Árnessýsla vestur

Eskidalsvað

Frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi um Eskidalsvað á Brúará að Skálholti.

Brúará er ein af vatnsmestu bergvatnsám á landinu. Hún var aðeins reið, þegar lítið var í ánni, því að hún getur verið vatnsmikil og straumþung, eins og kemur fram í frásögn Sturlungu af ferð Auðuns kols. Þá kusu menn frekar að fara um Laugarvatn og síðan Böðmóðsstaðavað eða Miklaholtsnesvað við Böðmóðsstaði eða Reykjavað við Syðri-Reyki, eins og Órækja gerði. Eskidalsvað fóru menn frekar í viðlögum eins og Auðunn kollur gerði. Nú er vaðið orðið nánast ófært vegna breytinga í ánni. Því fara menn fyrir norðan Mosfell og síðan yfir brúna við Spóastaði. Eskidalsvað er fram af Þórisstöðum, sunnan við Reykjanes.

Á nýársnótt 1242 reið Órækja Snorrason frá Þingvöllum með 500 manna liði til að hefna vígs Gissurar Þorvaldssonar á Snorra Sturlusyni, föður Órækju. Á Lyngdalsheiði hittu þeir Auðun koll, en létu hann lausan. Fór hann leið sína vestur, þar til leiti bar milli. Sneri þá aftur leiðinni þann veg, sem heiðin liggur lægra. Þegar þeir komu gegnt Reyðarmúla, tók að rökkva. Sneri Órækja leið sinni til Laugardals. Auðunn jók ferðina, sem hann mátti, hljóp heiðina þvert til Lyngdals ok svo austur fyrir ofan Svínavatn til Þórisstaða og fékk sér þar hest yfir Eskidalsvað. Var áin mikil, ok synti hann þar yfir. Síðan hljóp hann heim í Skálholt og varaði Gissur við ferð Órækju. Eskidalsvað var á svipuðum slóðum og ferja var síðar á Brúará yfir í Skálholtstungu.

Byrjum milli Þóroddstaða og Neðra-Apavatns við þjóðveg 37 í Laugardal. Þaðan förum við götu vestur á Selhæð og síðan suður yfir þjóðveg 35 hjá Mosfelli og áfram eftir heimreið að Þórisstöðum eða Reykjanesi. Frá þeim bæjum förum við beint að Brúará á Eskidalsvaði. Ef vaðið er ófært, þurfum við að sundríða eða fara upp að brúnni við Spóastaði. Af vaðinu komum við í land í Skálholtstungu og förum upp tunguna og Skálholtsmýrar í Skálholt. Ég hef þetta vað á listanum af sagnfræðilegum ástæðum, en mæli ekki með, að hestamenn noti það.

9,9 km
Árnessýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Lyngdalsheiði, Dráttarhlíð, Bakkagötur, Vörðufell, Iðubrú.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Dyravegur

Gamla leiðin milli Reykjavíkur og Nesjavalla. Frá Elliðakoti.

Leiðin hefur verið malbikuð í Dyrfjöllum. Hestamenn hafa því fært sig norðar og fara nú yfirleitt um Jórukleif á leið sinni til Nesjavalla. Krókurinn er betri en malbikið.

Þessi leið milli móbergshnjúka Dyrfjalla er í senn fögur og sagnfræðilega mikilvæg, með meiriháttar þjóðvegum landsins á fyrri öldum, þegar ferja var á Sogi við Dráttarhlíð. Förum frá Elliðakoti eftir slóð til austurs um Stangarhól og sunnan við Lyklafell. Áfram förum við austur um Vallöldu og Norðurvelli að Hengli. Þar sveigir slóðin til norðurs með fjöllunum, fyrst um Engidal og síðan um Þjófahlaup. Einnig er hægt að taka krók um Marardal nær fjallinu. Þegar við nálgumst Nesjavallaleið förum við upp brekkur og á bílveginn um Dyrfjöll. Fylgjum honum það, sem eftir er leiðarinnar. Fyrst sunnan við Sköflung, síðan um Dyr og í miklum sveigjum og dýfum út úr fjallgarðinum ofan við Nesjavelli í Grafningi, þar sem er gisting og hestahagi.

5,1 km
Reykjavík-Reykjanes, Árnessýsla

Nálægir ferlar: Jórukleif, Elliðaárdalur, Rauðavatnshringur, Rauðhólahringur.

Nálægar leiðir: Kóngsvegur, Mosfellssveit, Elliðavatn, Þrengsli, Ólafsskarð, Dráttarhlíð, Hagavík, Ölfusvatnsá, Marardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Dráttarhlíð

Frá Nesjavöllum í Grafningi um Dráttarhlíð að fjallaskálanum Kringlu á Lyngdalsheiði.

Við Sogið var áður ferjustaður, fyrst þar sem það rennur úr Þingvallavatni og svo þar sem það rennur í Úlfljótsvatn. Vegna óhapps á efri staðnum var ferjan færð niður að Úlfljótsvatni, þar sem Sogið rennur í það. Þar voru lengi geymslur Skálholtsstaðar fyrir varning, sem skipað var upp í Maríuhöfn við Háls í Kjós. Nú er farið þar á brú yfir Sogið. Skálholtsmannavegur lá síðan frá Úlfljótsvatni fyrir norðan Búrfell og sunnan Hrólfshóla og svo fyrir norðan bæinn Björk um Lyngdal og mætti Biskupagötum við Stangarlæk. Biskupagötur lágu frá Skálholti til Þingvalla.

Förum frá Nesjavöllum með þjóðvegi 360 vestur í Hagavík og áfram að Villingavatni. Þar förum við frá bílveginum um hlið og síðan strax til vinstri á reiðleiðina um Dráttarhlíð. Förum norðan í Kvöldbrekkum, upp á Grenás og síðan eftir honum. Svo á bílveginn fyrir ofan stöðvarhús Steingrímsstöðvar og niður á brúna yfir Sogið. Áfram förum við svo spottakorn norður meðfram Þingvallavegi 36. Þegar við nálgumst Þingvallavatn, blasa við tvö hlið á hægri hönd. Við förum um hliðið til vinstri og komum þá á leiðina um Selvelli og Drift að fjallaskálanum Kringlu í Kringlumýri.

24,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Kringlumýri: N64 11.080 W20 55.714.

Nálægir ferlar: Jórukleif.
Nálægar leiðir: Dyravegur, Hagavík, Ölfusvatnsá, Seldalur, Ölkelduháls, Búrfellsgötur, Lyngdalsheiði, Biskupavegur, Eskidalsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Böðmóðsstaðavað

Frá Skálholti um Böðmóðsstaðavað á Brúará yfir að Böðmóðsstöðum í Laugrdal.

Fjölfarnasta vaðið á Brúará að fornu, en jafnframt töluverður krókur, ef menn voru á ferð um Þingvöll. Eskidalsvað hjá Skálholti var dýpra vað, svo að hross fóru stundum á sund. Við Kjóastaði var svo ferja. Nú á tímum er brú hjá Kjóastöðum og vöðin ekki farin, svo ég viti.

Í Sturlungu segir frá því, að Órækja Snorrason fór frá Þingvöllum með 500 manna liði til að hefna vígs Gissurar Þorvaldssonar á Snorra Sturlusyni, föður Órækju. Þegar þeir komu gegnt Reyðarmúla, tók að rökkva. Sneri Órækja leið sinni til Laugardals. Beið þar nóttina og reið daginn eftir yfir Brúará á Böðmóðsstaðavaði. Njósnamaður Gissurar fór hins vegar beinu leiðina og synti yfir Brúará á Eskidalsvaði hjá Skálholti.

Förum frá Skálholti norðnorðaustur um Skálholtsása í Hrosshaga. Beygjum þar norður yfir þjóðveg 35 á Torfastaðaheiði. Síðan áfram norðnorðvestur að Brúará við Böðmóðsstaði. Síðan áfram norðvestur heimreiðina að þjóðvegi 37 um Laugardal. Þessi leið hefur sagnfræðilegt gildi, en er ekki lengur notuð. Miklaholtsnesvað og Reykjavað eru á svipuðum slóðum.

11,9 km
Árnessýsla

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Eskidalsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Leiðir Skálholtsbiskupa

Búrfellsgötur

Frá Hæðarenda í Grímsnesi til Gjábakka í Þingvallasveit.

Þetta er leiðin, sem sendiboði Gissurar Þorvaldssonar reið árið 1238 til Sturlu Sighvatssonar, sem kominn var með lið sitt að Hrafnabjörgum í Þingvallasveit. Leiðin er austan Búrfells í Grímsnesi. Hún er sýnd þar á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1849 og leifar hennar sjást enn í landinu. Sturla og Gissur riðu frá Hrafnabjörgum og Gjábakka að Apavatni. Síðan fóru þeir um Bakkagötur til Klausturhóla og Hæðarenda og komu þar inn á suðurenda þessarar leiðar á ferð þeirra til Reykja í Ölfusi. Flott væri, að þessar fornu götur yrðu endurvaktar, því að þær eru sagnfræðilega mikilvægar.

Byrjum á þjóðvegi 351 hjá Hæðarenda við Klausturhóla norðan Seyðishóla. Förum til norðurs um Búrfellsgötur austan Búrfells og vestan Bauluvatns norður í Búrfellsdal og áfram norður í vesturjaðri Lyngdalsheiðar um Drift að Gjábakka í Þingvallasveit. Og loks öðru hvoru megin við Heiðargjá norður að eyðibýlinu Hrafnabjörgum.

Við vitum ekki nákvæmlega, hvar þessi leið hefur legið, en gamlar götur eru austan við Búrfell.

20,3 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Bakkagötur, Álftavatnsvað, Dráttarhlíð, Lyngdalsheiði, Hrafnabjörg, Skógarkot, Prestastígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason

Búðafjöll

Frá Hænsnaveri og Fosslækjaveri suður milli Búðafjalla yfir Sandá að leið um Hrunamannaafrétt.

Byrjum á afleggjara frá Miklumýraleið að Fosslækjarveri. Förum suður vestan megin við Búðaháls og áfram suður milli Fremra og Innra-Búðarfjalls og áfram suður yfir Sandá að leið um Hrunamannaafrétt milli Svínárness og Leppistungna.

12,4 km
Árnessýsla

Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Leppistungur: N64 31.933 W19 29.046.

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Kortavefur LH

Brúarárskörð

Frá Hlöðuvöllum um Brúarárskörð að Úthlíð.

Á kortinu er sýnd greiðfær gönguleið með ánni austanverðri. Reiðleiðin er vestan árinnar og er ógreiðfær vegna þrengsla og úrrennslis. Ef hún er farin, þarf síðan að fara austur yfir Brúará neðan Arnarhóls, þegar komið er niður úr skörðunum, og fara austur á gönguleiðina, sem þar er orðin jeppaslóð. Á leiðinni milli Hlöðuvalla og Brúarárskarða er á kortinu sýnd jeppaslóð, sem fylgir klettabrík í norðvesturjaðri Rótarsands. Betra og styttra er að fara beint yfir sandinn og stefna á efra mynni Brúarárskarða.

Brúarárskörð eru aldagömul þjóðleið mili Hlöðuvalla og Bláskógabyggðar. Ég hef aldrei farið reiðleiðina, en veit, að hún er þröng og erfið. Verður ekki farin með rekstur, aðeins einhesta. Nauðsynlegt er að hafa staðkunnugan leiðsögumann. Brúarárskörð eru djúpt og hrikalegt gljúfur milli Högnhöfða og Rauðafells, þar sem vatnsmikil Brúará vellur fram. Í gilinu skiptast á grastorfur og skriður, þar sem feta verður varlega. Á leiðinni um gljúfrið er best að fylgja rim sem liggur milli gljúfursins og Kúadals, djúprar og víðáttumikillar kvosar. Fallhæð Brúarár í gegn um skörðin er um 200 metrar, innst er hún í 420 metrar, en 220 metrar, þar sem hún kemur fram úr gljúfrinu. Ég ítreka: Hafið með ykkur fylgdarmann.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð til suðurs í norðvesturjaðri Rótarsands eftir jeppaslóð. Förum síðan suður úr slóðinni yfir sandinn í átt að Brúarárskörðum. Síðan suður um skörðin og ofan þeirra að austanverðu. Neðan skarðanna förum við suðsuðaustur um Úthlíðarhraun, þar sem við komum á jeppaslóð. Henni fylgjum við til suðausturs að þjóðvegi 37 við Miðhús og Úthlíð í Bláskógabyggð, í 140 metra hæð.

12,3 km
Árnessýsla

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Skessubásavegur, Hlöðufell, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið, Miðdalsfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Brattholt

Frá Brúarhlöðum um Brattholt að Gullfossi.

Þetta er gamli Gullfossvegurinn meðfram Hvítá.

Byrjum á þjóðvegi 30 rétt norðan við brúna yfir Hvítá á Brúarhlöðum. Förum jeppaslóð norður með Hvítá vestanverðri, milli árinnar og Háafjalls, og loks um Brattholt. Þetta er gamli Gullfossvegurinn. Við Brattholt komum við að þjóðvegi 35 og fylgjum honum að Gullfossi.

8,2 km
Árnessýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fremstaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Bláskógaheiði

Frá Hallbjarnarvörðum í Skógarhóla.

Af Bláskógaheiði er farið norður Ok eða Kaldadal, vestur Lundareykjadal eða suður á Þingvöll. Oft leið átakamanna í Sturlungu og Hallbjarnarvörður voru fundarstaður þeirra. Árið 1236 hittust Sturla Sighvatsson og Órækja Snorrason á heiðinni til að sættast. Sturla reið heiðina 1238 til Apavatnsfundar við Gissur Þorvaldsson. Sama ár fóru Gissur og Kolbeinn ungi Arnórsson heiðina í herför gegn Sturlu Sighvatssyni á Sauðafelli í Dölum. 1252 fóru Hrafn Oddsson og Sturla Þórðarson hér í aðför að Gissuri Þorvaldssyni. Við Hallbjarnarvörður biðu Hrafn og Sturla í desember 1252 eftir Þorgils skarða, sem ekki mætti. Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson riðu heiðina 1253 í aðför að Gissuri Þorvaldssyni, en sneru við í Víðikjörrum.

Förum frá Hallbjarnarvörðum á Bláskógaheiði. Tveimur kílómetrum norðan Hallbjarnarvarða eru Brunnar, forn áningarstaður. Förum reiðgötur suður með Kaldadalsvegi, fyrst um Biskupsbrekku. Síðan um Draugabrekku og Orrustumóa í Víðikjörr og þaðan yfir Tröllháls suður á Ormavelli. Sunnan Ormavalla víkur slóðin til austurs frá bílvegi að Lágafelli og með því vestanverðu suður að Sandkluftavatni. Reiðslóðin er austan vatnsins, síðan um Smjörbrekku og austan við Meyjarsæti, en sameinast bílveginum aftur sunnan þess. Við förum suðvestur meðfram Ármannsfelli að Víðivöllum. Áfram förum við vestur með fellinu og komum brátt að Skógarhólum.

20,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Hrafnabjörg, Biskupavegur, Eyfirðingavegur, Skjaldbreiður, Reyðarvatn, Okvegur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Bláfellsháls

Tengileið frá Fremstaveri upp á veginn yfir Bláfellsháls.

Þetta er bílvegur, svo að hestamenn og göngumenn fara frekar austur fyrir Bláfell, þar sem er hin forni Kjalvegur.

Förum frá Fremstaveri í 280 metra hæð vestur á jeppaslóð til norðurs meðfram Bláfelli vestanverðu upp á þjóðveg 35 á Bláfellshálsi. Bláfellsháls nær 600 metra hæð.

5,5 km
Árnessýsla

Skálar:

Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417.
Jeppafært

Nálægir ferlar: Fremstaver, Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Farið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Bláfell

Frá fjallaskálanum í Fljótsdrögum um Bláfell að Skagfirðingavegi við Grettisvatn á Stórasandi.

Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Förum frá Fljótsdrögum til norðausturs í stefnu á Bláfell. Þar förum við til austurs fyrir sunnan fjallið og síðan aftur norðaustur að Grettishæðarvatni. Þar erum við komin á gamla Skagfirðingaveginn milli Arnarvatnsheiðar og Skagafjarðar.

18,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Fljótsdrög: N64 54.884 W20 08.437.

Nálægir ferlar: Fljótsdrög, Sandkúlufell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Krákur, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Biskupavegur

Frá Skógarkoti á Þingvöllum um Lyngdalsheiði að Skálholti.

Öldum saman voru Skálholt og Þingvellir mestu valdastaðir landsins og tíðar ferðir fyrirmanna á veginum. Einn merkasti reiðvegur landsins og er fær enn þann dag í dag. Öll leiðin er fjölfarin og skýr. Heldur er þó amast við reið á einstiginu milli Þingvalla og Skógarkots og frekar mælt með öðru einstigi frá Skógarhólum til Skógarkots og svo áfram leiðina, sem hér er lýst. Stundum kölluð Lyngdalsheiði, enda liggur hún um heiðina norðaustanverða.

1. janúar 1242 fór Órækja Snorrason um heiðina á leið í Skálholtsbardaga við Gissur Þorvaldsson. Í febrúar 1253 lenti Þórður Hítnesingur í hrakningum á heiðinni og varð að snúa við til Gjábakka í Þingvallasveit. Fór síðan vestan við heiðina um Búrfell og um Bakkagötur til Skálholts.

Byrjum á Þingvöllum. Skammt austan gatnamóta vegar að hótelbrúnni og gamla vegarins austan Þingvallavatns komum við á merkta slóð til Skógarkots. Þar byrjum við og þaðan förum við áfram merkta slóð suður að Vatnsvík. Síðan smáspöl með þjóðvegi 361 og þá aftur á slóðina og áfram til Gjábakka. Þaðan fylgir slóðin þjóðvegi 365 rúma þrjá kílómetra til austsuðausturs. Við Taglaflöt förum við á slóð suðaustur fyrir suðurenda Litla-Reyðarbarms og áfram suðaustur um norðausturhorn Lyngdalsheiðar. Við förum hjá Haustrúguvörðu rétt austan fjallaskálans í Kringlumýri. Áfram suðaustur um Biskupsbrekku, Biskupsvörðu, Beinvörðu og Áfangamýri. Síðan á Kirkjuvaði yfir Stangarlæk og suðaustur um Smalaskála að Apavatni milli Neðra-Apavatns og Þóroddsstaða. Þar förum við yfir þjóðveg 37 og fylgjum reiðleið norðan Mosfells og síðan um Sel og Reiðholt til brúarinnar á Brúará hjá Kjóastöðum. Og loks með þjóðvegi 31 um Kerslæk og Tíðaholt til Skálholts.

12,7 km
Árnessýsla

Skálar:
Kringlumýri: N64 11.080 W20 55.714.
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Lyngdalsheiði, Eskidalsvað, Bakkagötur, Selkotsvegur, Kóngsvegurinn, Prestastígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins & Leiðir Skálholtsbiskupa

Bakkagötur

Frá Þóroddsstöðum við Apavatn að Hæðarenda í Grímsnesi.

Hæðarendi var að fornu miðstöð umferðar um Suðurland, sérstaklega milli Þingvalla og Skálholts. Leiðin um Bakkagötur er sýnd í grófum dráttum á kortinu.

Sturla Sighvatsson reið árið 1238 frá Hrafnabjörgum um Hrafnabjargaháls, hjá Reyðarbarmi og um Beitivelli að Apavatni. Kom þangað að morgni, en er leið á daginn kom Gissur og með honum fjörutíu manns. Þeir tóku tal saman og Sturla lét heldur ólíkindalega, en skyndilega ákvað hann að handtaka Gissur og afvopna menn hans. Daginn eftir reið allur hópurinn út í Grímsnes. Þeir fóru Bakkagötur milli Þóroddsstaða og Bjarkar. Síðan hjá Klausturhólum og norðan við Seyðishóla, hjá Miðengi og þaðan að Álftavatnsvaði. Frá Álftavatnsvaði fóru þeir skammt fyrir sunnan Torfastaði um svonefnt Ferðamannagil og síðan um Grafningsháls. Af Grafningshálsi fóru þeir fyrir neðan bæinn Gljúfur og út með hlíðinni að Reykjum í Ölfusi.

Förum frá Þóroddsstöðum suðvestur Bakkagötur og norðan bæjar að Björk og síðan að Klausturhólum og yfir öxlina norðan Seyðishóla að þjóðvegi 351 sunnan Hæðarenda.

10,2 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Álftavatnsvað, Búrfellsgötur, Lyngdalsheiði, Eskidalsvað, Biskupavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason

Álftavatnsvað

Frá Reykjum í Ölfusi að Gjábakka í Þingvallasveit.

Þetta hefur verið alfaravegur allt frá söguöld.

Hestamenn notuðu Álftavatnsvað í sleppitúrum fyrir mörgum árum, en það hefur lítið verið notað síðustu árin. Mikilvægt er, að hestaferðamenn haldi við þessari sögufrægu leið yfir Álftavatn.

Sögufræg leið frá Reykjum í Ölfusi. Þar bjó Gissur Þorvaldsson um skeið. Vaðsins er getið í Sturlungu. Þetta er leiðin, sem sendiboði Gissurar Þorvaldssonar reið árið 1238 til Sturlu Sighvatssonar, sem kominn var með lið sitt að Hrafnabjörgum í Þingvallasveit. Sendiboðinn reið síðan norður Búrfellsgötur austan Búrfells og svo um Lyngdalsheiði til Gjábakka. Eftir að Sturla Sighvatsson hafði handtekið Gissur Þorvaldsson við Apavatn, ætlaði hann að drepa erkióvin sinn, en hætti við. Sturla og Gissur riðu síðan frá Apavatni um Bakkagötur til Klausturhóla og Hæðarenda og komu þar inn á Álftavatnsleið.

Um vaðið segir í kirkjubókum “ei er það fært fyrr en snjóleysingar mestu eru úr fjöllum, og í langvinnum rigningum verður það líka ófært. Ei er það heldur reitt fyrir dýpi, nema á þeim eina stað, og er það miðað vað, hvoru megin sem að því er komið. Verður það aldrei grynnra en í kvið og er á breidd við í lengsta lagi stekkjarveg.”

Byrjum á Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Reiðslóði liggur suðaustur með hlíðinni, síðan ofan við sumarhús Ölfusborga og áfram að Gljúfri. Rétt áður en við komum að Hvammi beygjum við til vinstri norður Hvammsmela í Djúpagrafning og upp á Grafningsháls. Af hálsinum förum við austur og niður hjá Litla-Hálsi og um Ferðamannagil að Álftavatnsvaði á miðju Álftavatni. Þar er Vaðeyri í miðju vatni. Farið er beint austur í eyrina og þaðan beint áfram upp á land norðan Vaðlækja. Síðan norðaustur að Miðengi og áfram um Kerhraun að þjóðvegi 351 norðvestan Seyðishóla og sunnan Hæðarenda.

19,7 km Árnessýsla

Erfitt fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hellisheiði, Hengladalaá, Klóarvegur, Reykjadalur, Búrfellsgötur, Lyngdalsheiði, Bakkagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort