Árnessýsla austur

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Jökulfall

Frá Ásgarði í Kerlingarfjöllum til Svartárbotna á Kili.

Tengileið á jeppavegi milli leiða á Kili og leiða á Hreppaafréttum. Leiðin liggur um brú á Jökulfalli.

Kerlingarfjöll eru brött fjallaþyrping suðvestan Hofsjökuls. Þau rísa upp í 1100-1400 metra hæð af 700 metra hásléttu. Litrík og gróðurlítil, sum úr líparíti Norðvestan í þau skerast Hveradalir, þar sem lengi var í Ásgarði rekinn sumarskóli fyrir skíðafólk. Þar er nú rekin ferðamiðstöðin Fannborg í 700 metra hæð. Þaðan er jeppaslóð upp í 1000 metra hæð. Í Ásgarði og Svartárbotnum er aðstaða fyrir hestaferðamenn.

Förum frá ferðamiðstöðinni í Ásgarði efir jeppavegi yfir á Kjöl. Fyrst vestur að brú á Jökulfalli yfir fossinum Hvini og síðan áfram vestur með fljótinu að vegamótum á Kili, þjóðvegi 35. Með þeim vegi til norðurs er stutt leið í Gránunes í Svartárbotnum, þar sem er fjallaskáli.

10,1 km
Árnessýsla

Skálar:
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.
Svartárbotnar: N64 44.630 W19 25.927.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Illahraun, Miklumýrar, Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ísahryggur

Frá Helgaskála við Stóru-Laxá til Hólaskógar við Þjórsá.

Leiðin fylgir að mestu línuvegi, nema fyrst og síðast. Hún liggur þvert yfir afréttir hreppamanna og skeiðamanna, en lítið er um gróður á leiðinni, nema í nágrenni við skálana tvo. Af leiðinni liggja langleiðir um afréttir, helzt dráttarvélaslóð við Ísahrygg til skálana Sultarfitja og Skeiðamannafitja.

Meginaðdráttarafl leiðarinnar er Háifoss í Þjórsárdal. Frá leiðinni, þegar komið er yfir Fossá, er aðeins skammur spölur fram á bjargbrún andspænis Háafossi í Fossá. Háifoss er einn af hæstu fossum landsins, 122 metra hár í einni bunu. Innar í gilinu er annar foss samhliða og heitir sá Granni. Þessir fossar eru meðal náttúruundra landsins.

Förum frá Helgaskála í 450 metra hæð og fylgjum slóð austan við Stóru-Laxá, suðaustur yfir Tangahorn og yfir ána, um Sandver. Áfram suðaustur með línuvegi norðan Tjaldfells að Ísahrygg, þar sem við tökum krók til suðurs áður en við förum upp á hrygginn í 590 metra hæð. Áfram förum við niður af hryggnum og til suðausturs norðan við Hellukrók og sunnan við Stórás. Þegar við komum að Kolli tökum við syðri slóðina yfir Fossá og að afleggjara niður að Háafossi. Að lokum förum við suður og niður af heiðinni vestan Stangarfellsaxlar og komum að fjallaskálanum Hólaskógi í 280 metra hæð.

25,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.
Fitjaásar: N64 14.650 W19 46.910.
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Sultarfit, Gjáin-Stöng, Hraunin.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Leirá, Þjórsárdalur, Skúmstungur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Illaver

Frá Skáldabúðum í Gnúpverjahreppi til Illavers.

Gömul leitarmannaleið, nú að mestu jeppafær. Illaver eru blaut og torfær hestum lengra en slóðin nær.

Förum frá Skáldabúðum til norðurs austan við Torfdalsás og þar norður á jeppaslóðina vestan Hrútafells. Þegar hún beygir vestur um Lambafell, förum við áfram til norðurs vestan við Dalakistu og Lambafell að eyðibýlinu Grímsstöðum við Stóru-Laxá, andspænis Hrunakróki. Síðan upp og austur Rjúpnaheiði og meðfram Skillandsá. Ofan árgljúfranna förum við yfir ána og síðan norðvestur fjallið um Stóraás og Pálsfell að Illaveri undir Geldingafelli.

20,6 km
Árnessýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hallarmúli, Kaldbaksvað, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Fossnes, Hamarsheiði, Þjórsárholt, Skáldabúðir, Hlíðarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Illahraun

Frá Setrinu sunnan Hofsjökuls og norðan Kerlingarfjalla til Ásgarðs í Kerlingarfjöllum.

Leiðin ber nafn með rentu. Hún er löng og úfin og lítið er um vatn á heitum degi. Að mestu er fylgt jeppavegi, þótt krókar séu teknir af honum hér og þar. Útsýni er fagurt, einkum til Kerlingarfjalla, þar sem stakir tindar rísa brattir upp af landinu, Loðmundur, Snækollur og Mænir. Í norðri rís Blágnípa og að baki henni Hofsjökull. Illahraun er hluti af stóru hrauni, sunnar og austar heitir það Setuhraun og Kisuhraun. Milli Illahrauns og Setuhrauns er 100 metra hæðarmunur og sjást þar háir hraunfossar.

Förum frá fjallaskálanum Setrinu í 700 metra hæð og í suðvestur og síðan í vestur og eftir slóð upp fjallsrana. Upp ranann förum við vestur, nánast að Efri-Kisubotnum, þar sem slóðin beygir til norðurs meðfram austurhlið Kerlingarfjalla. Við förum um Illahraun í 820 metra hæð, sunnan við Þverfell og norðan við Kerlingarfjöll. Næst beygjum við til norðurs og norðvesturs að Jökulfalli og förum suðvestur með henni vestur fyrir Ásgarðsfjall / Árskarðsfjall og síðan suður í dalverpið vestan fjallsins, þar sem fjallaskálarnir eru í 700 metra hæð.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.
Kerlingarfjöll: N64 41.074 W19 18.119.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjórðungssandur, Miklumýrar, Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Klakkur, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Iðubrú

Frá Iðubrú að Flúðum í Hrunamannahreppi.

Algeng leið hestamanna um vað á Stóru-Laxá í sleppitúrum á vorin.

Förum frá Iðubrú á Hvítá suður og austur með ánni að Stóru-Laxá. Síðan upp með Stóru-Laxá að Ósabakka. Þar förum við norður yfir ána og að Syðra-Langholti. Þaðan eftir slóð, sem liggur um Álfaskeið og Langholtsfjall endilangt og síðan niður að þjóðvegi 341 og með honum til Flúða.

6,9 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Vörðufell, Hvítárbakkar, Galtafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvítárvatn

Frá Fremstaveri til Árbúða á Kili.

Þetta er hluti hins forna Kjalvegar. Bílvegurinn liggur um Bláfellsháls vestan Bláfells en við förum austan fjallsins, þar sem engir jeppar geta verið á ferð. Við fylgjum bílvegi á stuttum kafla milli brúa á Hvítá og Svartá, og förum svo síðasta spölinn um gróna bakka Svartár. Voldugt Bláfell er einkennisfjallið, en á norðurleið er bezt útsýni norður á Kerlingarfjöll. Síðari hluta leiðarinnar höfum við Langjökul og jaðarfjöll hans á vestri hönd, svo og Hvítárvatn.

Í Bláfelli bjó Bergþór tröll. Er hann var á leið úr byggð í helli sinn, sótti að honum þorsti. Hann áði við Bergstaði og bað húsfreyju að gefa sér vatn. Á meðan hún sótti vatnið klappaði Bergþór ker mikið í klöpp, sem bærinn er kenndur við og lagði á að í því myndi aldrei frjósa eða þrotna sýran.

Förum frá fjallaskálanum í Fremstaveri í 280 metra hæð eftir reiðslóð austur og norður með fellinu um Miðver og Innstaver milli Bláfells og Hvítár. Síðan norður mýrarnar í Lambafellsveri, sem geta orðið anzi blautar í rigningum. Förum norður fyrir Lambafell og vestur að skálanum vestan við Hvítárbrú. Næst förum við yfir brúna, förum norður með veginum og tökum síðan vinstri slóðina um Svartártorfur að Hvítárnesi. Við förum af veginum, þegar við komum að Svartá og fylgjum árbökkunum að austanverðu upp í fjallaskálann í Árbúðum í 470 metra hæð.

28,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417.
Hvítárbrú: N64 32.343 W19 47.137. Hesthús.
Hvítárnes: N64 36.999 W19 45.377.
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.

Nálægir ferlar: Fremstaver, Þjófadalir.
Nálægar leiðir: Farið, Bláfellsháls, Grjótártunga, Kjalvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hvítárbakkar

Frá Syðra-Langholti að Hvítárholti í Hrunamannahreppi.

Förum frá Syðra-Langholti suður að vaðinu á Stóru-Laxá og síðan norður og niður með ánni, næstum að Hvítá. Áður en kemur að ármótum þarf að krækja upp á heimreið að Auðsholti. Þaðan með Hvítárbökkum austur að Hvítárholti.

16,2 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Iðubrú.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hrunamannahreppur

Frá Hruna að Tungufelli í Hrunamannahreppi.

Algeng leið um byggðir í ofanverðum Hrunamannahreppi. Orðin erfiðari vegna girðinga.

Hruni er ein höfuðjarða landsins, var um tíma aðsetur Gissurar Þorvaldssonar á Sturlungaöld. Hruni er milli vaða á Þjórsá og Hvítá og vel í sveit sett milli Odda og Skálholts. Þjóðsaga segir frá presti í Hruna, em stóð fyrir dansi og drykkju og spilum í kirkjunni á jólanótt. Móðir hans, sem hét Una, reyndi í þrígang að fá hann ofan af þessu. Þegar hún fór úr kirkjunni í þriðja skiptið, heyrði hún kveðið: “Hátt lætur í Hruna; / hirðar þangað bruna; / svo skal dansinn duna, / að drengir mega það muna. / Enn er hún Una, / og enn er hún Una.” Síðan sökk kirkjan með manni og mús í kirkjuhólinn og hefur síðan ekki sézt.

Förum frá Hruna ofan bæjar eftir gömlu leiðinni norður yfir Litlu-Laxá að Berghyl. Síðan norður með Laugafjalli um Þórarinsstaði og austan við Laugar og Dúðuás. Síðan um Gyldarhaga milli Jötufjalls að austanverðu og Kotlaugafjalls að vestanverðu að eyðibýlinu Jötu. Þaðan áfram norður um eyðibýlið Snorra-Stekkatún milli Skipholtsfjalls að vestan og Jötufjalls að austan. Áfram norður um Foss og Hlíð undir Hlíðarfjalli að þjóðvegi 349 að Tungufelli. Honum fylgjum við norður að Tungufelli.

18,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Litla-Laxá, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Sólheimar, Stóru-Laxárvað, Galtafellsleið, Stóriskyggnir, Skipholt, Tjarnheiði, Gullfoss, Tungufellsdalur, Hrunamannaafréttur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hrunamannaafréttur

Frá Tungufelli í Hrunamannahreppi um jeppaslóð norður í fjallaskálann í Leppistungum.

Fundizt hafa bæjarstæði nokkurra fornbæja á þessari leið, Lauga, Búðarárbakka, Rofshóla, Stangarness, Mörþúfu, Þórarinsstaða og jafnvel fleiri. Í Jarðabókinni segir, að tólf bæir hafi verið á þessum slóðum að fornu. Flestir eru þeir í um 260 metra hæð nálægt Búðará og Stangará, en einnig allt uppi í Fosslækjarverum og við Kerlingarfjöll. Allir þessir bæir fóru í eyði í sama vikurgosinu úr Heklu um 1100.

Síðan brúin kom yfir Jökulkvísl á veginum af Kili til Kerlingarfjalla, hefur þetta verið algeng ferðaleið hestamanna. Úr sveitum austan Hvítár hafa menn farið þessa leið í flokkum á landsmót í Skagafirði. Gamla leiðin lá miklu vestar og sunnar, yfir Grjótá í Hrafntóftaveri, síðan um Grjótártungu og yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells.

Förum frá Tungufelli fyrst norður birkivaxinn Tungufellsdal austan Jaðarfjalls. Síðan norður á Öldur og áfram norður meðfram Búðará og síðan vestan Búrfells. Reiðslóðin liggur nokkru vestar en jeppavegurinn. Frá Svínárnesi liggur reiðslóðin áfram á vestri bakka Sandár alla leið upp í Leppistungur. Jeppaslóðin liggur austar, fyrst norðaustur yfir Skyggnisöldu að Innri-Rauðá og síðan norður með Innri-Rauðárhlíð að fjallaskálanum í Leppistungum.

48,7 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fagridalur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur, Gullfoss, Harðivöllur, Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá, Grjótártunga, Kjalvegur, Rjúpnafell, Klakkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hraunin

Frá Hólaskógi í Þjórsárdal að Áfangagili innan Rangárbotna.

Hrauneyðimörk og brú á Þjórsá tengja saman vinsælar ferðaleiðir á afréttum Hreppamanna og Landmanna. Hér er vítt til veggja í allar áttir, Heklutindur gnæfir í suðri í 15 kílómetra fjarlægð meðan við fetum yfir sandborið hraunið. Við skiljum við nútímaskála með ýmsum þægindum og heilsum gamaldags burstabæ án flestra þæginda. Á leiðinni sjáum við tilraunir til að hefta sandfok með girðingum og sáningu. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, nema á Þjórsárbrú og þegar við förum þvert yfir þjóðveg 26.

Förum frá Hólaskógi í 280 metra hæð beint suðaustur yfir sandinn gegnum hlið á girðingu, beygjum til austurs meðfram girðingunni og förum reiðslóð um Álftavelli að þjóðvegi 32 og brú yfir Þjórsá. Austan brúarinnar beygjum við út af veginum og förum suður um sandborið og samt seinfarið hraunið, í 270 metra hæð. Framundan sést Áfangagil undir Valafelli. Við förum yfir þjóðveg 26 og senn verður færið greiðara. Grónar grundir í Leirdal næst Valafelli létta sporið. Við förum inn gilið að notalegum burstabæ í 300 metra hæð, skálanum í Áfangagili.

11,2 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Nálægir ferlar: Ísahryggur, Gjáin-Stöng, Sauðleysur, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Valafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hnífárver

Frá Sprengisandsleið á Gnúpverjaafrétt um Hnífárver að Arnarfelli.

Tvær fornar gæsaréttir eru leiðinni, önnur á Nautöldu og hin á Réttaröldu í Illaveri, þar sem reiðliðin liggur um, um það bil mitt á milli Miklukvíslar og Fremri-Múlakvíslar.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, fyrr en farið er austur yfir Þjórsá eftir gamla Arnarfellsveginum.

Förum frá Hnífárósi eftir jeppaleið í átt að Setrinu. Fylgjum þeirri leið, sem austust er og sveigir austur að Hnífá sunnan við Steingrímsöldu. Förum af slóðinni yfir Hnífá og síðan austan öldunnar að Blautukvísl fyrir suðvestan Nautöldu. Blautt er það í öllum tilvikum. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Þegar við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til austurs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð. Hér er enginn skáli, svo að við förum eftir jeppaslóð austur yfir Þjórsárkvíslar og loks á stíflu yfir Þjórsá við Háumýri, nálægt Innra-Hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þar er hestagerði og heysala. Við erum komin á fjallveg um Sprengisand.

29,6 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Skálar:
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881.

Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfell, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hlíðarfjall

Frá Skarði um Hlíðarfjall að Laxárdal í Gnúpverjahreppi, að mestu utan jeppaslóða.

Förum frá Skarði norðaustur með Skarðsfjalli og norður fyrir það austur að Háholti. Svo til norðausturs utan í Háholtsfjalli vestanverðu að Hlíð. Þaðan norður að Stóru-Laxá og síðan norðnorðaustur meðfram Stóru-Laxá og undir Hlíðarfjalli og um Leirdal norður í Laxárdal.

15,8 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Kaldbaksvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Stóru-Laxárvað, Þjórsárholt, Fossnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Haukholt

Frá Brúarhlöðum um Skipholt að Fossi í Hrunamannahreppi.

Förum frá þjóðvegi 30 við Brúarhlöð suður um hlið á girðingu og vestan við Skersli að Hvítá. Síðan að Haukholti og þaðan eftir heimreiðinni suður að þjóðvegi 30.

3,3 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Fagridalur.
Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Harðivöllur

Frá línuvegi á Hreppaafréttum að Svínárnesi á Hreppaafréttum.

Farið um slóðir, sem voru byggðar að fornu samkvæmt fornleifagreftri. Þá var byggð við Búðará og Stangará og þaðan var stutt upp að Kjalvegi við Hólmavað. Fundizt hafa bæjarstæði nokkurra fornbæja á þessari leið, Lauga, Búðarárbakka, Rofshóla, Stangarness, Mörþúfu og Þórarinsstaða. Flestir eru þeir í um 260 metra hæð nálægt Búðará og Stangará. Í Jarðabókinni segir, að tólf bæir hafi verið á þessum slóðum að fornu. Hér fór fólk, sem þurfti að fara milli Norðurlands og sveita austan Hvítár. Þá fóru menn upp Tungufellsdal og um Svínárnes að vaði á Jökulfalli við núverandi brú á Hvítá norðan Bláfells. Fóru vað á Jökulkvísl í stað þess að fara vað á Hvítá. Á Harðavelli var valllendi fram á 19. öld, sem hefur síðan blásið upp. Enn eru þar háar valllendistorfur, sem þreyja þorrann.

Byrjum í 300 metra hæð á vegamótum afréttarvegar Hrunamanna úr Tungufellsdal og línuvegar yfir Hreppaafréttir. Förum frá vegamótunum norðvestur af jeppaveginum niður að brekkum Hvítár, þar sem gamli Kjalvegurinn liggur upp úr Hreppum. Þaðan upp með Hvítá að fornbýlinu Búðarárbakka og síðan stuttan spöl upp með Búðará, þangað sem hún sveigir úr austri. Þar förum við yfir ána og áfram norður að Stangará, þar sem voru fornbýlin Rofshólar og Þórarinsstaðir. Förum áfram norðvestur að Harðavelli austan við Hvítá og eftir völlunum að Sandá og upp með henni að fjallaskála í Svínárnesi í 390 metra hæð.

20,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Kjalvegur, Tungufellsdalur, Svínárnes, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins