Barðarstrandarsýslur

Kirkjubólsheiði

Frá Langabotni í Geirþjófsfirði um Kirkjubólsheiði að Kirkjubóli í Mosdal við Arnarfjörð.

Þjóðsaga segir, að maður nokkur lofaði að koma við hjá Jóhannesi galdramanni á Kirkjubóli, áður en hann færi yfir Kirkjubólsheiði, en efndi ekki. Þegar hann kom upp á háheiðina, kom á móti honum stór grár og ljótur fugl með gargi og látum, flæktist fyrir fótum hans og tafði ferð hans. Ávarpaði maðurinn fuglinn með ófögrum orðum og sagði honum að fara beint til þess, sem hefði sent hann, því við sig ætti hann ekki erindi. Við þetta hvarf fuglinn. Næst þegar þeir Jóhannes hittust, spurði hann manninn, hvort hann hafi orðið nokkurs var á heiðinni, en maðurinn lét lítið yfir því. Það var hald manna, að sendingin hafi orðið Jóhannesi næsta erfið, þegar hún kom til baka og sagt er að Jóhannes hafi aldrei framar gletzt við manninn.

Förum frá Langabotni austnorðaustur upp í Leiðargil hátt í fjallinu. Þverbeygjum þar vestur á brún Kirkjubólsheiðar. Af brúninni förum við norður um Kirkjubólsheiði í 500 metra hæð. Að lokum vestnorðvestur og niður dalinn að Kirkjubóli eða að Ósi í Mosdal.

10,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Geirþjófsfjörður, Tóbakslaut, Dynjandisheiði, Afréttardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kálfárgljúfur

Frá þjóðvegi 60 við Kálfárgljúfur í Þorskafirði austanverðum um gjúfrið og Hjallaháls að þjóðvegi 60 við Prestlæk í Djúpafirði.

Kálfá heitir eftir Kálfi, sem Guðmundur Þórisson drap í gljúfrinu, svo sem segir í Gull-Þóris sögu.

Byrjum við þjóðveg 60 sunnan við Kálfárgljúfur. Förum upp með gljúfrinu sunnanverðu og komum að þjóðvegi 60 uppi á Hjallahálsi. Síðan til vestsuðvesturs rétt norðan þjóðvegarins um Hjallaháls. Sunnan við Vörðufell sveigir reiðleiðin til vesturs frá bílveginum og sameinast honum aftur við beygjuna hjá Prestlæk.

4,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þorskafjarðarheiði, Hallsteinsnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kálfadalur

Frá þjóðvegi 60 við Múla í Kollafirði um Kálfadal upp á Kollafjarðarheiði.

Förum frá Múla meðfram Múlatöflu norður Kálfadal um eyðibýlin Múlasel og Kálfadal. Síðan norðaustur vestan við Múlaá inn í Mjóadal og norður þann dal. Við fylgjum Mjóadalsá fyrst í norður, síðan í vestur og loks aftur í norður á Múlafjall. Þegar upp á Múlafjall er komið, beygjum við í norðvestur og komum að slóðinni um Kollafjarðarheiði milli botns Kollafjarðar og Laugabóls við Ísafjörð.

11,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kollafjarðarheiði, Bæjarnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hænuvíkurskarð

Frá Hænuvík í Patreksfirði til Breiðavíkur.

Förum frá Hænuvík suðvestur og upp með Vatnsgili og vestan við Fremrivíkurvatn upp á Hænuvíkurheiði í 280 metra hæð. Þaðan förum við suðvestur um Dalbrekkur í drögum Vatnadals og suðvestur Breiðuvíkurháls á brún Breiðuvíkur. Förum til suðurs fyrir vestan Hafnargil og að lokum vestsuðvestur að húsum í Breiðuvík.

10,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Látraháls, Hænuvíkurháls, Tunguheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hænuvíkurháls

Frá Hænuvík um Hænuvíkurháls til Kollsvíkur.

Í Hænuvík þótti útræði gott á grásleppu. Í Kollsvík var ágætt útræði og voru þar 25 bátar um aldamótin 1900.

Förum frá Hænuvík beint vestur og upp á Hænuvíkurháls í 360 metra hæð sunnan við Aurtjörn og norðan við símamastur. Komum eftir vel hlaðinni slóð um Húsadal vestur í Kollsvík.

5,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kóngshæð, Breiðuvíkurháls, Tunguheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hyrnur

Frá Naustabrekku á Rauðasandi um Hyrnur og Brekkuhlíð til Keflavíkur.

Leiðin heitir einnig Kerlingarháls og er það algengara. Hún er nálægt bjargbrúninni. Brekkuhlíð er ekki göngu- eða reiðleið. Hlíðin er ófær nema bjargfimum mönnum. Brattar ógengar skriður.

Kerlingarháls heitir eftir kerlingum tveimur, sem gengu í snjó eftir brúninni ásamt ungum dreng. Þeirri, sem á undan gekk, mislíkaði, að hin gekk í spor hennar og gekk sífellt tæpar. Að lokum sagði sú fyrri “gakk í spor mín, bölvuð”, um leið og hún steig fram af brúnni, sem hin gerði og fórust báðar. Tveir prestar í Sauðlauksdal riðu fram af brúninni á 17. öld. Annar var Björn Bjarnason 1625 við Klifhyrnu, þar sem vegurinn liggur um eftir að hann beygir til vesturs frá Brekkudölum. Hvassviðri feykti honum og hesti hans fram af. Hinn var Þorbjörn Einarsson 1673, sem reið fram af þar sem gatan er tæpust á brún Kerlingarháls.

Förum frá Naustabrekku á Rauðasandi vestur og upp sneiðinga í skriðu. Komum á brún í Brekkudölum, förum í vestur um Klifhyrnu og Hyrnur á bjargið um Hyrnur eftir brún Kerlingarháls í Keflavík. Síðan niður Systrabrekkur til Keflavíkur.

5,3 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hnjótsheiði, Dalverpisvegur, Svarthamragil, Brúðgumaskarð, Stæðavegur, Látraheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hreggstaðadalur

Frá Hreggstöðum í Haukabergsvaðli um Hreggstaðadal og Göngumannaskörð til Móbergs á Rauðasandi.

Leiðin er sjaldfarin, grýtt og brött.

Förum frá Hreggstöðum vestur Hreggstaðadal og þaðan norður Kringludal og norðvestur um Háls og fyrir norðan Axlir vestur í Göngumannaskörð í 560 metra hæð. Þaðan förum við vestur í Skógardal á Rauðasandi og loks vestur að Móbergi.

13,2 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Strandaheiði, Sigluneshlíðar, Rauðisandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson

Hokinsdalur

Frá Hokinsdal í Arnarfirði um Steinanesháls að Steinanesi í Geirþjófsfirði.

Byrjum við sjó í Hokinsdal. Förum suðaustur Hokinsdal að bænum Hokinsdal og þaðan suðvestur yfir Steinanesháls í 200 metra hæð. Að lokum sneiðing suðsuðaustur og niður að Steinanesi í Geirþjófsfirði.

4,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Geirþjófsfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hnjótsheiði

Frá Naustabrekku á Rauðasandi um Hnjótsheiði til Örlygshafnar í Patreksfirði.

Sneiðingarnir ofan Naustabrekku eru vel lagðir og sumstaðar er hlaðið í þá, þar sem þeir fara yfir skorninga. Lítill bratti er í sneiðingunum og þeir léttir göngu. Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Byrjum hjá Naustabrekku vestast á Rauðasandi. Við förum norður og upp sneiðinga í Brekkudali og þar kvíslast reiðvegurinn, í vestur að Keflavík og beint í norður á Hnjótsheiði í 280 metra hæð. Næst með háspennulínu austan við Stákanúpshæð og vestan við Núp og norður Heiðardal að Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði.

7,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hyrnur, Dalverpisvegur, Mosdalur, Tunguheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallsteinsnes

Frá Þórisstöðum í Þorskafirði um Hallsteinsnes til Barms í Djúpafirði.

Deilur og dómsmál hafa risið um lagningu bílvegar um skóginn og fyrir nesið. Ef vegurinn verður lagður, fellur þetta niður sem reiðfær reiðleið.

Hallsteinsnes er víða viði vaxið, einkum í Teigsskógi. Skógurinn hefur á notið góðs af minnkandi beit og umgengni. Frá Teigsskógi liggur leiðin um fjörur, fitjar og sjávartjarnir að Grenitrésnesi. Þar á að hafa á landnámsöld rekið á land svo stórt tré að nægt hafi í öndvegissúlur fyrir marga bæi í nágrenninu. Hallsteinsnes er gamalt höfuðból. Þar bjó Hallsteinn sonur Þórólfs mostrarskeggs. Sonur Hallsteins var Þorsteinn surtur, sem bætti tímatalið með sumarauka.

Förum frá Þórisstöðum suðvestur um Hallsteinsnes og frægan Teigsskóg og svo vestur að Fótbaldri. Síðan norðaustur með ströndinni inn Djúpafjörð að Barmi í Djúpafirði og loks norðaustur og upp í leiðina um Hjallaháls.

14,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þorskafjarðarheiði, Reykjanes, Gróunes, Kálfárgljúfur, Brekkufjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hagavaðall

Frá Haga í Hagavaðli um Steinbogavað að Rauðsdal í Hagavaðli.

Sæta þarf sjávarföllum á vaðinu og fara aðeins um háfjöru. Ofar eru Brandshólmavað, ekki fært lengur vegna sandbleytu, og efsta vaðið er svo Krosslækjarvað hjá Krossi. Hagi er eitt af helztu höfðingjasetrum landsins. Þar bjó á söguöld hinn djúpvitri Gestur Oddleifsson. Þar sátu sýslumenn og þar sat Guðmundur Scheving, sem var amtmaður Jörundar hundadagakonungs. Jón Thoroddsen sýslumaður skrifaði þar Pilt og stúlku. Synir hans voru Þorvaldur Thoroddsen, Skúli Thoroddsen og Sigurður Thoroddsen, faðir Gunnars Thoroddsen. Hákon Kristófersson alþingismaður bjó í Haga um miðja síðustu öld. Vaðall var þingstaður og kaupstaður, þar til Hagi tók við. Brandshólmi var skipalægið. Við Rauðsdal eru klettarnir Reiðskörð, þar sem Sveinn skotti var hengdur, sonur Axlar-Bjarnar. Þar heitir Skottagjóta.

Förum frá Haga austur Hagafit að Steinbogavaði milli Hvammsodda og Hagaodda, um skerið Steinboga. Síðan áfram vestur að þjóðvegi 62 við Rauðsdal.

9,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Lækjarskarð, Mjósund, Fossheiði, Miðvörðuheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson

Hafrafell

Hringleið um Hafrafell og Borgarland milli Króksfjarðar og Berufjarðar.

Nesið er með mýrum, tjörnum og klettaborgum, fjölbreyttu fuglalífi og miklum gróðri.

Byrjum við þjóðveg 60 austan Skáldstaða í Berufirði. Förum jeppaslóð suðaustur að Hafrafelli og síðan norður fyrir fellið og suðsuðaustur með því að austanverðu. Síðan austan Hafrafellsvatns suður að Fálkhamri. Svo austan Háuborgar suður að Brandseyjarbjargi og út á nesodda við Bitranda á Hvíteyri. Síðan til vesturs fyrir sunnan Brandseyrarbjarg um Borgarland að Þegjandanausti. Síðan norður með vesturhlíð Brandseyjarbjargs og vestan við Hafrafellsvatn og Hafrafell norður að Skáldstöðum.

16,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Reykjanes, Laxárdalsheiði, Bæjardalsheiði, Vaðalfjöll, Vaðalfjallaheiði, Barmahlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hafnarfjall

Frá Breiðuvík um Hafnarfjall til Örlygshafnar í Patreksfirði.

Breiðavík er þekktust fyrir misheppnað uppeldisheimili drengja, sem þar var. Á Hnjóti í Örlygshöfn er minjasafn Egils Ólafssonar um búskap og sjósókn fyrri alda, einnig gamlir bátar og flugminjar. Þar er minnisvarði um þá, sem hafa farizt við Látrabjarg.

Förum frá Breiðuvík norðaustur að fjallinu Breið og upp það til norðurs. Þaðan þvert austur um Hafnarfjall í 320 metra hæð. Um sneiðinga vestur af fjallinu sunnan Geitagils í Örlygshöfn að mótum þjóðvega 615 og 612 í Örlygshöfn.

8,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Stæðavegur, Brúðgumaskarð, Breiðavíkurháls, Kóngshæð, Tunguheiði, Látraháls, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gýgjarskarð

Frá Norðurbotni í Tálknafirði um Gýgjarskarð að Þernudal í Fossfirði.

Byrjum við þjóðveg 63 hjá Norðurbotni í Tálknafirði. Förum austur og upp Norðurfjall norðan dalsins og síðan áfram austur í Gýgjarskarð. Þar skiptast leiðir. Önnur liggur niður í Dufansdal, en hin eystri liggur austur um Foldir niður með Þernuá í Þernudal að þjóðvegi 63 í Fossfirði.

10,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Dufansdalur, Miðvörðuheiði, Botnaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson