Frá Skógarnesi að Stakkhamri á Snæfellsnesi.
Þetta er vestasti hluti Löngufjara. Þær eru leirur, sem koma upp á fjöru, en verða að sjó á flóði. Lögð hefur verið reiðslóð yfir mýrarnar frá Skógarnesi að Straumfjarðará. Þar heitir Tjaldtangi, sem farið er út á fjöruna. Þar handtók Jón biskup Arason árið 1549 Árna Arnórsson prófast. Ofar með ánni og vestan hennar er Búðarhamar, þar sem leiðarþing voru fyrr á öldum. Í Skógarnesi bjó á sautjándu öld Þorbjörn Þórðarson, sem kallaður var Æri-Tobbi. Í upphafi tuttugustu aldar var verzlunarstaður í Skógarnesi, fyrst frá Tangsverzlun í Stykkishólmi og síðan einnig frá Jóni Björnssyni & Co. í Borgarnesi. Þessi verzlun lagðist af upp úr 1920. Leifar sjást enn af mannvirkjum þessara verzlana.
Förum frá Skógarnesi um slóð norðvestur frá bænum og síðan eftir henni til suðvesturs og fyrir austan tún á eyðibýlinu Ytra-Skógarnesi og niður í fjöru. Fylgjum fjörunni út fyrir túnin og síðan yfir leiru upp í Tanga, þar sem er reiðslóð til norðvesturs að Straumfjarðará. Þar er Gullsteinn við fjöruna. Við förum norður fjöruna og um Tjaldtanga yfir í Landbrotavík, þar sem vaðið er. Fara þarf gætilega yfir vaðið og eingöngu á fjöru. Steinn er þar í miðri ánni og er vaðið talið fært, þegar hann sést. Einnig er hægt að fara upp eftir ánni og fara yfir hana töluvert vestar. Frá vaðinu förum við vestur um Skíðishólma. Þaðan má taka stefnu beint á bæjarhúsin í Stakkhamri og taka land norðarlega í fjörunni. Við förum hins vegar vestur í Stakkhamarsnes og fylgjum því sjávarmegin unz við komum að Stakkhamri. Þar förum við til norðurs að bænum.
12,4 km
Snæfellsnes-Dalir
Ekki fyrir göngufólk
Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson