Árnessýsla austur

Fitjafell

Frá Skáldabúðum í Gnúpverjahreppi norður að fjallaskálanum í Hallarmúla.

Byrjum á þjóðvegi 329 einum kílómetra sunnan við Skáldabúðir. Förum þar norðnorðaustur að Grensási og um Búðahamragljúfur og Kálfárbuga austan við Fitjafell. Komum þar á slóð að vestan, sem liggur norðnorðaustur í Hallarmúla.

10,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Hallarmúli: N64 11.879 W19 58.877.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Fitjaásar

Frá fjallaskála í Sultarfitjum norður dráttarvélaslóð að Vestra-Rjúpnafelli og síðan norður að Klakksleið við Fúlá.

Að mestu er farið um eyðimörk Flóa- og Skeiðamannaafréttar.

Förum frá Sultarfitjum norður Fitjaása, um Stórakrók og síðan meðfram drögum Stóru-Laxár og austan við Grænavatn. Þar komum við að Vestra-Rjúpnafelli og beygjum til norðvesturs undir fjallinu. Þaðan er stutt leið að jeppavegi úr byggð og upp í Krók. Við getum farið einn kílómetra norður með þeirri slóð og farið síðan til vesturs fyrir norðan Fúlá og utan í Stóra-Leppi sunnan- og vestanverðum niður í Leppistungur.

28,1 km
Árnessýsla

Skálar:
Sultarfit: N64 19.752 W19 39.427.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sultarfit
Nálægar leiðir: Skeiðamannafit, Rjúpnafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fagridalur

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi til Brúarhlaða við Hvítárbrú.

Tengileið milli reiðleiða í Hreppum og Tungum. Áður var farið um Foss, en vegna girðinga hefur þjóðleiðin færzt upp fyrir Tungufell. Hún er dæmi um, að reiðleiðir færast stundum upp fyrir heimalönd, þegar þau lenda í eigu þéttbýlisbúa, sem ekki skilja fornan og nýjan umferðarrétt um eignarlönd. Reiðgatan er orðin mjög skýr, enda vikulega farin af Íshestum.

Skemmtilegt er að fara um Fagradal og útsýni er fjölbreytt af hálsinum ofan við Kluftir yfir lönd Kaldbaks og Hörgsholts. Á Kluftum var Huppa frá Kluftum, frægasta kýr landsins og formóðir allra kúa á landinu. Kluftir hafa lengi verið í eyði. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð.

Förum frá Kaldbak í 220 metra hæð suður heimreiðina að slóð vestur yfir túnið. Fylgjum henni á brú yfir Kluftá, um eyðibýlið Kluftir og upp úr efsta horni túngirðingarinnar. Þaðan er slóð yfir háls til Fagradals. Förum þá slóð og síðan þvert yfir dalinn og Litlu-Laxá inn á slóð frá Berghyl á vesturbakka árinnar. Við fylgjum þeirri slóð inn Fagradal og síðan beint norður á Tjarnheiði, um Fosstorfur og Selmýri. Við höldum beint áfram heiðina, förum í 340 metra hæð austan við Hlíðarfjall. Á Hádegishæð komum við á jeppaslóð, sem þræðir niður Hlíðarfjall í Tungufellsdal. Við förum reiðslóð til vesturs og suðurs. Förum yfir þjóðveg 30 um Hrunamannahrepp á mótum þess vegar og þjóðvegar 349 um Tungufellsdal. Fylgjum síðan þjóðvegi 30 að brúnni á Hvítá við Brúarhlöð.

18,5 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbaksland, Kaldbaksvað, Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Litla- Laxá, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Tjarnheiði, Hrunamannahreppur, Tungufellsdalur, Gullfoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort

Eyjavað

Frá Þrándarholti yfir Þjórsá.

Eyjavað er nú óreitt og aflagt. Reynið ekki að fara það.

Gissur Þorvaldsson jarl reið það 1264 með flokk sinn og fangna Oddaverja daginn áður en hann lét taka Þórð Andrésson af lífi.

3,2 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Þjórsá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Búðafjöll

Frá Hænsnaveri og Fosslækjaveri suður milli Búðafjalla yfir Sandá að leið um Hrunamannaafrétt.

Byrjum á afleggjara frá Miklumýraleið að Fosslækjarveri. Förum suður vestan megin við Búðaháls og áfram suður milli Fremra og Innra-Búðarfjalls og áfram suður yfir Sandá að leið um Hrunamannaafrétt milli Svínárness og Leppistungna.

12,4 km
Árnessýsla

Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Kortavefur LH

Blautakvísl

Frá skálanum við Sóleyjarhöfðavað um Tjarnarver til Arnarfells.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð, fyrr en farið er austur yfir Þjórsá eftir gamla Arnarfellsveginum.

Förum frá Bólstað við Sóleyjarhöfða norðaustur um Tjarnarver í stefnu að vesturhlið Söðulfells. Þegar við komum að Blautukvíslum tökum við stefnu norðaustur á Arnarfell og förum yfir Blautukvíslar áður en við komum að Nautöldu. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Þegar við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til vesturs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð.

25,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Sóleyjarhöfðavað: N64 33.110 W18 46.270.
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881. Lélegur

Nálægir ferlar: Háumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Sóleyjarhöfðavað, Hnífárver, Arnarfell, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ásólfsstaðir

Frá Hamarsheiði að Ásólfsstöðum og Skriðufelli í Þjórsárdal.

Einnig er leið inn Ásólfsstaðaskóg að baki Skriðufells inn að fjallaskála í Kletti. Þangað má einnig fara af þessari leið, ef haldið er lengra upp með Þverá og ekki beygt að Ásólfsstöðum Falleg skógarleið um Ásólfsstaðaskóg. Skógrækt ríkisins hefur friðað og ræktað upp skóg, sem fyrir var í dalnum. Ekki er lengur hefðbundinn búskapur á Ásólfsstöðum eða annars staðar í Þjórsárdal.

Förum frá Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi norðaustur heiðina ofan við Fossnes um Hellnaholt og Stekkjarás. Förum norðan við Þverá og Svartagljúfur og sunnan við Vörðukinn. Síðan yfir Selá og áfram austur með Þverá sunnan og austan undir Geitafelli. Síðan aftur norðaustur milli Geitafells og Selfitafjalls og áfram yfir Grjótá og enn meðfram Þverá norður fyrir Ásólfsstaðafells. Þar förum við austur hlíðina niður í Ásólfsstaðaskóg og suður skógargötur að Ásólfsstöðum. Síðan um bæjarleið milli Ásólfsstaða og Skriðufells.

Hjá Skriðufelli hefst hinn varðaði Sprengisandsvegur, sem liggur upp Gnúpverjaafrétt að Sóleyjarhöfðavaði eða Arnarfelli.

16,0 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Þjófagil, Fossnes, Hamrarsheiði, Þjórsárholt, Klettur, Þjórsárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Arnarfellsalda

Frá Bólstað við Sóleyjarhöfðavað að Arnarfelli í Hofsjökli.

Á þessari leið breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér.Þetta er forna Sprengisandsleiðin. Vöðin í Þjórsárverum urðu með tímanum torfær og þá var gripið til Sóleyjarhöfðavaðs, þegar leiðin var vörðuð suður Gnúpverjaafrétt sumarið 1906. Nú er Sóleyjarhöfðavað ekki heldur árennilegt. Þjórsá og Þjórsárkvíslar eru hins vegar vel reiðar norður við Arnarfell. Hestamenn fara samt heldur annað hvort um Hnífárver eða upp með Blautukvísl eða þá vestan frá Setrinu. Allt eru það greiðar leiðir við venjulegar aðstæður og eru raunar fegurri líka. Norðan við Arnarfellsöldu hafa fundizt breiðar reiðgötur, sem sýna feiknarlega umferð fyrri alda. Þær eru göturnar, sem Þórður kakali reið, þegar hann leitaði sér liðveizlu hjá Hálfdani Oddaverja og Steinvöru á Keldum á Rangárvöllum. Vestan við Arnarfellsöldu eru kofarústir síðustu útilegumanna landsins, frá 1848.

Förum frá Bólstað við Sóleyjarhöfðavað upp með Þjórsá og yfir Blautukvísl nálægt Þjórsá. Þar geta verið sandbleytur. Síðan förum við greiða leið með Þjórsá um Oddkelsver að vaði austan undir Oddkelsöldu. Þar geta líka verið sandbleytur. Leiðin liggur áfram um Illaver upp með Þjórsá og yfir tvær Múlakvíslar. Þar erum við komin í Arnarfellsver. Síðan förum við vestan við Arnarfellsöldu og yfir ós milli öldunnar og stöðuvatns vestan öldunnar. Fyrir norðan ölduna komum við á fornar götur og fylgjum þeim upp með Innri-Múlakvísl að austanverðu í átt að Arnarfelli. Við komum að götum að vestan um Arnarfellsmúla og fylgjum þeim yfir Arnarfellskvísl og að Arnarfelli.

Arnarfell

Frá Setrinu um Arnarfell í Háumýrar.

Tvær gæsaréttir eru á leiðinni. Önnur á toppi Nautöldu og hin á reiðleiðinni yfir Illaver, mitt á milli Nauthaga og Fremri-Múlakvíslar. Stendur hún á jökulöldu, Réttaröldu.

Draumaleið um gæsalandið mikla í Þjórsárverum inn í dularheim Arnarfells undir suðaustanverðum Hofsjökli. Sunnan við leiðina breiða Þjórsárver úr sér með blautum flóum og tjörnum og gæsaréttum á víð og dreif. Þetta land er á Ramsar-skrá, samningi um alþjóðlega mikilvægt votlendi, aðallega búsvæði fugla. Þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum verpir hér. Bratt Arnarfell hið mikla rís í dauðaþögn með hömrum og gróðurbrekkum milli tveggja skriðjökla úr Hofsjökli. Á þessum slóðum höfðust við útilegumenn 1848. Þar heitir Arnarfellsbrekka og hafa þar fundizt 100 tegundir plantna. Dalbotninn er í 620 metra hæð og samfelldur gróður nær upp í 1000 metra hæð. Þetta var hluti hinnar fornu Sprengisandsleiðar, þegar vaðið á Þjórsá við Sóleyjarhöfða var ekki árennilegt. Stórfenglegt útsýni er af Arnarfelli. Í Arnarfellsmúlum fannst eitt af hreysum Fjalla-Eyvindar, en jökullinn hefur eytt merkjum eða eftirleitarmenn Fjalla-Eyvindar hafa eytt hreysinu.

Förum frá fjallaskálanum Setrinu í 700 metra hæð þráðbeint austur aura Blautukvíslar í átt að suðurenda Nautöldu. Í öldunni austanverðri er skálinn Nautalda í 600 metra hæð. Þaðan förum við austur um Nauthaga, þar sem eru volgar lindir, og síðan um Illaver. Er við komum að Arnarfellsmúlum, gömlum jökulöldum meðfram Hofsjökli, förum við reiðslóð undir múlunum um hvannamó og burnirót. Leið okkar liggur í sveig til austurs og síðan norðurs. Þegar við komum nær Arnarfelli, förum við gætilega yfir Arnarfellskvísl til að komast inn í dalverpið milli Kerfjalls og Arnarfells, í 620 metra hæð. Hér er enginn skáli og við förum eftir jeppaslóð um Kvíslaveg austur yfir Þjórsárkvíslar og loks á stíflu yfir Þjórsá við Háumýri, nálægt Innra-Hreysi Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þar er hestagerði og heysala. Við erum komin á fjallveg um Sprengisand.

34,8 km 
Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Setrið: N64 36.903 W19 01.165.
Nautalda: N64 37.695 W18 48.881. 610 metrar. 6 rúm. Lélegur.
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859 bara hestahólf

Nálægir ferlar: Fjórðungssandur, Háumýrar.
Nálægar leiðir: Klakkur, Hnífárver, Blautakvísl, Arnarfellsalda, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson