Árnessýsla austur

Hamarsheiði

Frá Laxárdal að Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi.

Þetta er gamla þjóðleiðin upp Gnúpverjahrepp yfir í Hrunamannahrepp. Auðveld leið um heiðar í Hreppum.

Förum frá Skáldabúðum fyrst með þjóðvegi 329 suður fyrir tún. Þaðan suðsuðaustur um heiðina, vestan við Vörðuása. um Stóra-Skyggni, yfir Tungá, síðan suður Hamarsheiði austan við Mástungnafjall að bænum Hamarsheiði.

6,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Fossnes, Ásólfsstaðir, Þjórsárholt, Skáldabúðir, Illaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skillandaá

Frá Kaldbaksvaði á Stóru Laxá um Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

Förum frá Kaldbaksvaði suðvestan undir Kaldbaksfjalli. Upp með Stóru-Laxá að austanverðu að girðingu austan jeppaslóðar. Um hlið á girðingunni og síðan austur og upp með Skillandaá að fjallaskálanum Hallarmúla.

16,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Sultarfit.
Nálægar leiðir: Þjórsárholt, Hamarsheiði, Fossnes, Skáldabúðir, Illaver, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallarmúli

Frá þjóðvegi 329 við Skáldabúðir í Gnúpverjahreppi eftir jeppaslóð norður í fjallaskála Flóa- og Skeiðamanna í Hallarmúla.

Hluti dráttarvélaslóðar, sem liggur frá efstu bæjum og langsum eftir eyðilegum afrétti Skeiða- og Flóamanna um Ísahrygg og Sultarfit upp að Rjúpnafelli við Kerlingarfjöll. Í Hallarmúla má einnig komast utan bílvega eftir reiðslóð frá Kaldbak um Kaldbaksvað og um hlið á girðingu andspænis Hrunakróki.

Byrjum við þjóðveg 329 um 500 metra norðan Skáldabúða austan við Stöðulás og Kragaás. Fylgjum jeppaslóð til norðurs og förum eftir henni alla leið í Hallarmúla. Fyrst förum við milli Stóráss að vestan og Torfadalsáss að austan. Síðan vestan við Vatnsás. Næst sneiðum við upp brekkurnar til austurs fyrir sunnan Lambafell, förum austur í Innri-Kálfárfitjar og þar til norðausturs og norður fyrir Eystra-Lambafell yfir á Skillandsfitjar, þar sem er Hallarmúli.

16,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Sultarfit.
Nálægar leiðir: Þjórsárholt, Hamarsheiði, Fossnes, Skáldabúðir, Illaver, Kista.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hagavað

Frá Fossnesi eða Haga í Gnúpverjahreppi um Hagavað að Skarðsfjalli í Landsveit og Nautavaði.

Hestamenn fara frekar Nautavað undir öruggri leiðsögn Árna Ísleifssonar í Þjórsárholti. Eingöngu má fara Hagavað undir leiðsögn staðkunnugra manna og á traustum vatnahestum. Hafa þarf samband við Búrfellsvirkjun um vatnsmagn í Þjórsá.

Hagavað er miðvaðið á þessum slóðum, mjög breitt, en sjaldan farið, enda oft ófært. Sé það fært, er botninn hins vegar bæði sléttur og traustur. Förum frá Fossnesi niður á þjóðveg 32 og beygjum með honum austur að Haga. Rétt áður en við komum að bænum er slóð af veginum niður á eyrar Þjórsár. Þar förum við í sveig, fyrst suður og síðan suðvestur yfir Hagavað á Þjórsá. Síðan höldum við áfram eftir slóð sunnan árinnar, norður fyrir Skarðsfjall og áfram suður að Vaðvelli við Nautavað, sunnan Þjórsár.

13,1 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Þjófagil, Ásólfsstaðir, Fossnes, Gaukshöfðavað, Skarðsfjall, Nautavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gullfoss

Frá Jaðri og Tungufelli að Gullfossi að austanverðu og til baka aftur.

Hestamenn og göngufólk eiga kost á óvenjulegu sjónarhorni á Gullfoss með því að fara upp Hreppa með Hvítá austanverðri.

Förum frá Jaðri norður með Tungufelli vestanverðu, austan við eyðibýlið Stekkjartún og síðan um Flataskóg og Kálfhaga og loks um Gullfossgrjót að Gullfossi að austanverðu. Til baka má fara austur um eyðibýlið Hamarsholt að fjallveginum upp Tungufellsdal og fara þann veg til baka að Tungufelli og Jaðri. Einnig má fara jeppaslóð norðan við Tungufell að fjallveginum.

4,4 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Fagridalur.
Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur, Tungufellsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grjótártunga

Frá Svínárnesi um Grjótártungu og Jökulkvísl að Hvítárbrú norðan Bláfells.

Áður fyrr var þetta afleggjari Kjalvegar niður í Hreppa og aðrar sveitir austan Hvítár. Þá var farið yfir Jökulkvísl á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells. Þegar Gissur Þorvaldsson bjó í Hruna, hefur þetta verið leið hans norður á Kjöl. Þá var byggð mun lengra upp með Hvítá austanverðri en nú er. Skammur vegur frá efstu bæjum við Stangará að Kjalvegi við Hólmavað. Fossinn Ábóti hét upprunalega Árbótarfoss.

Förum frá fjallaskálanum í Svínárnesi í 390 metra hæð smáspöl suður með Sandá og síðan yfir hana á vaði og þverbeygjum norður með ánni. Síðan um Lausamannsölduver yfir í Hrafntóftaver austan við Grjótá. Förum þar yfir ána og norðvestur um Grjótártungu. Þar nálgumst við Hvítá við fossinn Ábóta og förum síðan um Ábótaver. Förum yfir Jökulkvísl á vaði og síðan vestur yfir Miðnes að brúnni yfir Hvítá í 430 metra hæð. Handan brúarinnar er hestagerði og hesthús.

10,9 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Kjalvegur, Harðivöllur, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sandá, Grjótá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grjótá

Frá gatnamótum fjallvegar vestan Kerlingarfjalla og afleggjara að Fosslækjarskála um Fosslækjarver til Svínárness.

Síðan Jökulkvísl var brúuð við Kerlingarfjöll fara hestamenn þessa leið upp á Kjalveg í stað þess að fara kvíslina á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells. Sagan segir, að búið hafi verið að fornu í Fosslæk, en engar minjar hafa fundizt um slíkt.

Byrjum á fjallveginum vestan Kerlingarfjalla í 520 metra hæð, þar sem afleggjarinn liggur suðvestur að Fosslækjarskála í 470 metra hæð. Frá gatnamótunum liggur leið milli Ásgarðs í Kerlingarfjöllum og fjallaskálans í Leppistungum á Hrunamannaafrétti. Við förum þverleiðina suðvestur í Fosslæk. Síðan förum við niður með Fosslæk að vestanverðu og svo með Grjótá að austanverðu niður í Hrafntóftaver. Þaðan förum við suður um Lausamannsölduver, nálgumst Sandá, þar sem við komum að fjallaskálanum í Svínárnesi í 390 metra hæð.

18,6 km
Árnessýsla

Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Harðivöllur, Kjalvegur, Sandá, Grjótártunga, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sigvaldakrókur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gjáin/Stöng

Frá þjóðvegi 32 við Hjálparfoss í Þjórsárdal að sama vegi við Hólaskóg.

Gjáin er gróðursæl vin í eyðimörk Þjórsárdals. Lindir og smáfossar eru í Rauðá, sem sprettur upp í Gjánni, rennur þar um blóm og hvannir, hraun og stuðlaberg. Stöng var bær Gauks Trandilssonar og fór í eyði í Heklugosi 1104. Þá lagðist af byggð í Þjórsárdal. Gaukur hafði átt vingott við húsfreyjuna á nágrannabænum. Löngu síðar var ort: “Þá var öldin önnur/ er Gaukur bjó í Stöng. / Þá var ei til Steinastaða / leiðin löng”. Árið 1939 var Stangarbærinn grafinn upp og byggt yfir hann, en hefur lítt verið við haldið. Þjóðveldisbærinn undir Sámsstaðamúla er frjálsleg eftirlíking Stangarbæjarins.

Förum frá Hjálparfossi til norðurs vestan og norðan með Skeljafelli eftir jeppavegi að Stöng. Síðan eftir sama vegi austur með Gjánni, norðvestur að þjóðvegi 32 við Þjórsá. Við Stöng er hestagerði og við Gjána er girðing, þar sem gæta má hesta meðan menn fara niður í Gjána til að skoða sig um.

10,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Gjáin: N64 08.996 W19 44.195.

Nálægir ferlar: Hraunin, Ísahryggur.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gaukshöfðavað

Frá Gaukshöfða í Gnúpverjahreppi að Skarfanesi í Landsveit.

Gaukshöfðavað er efsta vaðið á þessum slóðum og það, sem sjaldnast er farið, enda oftast ófært, þótt það sé feiknarlega breitt. Eingöngu má fara þetta vað undir leiðsögn staðkunnugra manna og á traustum vatnahestum. Hafa þarf samband við Búrfellsvirkjun um vatnsmagn í Þjórsá.

Sagan segir, að bræður tveir, sem áttu bara einn hest, hafi lengi notað Gaukshöfðavað þannig, að annar teymdi og hinn sat hestinn. Hét sá Bergsteinn, sem jafnan óð.

Förum frá Gaukshöfða einn kílómetra suðvestur með þjóðveginum, þar sem hann liggur yfir á. Þaðan er farið austur á grundirnar með ánni og áfram beint í austur á Gaukshöfðavaði yfir Þjórsá, heldur á móti straumi. Frá landi austan vaðs er stutt leið suðaustur að eyðibýlinu í Skarfanesi.

8,0 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hagavað, Skarðsfjall, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Galtafellsleið

Frá Núpstúni að Hruna í Hrunamannahreppi.

Þetta var áður þjóðleið til Flúða og jafnvel farin á bílum í upphafi bílaaldar. Nú er ekki lengur ekið með austurhlið dalsins, heldur vesturhlið hans frá Galtafelli að Miðfelli og þaðan til Flúða. Frá Galtafelli er Einar Jónsson myndhöggvari.

Förum frá Núpstúni með fjallsrótum Núpstúnskistu og Galtafells, framhjá Smárahlíð og Galtafelli, og áfram norður með vesturhlíðum Galtafells að sumarbústöðum í Selholti. Förum þar eftir vegi vestur að þjóðvegi 344. Förum norðaustur með þeim vegi að þverleið til Hruna.

8,9 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Litla-Laxá.
Nálægar leiðir: Sólheimar, Stóru-Laxárvað, Hrunamannahreppur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fossölduver

Frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal um Fossölduver að fjallaskálanum Skeiðamannafiti.

Förum frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsáral norðnorðaustur afréttinn, yfir línuveginn á Hreppafréttum og áfram sömu leið norður í fjallaskálann á Skeiðamannafiti.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Klettur: N64 10.872 W19 52.287.
Skeiðamannafit: N64 18.732 W19 32.426.

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Fremstaver

Frá Kjóastöðum í Biskupstungum að fjallaskálanum Fremstaveri sunnan undir Bláfelli.

Ekki þarf að fara um Kjóastaðaland á þessari leið. Er þá fylgt bílvegi hjá Gullfossi og fossinn skoðaður í leiðinni.

Þetta er syðsti leggur hins sögufræga Kjalvegar. Útsýni er bezt, þegar leiðin er farin til norðurs. Fyrst er farið um vel gróna haga Kjóastaða og síðan um auðnir Tunguheiðar beggja vegna Sandár. Leifar gamla vegarins sjást bezt við Lágumýri, þar sem slóðin er niðurgrafin á nokkrum kafla. Bláfell er helzta kennileiti svæðisins, 1204 metra hár móbergsstapi. Þar bjó Bergþór tröll, að því er segir í þjóðsögum. Tignarlegar eru skörðóttar Jarlhettur í norðvestri í jaðri Langjökuls. Þar nær Tröllhetta 943 metra hæð.

Förum frá Kjóastöðum norðvestur gamla Kjalveg um Brúarheiði í Kjóastaðalandi, um hlið úr landi Kjóastaða og áfram um Lágumýri, þar sem gamla, niðurgrafna reiðleiðin sést vel. Þar er eyðibýlið Hólar. Síðan förum við um malarnámur að Tungufljóti. Þar við Stapa beygjum við til suðausturs að þjóðvegi 35 um Kjöl. Að mestu fylgjum við veginum norðaustur að Hvítá, en styttum stóran krók af honum byggðamegin brúar á Sandá. Undir Kattarhrygg förum við yfir á heimreið að skálanum í Fremstaveri sem er í 280 metra hæð undir Bláfelli.

23,4 km
Árnessýsla

Skálar:

Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417
Sandbúðahótel: N64 24.160 W20 03.070.

Nálægir ferlar: Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Hagavatn, Farið, Bláfellsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fossnes

Frá Laxárdal um heiðaveg að Fossnesi í Gnúpverjahreppi.

Var áður þjóðleið, en nú er oftast farið með þjóðvegi miklu vestar.

Förum frá Laxárdal með þjóðvegi 329 í Skáldabúðir. Þaðan förum við sunnan túngirðingar suðsuðaustur um heiðina, vestan við Vörðuása. um Stóra-Skyggni, yfir Tungá, hjá eyðibýlinu Ásaseli og austan við Brúnir og Stekkjarás að Fossnesi.

5,5 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Kaldbaksvað, Hallarmúli.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Stóru-Laxárvað, Hlíðarfjall, Skáldabúðir, Illaver, Þjórsárholt, Hamarsheiði, Ásólfsstaðir, Þjófagil, Hagavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fjórðungssandur

Frá Bjarnalækjarbotnum um Fjórðungssand að Setri.

Að Bjarnalækjarbotnum liggur slóð úr byggð um Hólaskóg og Gljúfurleit. Það er hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar.

Hér er jeppafær eyðimerkurleið um melöldur og tjarnir og síðast um hraun milli Kisu og Hnífár, kölluð Fjórðungssandur. Hann er gróðurlaus að mestu nema í Eyvafeni og Hnífárveri. Sandurinn dregur nafn sitt af fornum ferðum um Arnarfell á Sprengisandsleið. Þá þurfti að ríða yfir sandinn og tók það að jafnaði þrjá tíma. Víðáttumikið útsýni er af hæðum á sandinum með Hofsjökul og Kerlingarfjöll í bakgrunni. Frá Setri liggja slóðir til ýmissa átta, austur í Arnarfell, vestur í Kerlingarfjöll og suður í Klakk eða Leppistungur.

Förum frá Bjarnalækjarbotnum í 580 metra hæð eftir jeppaslóð til austurs og norðausturs um botnana, yfir Miklalæk og Kisu og áfram norðaustur hjá Kjálkaveri að vegamótum til Tjarnarvers. Þar yfirgefum við hina fornu Sprengisandsleið og förum slóðina til norðurs og norðvesturs á Fjórðungssand og fylgjum þeirri leið í 600 metra hæð til vegamóta, þar sem ein slóð liggur til norðausturs að Nautöldu og tvær slóðir til norðurs og norðvesturs að Setrinu undir Hofsjökli. Förum norðvestur leiðina í átt að Setrinu og fylgjum syðstu slóðinni, þótt nyrðri hliðarslóðir leiði til sama áfangastaðar. Stefnum á norðurbrún Innri-Setu, þar sem við erum komin í 700 metra hæð. Förum norður fyrir fellið og þaðan beint í norður um Setuhraun í átt að skálanum í Setri, sem er í 700 metra hæð.

33,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Bjarnalækjarbotnar: N64 24.833 W19 09.826
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Kóngsás, Illahraun.
Nálægar leiðir: Rjúpnafell, Tjarnarver, Klakkur, Arnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fjallmannaleið

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi um Hrossatungur, að Laxárgljúfraleið við Flóðöldu, og síðan eftir henni norður Stóraver, um Hrunaheiðar, yfir Leirá, að Helgaskála á Hrunamannaafrétti.

Leiðin er yfirleitt aðeins farin einu sinni á ári og er því víða óskýr, einkum í Hrossatungum, unz komið er að slóðinni meðfram gljúfrum Stóru-Laxá. Í upphafi fimm daga leitar safnast fjallmenn Suðurleitar saman í kaffisamsæti á Kaldbak og fara þaðan þessa leið. Ferðamenn fara yfir ásana að Stóru-Laxá og síðan um Hrunakrók upp á Hrunaheiðar vegna útsýnis niður í Laxárgljúfur. Fjallmannaleið, sem hér er lýst, er styttri og léttari, því að menn og hestar tapa ekki hæð með því að fara upp og niður ásana að Stóru-Laxá.

Förum frá Kaldbak um hlið í heimahagann umhverfis Bæjarás. Með girðingu í átt að Kaldbaksfjalli, síðan um hlið á girðingu upp í úthagann. Þaðan norðaustur með Hömrum, austur og upp í Skál, svo austur um Hrossatungur og komum við Flóðöldu á leiðina meðfram gljúfrum Stóru-Laxár. Síðan norður með gljúfrunum, undir Flóðöldu að vestan og um Stóraver og Laxárklettsver. Þar förum við um hlið á afréttargirðingu og austur brekkur niður að Leirá. Förum hana á vaði og síðan norðaustur yfir Leirártungu, yfir Stóru-Laxá á grófu vaði. Svo yfir Tangaás í Tangahorn og sjáum Helgaskála þar handan ár. Getum farið hér yfir ána eða haldið áfram jeppaslóðina að vaði, sem er austan skála.

19,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Kaldbaksland, Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Fagridalur, Ísahryggur.
Nálægar leiðir: Kaldbakur, Svínárnes, Leirá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson