Frá hestagerði í Háumýrum á Sprengisandi að fjallaskálanum í Laugafelli.
Vestari leiðin um Sprengisand, austari leiðin liggur hjá fjallakofanum í Nýjadal.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.
Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Í Háumýrum er hestagerði og heysala, sem styttir þessa löngu reiðleið.
Norðarlega í Háöldum villtist Kristinn Jónsson í göngum 1898, fór yfir vatnaskil og hélt suður með Þjórsá. Hann kom fimmtán dögum síðar fram í Búrfelli í Þjórsárdal og hafði verið matarlaus allan tímann. Allar tær hans kól á báðum fótum.
Háöldur eru melöldur, sem ber hæst á sandinum.
Byrjum við hestagerði í Háumýrum, í 620 metra hæð, norðan við Hreysislón. Förum til norðurs og komum við að stíflunni við Þjórsárlón. Þar liggur Arnarfellsvegur vestur að Arnarfelli og Þjórsárverum. Við förum norður með austurjaðri Þjórsárlóns. Við förum norðaustur um Háölduhraun á Sprengisand. Sunnan við Vegamótavatn förum við af leiðinni og förum beint í norður, unz við komum á jeppaleið til Laugafells. Hæst fer leiðin þar í 780 metra hæð fyrir austan Kvíslarhæð. Við höldum áfram um Háöldur og norður milli Laugafells að austan og Laugafellshnjúk að vestan og komum brátt að fjallaskálunum Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.
51,7 km
Rangárvallasýsla, Eyjafjörður
Skálar:
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Háumýrar, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Arnarfell, Gásasandur, Miðleið, Eystripollar, Laugafell, Kiðagil.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson