Dalir-Snæfellsnes

Búðardalur

Frá Skarði í Skarðssveit um Búðardal í Skeggaxlarskarð.

Förum frá Skarði eða Búðardal austur Búðardal, framhjá Hvarfsdal og síðan áfram austur Búðardal og síðan suðaustur dalinn að Víðihjallagili. Austan gilsins förum við norðaustur í Skeggaxlarskarð í 690 metra hæð. Þaðan eru margar leiðir í ýmsa dali.

17,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Hvarfsdalur, Villingadalur, Sælingdalsheiði, Sælingsdalur, Hólafjall, Náttmálahæðir, Skothryggur, Flekkudalur, Skarðið, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Búðaós

Frá Görðum í Staðarsveit um Búðaós að Búðum.

Framhald til vesturs af ferðum um Löngufjörur.

Búðaós var lengi helzti kaupstaður Snæfellsness og lagðist verzlun þar niður 1930. Í Eyrbyggju nefnist ósinn Hraunhafnarós. Mikill munur flóðs og fjöru er í ósnum og gott skjól fyrir úthafsöldunni.

Förum frá Görðum í Staðarsveit nokkur hundruð metra meðfram þjóðvegi og gegnum hlið suður í gullna sandfjöru. Síðan vestur eftir gullinfjörunni alla leið að Búðaósi. Förum hundrað metra upp með Búðaósi og svo yfir ósinn ofan við klett, sem er handan við ósinn.

12,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Löngusker, Klettsgata.
Nálægar leiðir: Bláfeldarskarð, Fróðárheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Brattabrekka

Frá Sauðafelli í Dölum að Hvammi í Norðurárdal.

Þessi leið er að mestu orðin að bílvegi með varanlegu slitlagi og því ófær hestum. Aðeins sjálf Brattabrekka er enn reiðleið. Hér er þeim kafla leiðarinnar lýst.

Um Bröttubrekku lá gamla póstleiðin vestur í Dali. Sturla Sighvatsson á Sauðafelli hafði hestvörð árið 1238 í Bröttubrekku til að fylgjast með ferðum herflokks Gissurar Þorvaldssonar og Kolbeins unga. Í Sturlunga sögu er sagt frá ferð Þórðar kakala um Bröttubrekku 1243. Þar segir: “Skildust þeir við það, að Snorri fór vestur í fjörðu, en Þórður fór leið sína vestur á Skógarströnd og svo inn til Dala. Fann Þórður menn sína alla að Höfða við Haukadalsá. Riðu þeir þá manni miður en hálfur sjötti tugur suður um Bröttubrekku og suður yfir Karlsháls um nóttina og svo upp eftir Kjarrárdal og komu fram drottinsmorgun við sólarroð til Fljótstungu svo að enginn maður varð var við reið þeirra um héraðið. Riðu þeir drottinsdagskvöldið á Arnarvatnsheiði.”

Byrjum við þjóðveg 60, þar sem hann liggur yfir Brúnkollugil. Þjóðvegurinn liggur beint suður, en við förum suðaustur inn Suðurárdal og bratt austur og upp í skarð í 400 metra hæð milli Bana að norðan og Brekkumúla að sunnan. Þar komum við á brún Bröttubrekku. Þar förum við varlega sneiðinga niður bratta brekku í Bjarnadal. Það er Brattabrekka, núverandi bílvegur liggur ekki um hana. Fylgjum dalnum beint til suðurs og komum aftur inn á þjóðveg 60 suðvestan við Baulu og austan við Bungu.

8,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Jafnaskarð.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Botnalaxhæðir

Frá Gaflfellsheiði um Botnalaxhæðir til Laxárdals.

Förum frá Skógaseli um Botnalaxhæðir að vegi 59 við Gröf. “Frá Magnússkógum, Glerárskógum eða Ásgarði er farið og komið að Fáskrúð nokkru neðan við Ljárskógasel, vegurinn riðinn að selinu og svo niður í Laxárdal annaðhvort að Gillastöðum eða Sámsstöðum.” (© Glaður)

7,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Gaflfellsheiði, Fáskrúð.
Nálægar leiðir: Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Bláfeldarskarð

Frá Bláfeldi í Staðarsveit á Snæfellsnesi um Bláfeldarskarð og Arnardalsskarð að Kverná í Grundarfirði.

Förum frá Bláfeldi norðaustur með Bláfeldará og upp Bláfeldarskarð. Síðan norðnorðaustur í Arndardalsskarð í 690 metra hæð. Þaðan norður um Arnardal og norðaustur Dýjadal og loks norður að Kverná.

9,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Erfitt fyrir hesta

Nálægar leiðir: Fróðárheiði, Búlandshöfði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Bitruháls

Frá Gröf í Bitrufirði um Bitruháls að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði.

Dæmigerð Vestfjarðaleið, stutt leið yfir fjall milli tveggja fjarða.

Byrjum á þjóðvegi 641 við Gröf í Bitrufirði norðanverðum. Þaðan förum við nokkuð bratt norður hlíðina vestan Grafargils upp á Bitruháls. Upp hlíðina eru sneiðingarnir dálítið frábrugðnir þeim, sem sýndir eru á herforingjaráðskortum. Um hálsinn förum við gömlu hestagötuna sunnan og vestan við toppinn á Stórubungu í tæplega 400 metra hæð. Síðan norður með bungunni og til norðurs á ská niður hlíðina að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði við þjóðveg 61 um Strandir.

9,7 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Krossárdalur.
Nálægar leiðir: Hamarssneiðin, Steinadalsheiði, Spákonufell.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Beruvík

Frá Arnarstapa að Rifi.

Þetta heitir að fara fyrir Jökul. Hér gnæfir Snæfellsjökull upp úr landinu, klæddur snævi og hraunbreiðum. Hér segja margir, að sérstakur kraftur sé í andrúmsloftinu. Við förum framhjá eyðibýlinu Laugabrekku, þar sem fæddist víðförulasta kona heims á miðöldum, Guðríður Þorbjarnardóttir. Hún bjó í Grænlandi og Ameríku og hélt suður, til Rómar eða Compostela, en dó í Skagafirði. Við förum um fornar verstöðvar, þar sem hundruð manna bjuggu á vertíðartíma, einkum á Hellnum og Dritvík. Við förum einstigi um Valhraun og Prestahraun og um sléttar grundir í Beruvík. Við getum áð og brugðið okkur niður að einstæðum Lóndröngum og Dritvík. Leiðin er að mestu utan bílvega. Að Arnarstapa liggur forn þjóðleið frá Búðum um Búðahraun, Hraunlandarif og Sölvahamar.

Byrjum á þjóðvegi 574 hjá Arnarstapa á Snæfellsnesi. Förum vestur með þjóðveginum yfir Hellnahraun og áfram norðan við Bárðarlaug. Fyrst förum við norðan vegar og síðan sunnan vegar framhjá Dagverðará. Þegar kemur að horni Háahrauns förum við norður yfir þjóðveginn og inn á reiðslóð eftir einstigi vestur um Valhraun. Þegar komið er að Purkhólum, förum við vestur yfir þjóðveginn og síðan um Seljahraun yfir afleggjara að Lóndröngum og Dritvík. Tvo kílómetra förum við norður með þjóðveginum um Beruvíkurhraun og síðan vestur af honum í átt að Hólahólum. Þaðan liggur reiðslóðin Miðvegur til norðvesturs um Kothraun í átt að Klofningsrétt í Beruvík. Áfram förum við upp á Miðveg og síðan meðfram þjóðvegi langan kafla framhjá Forna-Saxhóli og Saxhóli. Beygjum síðan á hliðarveg til austurs inn Eyvindardal. Þegar við komum að Rauðhóli, beygjum við til norðurs eftir reiðslóðinni Prestahraunsgötu. Við Saxhamar beygjum við til austurs í átt að eyðibýlinu Skarði og síðan til norðurs í átt að flugvellinum að Hellissandi. Áður en við komum að honum, beygjum við til vesturs og síðan til norðurs að hesthúshverfinu á Hólsbreið hjá Rifi og Hellissandi. Einnig er hægt að fara beint norður frá Saxhamri í Ingjaldshól.

39,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Klettsgata.
Nálægar leiðir: Jökulháls, Malarrif, Öndverðarnes, Ennisdalur, Ólafsvíkurenni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort

Berserkjagata

Frá Hrauni að Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.

Götunnar er getið í Heiðarvígasögu og Eyrbyggju. Eyrbyggja segir, að Víga-Styr á Hrauni hafi tekið við tveimur skapstirðum berserkjum af bróður sínum, Vermundi í Bjarnarhöfn. Til að bæta geð þeirra fékk hann þeim verk að vinna og skyldi annar þeirra fá dóttur hans að launum. Verkefnið var að ryðja veg yfir hraunið til Bjarnarhafnar. En Víga-Styr efndi ekki loforðið, heldur drap berserkina, er þeir voru í gufubaði. Síðan dysjaði hann þá við götuna. Enn í dag sést þessi dys greinilega, enda hafa vegfarendur bætt steinum í hana í tímans rás. Berserkjagata er mikið mannvirki og er enn farin á hestum. Dysin hefur verið rofin og fundust þar bein af tveim lágvöxnum, þreknum mönnum. Þessi gata er elsti manngerði vegurinn á Íslandi, yfir þúsund ára gamall.

Byrjum á gatnamótum þjóðvega 54 og 577 sunnan Stykkishólms. Förum með þjóðvegi 577 um Skeið, norðvestur undir Staðarbakka og síðan vestur að Kóngsbakka og áfram vestur fyrir Hraunháls að heimreið að Bjarnarhöfn. Þar á gatnamótunum hefst Berserkjagata hin forna og liggur hún norðan og austan heimreiðar. Hún liggur um eyðibýlið Brúarholt og endar í Bjarnarhöfn.

11,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Hraunsfjörður, Vatnaheiði, Kerlingarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ásólfsgata

Frá Bjarnastöðum eða Staðarhóli í Saurbæ að Fagradal á Skarðsströnd.

Ásólfsgötu er getið í Sturlungu árið 1170. Þar segir: “Og þriðju nótt hina næstu fyrir þingið fóru þeir Einar Ingibjargarson yfir fjall hið efra og ofan í Traðardal upp frá Staðarhóli; en þeir gerðu tvo menn hið efra um Melárdal og ofan Ásólfsgötu á njósn að vita um naut þau, er komin voru úr Búðardal. Þeir komu á móti þeim Einari í Þverárdal og sögðu að nautin vær nær túni á Staðarhóli.”

Staðarhóll hefur öldum saman verið höfuðból. Þorgils Oddason bjó þar um miðja 12. öld. Síðan varð Staðarhóll eitt af höfuðbólum Sturlunga. Sturla sagnaritari Þórðarson bjó þar rúma þrjá áratugi. Staðarhóls-Páll bjó þar og var leiðtogi höfðingja gegn staðarforráðum kirkjunnar.

Förum frá Bjarnastöðum í Staðarhólsdal í Saurbæ. Bratt vestur og upp í skarðið norðan Hrútaborgar í 280 metra hæð og síðan vestur og niður Seljadal. Þegar við komum að Fagradal beygjum við í norðvestur að Innri-Fagradal á Skarðsströnd.

7,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Sælingsdalsheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag