Eyjafjörður

Sandsskarðsleið

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Sandá í Svarfaðardal um Sandskarð að sæluhúsinu á Lágheiði.

Fallegt skarð en sjaldan farið.

Förum frá Sandá eða Göngustöðum norðvestur Sandárdal sunnan undir Gimbrarhnjúk og vestnorðvestur upp í Sandskarð í 950 metra hæð. Áfram vestnorðvestur og niður í botn Hvarfdals. Síðan norður Hvarfdal á þjóðveg 82 um Lágheiði. Förum með þjóðveginum norðaustur að sæluhúsinu á Lágheiði.

12,7 km
Eyjafjörður

Skálar:
Lágheiði: N65 56.315 W18 50.540.

Nálægar leiðir: Klaufabrekkur, Hvarfdalsskarð, Unadalsjökull, Heljardalsheiði, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sandskarð

Frá Siglufirði um Hólsskarð og Sandskarð til Ólafsfjarðar.

Einnig kallað Botnaleið. Vel fær hestum og vinsæl til útreiða.

Förum frá Siglufirði inn í Fjarðarbotn og síðan suðaustur og upp í Hólsskarð í 620 metra hæð. Þaðan til suðurs þvert yfir efstu drög Ámárdals, vestan við Ámárhyrnu og austan við Grænuvallahnjúk. Til suðausturs þvert yfir drög Héðinsfjarðar upp í Sandskarð í 640 metra hæð. Þaðan austur og niður í Skeggjabrekkudal, fram dalinn og að Ólafsfirði.

22,5 km
Skagafjörður-Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Efrafjall, Dalaleið, Siglufjarðarskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra, Hólsskarð, Héðinsfjarðará, Drangar, Fossabrekkur, Múlakolla.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reistarárskarð

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Reistarárrétt á Árskógsströnd um Þorvaldsskarð í Þorvaldsdal og að Árskógsrétt á Árskógsströnd.

Förum frá Reistarárrétt til vesturs fyrir norðan Reistará upp í Reistarárskarð. Í skarðinu í 670 metra hæð beygjum við til norðurs og niður í Mjóadal. Förum síðan norður Mjóadal að austanverðu út í Þorvaldsdal og þann dal áfram norður að Árskógsrétt.

15,8 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Derrisdalur, Holárdalur, Þorvaldsskarð, Þorvaldsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Rauðskarð

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Árdal í Ólafsfirði um Rauðskarð til sæluhúss í Vík í Héðinsfirði.

Mest farna gönguliðin milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar. Vel merkt.

Byrjum við þjóðveg 803 í Árdal. Förum vestur Árdal og síðan norðvestur með Rauðskarðsá. Norður í Rauðskarð í 560 metra hæð og síðan norðaustur í Víkurdal og norðnorðvestur þann dal niður að sæluhúsi við strönd Héðinsfjarðar.

8,2 km
Eyjafjörður

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Héðinsfjörður: N66 08.275 W18 45.821.

Nálægar leiðir: Vatnsendaskarð, Fossabrekkur, Hvanndalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ólafsfjarðarskarð

Frá Þverá í Ólafsfirði um Ólafsfjarðarskarð til Holtsdals í Fljótum.

Ein af aðalleiðum landpóstanna frá Akureyri um Ólafsfjörð til Siglufjarðar. Úr skarðinu má fara norður í Sandskarð og Hólsskarð til Siglufjarðar.

Byrjum við þjóðveg 82 hjá Skarðsá í Ólafsfirði. Förum vestur Kvíabrekkudal og síðan norðvestur Skarðsdal og loks norður í Ólafsfjarðarskarð í 740 metra hæð. Svo förum við norðvestur í Ólafsfjarðardal og vestur dalinn niður í Holtsdal í Fljótum.

10,2 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Heiðarmýrar, Grímubrekkur, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Nýjabæjarfjall

Frá Ábæ í Austurdal til Torfufells í Eyjafirði.

Við Ábæ í Austurdal var eina þrautavaðið á Jökulsá eystri í Skagafirði. Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís. Nýjabæjarfjall er langur og hár fjallvegur um nakið grjót, grófur undir hóf og sjaldan farinn. Nýjabæjarfjalls er getið í Sturlungu og það var farið allar aldir síðan. Austdælingar fóru hér sínar kaupstaðarferðir. Lestarferðir um Nýjabæjarfjall lögðust ekki niður fyrr en 1908. Nú á dögum er þessi leið nánast aldrei farin. Hún er leiðinlega grýtt og seinfarin á fjallinu og verst austast. Við Ábæ er kennd Ábæjar-Skotta, einn frægasti draugur landsins, oft í för með öðrum draugi, Þorgeirsbola.

Förum frá Ábæ suður Austurdal, norðaustan við Eystri-Jökulsá, framhjá eyðibýlunum Tinnárseli og Nýjabæ. Þar sem Hvítá rennur að austan í Jökulsá förum við til austurs upp brattan og þunnan Hvítármúla milli Ytri- og Fremri-Hvítár. Erum þá komin upp á Nýjabæjarfjall, sem er afar breitt fjall á mörkum þess að vera jökull. Leiðin liggur norður af austri, hæst í 1020 metrum norðan fjallaskálans Litlakots. Síðan sunnan við Galtárhnjúk og niður Galtártungur milli Galtár og draga Torfufellsár, austur yfir Torfufellsá og niður með henni allan Torfufellsdal að Villingadal eða Torfufelli.

36,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Hildarsel: N65 15.344 W18 44.131.
Litlakot: N65 15.410 W18 30.415.

Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Laugafell, Elliði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Árbækur Ferðafélagsins

Myrkárdalur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá þjóðvegi 814 á mótum Hörgárdals og Myrkárdals um Myrkárdal til Svelgs í Hörgárdal.

Byrjum við mót Hörgárdals og Myrkárdals. Förum vestur Myrkárdal og síðan suður Sandárdal austan ár að vatnaskilum tveggja Sandáa í 940 metra Hæð. Áfram til suðurs um jaðar Tófuhrauns og fyrir austan Sandárgil niður að Svelg.

15,0 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Hjaltadalsheiði, Hörgárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Múlakolla

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Brimnesi í Ólafsfirði um Múlakollu að Míganda Dalvíkurmegin við Ólafsfjarðarmúla.

Múlakolla er tindur Ólafsfjarðarmúla, sem Jón Helgason orti svo um: “Ærið er bratt við Ólafsfjörð / ógurleg klettahöllin; / teygist hinn mikli múli fram, / minnist við boðaföllin; / kennd er við Hálfdán hurðin rauð, / hér mundi gengt í fjöllin; / ein er þar kona krossi vígð / komin í bland við tröllin.”

Byrjum við þjóðveg 82 við Brimnes í Ólafsfirði, rétt vestan við mynni Ólafsfjarðarganga. Förum austur yfir Brimnesá og áfram upp dalinn að Gvendarskál. Gott er að fara á snjó sunnan við skriðuna upp í skálina. Þaðan norðaustur á Múlakollu í 940 metra hæð. Og á ská suður hlíðina og síðan austsuðaustur hana niður að Míganda við þjóðveg 82 rétt sunnan við mynni Ólafsfjarðaganga.

5,6 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Drangar, Sandskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Melgerðismelar

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Akureyrarflugvelli með Eyjafjarðará að Melgerðismelum.

Tálmanir hafa verið settar upp á þessari þjóðbraut Eyjafjarðar sunnan Laugalands. Samningar um ferðafrelsi hafa dregizt á langinn. Varla verða fleiri landsmót á Melgerðismelum, meðan ekki er reiðfært utan bílvega milli Akureyrar og Melgerðismela.

Helzti skeiðvöllur Eyfirðinga er á Melgerðismelum. Þar hafa verið haldin landsmót hestamanna. Förum frá Akureyrarflugvelli austur yfir gömlu brýrnar á Eyjafirði, síðan suður með ánni að austanverðu. Vestur yfir ána við Melgerðismela.

21,7 km
Eyjafjörður

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð.
Nálægar leiðir: Gönguskarð vestra, Skjálgdalsheiði, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Laugafell

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Torfufelli í Eyjafirði að fjallaskálanum í Laugafelli.

Þetta er greiðasta og fljótasta leiðin úr byggð að Laugafelli.

Gróðursælt er við skálann í Laugafelli. Hér er syðsti hagi norðan Sprengisands. Hann er að vísu ekki beittur lengur, því að hestamenn nota alltaf hey á fjöllum til að hlífa gróðri. Laugarnar eru þrjár, 40-50 gráðu heitar. Þjóðsagan segir, að Þórunn á Grund hafi flúið Svartadauða með fólks sitt að Laugafelli og beðið þess, að sóttinni linnti. Sagt er, að hún hafi látið gera fyrstu jarðhitalaugina og má vera, að enn sjáist leifar hennar í gili ofan við núverandi laug. Hestamönnum finnst jafnan gott að komast í laugina eftir langa dagleið sunnan um svarta anda til þessarar vinjar í norðurbrún eyðimerkurinnar.

Byrjum á þjóðvegi 821 við Torfufell í Eyjafirði. Förum suður með grýttum fjallveginum inn Eyjafjarðardal og bratt upp úr dalbotninum á Nýjabæjarafrétt og suður eftir henni. Slóðin beygir svo suðvestur um Geldingsárdrög og Lambalækjardrög að fjallaskálanum í Laugafelli og Hjörvarsskála í 750 metra hæð.

39.0 km
Eyjafjörður

Skálar:
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Nýjabæjarfjall, Vatnahjalli, Eystripollar, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kollugilsbrúnir

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Skeiði í Svarfaðardal um Vatnsdal og Kollugilsbrúnir til botns Kóngsstaðadals í Svarfaðardal.

Förum frá Skeiði vestur dalinn að Vatnsdal og síðan suður Vatnsdal austan megin í dalnum og austan við vatnið. Síðan förum við suður og upp úr dalnum um stórgrýtta jökulurð upp í skarðið í 1060 metra hæð. Síðan um bratta skriðu suður í Kóngsstaðadal.

10,2 km
Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Þverárjökull, Klaufabrekkur, Sandskarðsleið, Unadalsjökull, Heljardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Klaufabrekkur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Klaufabrekkum í Svarfaðardal um Klaufabrekknaskarð að sæluhúsinu á Lágheiði.

Þröngt skarð, en fjölfarið á fyrri öldum. Sögur eru af hrakningum á leiðinni. Brekkurnar heita eftir Klaufa böggvi Snækollssyni, sem var bæði skáld og vígamaður. Sniðinn var af honum hausinn, en samkvæmt sögunni barðist hann áfram og barði menn með hausnum. Við hann eru kenndar Klaufabrekkur og Böggvisstaðir.

Förum frá Klaufabrekkum norðnorðvestur í Klaufabrekknadal austan við Gimbrahnjúk. Upp bratt og erfitt Klaufabrekknaskarð í 1000 metra hæð og förum austan til í skarðinu. Síðan beint áfram niður í dal, sem einnig heitir Klaufabrekknadalur. Síðan dalinn austan við Drykká út að þjóðvegi 82 um Lágheiði. Förum með þjóðveginum norðaustur að sæluhúsinu á Lágheiði.

10,1 km
Eyjafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Lágheiði: N65 56.315 W18 50.540.

Nálægar leiðir: Sanddalsleið, Hvarfdalsskarð, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Kiðagilshnjúkur

Frá Laugafelli í Kiðagil um norðurbrún Sprengisands.

Jeppaslóðin liggur fyrir sunnan Kiðagil og sést ekki af veginum til gilsins. Gamla þjóðleiðin lá norðan gilsins niður í Dældir og síðan niður með Skjálfandafljóti vestanverðu norðvestur í Kvíar, þar sem farið var austur yfir fljótið. Áningarstaður biskupa og annarra ferðamanna var í Dældum.

Farin er jeppaslóðin úr Laugafelli yfir á jeppaslóðina á Sprengisandi. Hér er farið um eyðisanda, grasleysi og vatnsleysi, unz við nálgumst Kiðagil, sem frægt er af kvæði Gríms Thomsen, þar sem segir meðal annars: “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, / rökkrið er að síga á Herðubreið, / álfadrottning er að beisla gandinn, / ekki er gott að verða á hennar leið; / vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil.” Enn í dag eru margir fegnir á þessari leið, þegar landið fer að lækka niður að Bárðardal. Þvert yfir þessa leið reið Þórður kakali Sighvatsson úr Bleiksmýrardal suður á Sprengisand.

Förum frá Laugafelli í 740 metra hæð og fyrst eftir Eyjafjarðarleið til norðausturs, beygjum síðan af henni á Dragaleið til austurs og komumst þar í 900 metra hæð. Leiðin liggur síðan meira til suðurs af austri, nálægt skálanum í Galtabóli, og síðan aftur til austurs unz hún mætir jeppaveginum yfir Sprengisand. Þeim vegi fylgjum við til norðausturs um Kiðagilsdrög, förum vestan við Kiðagilshnjúk og síðan um Fossgilsmosa. Að lokum förum við eftir afleggjara í 660 metra hæð niður að Skjálfandafljóti, þar sem heitir Kvíahraun í 420 metra hæð. Þar tekur við Biskupavegur yfir Ódáðahraun.

21,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.
Fossgilsmosar : N65 05.864 W17 36.452.
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur, Hofsafrétt, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Eystripollar, Laugafell, Hólafjall, Miðleið, Gásasandur, Biskupaleið, Suðurárhraun, Bleiksmýrardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hörgárdalsheiði

Frá Fremri-Kotum í Norðurárdal að Ásgerðarstöðum í Hörgárdal.

Gissur Þorvaldsson og Oddur Þórarinsson fóru 1254 um Hörgárdalsheiði til Eyjafjarðar að brennumönnum Flugumýrar. 1255 höfðu Þorgils skarði Böðvarsson og Þorvarður Þórarinsson varðmenn á Hörgárdalsheiði. Síðar um sumarið fóru Þorgils og Þorvarður í herför um heiðina til Eyjafjarðar. Algengara var þá að fara Öxnadalsheiði, sem nú er jafnan farin.

Þjóðsaga segir, að bóndinn í Hálfdánartungum hafi deilt við húsfreyjuna á Silfrastöðum um, hvar málnyta væri þroskameiri. Á Silfrastöðum mátti leggja sjóvettling ofan á rjómatrogin, án þess að neitt tylldi við hann. Í Hálfdánartungum mátti leggja þar skaflaskeifu, án þess að markaði fyrir á rjómaskáninni.

Förum frá Fremri-Kotum með gamla þjóðveginum norðvestur að beygjunni að gömlu brúnni yfir Norðurá. Höldum þar áfram norðvestur Norðurárdal um garða á eyðibýlinu Hálfdánartungum. Þaðan liggur leiðin austur yfir ána og síðan upp með henni að austanverðu í 500 metra hæð undir Reiðgilshnjúk, Selfjalli og Víkingsfjalli. Þar heitir Hörgárdalsheiði. Upp á háheiðina förum við norður um Fremri-Slakka í 610 metra hæð og síðan bratt niður Sveig í Hörgárdal. Við förum áfram norðaustur dalinn um eyðibýlin Flögusel og Ásgerðarstaðasel að Ásgerðarstöðum.

14,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Öxnadalsheiði, Hjaltadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort