Dalir-Snæfellsnes

Lækjarskógarfjörur

Frá Búðardal að Hamri í Hörðudal.

Að mestu leyti leirureið á fjöru að hætti Löngufjara. Í Hvammsfirði getur orðið sex metra munur á flóði og fjöru. Á fjöru verða hvort tveggja að skeiðvelli, hællinn og ilin á Hvammsfirði. Þótt skipgengt sé á flóði inn að Búðardal. Umhverfis Hvammsfjörð eru sögufrægar jarðir, einkum úr Sturlungu, Sauðafell, Snóksdalur, Eiríksstaðir, Höskuldsstaðir, Hjarðarholt, Hvammur, Laugar, Sælingsdalstunga og Staðarfell, en norðar eru Skarð og Staðarhóll. Sumar þeirra voru óðul Sturlunga.

Förum frá hesthúsahverfi við Búðardal reiðveg suður að Laxá í Dölum og síðan vestur með ánni norðanverðri niður í fjöru. Fylgjum fjörunni suður í Kambsnes, þar sem við förum suður yfir flugvöll og síðan suður í fjöruna vestan við Þorbergsstaði. Förum síðan beint suður yfir Hvammsfjörð, förum austan við Snóksdalshólma og Arnarhólma og að landi í óshólmum Miðár. Förum áfram suður með Hörðudalsá vestanverðri að þjóðvegi 54 um Skógarströnd. Beygjum með þeim vegi hálfan kílómetra til vesturs og síðan heimreið til suðurs að Hamri.

14,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Rauðamelsheiði, Sópandaskarð, Skógarströnd, Miðdalir, Gaflfellsheiði.
Nálægar leiðir: Miðá.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Litli-Langidalur

Frá Setbergi upp að Litla-Langadal á Flatnaveg suður í Hítardal.

Grösugur dalur með nokkrum skógi og fossunum Illafossi og Keransfossi.

Förum frá Setbergi suðaustur dalinn, sunnan Háskerðings, að Litla-Langadal. Síðan inn á Flatnaveg, sem liggur áfram suður um Litla-Langadal til Hnappadals.

2,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Flatnavegur.
Nálægar leiðir: Háskerðingur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kvistahryggur

Frá Litla-Langadal að Bílduhóli á Skógarströnd.

Þetta er eins konar efri leið ofan byggða um Skógarströnd, en neðri leiðin er með fjörum. Þetta er land álfa og huldufólks.

Af Litla-Langadal er sögð dæmigerð saga um huldufólk. Guðrún nokkur bjó að Litla-Langadal á Skógarströnd. Almæli var að þar yrði oft vart við álfa og var hóll einn skammt frá túni sem talinn var álfabær. Eitt sinn komu fjárrekstrarmenn undan Jökli og báðu gistingar og húsa fyrir fé sitt. Þeim var vísað á fjárhús en kindurnar vildu ekki inn. Einn rekstrarmaðurinn gekk inn í húsið og sá þar konu rugga barnsvöggu. Hann bað hana að fara svo þeir gætu látið inn fé. Hún tók vögguna undir hönd sér og gekk út um hliðarvegginn. Af Bílduhóli eru líka sagðar huldufólkssögur.

Förum frá Litla-Langadal austur með Háskerðingi og síðan til norðausturs milli hans og Seljafells að suðaustanverðu. Þar komum við í Seljadal. Við förum áfram til norðausturs, norður fyrir Kvistahrygg, og síðan til austurs, sunnan við Vörðufell, langleiðina að Bílduhóli. Að lokum beygjum við til suðausturs og komum á þjóðveg 55, þaðan sem er stutt leið að Bílduhóli.

13,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Flatnavegur, Heydalur, Skógarströnd.
Nálægar leiðir: Litli-Langdalur, Sátudalur, Háskerðingur, Valshamar.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Krossbrún

Frá Kirkjufellsrétt í Haukadal um Krossbrún í Sanddal.

Förum frá Kirkjufellsrétt suður og upp í Krossbrún. Þegar upp er komið, er brúninni fylgt til suðurs Villingadalsmegin. Ofan við drög Villingadals förum við suður og síðan til suðvesturs niður af Sauðfellingamúla í Heydal. Þaðan er leið vestur Reykjadal og önnur suður Sanddal suðaustur í Norðurárdal.

14,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Villingadalur, Haukadalsá, Jörfamúli, Illagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Krossárdalur

Frá Kleifum í Gilsfirði um Krossárdal og Bitruháls að Gröf í Bitrufirði.

Gömul og greiðfær póstleið milli Gilsfjarðar í Barðastrandarsýslu og Bitrufjarðar í Strandasýslu. Ef við lítum á Vestfirði sem hausinn á landinu, liggur þessi leið um hálsinn á landinu, hæst í aðeins 220 metra hæð. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð. Kleifar eru núna í eyði, en voru á 20. öld þekktar fyrir hrossakyn Jóhannesar á Kleifum.

Förum frá Kleifum suður og upp Kleifar hjá Hafurskletti og síðan beint austur um Krossárdal. Um brattan sneiðing austur hjá Gullfossi og Hafursklettum upp í Krossárdal, sem við förum um til Bitrufjarðar. Förum norðan við Krossárvatn og síðan austur og niður Krossárdal á mörkum mýrar og hlíðar. Reiðleiðin fylgir Krossá framhjá eyðibýlunum Skáney, Einfætingsgili og Krossárbakka niður að Gröf í Bitrufirði norðanverðum.

14,1 km
Vestfirðir, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Snartartunguheiði, Bitruháls.
Nálægar leiðir: Vatnadalur, Steinadalsheiði.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Kolbeinsstaðafjall

Frá hestarétt ofan við Kaldármela að Syðri-Rauðamelskúlu.

Kolbeinsstaðafjall heitir eftir landnámsmanninum Kolbeini klakkhöfða, sem bjó á Kolbeinsstöðum. Syðri-Rauðamelskúla er reglufastur gjallgígur. Vestan við kúluna er mór með koluðum við frá því er hraun rann frá henni fyrir 2600 árum.

Byrjum við réttina milli Kolbeinsstaðafjalls og Fagraskógarfjalls í Hnappadal. Við förum norður að Kolbeinsstaðafjalli og norður með fjallinu að Mýrdal, þar sem við komum út að þjóðvegi 55 um Heydal. Fylgjum veginum stuttan spöl og beygjum síðan til vesturs fyrir sunnan Rauðháls. Förum um hálsinn vestanverðan og síðan norður og vestur að Syðri-Rauðamelskúlu.

13,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Múlavegur, Fagraskógarfjall, Heydalur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson

Klifsháls

Frá Hafursstöðum við Hlíðarvatn um Klifháls að Hólminum við Hítarvatn.

Í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir frá ferð Þorsteins Kuggasonar í Ljárskógum. Hann fór Fossaveg og gisti á Hafursstöðum og fór síðan um Hellisdal og Klifháls og Klifdal til Hólmsins við Hítarvatn og síðan til bæjar í Hítardal.

Förum frá Hafursstöðum til suðurs á milli Rögnamúla að austanverðu og Sandfells að vestanverðu. Suðaustan Sandfells komum við að Hellisdal og förum suðaustur hann á Hellisdalsheiði upp á Klifsháls í 500 metra hæð norðaustan við Klifsborg. Þaðan suður um Klifsdal og síðan vestur með Klifsgili að Hítará og Hólminum við suðurenda Hítarvatns.

6,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Svínbjúgur, Rauðamelsheiði.
Nálægar leiðir: Fossavegur, Hítardalur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Klettsgata

Frá Görðum í Staðarsveit um Búðahraun til Arnarstapa. Leiðina um Búðahraun má aðeins fara í samráði við þjóðgarðsvörð Snæfellsjökuls, snaefellsjokull@ust.is. Engin önnur reiðleið er um nesið á þessum slóðum, því að bílvegurinn er mikið upphækkaður og mjög hættulegur hestum.

Fjölbreyttasta reiðleið landsins. Gullinn fjörusandur milli Garða og Búða. Síðan fornt einstigi um úfið og gróðursælt Búðahraun. Þá rif milli Miðhúsa og Grafar. Og loks gömul reiðgata á brún Sölvahamars til Arnarstapa. Dulúðugur Snæfellsjökull er tilkomumikill á þessari leið, sé hún farin til vesturs. Í Búðahrauni eru 11 af 16 þekktum burknategundum á Íslandi. Alls eru 130 plöntutegundir í hrauninu. Nálægt miðjum Sölvahamri eru verndaðar húsarústir í umsjá Þjóðminjasafnsins.

Förum frá Görðum nokkur hundruð metra meðfram þjóðvegi og gegnum hlið suður í gullna sandfjöru. Síðan vestur eftir gullinfjörunni alla leið að Búðaósi. Förum hundrað metra upp með Búðaósi og svo yfir ósinn ofan við klett, sem er handan við ósinn. Síðan förum við götur um Búðir og inn í Búðahraun. Leiðin að Klettsgötu yfir hraunið er merkt. Við fylgjum hinu forna einstigi vestur hraunið að norðurhlið gígsins Búðakletts, framhjá mynni 382 metra langs Klettshellis. Síðan áfram um hlið í átt að Miðhúsum í Breiðuvík. Þar förum við sunnan túngirðingar niður í fjöru, nokkra tugi metra suður fjöruna og út á Hraunlandarif sunnan Miðhúsavatns. Við förum eftir rifinu, unz við erum komin suður af Gröf. Tökum þar land með gætni vegna sandbleytu. Ríðum vestan við girðingar norður í átt að Hamraendum og upp að slóð upp Hamraendahamar og síðan yfir Sleggjubeinu, hjá eyðibýlinu Grímsstöðum, í átt að Sölvahamri. Við förum fyrir ofan Sölvahamar greinilega slóð nálægt brúninni, Að lokum förum við bratt einstigi niður Stapaklif að byggðinni á Arnarstapa.

29,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Löngusker, Beruvík.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð, Fróðárheiði, Kambsskarð, Jökulháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Kerlingarskarð

Frá Vegamótum á Snæfellsnesi norður í Helgafellssveit.

Þetta var lengst af þjóðleiðin milli Miklaholtshrepps og Helgafellssveitar á Snæfellsnesi. Bílvegurinn var svo færður vestar í Vatnaleið, svo að auðveldara en áður er fyrir hestamenn að fara Kerlingarskarð. Hér er lýst leiðinni frá Vegamótum á þjóðvegi 54 og 56 sunnan á nesinu að þjóðvegi 54 norðan á nesinu.

Órækja Snorrason fór um Kerlingarskarð 1234 til ránsferða á norðanverðu Snæfellsnesi. 1242 reið Þórður kakali Sighvatsson norður skarðið á flótta undan liði Kolbeins unga Arnórssonar. Um það segir í Sturlungu: “Reið Þórður kakali þaðan vestur Kerlingarskarð og vestur til Helgafells. Fékk Þórður sér þar skip og fór út í Fagurey, en hestana lét hann reka it iðra; kom hann þar laugardaginn fyrir hádegi, það var hinn næsta dag fyrir Andreasmessu. Þótti það öllum mikil furða og varla dæmi til finnast, að menn hefðu riðið hinum sömu hestum í einni reið af Þingvelli og til Helgafells í svo miklum ófærum sem þá voru. Þórður reið fimmtadag um hádegi af Þingvelli en kom til Helgafells föstunóttina, er stjarna var í austri. Þóttust þá allir þegar vita að Þórður myndi til nokkurra stórra hluta undan rekið hafa.”

Förum frá söluskálanum að Vegamótum með þjóðvegi 56 norður að afleggjara um Kerlingarskarð. Við förum þann afleggjara vestan Hjarðarfells upp í Hjarðarfellsdal, norður dalinn og síðan til norðvesturs undir Hellnafelli. Síðan um Gæshólamýri og upp í Kerlingarskarð vestan Hafrafells. Þar við Dys erum við í 320 metra hæð. Norðan okkar er Kerlingarfjall. Við förum norður milli þess og Rauðukúlu niður á þjóðveg 56.

16,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Kerlingarskarð: N64 56.000 W22 50.040.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Vatnaheiði, Hraunsfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kambsskarð

Frá Stóra-Kambi í Breiðuvík til Fróðár í Fróðársveit.

Gamla alfaraleiðin, nokkru styttri en Fróðárheiði. Símalína liggur um skarðið.

Förum frá Stóra-Kambi norður og upp Kambshóla, og í miklum sneiðingum norður í Kambsskarð í 480 metra hæð milli Einbúa að vestan og Hests að austan. Síðan niður í Draugagil og vestan við Fróðárkotsmúla norður og niður í Fróðárdal að gamla veginum við Fróðá sunnan við Bugsvötn.

8,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fróðárheiði Búlandshöfði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Jörfamúli

Frá Krossi í Haukdadal um Jörfamúla að Fornahvammi í Norðurárdal.

Förum frá Krossi suður og upp Jörfamúla, suður Hvassárdal og í Fornahvamm.

18,1 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Haukadalsá, Krossbrún, Villingadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Jökulháls

Frá Arnarstapa um Jökulháls til Ólafsvíkur.

Að mestu er fylgt jeppaleið.

Í Árbók FÍ 1986 segir: “Það var fjölfarin leið, áður en bílaöld hófst. Bæði héraðslæknir og sóknarprestur áttu meðal annarra tíðum leið um hálsinn … Þegar farinn er Jökulháls, er Gerðubergsháls á vinstri hönd … Síðan liggur leiðin um Tághálsa upp af Hróa og upp á milli Geldingafells og Sandkúlu. Þá er komið á sjálfan Jökulháls og brátt fer að halla suður af.”

Byrjum hjá þjóðvegi 574 norðaustan Stapafells. Förum norðvestur að Sönghelli og síðan norður Kýrskarð austan Botnsfjalls. Förum norður á Náttmálahnjúk og norður að Sandkúlum austanverðum. Síðan til norðvesturs undir Sandkúlum í 640 metra hæð. Förum milli Geldingafells að vestan og Sandkúlna að austan. Síðan norður Tághálsa og austan við Hróa, niður í Ólafsvík.

15,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Jökulhúsið: N64 48.979 W23 43.778.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Klettsgata, Beruvík.
Nálægar leiðir: Ennisdalur, Ólafsvíkurenni, Fróðárheiði,Búlandshöfði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Illagil

Frá botni Reykjadals um Illagil og Mjóadal að Sanddalstungu í Sanddal.

Hjáleið af Sanddalsleið.

Förum frá eyðibýlinu Sanddalstungu til norðnorðvesturs inn Mjóadal, yfir norðvesturenda Kambs að Tröllakirkju.

9,3 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sanddalur.
Nálægar leiðir: Krossbrún.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hölknaheiði

Frá Bessatungu í Svínadal í Dölum að Snartartungu í Bitrufirði á Ströndum.

Förum frá Bessatungu austur Brekkudal, suðaustur upp úr dalbotninum upp á Hölknaheiði. Förum suður fyrir Hólkonuhnjúk í 620 metra hæð. Síðan norðaustur að Brunngili og norður og niður í botn Brunngils. Þaðan förum við norðaustur dalina. Komum niður að Snartartungu.

14,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Snartartunguheið, Gaflfellsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort