fimm eintökum. Þá var ég ellefu ára gamall og bjó í Drápuhlíð 27. Hún hafði þó ekki séð blaðið. Það var tvær síður A4 og var allt soðið upp úr fimmaurabröndurum í tímaritinu Æskunni. Kennarinn var kommúnisti, en hafði ekki hvatt mig eða aðra til blaðaútgáfu. Ég man viðbrögð mömmunnar í Barmahlíð. Mér þótti þau henni til smánar. Að því leyti var ég þroskaður, tók reiðilestur hennar ekki inn á mig. Horfði bara á hana stórum augum barnsins, sem skilur ekki neitt.
Á fullorðinsárum hef ég oft haft tækifæri til að kynnast sömu flumbruhugsun og mömmunnar. Í starfi hef ég sífellt rekizt á fólk, sem Halldór Laxness lýsir svona í Innansveitarkróniku: “Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um titlingaskít, sem ekki kemur málinu við, en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls.” Orðhengilsháttur kemur á Íslandi í stað rökhugsunar.
Íslendingar telja hagkvæmt að fullvinna hráefni sjávarútvegs, þótt fiskur sé ekki hráefni. Vilja hafa vexti sanngjarna, þótt einhverjir verði að fást til að lána. Vera sjálfum sér nógir í búvöru, þótt það kosti valútu. Framleiða mat handa hungruðum heimi, sem ekki borgar. Ferðamenn vilji koma og skoða hreint og óspillt land, þétt skipað álbræðslum. Allt landið skuli vera byggt. Stöðva þurfi elfur fjármagnsins suður. Að fyrirtæki fái fyrirgreiðslu ríkisins. Ráðherrar setji reglugerðir fyrir sérhagsmunahópa. Eigendur húsa fái 20% afslátt af skuldum. Skattgreiðendur borgi alla slíka óskhyggju.
Þetta er ekki ævisaga, heldur starfssaga. Hún fjallar um feril í fjölmiðlun. Í leiðinni reyni ég að gera grein fyrir áhrifum, sem ég varð fyrir. Og því fólki, sem hafði áhrif á mig. Áður hefur verið fjallað um þetta í tveimur viðtalsbókum. Í “Lífsviðhorf mitt” (1991) skrifar Sigmundur Ernir um mig. Og í “Íslenskir blaðamenn” (2007) skrifar Ásgeir Tómasson um mig. Kaflar eru líka í bókunum “Fjölmiðlar nútímans” (1989) eftir Hannes H. Gissurarson. Og “Nýjustu fréttir” (2000) eftir Guðjón Friðriksson. Ég er sáttur við það, sem þar stendur og reyni hér að skauta frá þeim textum. Bæta við einhverju öðru.
Hér verður ekki sagt frá fjölskyldu minni, konu og börnum, né heldur ýmsum einkavinum. Þetta er opinber saga, ekki einkasaga. Ég er fylgjandi einkalífi innan veggja heimilisins, rétt eins og ég er andvígur einkalífi utan þess. Hér er að vísu ekki fjallað um fjármál mín, því að þau eru hversdagsleg. Skattar mínir hafa verið birtir opinberlega árum saman og er það vel. Ég hef það fjárhagslega bærilegt, takk. Við hjónin eigum skuldlaust hús og tvo bíla, hálfa jörð í Hreppunum og þriðjung í húsi norður í landi. Hef alla ævi verið hátekjumaður, meira óvart en af ásettu ráði. Reyki hvorki né drekk.
Fyrsta skref mitt í blaðamennsku í barnaskóla var engin frásagnarlist. Allt efni blaðsins var hirt upp úr tímariti. Enda var mér þá ekki kunnugt um siði eða siðareglur í meðferð texta. Framlag mitt fólst í að pakka texta saman í blað til að gleðja aðra krakka. Frami minn í blaðamennsku löngu síðar byggðist á ritstjórn, en ekki á texta. Þegar ég steig mitt fyrsta skref í blaðamennsku ellefu ára gamall, kom ég fram sem ritstjóri. En ekki sem höfundur. Þá strax rak ég mig líka á þjóðareinkenni, sem ég átti oft eftir að fjalla um í leiðurum: Flumbrugang Íslendinga og skort á rökhugsun.
Fram að menntaskóla bjó ég í húsum móðurbróður míns, Pálma Péturssonar. Hann var skrifstofustjóri rannsóknastofnana atvinnuveganna, mikill bókamaður. Heima voru margar bækur, meðal annars frá róttækum útgáfum Ragnars í Smára og Kristins E. Andréssonar. Pálmi kaus Sjálfstæðisflokkinn, en keypti samt bækur, sem voru langt til vinstri. Fór með mig á miðilsfund til Þórbergs Þórðarsonar. Ég var lítið fyrir fótbolta og kúrði oft inni við bóklestur. Þar las ég Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels. Og þar las ég Blekkingu og þekkingu eftir Níels Dungal. Varð samt fljótt miðjumaður í pólitík.
Einu sinni fór Pálmi með mig til skólabróður síns úr Menntaskólanum á Akureyri, Geirs Jónassonar bókavarðar. Sá bjó á Melunum, rétt hjá Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi. Þetta var snemma á barnaskólaárum mínum. Meðal gesta var Þórbergur og gestirnir fóru í andaglas að hans frumkvæði. Ekkert gerðist í glasinu fyrr en ég fór að hreyfa borðfótinn með fætinum. Út úr því kom ekkert af viti, bara rugl. Upp komst um strákinn Tuma og ég var skammaður pínulítið, þó minna en efni stóðu til. Ég hafði á tilfinningunni, að viðstaddir hafi fremur litið á andaglasið sem samkvæmisleik en sem alvöru.
Bernskuvinur minn var Sigurður Steinþórson, síðar jarðfræðiprófessor. Hann var sonur Auðar, dóttur Jónasar frá Hriflu Jónssonar. Með Sigurði fór ég oft til Jónasar að Hnitbjörgum á Hávallagötu. Fyrir mér var það höll. Ég var sex ára, þegar Jónas fékk mig að fara með sér og Sigurði heim til Jónasar afa míns Kristjánssonar að Gunnarsbraut 28. Þeir höfðu átt í illu á Alþingi, þar sem afi minn sagði Hriflu-Jónas geðveikan. Hittum afa minn og þeir nafnar fóru í göngutúr eftir Gunnarsbraut. Ég man eftir baksvipnum á þeim. Fullar sættir náðust í göngutúrnum. Þetta var fyrsta skref mitt í diplómatíu.
Pálmi bjó með foreldrum sínum á Ásvallagötu 13. Síðan með ráðskonum og loks með sænskri eiginkonu að Drápuhlíð 2. Pétur Pétursson, afi minn, kenndi mér fjögurra ára gömlum að lesa á verzlunarskilti. Ég man enn, að mér þótti erfitt að lesa mig fram úr skiltinu Pfaff neðst á Skólavörðustíg. Kunni að lesa, áður en ég kom í smábarnaskóla og allt barnaskólaefnið kunni ég áður en ég komst í barnaskóla. Á sumrin var ég í fóstri á Reynistað í Skagafirði, hjá Jóni Sigurðssyni alþingismanni. Þar var líka allt í föstum skorðum. Nóg var af bókum á báðum stöðum. Þetta voru góðborgaraleg bókaheimili.
Ég var í smábarnaskóla á horni Hringbrautar og Tjarnargötu fimm ára gamall. Ári síðar fór ég til Kristínar að Bárugötu 11, þar sem ég lærði landafræði og Íslandssögu ásamt fleiri greinum. Á því ári var ég líka sendur í dans hjá Rigmor Hansen í Gúttó. Það fannst mér afleitt, þar voru stelpur. Fór bara í fyrsta tímann, en faldi mig síðan við Landakotskirkju í skoti milli súlna. Dansmenntin varð aldrei meiri en þessi eini tími. Í Melaskóla var ég látinn hoppa úr sjö ára bekk upp í níu ára bekk, kunni allar bækur. Fór upp á þau býti í Austurbæjarskóla og dofnaði þá samband mitt við krakka í Ásvallagötu.
Sem barn fékk ég væga söfnunaráráttu á ýmsum sviðum. Eftir föður minn erfði ég frímerkjasafn, sem ég setti í þar til gerð albúm. Bætti við safnið til að byrja með, en áhuginn lognaðist út af á gagnfræðaskólaárum. Ég safnaði líka prógrömmum kvikmyndahúsa, þegar ég var ellefu ára, en það datt upp fyrir. Betur gekk með Basil fursta, sögur af einkaspæjara. Ég átti þær komplett, áður en ég sagði skilið við barnaskólann. Löngu seinna brauzt áráttan út í söfnun góðra reyfara. Ég á ennþá hundrað bækur eftir George Simenon og flestar bækur Graham Greene. Eiðfaxa og Hestinn okkar á ég ennþá komplett.
Pálmi átti Eimreiðina frá upphafi, tímarit frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Þetta var einn lengdarmetri í stórum bókaskáp. Þetta las ég allt, þegar ég var á barnaskólaaldri. Meiri vigt var þó í danskri alfræðibók. Hún var ekki skrifuð í stafrófsröð, heldur kaflaskipt eftir málefnum og fræðigreinum. Hana las ég alla og lærði mikið. Við Pálmi sátum oft hvor sínu megin við borðstofuborðið og lásum bækur. Á sunnudagsmorgnum fórum við í gönguferð um Reykjavíkurhöfn. Á Reynistað sátum við Jón Sigurðsson hvor sínu megin við borðstofuborðið og lásum bækur. Ég var orðinn fagbókabéus strax sem barn.
Þá var ég minnugur, þótt það færi fljótt af mér fullorðnum. Pálmi fór einu sinni með mig í hópi vina sinna í lítilli rútu austur í Fljótshlíð. Á leiðinni talaði fólkið um sveitabæina og fólkið, sem þar bjó. Á bakaleiðinni var ég í gamni spurður, hvað bæirnir hétu. Í ljós kom, að ég mundi öll bæjarnöfn frá Fljótshlíð til Reykjavíkur. Þetta þótti ferðafélögunum undur og stórmerki. Sjálfsálit mitt fór um víðan völl. Minni mitt var þó ekki varanlegra en svo, að sem fullorðinn maður gleymdi ég flestu. Símanúmerum, pin-númerum sem öðru. Ég mundi aldrei neitt og varð að skrásetja alla hluti.
Minnisleysið rak mig löngu síðar til að skrifa um ættir hrossa. Á mannfundum hestamanna mundi ég aldrei, hver var undan hverjum og hver var langafinn í móðurætt. Ég var tæpast gjaldgengur í þeirri heillandi umræðu. Því skráði ég ættir hrossa í fjölvíðan gagnagrunn, fyrst í Helix, ógnarfínan hugbúnað. Þannig gat ég í fljótheitum kallað fram ættir hrossa fram og aftur. Gat fundið forfeður og afkvæmi. Þetta bætti minnið að vísu ekki neitt. En varð til þess, að ég gat ungað löngum ættarþulum gagnagrunnsins út í hugbúnað í grafagerð. Hin fallegu ættargröf urðu grundvöllur ættfræðibóka um hross.
Á Reynistað var rekinn umfangsmikill búskapur með þrjátíu kýr, 400 kindur og tuttugu dráttarhesta. Þar var unnið eftir klukku með klukkustundar hléum í hádegismat og síðdegiskaffi. Á sunnudögum var jafnan frí, þótt unnið væri í þurrki um allan Skagafjörð. Jóni varð ekki hnikað í reglusemi, lagði sig alltaf í kortér. Ég var enginn átakamaður til vinnu sem unglingur, en þótti iðinn. Ég sveikst ekki um og fékk meira að segja kaup eftir sumarið. Á Reynistað lærði ég að halda mig að verki. Það hef ég æ síðan gert. Ég hef aldrei látið verklok standa upp á mig og það hefur auðveldað mér lífið.