Dalir-Snæfellsnes

Gamlaeyri

Hringleið frá Snorrastöðum í Hnappadal yfir Saltnesál og um Gömlueyri.

Þessi leið er eingöngu fyrir hestamenn, því að of fljótt fellur að og nýtist ekki göngufólki. Hestar fást leigðir á Snorrastöðum.

Saltnesáll er erfiðasta vatnsfall á Löngufjörum og hættulegastur ferðamönnum, því að vöð eru breytileg. En hann er mjór, svo að sullast má yfir hann á sundi, ef ekki vill betur. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni. Hér reið Þórður kakali 1242 á flótta undan Kolbeini unga, svo sem segir í Sturlungu, og slapp yfir Saltnesál áður en flæddi að. Gamlaeyri var áður þekktur rekastaður og mörg skip hafa strandað þar á síðustu öld, einkum erlend fiskiskip. Þar á meðal tvær franskar skútur árið 1870. Eyrin er fimm kílómetra langur skeiðvöllur.

Förum frá Snorrastöðum niður með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Einnig er hægt að krækja upp í landið fyrir álinn og fara þá varlega milli pytta. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint til suðurs vestan við Öskjugrasey og alla leið suður á Gömlueyri. Við förum yfir á eyrina sjávarmegin og síðan eftir henni endilangri til norðvesturs eins langt og við viljum. Að því búnu förum við aftur til lands, venjulega til norðausturs í átt að Viðarhólma. Stefnum svo til austurs á Saltnesál, förum yfir hann á sama stað og áður og síðan sömu leið til baka í Snorrastaði.

22,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnsáll, Hítará, Múlavegur.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Galtardalur

Frá Tungu á Fellsströnd um Galtardal á leið um Villingadal.

Förum frá Stóru-Tungu austur allan Galtardal, norður og upp úr botni hans, vestan Þverfjalls, norður í Villingadal á Skarðsströnd. Þar er leið um Skarðsströnd og leið í Skeggaxlarskarð.

13,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fellsströnd, Tungumúli, Búðardalur, Skeggaxlarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Gaflfellsheiði

Frá Búðardal í Dölum um Gaflfellsheiði að Snartartungu í Bitrufirði.

Forn leið milli Hvammsfjarðar í Dölum og Bitrufjarðar á Ströndum. Heiðin er að mestu gróin. Hennar er getið í Eyrbyggju, þar sem sagt er frá aðför Snorra goða, Sturlu Þjóðrekssonar og um áttatíu fylgismanna þeirra að óeirðamanninum Óspaki á Óspakseyri í Bitrufirði, sem hafði um sig flokk ribbalda. Felldu þeir Óspak og tvístruðu óaldarflokknum. Sturlunga segir, er Þorvaldssynir Vatnsfirðingar riðu suður Gaflfellsheiði 1229 í Sauðafellsför í aðför að Sturlu Sighvatssyni. Hann var ekki heima, en Þorvaldssynir unnu hervirki á Sauðafelli. Fræg eru orð Sturlungu um viðbrögð Sturlu, sem spurði, hvort Solveigu, konu hans, hefði verið mein gert. Honum var sagt, að svo væri ekki. “Síðan spurði hann einskis” segir Sturlunga.

Förum frá hesthúsahverfinu í Búðardal með þjóðvegi 60 norður í Ljárskóga og þaðan norðvestur veiðiveg upp með Fáskrúð að austanverðu. Við eyðibýlið Ljárskógarsel förum við áfram norður dalinn, fyrst austan Fáskrúðar og svo vestan árinnar. Síðan förum við áfram norður fyrir austan Lambafell, um leitarkofann Ljárskógaheiði við Hvanneyrar og meðfram Stiklukvísl upp á Gaflfellsheiði í 320 metra hæð austan við Orrustuhryggi. Þar erum við milli Gaflfells að vestan og Stóravatns að austan. Áfram förum við norður milli Hrútafells að vestan og Rjúpnafells að austan og niður í Brunngilsdal. Þangað niður förum við nokkuð bratt niður með Heiðargili að vestanverðu. Í gilinu er Heiðargilsfoss. Niðri í dalnum mætum við leið ofan af Hölknaheiði. Þar er eyðibýlið Brunngil og þangað liggur erfið dráttarvélaslóð úr byggð. Förum dalinn fyrst norður og síðan norðaustur um Gullbárðarflóa og austur fyrir endann á Tungumúla. Þar komum við í hlað á Snartartungu í Bitrufirði á Ströndum.

43,4 km
Snæfellsnes-Dalir, Vestfirðir

Skálar:
Ljárskógaheiði: N65 17.150 W21 32.708.

Nálægir ferlar: Miðdalir, Lækjarskógarfjörur, Hróðnýjarstaðir, Fáskrúð, Snartartunguheiði.
Nálægar leiðir: Hvammsfjörður, Botnalaxhæðir, Hölknaheiði.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Fróðárheiði

Frá Búðum til Ólafsvíkur.

Þarna var fjölfarið.

Þeir sem komu að norðan eða úr Dalasýslu til skreiðarkaupa út undir Jökul kusu samt frekar að fara Rauðamelsheiði ofan í Hnappadalssýslu. Af því að erfitt var að fara um Búlandshöfða og Ólafsvíkurenni. Það var ekki fyrr en 1961 að kominn var akfær vegur fyrir Búlandshöfða, en hjá Ólafsvíkurenni 1963. Upp á Fróðárheiði að sunnanverðu fara hestamenn í dag ekki þjóðveginn heldur upp Hraunhafnardal upp á Rjúpnaborgir. Niður heiðina að norðanverðu er farinn þjóðvegurinn og komið að Klettakoti. Til Ólafsvíkur er svo farið meðfram Bugsvaðli. Syðst á heiðinni heitir Knarrarfjall og Knarrarklettar. Þar hafa margir hrapað fram af er þeir hafa villst af leið á Fróðárheiði.

Byrjum við þjóðveg 54 hjá Hraunhöfn innan við Búðir á Snæfellsnesi. Þaðan förum við upp Hraunhafnardal norðan við þjóðveg 54. Komum á veginn sunnan undir Miðfelli í 360 metra hæð. Fylgjum honum norður heiðina og niður Fróðármúla. Niðri í dalnum tökum við stefnu af veginum norður á Klettakot, síðan vestur með Bugavaðli að sunnanverðu og loks í Ólafsvík.

17,0 km
Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Fróðárheiði: N64 51.170 W23 30.470.

Nálægar leiðir: Kambsskarð, Búlandshöfði, Jökulháls, Ennisdalur, Ólafsvíkurenni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fossavegur

Frá Dunki eða Skiphóli hjá Gunnarsstaðaey á Skógarströnd upp með Bakkaá að Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal.

Sagt var að fara upp á Fossa eða inn Fossa þegar farið var úr Hnappadal og vestur, en talað um suður Fossa þegar farið var úr Hörðudal. Í Bjarnar sögu Hítdælakappa heitir leiðin Knappafellsheiði. Hana fór Þorsteinn Kuggason frá Ljárskógum ásamt mönnum sínum á leið í jólaboð til Dálks að Húsafelli í Borgarfirði og gistu að Hafursstöðum. Var aldrei fjölfarinn og er sjaldfarinn nú. Þegar komið er upp fyrir Fossabrekkur er klettarani rétt vestan við slóðina, sem heitir Beinakast. Þar fundust árið 1954 bein af manni sitjandi á hækjum sér. Sennilega örmagnast á vetrardegi, sofnað og ekki vaknað aftur. Dunkur heitir svo vegna dunka eða dynkja í Hestfossi, en hann er skammt frá þjóðveginum. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá Skiphóli upp með Dunká að austanverðu suður yfir þjóðveg 54 vestan við Dunk og síðan áfram upp með ánni að vestanverðu inn Dunkárdal. Beygjum við Helguhól vestur úr dalnum inn með Stangá undir Bakkamúla. Síðan suður um Baltarsund og vestur á Baltarhrygg í 400 metra hæð. Þá suðvestur með Fossá, hjá klettarananum Beinakasti og niður Fossabrekkur í Dýjadal, sem liggur norðaustur frá Hlíðarvatni. Áfram að eyðibýlinu Hafursstöðum austan vatnsins eða að Hallkelsstaðahlíð norðan vatnsins. Frá Hafursstöðum förum við suðvestur fyrir vatnið að þjóðvegi 55 við Heggstaði.

18,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Rauðamelsheiði, Skógarströnd.
Nálægar leiðir: Hattagil, Klifháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Flekkudalur

Frá Hallsstöðum á Fellsströnd um Flekkudal í Skeggaxlarskarð.

Sagnir eru um fjögurra eða fimm bæja byggð í Flekkudal fyrir Svartadauða. Minjar eru þar um tún og túngarða.

Förum frá Hallsstöðum norðaustur allan Flekkudal, norður um Skeggöxl og loks að Skeggaxlarskarði í 690 metra hæð. Þaðan eru leiðir til margra átta.

19,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Staðarfell, Fellsströnd, Tungumúli, Skothryggur, Náttmálahæðir, Hvammsá, Nónborg,Búðardalur, Skeggaxlarskarð, Sælingsdalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Flatnavegur

Frá Kolviðarnesi í Hnappadal til Litla-Langadals á Skógarströnd.

Forn og fjölfarin alfaraleið Hnappdælinga norður í Stykkishólm. Þetta var fjögra tíma lestagangur og var talað um að fara um Flatir. Þetta er þurr og sléttlend leið, greiðfær með hesta. Hér fór Aron Hjörleifsson 1224 á flótta frá Valshamri á Skógarströnd undan Sturlu Sighvatssyni og mönnum hans, huldist þeim í þoku. Eftir að byggðinni sleppir í Hnappadal norðan Ytri-Rauðamels eiga engir jeppar að geta verið hér á ferð. Fleiri reiðvegir liggja frá Skógarströnd suður yfir fjöll, svo sem Fossaleið, Svínbjúgur og Sópandaskarð. Bæjarstæðið að Ytri-Rauðamel var þannig valið að sögn Landnámabókar, að þar sem bærinn stendur lagðist hryssan Skálm undir birgðum sínum. Þetta tók Sel-Þórir sem ábendingu um að þarna skyldi hann setjast að.

Förum frá Kolviðarnesi norður heimreiðina frá bænum um Laugagerðisskóla, yfir þjóðveg 54 og áfram beint norður með afleggjara að Ytri-Rauðamel. Síðan norður í skarðið milli Rauðamelsfjalls og Ytri-Rauðamelskúlna og áfram norður með fjöllunum, um Hæringshól og Rjúkandafoss. Beygjum síðan til vesturs og förum með Flatnaá undir Sátu í norðri og Flatnahrygg í suðri, um Innri-Flatir í 220 metra hæð. Þar heitir Flatnavegur. Síðan niður í Litla-Langadal og norður hann að bænum Litla-Langadal.

30,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Heydalur, Rauðamelsheiði.
Nálægar leiðir: Sátudalur, Litli-Langidalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Fellsströnd

Frá Knarrarhöfn á Fellsströnd um Klofning að Krossi á Skarðsströnd.

Leiðin fylgir þjóðvegum að mestu. Vestast á Fellsströnd undir Klofningi eru blautar mýrar og sund.

Þar voru lagðar hestagötur með lagi, sem lýst er í Árbók Ferðafélagsins 1947. “Hrís lagt undir, tyrft og hlaðið á ofan grjóti, helzt hellusteinum. Seig það smám saman niður í sundin, en þá var bætt grjóti á ofan. Mjóar brýr voru og gerðar úr hnausum yfir mýrar þessar og stráð síðan möl ofan á. Oft var erfitt að fá bændur til þessara starfa og varð stundum að beita hörðu til þess að fá verkið framkvæmt.”

Staðarfell er eitt af höfuðbólum landsins. Þar bjó Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu, ættföður Sturlunga. Þar bjó Hannes Hafstein, þegar hann var sýslumaður í Dölum.

Byrjum á þjóðvegi 590 við Knarrarhöfn á Fellsströnd. Förum suðvestur af veginum eftir slóð að Teigi og undir Skorravíkurmúla að eyðibýlinu Skorravík. Síðan áfram yfir Skorravíkurá að þjóðvegi 590. Förum með veginum vestur að Staðarfelli. Þar förum við norður á fjallið austan Háhamars og beint norður að Flekkudalsá, yfir ána og að Svínaskógi handan hennar. Þar komum við á þjóðveg 593 vestur Skarðsströnd og fylgjum honum vestur um Orrahól og Stóru-Tungu undir Tungumúla og áfram með þjóðvegi 590 um Ormsstaði og fyrir Klofning að Krossi í Villingadal.

46,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Skothryggur, Staðarfell, Ytrafell, Galtardalur, Dagverðarnes, Skeggaxlarskarð, Hvarfsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fáskrúð

Frá Sámsstöðum í Laxárdal um Ljárskóga til Hóla á Fellsströnd.

Þetta er fyrst og fremst sportleið, sem liggur eins og öfugt Z um heiðalönd og leirur í nágrenni Búðardals. Fyrst er farið um Hólmavatnsheiði, síðan þverbeygt við Ljárskógasel niður með laxveiðiánni Fáskrúði að Ljárskógum og loks riðinn sjávarbotn á fjöru. Leið, sem hestamenn í Búðardal fara oft.

Í Ljárskógaseli ólst upp skáldið Jóhannes úr Kötlum. Katlarnir sem Jóhannes kenndi sig við eru við Fáskrúð, skammt neðan við bæinn í Ljárskógaseli, með hyljum, klettum og gljúfrum. Í Ljárskógum fæddist skáldið og söngmaðurinn Jón frá Ljárskógum. Eftir hann liggja ljóð og söngtextar, sem margir raula við gítarundirleik. Jón var bassasöngvari og átti stóran þátt í velgengni MA-kvartettsins á árunum 1932-1942.

Byrjum á þjóðvegi 59 um Laxárdal, við Sámsstaði. Förum þaðan norðvestur á fjallið og síðan norður fyrir Sámsstaðavatn að austanverðu. Því næst vestur á Reiðborg og þaðan norður fyrir Miðvatn að austanverðu. Þaðan vestur að eyðibýlinu Ljárskógaseli við Fáskrúð. Síðan farinn veiðivegur um þétta lyngmóa niður með ánni að suðaustanverðu. Yfir þjóðveg 60 og að Hvammsfirði. Þar sætum við sjávarföllum og förum út á fjöruna og ríðum hana norður og vestur með landinu. Tökum land austan við Skerðingsstaðahöfða og fylgjum slóð fyrst í vestur og síðan í norður, að þjóðvegi 590 um Fellsströnd. Fylgjum veginum 500 metra til norðurs og beygjum síðan norðvestur að Hólum.

28,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði.
Nálægar leiðir: Botnalaxhæðir, Sölvamannagötur, Hvammsfjörður, Nónborg, Hvammsá, Náttmálahæðir.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Fagraskógarfjall

Frá Hítardal á Mýrum að hestarétt ofan við Kaldármela.

Tengileið milli reiðleiða á Mýrum og í Hnappadal.

Grettisbæli er strýta með helli í Fagraskógarfjalli, þar sem Grettir hafðist lengi við. Leiðin liggur undir strýtunni.

Byrjum á vegi frá Hítardal að Hítarvatni, rétt vestan bæjar í Hítardal. Förum þaðan eftir veiðivegi suðvestur að Hítará og Fagraskógarfjalli. Rétt sunnan við eyðibýlið Velli förum við yfir Hítará og eftir götum undir fjallinu fyrir suðausturhorn þess. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Þaðan er farið niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum.

11,6 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Svínbjúgur, Múlavegur, Kolbeinsstaðafjall.
Nálægar leiðir: Hítardalur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson

Fagradalsfjörur

Frá Hringsteinum á Skógarströnd um Fagradalsfjörur að Þingeyri á Skógarströnd.

Þessi leið er öll á fjöru og verður að sæta sjávarföllum.

Förum frá Hringsteinum út á fjöruna og fylgjum henni norðvestur um fjöruna, landmegin um Heinabergsey og sjávarmegin við Langanes. Tökum land á Þingeyri.

10,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Ásólfsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyðisdalur

Frá Tungu í Hörðudal um Eyðisdal til Hundadals í Miðdölum.

Vífilsdalur heitir eftir þræl Auðar djúpúðgu, sem hún gaf frelsi. Hann var afi Guðríðar Þorbjarnardóttur, sem á miðöldum var víðförlasta kona veraldar. Í Hundadal bjó Hrafn Oddsson, sem hleypti upp á fjall undan Þorgils skarða.

Förum frá Tungu suðsuðaustur Hörðudal og Vífilsdal. Síðan vestur á fjallið og beygjum þar uppi þvert til norðurs og síðan norðnorðaustur og niður í Hundadal. Við förum norður dalinn og yfir veg 60 að bænum Hundadal.

13,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Sópandaskarð, Sanddalur.
Nálægar leiðir: Hallaragata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ennisdalur

Frá Rifi til Ólafsvíkur sunnan Ennis.

Þetta var þrautaleið, þegar ekki var fært fyrir Enni. Árið 1929 stóð til að leggja bílveg um Ennisdal, en af því varð ekki. Mörgum áratugum síðar var svo lagður vegur fyrir utan Enni.

Byrjum hjá flugvellinum sunnan við Rif. Förum austur að Enni og síðan um Ennisdal í 240 metra hæð og yfir Hvalsá á jeppaslóðina um Jökulháls. Fylgjum henni norður og niður til Ólafsvíkur.

8,0 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.
Nálægar leiðir: Ólafsvíkurenni, Jökulháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Dagverðarnes

Frá Stakkabergi á Fellsströnd að Dagverðarnesi.

Dagverðarnes dregur nafn sitt af þeirri sögusögn að Auður djúpúðga hafi snætt þar dögurð er hún fór þar um með fylgdarliði sínu inn inn Hvammsfjörð í leit að öndvegissúlum sínum.

Förum frá Stakkabergi Rétt sunnan Klofnings liggur jeppaslóð af Fellsstrandarvegi vestsuðvestur í Dagverðarnes á Fellsströnd.

4,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Fellsströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Búlandshöfði

Frá Ólafsvík til Grundarfjarðar á Snæfellsnesi.

Nú er þjóðvegurinn farinn fyrir Búlandshöfða. Þetta er ekki góð reiðleið, mest með eða á bílvegi, fyrst og fremst tengileið milli slóða undir Jökli og slóða um Skógaströnd og fjallvegi þaðan. Utan í Búlandshöfða lá áður mjó gata og hengiflug fyrir neðan. Þarna eru örnefni eins og Líkasteinn og Þrælaskriða. Hjá Þrælaskriðu var gatan varhugaverðust og segir í Eyrbyggju að þar hafi óttaslegnir þrælar steypt sér fyrir björg á flótta.

Um Höfðaskarð lá leið bak við Búlandshöfða. Um hana segir í sóknarlýsingu 1840: “… liggur svonefnt Höfðaskarð uppi á fjallinu, bak við Höfðann, en þar eð báðum megin að er bratt og erfitt upp á það og vegur talsvert lengri hefir þar enn nú ei verið þjóðvegur lagður, þó í viðlögum hafi einstöku sinnum þar með hesta yfir farið.”

Förum frá Ólafsvík austur með þjóðvegi 574, yfir gömlu brúna á Fossá. Þá eftir reiðgötu um Hjallhól, gamlan veg að Bug og með Bugsvaðli að Fróðá, og síðan að eyðibýlunum Klettakoti og Fornu-Fróðá. Svo með þjóðvegi 54 að Geirakoti og Brimilsvöllum, Hrísum og Hrísaá. Fjöruveg er hægt að fara, þegar fjara er, og yfir Helgabrot og inn Mávahlíðarrif að Mávahlíð. Þar tekur við þjóðvegur 54 um Búlandshöfða og meðfram Látravík og Hálsvaðli, sunnan við Kirkjufell að Grundarfirði.

24,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Bílvegur

Nálægar leiðir: Ólafsvíkurenni, Jökulháls, Kambsskarð, Fróðárheiði, Bláfeldarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson

Heimild: Örn H. Bjarnason