Árnessýsla vestur

Skjaldbreiður

Frá Kaldadalsvegi eftir línuvegi norðan Skjaldbreiðar að Þórólfsfelli norðan Hlöðufells.

Löng og leiðinleg hraunslóð og oft gróf eins og háttar til með línuvegi, sem eru auðvitað hugsaðir fyrir bíla. Framhald línuvegarins til austur nefnist hér Skjaldbreiðarvegur.

Byrjum við gatnamót Kjalvegar og Uxahryggjavegar við Hallbjarnarvörður í 360 metra hæð. Slóðin er línuvegurinn norðan Skjaldbreiðar. Hún liggur vestur langa leið, framhjá afleggjara norður í Slunkaríki, síðan sunnan Sandfells og norðan Skjaldbreiðar, þar sem við náum 560 metra hæð. Þar sem Skjaldbreiður nær lengst í norður sker slóðin Skessubásaveg. Við förum línuveginn áfram að fjallaskálahverfi sunnan við Tjaldafell, síðan norðan við Sköflung og norður fyrir Hlöðufell og Þórólfsfell, þar sem er samnefndur skáli.

23,2 km
Árnessýsla

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.
Tjaldafell: N64 27.083 W20 39.123.
Þórólfsfell: N64 27.495 W20 30.534.
Kiddakot: N64 25.783 W20 19.131.
Þriðja ríkið: N64 26.410 W20 18.140.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kaldidalur, Fremstaver.
Nálægar leiðir: Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Skyggnisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skessubásavegur

Frá Kaldadalsvegi og fyrir norðan Skjaldbreið að Hlöðuvöllum.

Leiðin er óviss á köflum, einkum að norðvestanverðu, og þyrfti að varða hana. Kort Björns Gunnlaugssonar frá 1849 sýnir leiðina norðan við Hrúðurkarla, en hún er sunnan við þá. Leiðin á kortinu er vafalaust ekki nákvæmlega sama leiðin og Sturlungar notuðu, en hún er nærri lagi.

Árið 1253 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið um Skessubásaveg og um Miðdalsfjall í misheppnaðri aðför að Gissuri Þorvaldssyni. Sighvatur Böðvarsson á Stað á var bróðir Þorgils skarða og vildi árið 1262 hefna fyrir dráp hans. Hann hitti Sturlu Þórðarson, föðurbróður sinn við Hallbjarnarvörður og fóru þeir saman suður Skessubásaveg og áfram um Klukkuskarð, þar sem þeir fengu óveður. Létu þar fyrir berast um nótt og héldu síðan áfram til Iðufundar við Þorvald Þórarinsson í Skálholti.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð og höldum nokkurn veginn í beina línu upp á Kaldadalsveg suðvestan Hrúðurkarla. Fyrst förum við sunnan við Fremra-Mófell og fyrir vestan Sköflung. Síðan sunnan undir Lambahlíðum / Tjaldafelli og norðvestur yfir Fífilvelli, fyrir sunnan Bjarnarfellin og fyrir norðan Sandfellin. Á Kaldadalsveg komum við suðvestan við Hrúðurkarla í 500 metra hæð.

21,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skálpanes

Frá Bláfellshálsi að fjallaskálanum í Skálpanesi.

Byrjum á Kjalvegi 35 á Bláfellshálsi. Þar er jeppafær þverleið til norðnorðvesturs fyrir sunnan Geldingafell og síðan norðvestur Skálpanes að fjallaskálanum þar.

7,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Skálpanes: N64 33.438 W19 59.465.

Nálægar leiðir: Bláfellsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Selkotsvegur

Frá Skeggjastöðum undir Haukafjöllum um Stíflisdal og Selkot að Skógarhólum í Þingvallasveit.

Einn mest notaði vegur hestamanna nú á tímum. Fyrr á tímum lá leiðin sunnar, frá Miðdal og eftir Kóngsveginum austur Mosfellsheiði í Vilborgarkeldu.

Förum frá Skeggjastöðum austur með Leirvogsá sunnanverðri, framhjá Tröllafossi, yfir ána og í Stardal. Förum þar upp með gripahúsum og á slóð utan í Múla. Á kafla þarf að fara niður að gamla þjóðveginum um Mosfellsheiði og síðan upp með Bugðu áður en komið er að Litla-Sauðafelli. Förum norðan við fellið um Sauðafellsflóa, yfir þjóðveg 48 og áfram til austurs fyrir sunnan og austan Stíflisdalsvatn. Förum frá Stíflisdal austur Kjósarheiði um eyðibýlið Selkot, sem leiðin er kennd við. Austan við Selkot eru eyðibýlin Melkot og Hólkot. Áfram höldum við upp með Kjálká, um Kirkjuflöt og upp með Gljúfri. Síðan eftir Kárastaðaás, hjá Brúsastöðum og beina leið í Skógarhóla.

30,0 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellsheiði, Illaklif, Maríuhöfn, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Seldalur

Frá Króki í Grafningi á Ölkelduhálsleið.

Förum frá Króki suðvestur um Seldal á Selháls, þar sem liggur Ölkelduhálsleið suðvestur að Kolviðarhóli.

3,5 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Ölkelduháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reykjadalur

Frá Hveragerði á Ölkelduhálsleið milli Kolviðarhóls og Villingavatns.

Í Reykjadal eru margir hverir, einkum í dalverpinu Hverakjálkum, sem gengur vestur úr dalnum. Frá Brúnkollubletti má fara ýmsar leiðir niður í Grafning.

Förum frá Gufudal við Reykjakot norðaustur upp að Dalafelli og síðan upp vesturhlíðar þess, austan við Reykjadalsá í Djúpagili. Þegar upp í sléttlendi Reykjadals er komið færum við okkur yfir í vesturhlið dalsins upp að mýrasundinu Litla-Brúnkollubletti. Þar komum við á slóðina Ölkelduháls, sem liggur frá Kolviðarhóli að Grafningsvegi við Villingavatn.

5,6 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Klóarvegur, Ölkelduháls, Hengladalaá, Hellisheiði, Álftavatnsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Prestastígur

Frá Víðivöllum við Ármannsfell um Hrafnabjörg að Biskupsflöt á Lyngdalsheiði.

Við getum ekki rakið þessa leið nákvæmlega, nema við vitum um helztu örnefni á leiðinni. Gott væri, ef hestamenn prófuðu að fara þessa leið eins og hér er lýst. Mikilvægt er að endurvekja leiðina um Prestastíg, því að hún er sögufræg. Hún var farin milli Skálholts og Þingvalla og einnig áfram frá Þingvöllum um Kjósarskarð til Maríuhafnar við Laxá í Kjós. Leiðin, sem sýnd er á meðfylgjandi korti, er samkvæmt árbók FÍ. Betra er að fara austanvert með girðingu frá Víðivöllum að Hrafnabjörgum vestanverðum og fara þaðan beint suður að Dímon vestanverðum. Þannig sleppa menn við girðingar. Þessa leið fór Sturla Sighvatsson til Apavatnsfundar með Gissuri Þorvaldssyni. Beitivellir við Laugarvatnshelli undir Reyðarbarmi voru þekktur áningarstaður að fornu. Þar hittust Kolbeinn ungi Arnórsson og Gissur Þorvaldsson 1238 til herferðar gegn Sturlu Sighvatssyni vestur í Borgarfjörð og Dali. 1. janúar 1242 fór Órækja Snorrason um heiðina á leið í Skálholtsbardaga við Gissur Þorvaldsson. Í febrúar 1253 lenti Þórður Hítnesingur í hrakningum á heiðinni og varð að snúa við til Gjábakka í Þingvallasveit. Fór síðan vestan við heiðina um Búrfell til Skálholts.

Byrjum á Víðivöllum undir Ármannsfelli. Við förum suður um hraunið yfir Prestastíg á Hlíðargjá að eyðibýlinu Hrafnabjörgum. Sú leið hefur ekki verið nákvæmlega kortlögð. Frá Hrafnabjörgum förum við suður yfir Heiðargjá og Hrafnabjargaháls að Dímon norðan Lyngdalsheiðar. Sú leið hefur ekki heldur verið nákvæmlega kortlögð. Síðan fyrir Reyðarbarm til Beitivalla við Laugarvatnshelli. Frá Beitivöllum förum við frá yfir norðausturenda Lyngdalsheiðar að Biskupsflöt og Biskupsbrekkum, þar sem við komum á svonefndan Biskupaveg yfir Lyngdalsheiði. Sá vegur liggur milli Skálholts og Þingvalla.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Leggjabrjótur, Gagnheiði, Eyfirðingavegur, Skógarkot, Hrafnabjörg, Búrfellsgötur, Dráttarhlíð, Biskupavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ósaleið

Frá Hrauni í Ölfusi um ósa Ölfusár að Egilsstöðum í Ölfusi.

Förum frá Hrauni eftir vegarslóða suðaustur að Ölfusá. Síðan út í ána og norðaustur eftir leirum að Nauteyri. Síðan norðaustur eftir eyrinni og svo vestan við Álftarhólma og Lambey. Beygjum til austurs fyrir norðan Lambey. Fylgjum ströndinni austur að þjóðvegi 375 við Egilsstaði og Auðsholt.

8,8 km
Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Skóghlíð, Trölladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ólafsskarð

Frá Litlu kaffistofunni að Híðarenda í Ölfusi.

Ólafsskarð er styzta leiðin frá Reykjavík austur í Ölfus og býður bezta útsýnið yfir fjöllin sunnan Hellisheiðar. Er hins vegar ógreiðfær og var aldrei fjölfarin. Í þoku og myrkri er hún hins vegar villugjörn, enda ekki vörðuð. Hún hentar þeim, sem eru á leið til Þorlákshafnar eða um neðstu Ölfusárbrú yfir í Flóann. Um Jósepsdal orti Grímur Thomsen: “Engin börn í berjaheiði / ber þar tína glöð og rjóð, / sjálf hjá dalnum sauðkind sneiðir, svo er han gjörsamlega í eyði / aldrei þangað stökkur stóð.”

Förum frá Litlu kaffistofunni til suðurs undir hrauninu, förum um Þórishamar og síðan suðvestur í Ólafsskarð milli Vífilfells að vestan og Sauðadalshnjúka að austan. Beygjum síðan til suðurs upp slakkann milli Sauðadalshnjúka að norðan og Ólafsskarðshnjúka að sunnan, erum þar í 400 metra hæð. Þegar við komum niður úr slakkanum höldum við áfram suður meðfram austurhlíðum Bláfjalla, við jaðar Lambafellshrauns. Við förum norðan og austan við Fjallið eina og tökum stefnu á norðurenda Geitafells. Förum þar um Þúfnavelli og síðan áfram beina stefnu sunnan við Krossfjöll og loks niður Fagradal í Ölfus hjá eyðibýlinu Litlalandi vestan við Hlíðarenda.

21,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur, Jórukleif.
Nálægar leiðir: Elliðavatn, Mosfellssveit, Þrengsli, Dyravegur, Lágaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Mosfell

Frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi að Mosfelli.

Framhald Biskupavegar yfir Lyngdalsheiði.

Förum frá þjóðvegi 37milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða austur um sumarhúsahverfi og síðan austsuðaustur í átt að suðuröxl Mosfells og loks um kirkjustaðinn Mosfell að þjóðvegi 35 í Biskupstungum. Þaðan er stutt að brúnni á Brúará hjá Spóastöðum.

7,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Biskupavegur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Mosfellsheiði

Frá Skeggjastöðum í Mosfellssveit um Mosfellsheiði í Jórukleif í Grafningi við Þingvallavatn.

Förum frá Skeggjastöðum eftir jeppaslóð suðsuðvestur að vestanverðu við Skyggni og Leirtjörn að þjóðvegi 36. Förum hundrað metra niður með þeim þjóðvegi og síðan inn á aðra jeppaslóð neðan við Seljabrekku í Mosfellssveit. Fylgjum jeppaslóðinni suðaustur að eyðibýlinu Bringum. Þaðan austur um Suðurmýrar og áfram austur Mosfellsheiði og tökum svo stefnu beint austur á norðurenda Sköflungs. Förum fyrir horn Sköflungs og þaðan austur á brún Jórukleifar. Förum niður Jórukleif að þjóðvegi 360 um Grafning.

17,9 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Stardalsleið, Svínaskarð, Mosfellssveit, Selkotsleið, Geldingatjörn, Illaklif, Kóngsvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Miðfell

Frá Hlöðuvöllum um Miðfell til Úthlíðar.

Ein af mörgum leiðum frá Hlöðuvöllum til byggða. Þaðan liggur meginleið hestamanna sunnan Skjaldbreiðar til Skógarhóla. Einnig Skessubásavegur á línuveginn norðan Skjaldbreiðar eða norðvestur á Kaldadal. Ennfremur leiðir beggja vegna Hlöðufells og Þórólfsfells norður til áðurnefnds línuvegar. Niður í Bláskógabyggð liggja nokkrar leiðir. Austast er leið um Hellisskarð og áfram austur að Helludal og síðan að Geysi. Önnur leið um Hellisskarð og suður um Miðfell að Úthlíð. Líka leið suður um Kálfá til Úthlíðar. Um Brúarárskörð til Miðhúsa og leið vestan Rauðafells til Miðdals. Af Þingvallaleið eru leiðir vestan Skriðu inn Langadal, önnur um Klukkuskarð til Hjálmsstaða. Hin krækir út fyrir Skefilfjöll og síðan meðfram Kálfstindum að Stóra-Dímon skammt norðan þjóðvegar 365 um Lyngdalsheiði.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, höldum við áfram milli hrauns og hlíða undir Högnhöfða og síðan undir Rauðafelli. Hraunið heitir fyrst Svínahraun og síðan Úthlíðarhraun. Á mót við Miðfell beygjum við eftir dráttarvélaslóð þvert austur yfir hraunið að Miðfelli. Við getum síðan farið vestan eða austan við Miðfell og veljum síðari kostinn. Frá fellinu förum við áfram beint suður og niður hallandi skóglendi að bænum Úthlíð.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Helludalur, Hellisskarð, Brúarárskörð, Klukkuskarð, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðdalsfjall

Frá Hlöðuvöllum um Miðdalsfjall að Miðdal.

Jeppaslóð, sem fylgir fjöllum milli Laugarvatns og Hlöðuvalla. Flestar aðrar slóðir á svæðinu fylgja dölum og völlum og skörðum milli brattra fjalla. Þetta er greið og fljótriðin leið, en hæðarmunur er samt töluverður.

Árið 1253 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið um Skessubásaveg og um Miðdalsfjall í misheppnaðri aðför að Gissuri Þorvaldssyni.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suður milli hrauns og hlíða eftir jeppaslóð um vesturjaðar Rótarsands. Slóðin heldur áfram upp brekkurnar norðvestan Rauðafells og suður með fellinu. Við beygjum síðan eftir slóðinni vestur á Miðdalsfjall, þar sem við förum hæst í 680 metra hæð. Förum framhjá Gullkistu, reisulegri klettaborg. Fylgjum síðan slóðinni suður af fjallinu og niður brattar brekkur og sneiðinga að Miðdal í Laugardal, i 90 metra hæð.

21,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Farið, Helludalur, Hellisskarð, Brúarárskörð, Klukkuskarð, Miðfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Marardalur

Krókur á Jórukleifarleið inn í Marardal.

Á vefsíðu Ferlir.is segir þetta um Marardal: “Marardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði.“

Byrjum á Jórukleifarleið sunnan Marardals. Förum eftir greinilegri slóð austur í lækjargil og þræðum gilið norðaustur og norður í Marardal. Förum norður úr dalnum um greinilega sneiðinga og síðan eftir götu um Þjófahlaup á Jórukleifarleið norðan Marardals.

4,2 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Lyklafell

Hliðarleið af Jórukleifarleið að Nesjavallavegi.

Förum af Jórukleifarleið austan Lyklafells á Mosfellsheiði. Stefnum ekki í áttina að Marardal, heldur norðar að Dyradal og Dyrafjöllum og komið aftur á Jórukleifarleið sunnan Nesjavallavegar.

12,5 km
Reykjavík-Reykjanes

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH