Borgarfjörður-Mýrar

Eyrarnes

Frá þjóðvegi 50 við afleggjara að Hamraendum í Stafholtstungum meðfram Hvítá að þjóðvegi 522 við Miðgarðsafleggjara.

Förum frá þjóðvegi 50 suðaustur að Þverá og meðfram ánni, unz við erum andspænis Neðra-Nesi. Förum þar áfram suðaustur á tangann og yfir á hinn tangann milli Þverár og Hvítár. Þar förum við upp með ánni framhjá Langholtsvaði og Ámótsvaði og áfram norðnorðaustur með Hvítá að Miðgarði. Þaðan förum við norður á þjóðveg 522.

11,0 km
Borgarfjörður-Mýrar

Erfitt fyrir göngufólk

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Bugar

Frá Ámótsvaði á Hvítá um Reykjadalsárbuga að Rauðsgili og síðan að Giljum í Reykholtsdal.

Við Ásgarð norðaustan Stóra-Kropps er komin ólögleg fyrirstaða á þessari þjóðleið. Hafa menn því krækt upp á þjóðveg 50 framhjá fyrirstöðunni. Að fornu var Ámótsvað helzta vaðið á Hvítá og kemur mjög við sögu í Sturlungu. Þetta er leiðin frá vaðinu upp að höfuðbólinu Reykholti og síðan áfram austur á heiðavegi norður og suður. Á leiðinni er sagt, að farið sé 20 sinnum yfir Reykjadalsá vestan Reykholts og heitir það, að fara Buga. Víðast er leir í botni árinnar, en sums staðar möl þar ofan á.

Í árbók FÍ 2004 segir: “Brot verða á ánni, þar sem hún slær sér frá “brattbakka” öðrum megin árinnar og yfir að “flatbakka” og svo í brattbakkann hinum megin árinnar. Þar dregur úr straumnum og mölin sest til. Liggja brotin nánast frá flatbakka til flatbakka og heldur undan straumi. Eru þar bestu vöðin á bugðuánum og má fara eftir flatbökkunum og yfir á brotunum.”

Byrjum við Ámótsvað við ármót Hvítár og Reykjadalsár í Reykholtsdal. Þar heita Höfðahólar. Förum austur og upp Reykjadalsá og á bökkum hennar um Klett, Mjóanes og Miðnes, Hveranes, Víðigerði og Vellines. Sums staðar þarf að ríða í ánni út fyrir girðingar. Síðan austur fyrir Reykholt á móts við Úlfsstaði. Þar förum við suður yfir ána að Rauðsgili í Reykholtsdal.

23,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Hálsaleið, Húsafell, Fróðastaðavað, Ámótsvað, Langholtsvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Árbók FÍ 2004

Brattur

Frá Hamri á Mýrum til Skíðsholts á Mýrum.

Tengileið milli Skúlavatnsleiðar og Sauraleiðar.

Förum frá Hamri að Hundastapa á Mýrum. Förum vestnorðvestur um Bratt og suðvestan við Skíðsvatn. Síðan norður til Skíðsholts á Skúlavatnsleið milli þjóðvegar 1 við Fíflholt og Laxárholts.

2,0 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Skúlavatn, Saurar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Brattabrekka

Frá Sauðafelli í Dölum að Hvammi í Norðurárdal.

Þessi leið er að mestu orðin að bílvegi með varanlegu slitlagi og því ófær hestum. Aðeins sjálf Brattabrekka er enn reiðleið. Hér er þeim kafla leiðarinnar lýst.

Um Bröttubrekku lá gamla póstleiðin vestur í Dali. Sturla Sighvatsson á Sauðafelli hafði hestvörð árið 1238 í Bröttubrekku til að fylgjast með ferðum herflokks Gissurar Þorvaldssonar og Kolbeins unga. Í Sturlunga sögu er sagt frá ferð Þórðar kakala um Bröttubrekku 1243. Þar segir: “Skildust þeir við það, að Snorri fór vestur í fjörðu, en Þórður fór leið sína vestur á Skógarströnd og svo inn til Dala. Fann Þórður menn sína alla að Höfða við Haukadalsá. Riðu þeir þá manni miður en hálfur sjötti tugur suður um Bröttubrekku og suður yfir Karlsháls um nóttina og svo upp eftir Kjarrárdal og komu fram drottinsmorgun við sólarroð til Fljótstungu svo að enginn maður varð var við reið þeirra um héraðið. Riðu þeir drottinsdagskvöldið á Arnarvatnsheiði.”

Byrjum við þjóðveg 60, þar sem hann liggur yfir Brúnkollugil. Þjóðvegurinn liggur beint suður, en við förum suðaustur inn Suðurárdal og bratt austur og upp í skarð í 400 metra hæð milli Bana að norðan og Brekkumúla að sunnan. Þar komum við á brún Bröttubrekku. Þar förum við varlega sneiðinga niður bratta brekku í Bjarnadal. Það er Brattabrekka, núverandi bílvegur liggur ekki um hana. Fylgjum dalnum beint til suðurs og komum aftur inn á þjóðveg 60 suðvestan við Baulu og austan við Bungu.

8,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Jafnaskarð.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Báreksstaðir

Frá Miðfossum í Andakíl með Vatnshamravatni til Báreksstaða.

Förum af þjóðvegi 508 við Miðfossa í Andakíl norður yfir þjóðveg 50 og áfram norður með austanverðu Vatnshamravatni að Báreksstöðum.

3,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Ámótsvað

Yfir Norðurá og Hvítá í Borgarfirði.

Ámótsvað hefur ekki verið farið á síðustu árum, svo ég viti til.

Í Sturlungu er sagt frá mörgum vöðum á Hvítá, einkum þegar sagt er frá flótta Þórðar kakala undan Kolbeini unga 1242. Sennilega hefur áin verið vatnsminni í þá daga. Nú fara menn allra sinna ferða á brúm. Mikilvægt er þó, ef hægt er, að nota áfram sögufræg vöð.

Ámótsvað er á Hvítá, þar sem Reykjadalsá rennur í Hvítá “þar sem gatan liggur yfir um Reykjadalsá” eins og segir í Sturlungu. Höfðahólar heita þar. Þorgils skarði boðaði til fundar Borgfirðinga 1252 í Höfðahólum við Ámótsvað og kallaði eftir völdum. Við vaðið hittu Hrafn Oddsson og Sturla Þórðarson Þorgils skarða 1252 til að kveða niður ósætti. Árið 1253 hittu þeir Hrafn og Sturla Heinrek biskup hér í enn einni sáttatilraun, en mistókst. Biskup ætlaði svo á vaðið í standsöðli, en var færður annar hestur:

“Á sína hlið reið hvor, Jón járnbúkur og Böðvar úr Bæ. Reið Jón við strauminum, en Böðvar forstreymis. Egill og Eiríkur birkibeinn riðu fyrir vaðið. Áin tók í síðuna. Þá snaraði biskup af baki og fékk hann eigi uppi setið öðruvísi en þeir héldu honum á baki og slöðraði svo til lands, en af baki rak Indriða af Rauðsgili og Sigurð úr Kálfanesi og varð þeim borgið. Biskup mælti, er hann kom af ánni, að hann mundi aldrei á jafnófært vatn ríða síðan.”

Byrjum við Hábrekknavað á Norðurá tæpum kílómetra sunnan við Litla-Skarð og norðan við sumarhúsahverfið í Munaðarnesi. Frá vaðinu förum við um Varmaland, Stafholtsveggi, Hamraenda og stutta leið niður með Þverá. Förum yfir ána andspænis Neðra-Nesi. Síðan að Hvítá og upp með henni að ármótum hennar og Reykjadalsár. Þar er Ámótsvað, þekktasta vað Hvítá á Sturlungatímanum. Sunnan ár förum við um Kálfanes og Runna að Stóra-Kroppi. Leiðin um vöðin er í stórum dráttum ágizkuð á kortinu.

Síðari aldir var yfirleitt farið yfir Hvítá hálfum öðrum kílómetra neðar á Langholtsvaði.

14,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hábrekknavað.
Nálægar leiðir: Langholtsvað, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Álftártunga

Frá þjóðvegi 54 um Álftártungu að veginum til Grímsstaða.

Förum af þjóðveginum við Brúarland norðaustur eftir heimreið að Álftártungu og áfram slóð norðaustur meðfram Álftá að vegi til Grímsstaða.

6,5 km

Borgarfjörður-Mýrar
Jeppafært

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Álftanes

Frá Leirulæk á Mýrum um Álftanes að Vogalæk á Mýrum.

Skemmtileg fjöruleið um sunnanverðar Mýrar.

Skallagrímur Kveldúlfsson átti fyrstur bú í Álftanesi og síðan hefur það löngum verið stórbýli, einkum vegna hlunninda. Mörg skip hafa strandað þar í fjörunni. Marteinn Einarsson Skálholtsbiskup dó þar í elli.

Förum frá Leirulæk suður um Grímshól og suðvestur að Sandskarðshólum. Þaðan suðvestur í Álftanes. Þaðan vestur um Álftanesvog og síðan norður með ströndinni austan Straumfjarðar og norður að Vogalækjarvík hjá Vogalæk. Þar komum við aftur að þjóðvegi 533.

20,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Erfitt fyrir göngufólk. Flóð og fjara.

Nálægar leiðir: Urriðaá.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Arnarvatnsheiði

Frá Fellaskála á Haukagilsheiði um Arnarvatn í Álftakrók á Arnarvatnsheiði.

Sjá líka greinar um aðrar heiðar á svæðinu: Norðlingafljót, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög.

Borgfirðingar riðu þessa leið til Örlygsstaðabardaga 1238. Þórður kakali reið heiðina 1243 í hefndarferð fyrir víg föður síns og bræðra í Örlygsstaðabardaga. Þorgils skarði Böðvarsson fór hana 1253 á leið frá Hólum í Hjaltadal til Skálholts. Árið 1255 reið hann enn um heiðina í aðför að Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni og Hrafni Oddssyni á Þverárfundi.

Förum frá Fellaskála við Kolgrímsvötn sunnan Suðurmanna-Sandfells, í 590 metra hæð. Fylgjum jeppaslóð til suðurs vestan við Fossabrekkur, unz við komum hjá Grettishöfða að jeppaslóð yfir Stórasand. Förum þá slóð til suðvesturs að Skammá, sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn, í 540 metra hæð. Förum suðvestur yfir ána og síðan suður fyrir Arnarvatn. Þar förum við af nyrðri slóðinni um Arnarvatnsheiði yfir á syðri slóðina, um Arnarvatnshæðir. Ferillinn sýnir þá millileið um fimm kílómetrum vestan við Skammá. Betra er samt að fara yfir á syðri slóðina í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá Skammá. Beygjum til suðvesturs eftir syðri slóðinni og fylgjum henni áfram suðvestur um Mordísarhæð. Förum suðaustan við Mordísarvatn að skálanum í Álftakróki í 480 metra hæð.

26,0 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Fellaskáli: N65 02.510 W20 17.340.
Álftakrókur: N64 53.274 W20 26.388.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Norðlingafljót, Fljótsdrög.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Andakílsá

Frá Andakílsárvirkjun um Andakílsá að þjóðvegi 50 um Borgarfjörð.

Þessa leið eða hluta hennar má nota til að tengja saman leiðirnar Skarðsheiði og Báreksstaði / Mýraveg.

Förum frá Andakílsárvirkjun norðvestur um buga Andakílsár að þjóðvegi 50.

2,6 km  
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Akrar

Frá Hundastapa um Akra að Stóra-Kálfalæk.

Tengileið milli fjöruferða á Mýrum sunnanverðum og fjöruferða á Löngufjörum.

Akrar eru fornt höfuðból. Þar bjó Laga-Nóri um 1500, Arnór Finnsson sýslumaður, sem átti í útistöðum við Torfa Jónsson sýslumann í Klofa í Landssveit. Á síðari hluta 18. aldar bjó þar rímnaskáldið Árni Böðvarson. Árið 1758 á kona á Ökrum að hafa drekkt sex ára barni sínu og var hún dæmd til drekkingar.

Byrjum á þjóðvegi 540 um tveimur kílómetrum vestan við Hundastapa. Við förum með þjóðvegi 540 alla leið norður í Stóra-Kálfalæk. Fyrst förum við um Kelduvötn og framhjá afleggjara að Tröðum og síðan norður með sjó um Vog og Sandvatn að Ökrum. Þaðan förum við austan við Akraós og norðan við Hólmavatn að Stóra-Kálfalæk, þar sem er bændagisting fyrir hestamenn og hesta.

15,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hjörsey, Hítará.
Nálægar leiðir: Saurar, Skúlavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson