Dalir-Snæfellsnes

Hvarfsdalur

Frá Skarði í Skarðssveit um Búðardal og Hvarfsdal að Biskupsvörðu vestan Skeggaxlar.

Förum frá Skarði eða Búðardal austur Búðardal og síðan suður Hvarfsdal. Þaðan austsuðaustur brekkurnar að Hestamýri og Biskupsvörðu og svo norðaustur í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan eru margar leiðir í ýmsa dali.

14,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Skothryggur, Búðardalur, Sælingsdalur, Skarðið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hvammsfjörður

Frá Ljárskógum um leirur Hvammsfjarðar að Akri eða Hofakri á Fellsströnd.

Þessi leið er farin eftir sjávarföllum.

Förum frá Ljárskógum um fjörur inn í Hvammsfjarðarbotn en ef ekki er fjara má ríða bakkana. Komum á land við Hofakur.

5,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Fáskrúð, Gaflfellsheiði, Hróðnýjarstaðir.
Nálægar leiðir: Náttmálahæðir, Hvammsá, Nónborg.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hvammsá

Frá Hvammsá í Hvammssveit upp með Hvammsá í Skeggaxlarskarð.

Þetta var fjölfarin leið, þegar verzlun var í Skarðsstöð. Hvammur var bær landnámskonunnar Auðar djúpúðgu. Þar bjó Hvamm-Sturla, faðir Sturlunga, Sighvats, Snorra og Þórðar. Þar ólst upp Árni Magnússon, síðar prófessor í Árnagarði.

Förum frá Hvammsá norðvestur með Hvammsá inn Skeggjadal og upp úr dalbotninum. Förum vestan Skeggaxlar í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan eru margar leiðir í ýmsa dali.

11,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fáskrúð.
Nálægar leiðir: Náttmálahæðir, Nónborg, Flekkudalur, Búðardalur, Skeggaxlarskarð, Sælingsdalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hrútafjarðará

Ýmis vöð á Hrútafjarðará.

Vaðið á Hrútafjarðará vestan við Stað í Hrútafirði, við botn fjarðarins, var löngum samgöngumiðstöð. Þangað liggja leiðir að sunnan um Holtavörðuheiði og að vestan um Haukadalsskarð og Sölvamannagötur. Áfram liggja svo austur leiðir um Hrútafjarðarháls og síðan vestur um Húnaþing eða suður Tvídægru. Frásögnin hér að neðan af ferðum vígamanna í desember 1943, sýnir, að oft lögðu menn hart að sér í samskiptum við náttúruöflin. Samanber líka ferð Kolbeins unga Arnórssonar með mikinn her um Núpdælagötur og Tvídægru í nóvemberlok árið áður.

“En er þeir Ásbjörn [Guðmundsson] komu til Staðar í Hrútafjörð var flæður sævar. Var þá eigi reitt yfir vaðal. Var fjörðurinn eigi ruddur af ísum, en árnar ófærar hið næsta. Biðu þeir þar lengi um daginn fjörunnar. En er á tók líða daginn vildu þeir fyrir hvern mun vestur yfir ána, því að þeim þótt eigi örvænt nema eftir þeim mundi riðið … Ríða þeir nú upp með ánni og finna hvergi þar er þeim þætti yfir fært. Ásbjörn eggjaði, að þeir skyldu á ríða og kallaði þá raga og kvað ekki áræði með þeim … En er þeim voru minnst vonir hleypti Ásbjörn út á ána, en hesturinn missti þegar fótanna og rak þegar í kaf hvort tveggja … Drukknaði Ásbjörn þar og fannst eigi fyrr en um vorið eftir.”

4,4 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Hróðnýjarstaðir

Frá Ljárskógum til Hróðnýjarstaða.

Stutt sportleið um línuveg í Ljárdal.

Byrjum í fjörunni í Hvammsfirði norðvestan við Ljárskóga. Förum suðaustur upp að þjóðvegi 60 og stuttan kafla með honum, beygjum til austurs eftir heimreið að Ljárskógum. Förum þaðan línuveg, fyrst norðaustur og síðan austur að eyðibýlinu Hróðnýjarstöðum norðan við Laxárdal.

3,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði, Fáskrúð.
Nálægar leiðir: Hvammsfjörður.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hólmavatnsheiði

Frá Sólheimum í Laxárdal í Dölum að Prestbakka í Hrútafirði.

Förum frá Sólheimum norður og upp Sólheimaöxl austanverða. Áfram norður fyrir austan Hólmavatn og vestan Reiðgötuvatn á Hólmavatnsheiði í 240 metra hæð. Síðan norðaustur fyrir norðan Reyðarvatn og sunnan Reyðarvatnstjörn og niður Bakkadal að Prestbakkaá og meðfram henni norðaustur á Prestbakka.

15,2 km
Snæfellsnes-Dalir, Vestfirðir

Nálægar leiðir: Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hítardalur

Frá Múlavegi undir Grettisbæli í Fagraskógarfjalli að Hítarvatni.

Byrjum á mótum Múlavegar við Grettisbæli undir Fagraskógarfjalli. Múlavegur liggur milli Grímsstaða á Mýrum og Snorrastaða í Hítardal. Förum norður Hítardal, vestan Hítarár, að syðri enda Hítarvatns.

10,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fagraskógarfjall, Múlavegur, Svínbjúgur, Klifháls.
Nálægar leiðir: Hítardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heydalur

Frá Syðri-Rauðamelskúlu að Bíldhóli á Skógarströnd.

Farið er með þjóðvegi mestalla leiðina. Hestamenn kjósa því frekar að fara Rauðamelsheiði.

Byrjum sunnan við Syðri-Rauðamelskúlu í Hnappadal. Förum eftir jeppavegi vestan við kúluna til norðurs, austan við Fiskitjörn, yfir Haffjarðará að Höfða. Þaðan áfram norður um Höfðaurðir og upp á þjóðveg 55 um Heydal, rétt vestan við eyðibýlið Ölviskross. Höldum síðan áfram norður með þjóðveginum, vestan við Skarðstjörn í 160 metra hæð og síðan niður í Heydal vestanvert við þjóðveginn. Áfram norður að mótum þjóðvega 55 og 54 við Bíldhól.

20,6 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Skógarströnd, Rauðamelsheiði, Kolbeinsstaðafjall.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Háskerðingur

Frá Setbergi í Langadal um Háskerðing á Kvistahryggsleið suðaustan Kláffells.

Um Setbergsháls er farinn gamli bílvegurinn, sem liggur í mörgum, kröppum beygjum niður snarbratta fjallshlíð að Hálsi.

Förum frá Setbergi í Langadal norður yfir Setbergsháls að þjóðvegi 54 um Skógarströnd. Fylgjum veginum að mestu austur fyrir Háskerðing. Síðan suðaustur frá þjóðveginum og meðfram Kláffelli norðanverðu að Kvistahryggsleið austur að Bílduhóli á Skógarströnd.

9,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Flatnavegur.
Nálægar leiðir: Sátudalur, Litli-Langidalur, Valshamar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Haukadalsskarð

Frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal að Stað í Hrútafirði.

Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin milli Dala og Norðurlands. Hennar er getið í Njáls sögu og Sturlungu. Í Sturlungu segir: “En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils skarði Böðvarsson og Vigfús Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega.” Þetta var 1244. Sama ár eftir Flóabardaga riðu Sturla Þórðarson og Þórður kakali norður skarðið í misheppnaðri aðför að Kolbeini unga.

Förum frá Stóra-Vatnshorni austur dalinn norðan Haukadalsár um Eiríksstaði, Leikskála, Núp, Smyrlahól og Giljaland, inn fyrir beygjuna á dalnum og suður fyrir eyðibýlin Kross og Skarð. Skammt sunnan Skarðs förum við jeppaveg til austurs milli Geldingafells í norðri og Klambrafells í suðri upp í Haukadalsskarð. Við förum í austur og síðan í norðaustur, komumst í 280 metra hæð. Síðan um brekkurnar norðaustur af heiðinni niður með Ormsá að Melum í Hrútafirði. Við förum niður að Hrútafjarðará og fylgjum henni til norðurs, unz við erum komin andspænis gamla Staðarskála. Þá förum við þvert yfir ána og upp brekkurnar, yfir þjóðveg 1 að Stað í Hrútafirði.

32,5 km
Snæfellsnes-Dalir, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Saurstaðaháls, Tröllháls, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Prestagötur, Villingadalur, Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli, Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Haukadalsá

Frá Krossi í Haukadal á Krossbrúnarleið í Sanddal.

Förum frá eyðibýlinu Krossi suður allan Haukadal milli Krossbrúnar og Jörfamúla. Sunnan dals komum við á Krossbrúnarleið og fylgjum henni suðsuðvestur í Sanddal.

8,6 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Krossbrún, Villingadalur, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Hattagil

Frá Skógarstrandarleið á Rauðamelsheiði.

Byrjum á fjöruleiðinni um Skógarströnd, þar sem Gljúfurá rennur til sjávar. Förum suður með ánni, yfir þjóðveg 54 og síðan suðvestur að Spottlæk. Þaðan vestur í Hattargil og áfram suðvestur um Seljafell á leiðina yfir Rauðamelsheiði í Hnappadal.

7,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Rauðamelsheiði, Skógarströnd.
Nálægar leiðir: Fossavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hallaragata

Frá Hrafnabjörgum í Hörðudal um Hallaragötu til Miðdala.

Förum frá Hrafnabjörgum upp sneiðinga austur af bænum, norðaustur yfir hálsinn og síðan niður og vestur að Hamraendum, Skörðum eða Bæ í Miðdölum.

6,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Svínbjúgur, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Eyðisdalur, Miðá, Sauðafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Haffjarðareyjar

Frá Stóra-Hrauni um Haffjarðareyjar að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Í kaþólskum sið voru Haffjarðareyjar stórbýli og kirkjustaður. Suðurey, Haffjarðarey, Bæjarey og Útey. Lítið sér nú eftir af þeirri fortíð eyjanna fjögurra milli Haffjarðarár og Skógarness, aðeins bæjarhóllinn er áberandi í landslaginu. Ekki er sýnilegur gamli kirkjugarðurinn í Bæjarey. Þar fann Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður margar hauskúpur, alls engar með tannskemmdum. Byggð hélst í eyjunum fram á fyrsta fjórðung átjándu aldar, en þá fóru þær endanlega í eyði vegna sjávargangs og landbrots. Túngresi er enn töluvert í Bæjarey, en undirlagið hefur breyzt í mosa.

Förum frá Stóra-Hrauni örstutt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á Bænahúsavaði og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá Prestaskeri förum við suðaustur að Suðurey og tökum land í norðurodda eyjarinnar. Förum síðan yfir eyjuna og niður á sjávarströndina. Fylgjum henni síðan til norðausturs í Haffjarðarey. Frá Haffjarðarey förum við aftur út í fjöruna og eftir henni í vesturenda Úteyjar. Förum síðan úr norðausturenda Úteyjar í sveig austur fyrir Bæjarey í Prestasker að nýju. Þaðan förum við svo vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

22,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Haffjarðará

Frá Stóra-Hrauni að Skógarnesi.

Þetta er ekki leið fyrir fótgangandi. Nú fara menn hér bara um á hestum um fjöru. En á mektarárum fyrri tíðar fóru menn hér um á bátum á flóði. Stundum myndast uppistöðulón á leirunum og þarf þá að krækja fyrir þau. Á stöku stað eru sandbleytur nálægt leiðinni. Gætið ykkar, ef leirinn fer að dúa. Snúið þá við og leitið betra færis.

Þetta er miðhlutinn af Löngufjörum, samfelldur skeiðvöllur á leirum milli sögufrægra bæja. Í Skógarnesi bjó Æri-Tobbi. Þegar hann var spurður til vegar um leiðina á Löngufjörum, kvað hann: “Smátt vill ganga smíðið á / í smiðjunni þó ég glamri, / þið skulið stefna Eldborg á / undir Þórishamri.” Þeir drukknuðu allir, sem hlýddu þessu ráði. Betra er að fylgja ráðum, sem hér eru gefin og GPS-ferlum, sem hér fylgja. Þurfa menn þá bara að krækja fyrir uppistöðulón og forðast sandbleytur.

Förum frá Stóra-Hrauni rétt vestur fjöruna og síðan út á Haffjarðarós fyrir sunnan klettinn í ánni. Þar förum við yfir Haffjarðará á djúpu Bænahúsavaði með góðum botni og síðan til austurs fyrir utan Kolviðarnes og Núpárnes. Við stefnum á Prestasker, örlítið suður frá vestri. Frá skerinu förum við vestur að sumarbústað við vík í ströndina norðan Þórishamars. Tökum land norðanmegin í víkinni, norðan við Þórishamar þann, sem Æri-Tobbi orti um. Við förum upp á heimreiðina til Skógarness og fylgjum henni í Skógarnes. Einnig er hægt að taka land í Hausthúsum.

10,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðareyjar, Flatnavegur, Skógarnesfjörur, Straumfjarðará, Löngusker.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson