Borgarfjörður-Mýrar

Lambahnúkar

Millileið sem tengir saman leið um Sópandaskarð og aðra um Svínbjúg.

Förum úr Sópandaskarði vestur með Mjóadalsá milli Þrúðufells og Fossmúla. Áfram til norðvesturs norðan Tröllakirkju og Lambahnúka. Síðan suðvestur með Austurdalsá niður í Hítardal og svo norðvestur að norðurenda Hítarvatns.

9,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Svínbjúgur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Klif

Frá Torfhvalastöðum við Langavatn um Klif að Fjallakofanum við Sandvatn.

Einstigi er um Klif, en ekki bratt. Vestan þess tekur við rudd slóð að vaði á Langá.

Förum frá Torfhvalastöðum suðaustur á Beilárvelli og síðan suðvestur um Klif og til vesturs í norðurjaðri Staðartungu að útfalli Langár. Vestur yfir Langá og Sandvatnsnes og suðvestur að Sandvatni og að Fjallakofanum við Sandvatn.

3,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.
Fjallakofinn: N64 45.463 W21 51.351.

Nálægir ferlar: Hábrekknavað, Jafnaskarð, Sópandaskarð, Hraundalur.
Nálægar leiðir: Langavatn, Skarðheiðarvegur, Hrosshyrna.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kjarrá

Frá veiðiskálanum Víghóli í Kjarrardal um Haukagilsdraga að Stóra-Ási í Hálsasveit.

Förum frá veiðiskálanum Víghóli í Kjarrardal skáhallt austur og upp á Haukagilsdraga. Þaðan suður og niður Kinnargil, að Hvammi við þjóðveg 523. Við förum með veginum austur að brú við Stóra-Ás í Hálsasveit.

9,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Víghóll: N64 45.240 W21 07.270.

Nálægir ferlar: Hvítársíða, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Kjarardalur, Kambafoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kjarardalur

Frá þjóðvegi 524 í Þverárhlíð um Kjarardal til Tvídægru.

Stundum nefndur Kjarrárdalur. Önnur meginleiðin til Dofinsfjalla og upp á Tvídægru til Vesturárdals í Húnaþingi.

Byrjum við þjóðveg 524 í Þverárhlíð, þar sem slóð liggur af veginum austur í Örnólfsdal. Förum fyrst suðsuðvestur að dalnum og síðan eftir veiðivegi austur dalinn. Neðst heitir hann Örnólfsdalur, en ofar Kjarardalur. Við fylgjum dalnum, fyrst norðan ár og síðan sunnan hennar. Förum framhjá fjallaskálanum Víghóli. Síðan liggur dalurinn til norðausturs á heiðina og við fylgjum Kjarará / Kjarrá. Förum framhjá fjallakofanum Gilsbakkaseli. Áfram förum við norðaustur með ánni, en beygjum síðast suðaustur að norðurenda Hólmavatns. Þar komum við inn á leiðina um Tvídægru.

24,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Víghóll: N64 45.240 W21 07.270.
Gilsbakkasel: N64 48.475 W20 59.105.

Nálægar leiðir: Kambafoss, Kjarrá, Tvídægra.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Katlavegur

Frá Höfn í Melasveit að Leirárgörðum í Leirársveit.

Katlavegur var áður fyrr fjölfarinn, þegar réttir voru í Höfn. Þá voru allir fjárrekstrar um Katlaveginn sem fóru frá Hafnarrétt til Leirársveitar. Auk þess fóru Borgfirðingar oft þar um á leið sinni til eða frá Akranesi, einkum um haust og vor, ef Skarðsheiði var ófær.

Förum frá Höfn í Melasveit austsuðaustur yfir veg 1, austsuðaustur Katlaveg meðfram fjallgarðinum. Framhjá línuvegi úr byggð norðaustur á Skarðsheiði. Þaðan til suðurs fyrir vestan Leirá að brúnni yfir ánni á þjóðvegi 504 hjá Leirárgörðum.

10,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Skarðsheiði, Leirárdalur, Hafnarskógur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Kastali

Frá Kastala vestan Vatnshamravatns um Heggstaði að þjóðvegi 510.

Förum af þjóðvegi 50 eftir jeppaslóða suðaustan Vatnshamravatns norðaustur að Heggstöðum og áfram norður að þjóðvegi 510.

4,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Kambafoss

Frá Helgavatni í Þverárhlíð um Kambafoss og Spenaheiði að fjallaskálanum Þverhlíð við Hellisá.

Förum frá Helgavatni norðnorðaustur að Þverá og síðan austnorðaustur með ánni að eyðibýlinu Hermundarstöðum. Þar heitir hún Litla-Þverá. Förum norður yfir ána og austnorðaustur að Kambafossi. Áfram vestur með Litlu-Þverá. Áður en við komum að Fanngili förum við vestnorðvestur á Spenaheiði. Norðnorðaustur heiðina að Hellisá og loks austur með ánni að fjallaskálanum Þverhlíð.

24,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Þverhlíð: N64 52.595 W21 02.859

Nálægar leiðir: Kjarrá, Kjarardalur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Kaldidalur

Frá Hallbjarnarvörðum og Biskupsbrekku um Kaldadal til Húsafells í Hálsasveit.

Löng dagleið, um 70 km frá Þingvöllum. Tólf tíma lestargangur var frá Hofmannaflöt undir Meyjarsæti til Húsafells. Alltaf fjölfarin, þótt langt væri milli byggða í samanburði við vestari leiðir. Rudd 1830, fyrst fjallaleiða á Íslandi.

Skúlaskeið er stórgrýttur kafli Kaldadalsleiðar. Grímur Thomsen orti um það kvæði. Fjallar um Skúla, sem dæmdur var til lífláts á Alþingi. Honum tókst að forða sér á viljugum og öflugum hesti sínum, sem Grímur nefnir Sörla. Á Skúlaskeiði barði hesturinn grjótið og dró ekki af sér. Þar drógust eftirreiðarmenn hans hins vegar aftur úr. Í kvæði Gríms er þessi hending: “Hann forðaði Skúla undan fári þungu / fjöri sjálfs sín hlífði klárinn miður; / og svo með blóðga leggi, brostin lungu / á bökkum Hvítár féll hann dauður niður.”

Förum frá Hallbjarnarvörðum og Biskupsbrekku í 350 metra hæð. Fylgjum bílslóðinni norður um graslendið Brunna og Brunnahæðir, síðan um Leirárdrög í grastunguna Egilsáfanga og hjá vörðunni Kerlingu við vesturenda Hrúðurkarla. Frá Kerlingu er frábært útsýni til allra átta. Við förum áfram norður milli Lyklafells og Oks að vestanverðu og Þórisjökuls að austanverðu. Sá kafli vegarins heitir Langihryggur og fer í 700 metra hæð. Vestan Syðra-Hádegisfells tekur við Skúlaskeið. Áfram förum við vestan við Nyrðra-Hádegisfell og niður Lambártungur að Geitá. Þar beygjum við til vesturs með ánni og förum norðan Selfjalls eftir reiðslóð um Húsafellsskóg og vestur í Húsafell í 120 metra hæð.

39,7 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.
Kaldidalur: N64 26.840 W20 57.711.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Okvegur, Reyðarvatn, Skjaldbreiður, Skessubásavegur, Múlaskógur, Húsafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Jörfamúli

Frá Krossi í Haukdadal um Jörfamúla að Fornahvammi í Norðurárdal.

Förum frá Krossi suður og upp Jörfamúla, suður Hvassárdal og í Fornahvamm.

18,1 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Haukadalsá, Krossbrún, Villingadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Jafnaskarð

Frá Háreksstöðum í Norðurárdal um Grábrók að Torfhvalastöðum í Langadal.

Tengileið milli Norðurárdals og Langadals.

Jafnaskarðsskógur er afgirtur og friðaður. Þar eru merktar gönguleiðir og reiðgötur.

Förum frá Háreksstöðum suðvestur með þjóðvegi 528 meðfram Norðurá að austanverðu, um Hafþórsstaði, Skarðshamra og Glitstaði. Þar förum við yfir Norðurá á brú og síðan upp með Norðurá stuttan kafla og svo norður yfir þjóðveg 1 að Brekku. Þaðan förum við reiðslóð að baki Grábrókar um Húsadal að Hreðavatni. Þar förum við á jeppaveg, sem liggur suður hlíðina og að suðurenda Selvatns, síðan suður með Stóramúla og Múlakotsmúla, um Jafnaskarð að Múlakoti. Þaðan förum við jeppaslóðina áfram fyrir múlann og norður í Grímsdal. Þann dal förum við norður og síðan norðvestur upp úr honum sunnan við Beilárheiði og norðan við Staðarhnjúk. Erum þar í 300 metra hæð. Förum síðan vestur og niður á Beilárvelli og áfram vestur með Langavatni að fjallaskálanum Torfhvalastöðum.

32,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Sanddalur, Sópandaskarð, Hábrekknavað.
Nálægar leiðir: Fiskivatn, Langavatn, Klif.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Illagil

Frá botni Reykjadals um Illagil og Mjóadal að Sanddalstungu í Sanddal.

Hjáleið af Sanddalsleið.

Förum frá eyðibýlinu Sanddalstungu til norðnorðvesturs inn Mjóadal, yfir norðvesturenda Kambs að Tröllakirkju.

9,3 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sanddalur.
Nálægar leiðir: Krossbrún.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hvítárvöð

Mörg vöð voru á Hvítá í Borgarfirði áður en bílvegir komu til sögunnar.

Annars staðar í bókinni eru kaflar um þekktustu vöðin, Ámótsvað, Langholtsvað og Fróðastaðavað / Steinsvað. Ámótsvað var aðalvaðið á Sturlungatíma og Langholtsvað á síðari öldum. Ekkert þessara vaða er farið nú á tímum. Hvítá breytir sér oft, breytir vöðum og jafnvel farvegi, til dæmis milli Langholtsvaðs og Bakkavaðs. Vaðið við Hvítárbakka var kallað Bakkavað á söguöld og Grafarvað í Sturlungu. Það er í gömlum og þornuðum farvegi Hvítár norðan Hvítárbakka og Bæjar. Það vað notuðu Þórður kakali og Kolbeinn ungi árið 1242, þegar Kolbeinn elti Þórð vestur Mýrar.

Vöðin í Hvítá eru einkum þessi, talið frá ósum árinnar. Þrælavað við Þræley á ármótum Hvítár og Norðurár, Bakkavað / Grófarvað við Hvítárbakka, Haugsvað / Haugsendavað / Langholtsvað norður af Bæ og Langholti, Ámótsvað við mót Hvítár og Reykjadalsár, Klettsvað við Klett rétt ofan Ámótsstaðavaðs, Fróðastaðavað / Steinsvað sunnan Fróðastaða, Bjarnavað austan til við Háafell, Snagavað við Sámsstaðafjárhúsin, Bjarnastaðavað neðan við Bjarnastaðatún, Nýjavað vestan við Stóra-Ás, Ásvað fyrir austan Stóra-Ás, Oddavað og Hundavað við Tungusporð. Göngubrú var á Hvítá á Sturlungaöld við Kláffoss, þar sem nú er bílabrú. Að fornu var einnig göngubrú hjá Barnafossi suður af Gilsbakka.

Um gögubrúna við Kláffoss segir í Sturlungu: “Vildi hann (Órækja), að þeir biskuparnir færu í milli með handsölum eða þeir fyndust á brúnni, en hún var mjó. Gissur kveðst eigi vilja á brúna. Þeir biskup báðu Órækju ganga yfir brúna og láta það eigi fyrir sættum standa. … Órækja vill nú hætta á að ganga suður yfir brú með ráði biskups. … Og áður Órækja gekk yfir brúna, töluðu þeir Gissur og Kolbeinn lengi, og eftir það gengu þeir til flokka sinna. Órækja gekk yfir brúna með sveit manna. Svarthöfði Dufgusson gekk eigi lengra en að brúarsporðinum og latti Órækju að ganga. En er þeir komu yfir ána og viku upp frá brúnni, þá hlaupa þeir Gissur og Ormur fyrir brúarsporðinn með allan flokk sinn, og var þá enginn kostur að fara vestur yfir ána. … Sigvarður biskup sendi nú Gissur biskupsson til nafna síns að vita, hverju þetta gegnir. Gissur svarar nú skjótt, kveðst nú vilja ráða sumum skildögum, kveðst vilja sættast við Órækju og með því einu efni, að hann gerði einn um mál þeirra öll og til skildar utanferðir þeirra Órækju og Sturlu … Biskuparnir og Brandur ábóti bregðast mjög reiðir við þetta og kalla hin mestu svik við sig ger … Gissur svaraði svo, kvað á öllu meiri mein sjá en þessu.”

? km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Tryggvi Már Ingvarsson 2001 og Sturlunga

Hvítársíða

Frá Stóra-Ási í Hálsasveit að Höll í Þverárhlíð.

Tengileið milli ferðaleiða í Borgarfirði. Kjósi menn að losna við veginn, geta þeir farið af veginum rétt utan Kirkjubóls og riðið slóð yfir Haukagilsdraga yfir í Kjarrárdal. Hvítársíða hefur löngum þótt ein búsældarlegasta sveit landsins. Þar eru sögufræg stórbýli og þar sátu ættir mann fram af manni. Frá Brúarási að telja eru bæirnir Bjarnastaðir, Kirkjuból, Hvammur, Haukagil, Sámsstaðir, Háafell, Þorgautsstaðir, Fróðastaðir og Síðumúli. Þverárhlíð er líka öflug sveit, einkum síðan laxveiði varð verðmæt eign.

Förum frá Stóra-Ási beint norður yfir Hvítárbrú og síðan með þjóðvegi 523 vestur Hvítársíðu. Við förum með þjóðveginum, sem liggur vestur með Hvítá. Handan Síðumúla eru krossgötur og þar beygjum við til norðurs eftir þjóðvegi 522. Einnig er hægt að taka af hornið með því að fara frá Síðumúla yfir Síðumúlaháls. Við förum norður eftir þjóðvegi 522 og síðan vestur eftir honum að afleggjara til eyðibýlisins Guðnabakka. Við förum þann afleggjara og niður með Þverá, fyrst í vestur og síðan suðvestur. Við Leynifitjarflóa förum við yfir ána. Höldum áfram niður með ánni á hinum bakka hennar um jaðar á túnum, sem við gætum þess að spilla ekki. Vestan við Háás komum við aftur að þjóðvegi 522 og förum hann til norðurs að mótum þjóðvegar 527, sem við förum eftir um það bil einn kílómetra að Höll.

33,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Nálægir ferlar: Norðlingafljót, Hábrekknavað.
Nálægar leiðir: Kjarrá.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Hvítá-Grímsá

Frá Stóra-Kroppi í Borgarfirði um Hvítá og Grímsá að Tröllafossi við þjóðveg 50.

Förum frá Stóra-Kroppi með vegi vestsuðvestur að Runnum og síðan vestur að ármótum Reykjadalsár og Hvítár. Síðan yfir Flókadalsá og vestur með bökkum Hvítár, framhjá sögufrægum vöðum, Ámótsvaði og Langholtsvaði, Bakkavaði og Þrælavaði. Áfram suðvestur með Hvítá að ármótum Grímsár. Austur og suðaustur með Grímsá að Tröllafossi. Loks suður yfir ána, áður en við komum að brúnni á þjóðvegi 50.

20,3 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH