Eyjafjörður

Heiðarmýrar

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Dalvík um Reykjaheiði að eyðibýlinu Bakka í Ólafsfirði.

Leiðin er vel vörðuð.

Oftast er heiðin kölluð Reykjaheiði eins og ýmsar fleiri heiðar. Hér er hún kölluð Heiðarmýrar til aðgreiningar frá öðrum Reykjaheiðum. Áður fyrr var þetta mest farna leiðin milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Förum frá Dalvík beint vestur í mynni Böggvisstaðadals. Sveigjum þar til vestsuðvesturs inn megindalinn sunnan við hnjúkinn. Innst í dalnum heita Heiðarmýrar. Innst í þeim eru sneiðingar til norðvesturs á Reykjaheiði í 880 metra hæð sunnan Einstakafjalls. Bratt er efst í skarðið, en þó fært hestum. Leiðin liggur síðan um sneiðinga niður í Heiðardal og meðfram Lambá að Reykjarétt í Ólafsfirði við þjóðveg 82.

13,8 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Grímubrekkur, Drangar, Ólafsfjarðarskarð, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Háöldur

Frá hestagerði í Háumýrum á Sprengisandi að fjallaskálanum í Laugafelli.

Vestari leiðin um Sprengisand, austari leiðin liggur hjá fjallakofanum í Nýjadal.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.

Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa. Í Háumýrum er hestagerði og heysala, sem styttir þessa löngu reiðleið.

Norðarlega í Háöldum villtist Kristinn Jónsson í göngum 1898, fór yfir vatnaskil og hélt suður með Þjórsá. Hann kom fimmtán dögum síðar fram í Búrfelli í Þjórsárdal og hafði verið matarlaus allan tímann. Allar tær hans kól á báðum fótum.

Háöldur eru melöldur, sem ber hæst á sandinum.

Byrjum við hestagerði í Háumýrum, í 620 metra hæð, norðan við Hreysislón. Förum til norðurs og komum við að stíflunni við Þjórsárlón. Þar liggur Arnarfellsvegur vestur að Arnarfelli og Þjórsárverum. Við förum norður með austurjaðri Þjórsárlóns. Við förum norðaustur um Háölduhraun á Sprengisand. Sunnan við Vegamótavatn förum við af leiðinni og förum beint í norður, unz við komum á jeppaleið til Laugafells. Hæst fer leiðin þar í 780 metra hæð fyrir austan Kvíslarhæð. Við höldum áfram um Háöldur og norður milli Laugafells að austan og Laugafellshnjúk að vestan og komum brátt að fjallaskálunum Hjörvarsskála og Laugafelli í 750 metra hæð.

51,7 km
Rangárvallasýsla, Eyjafjörður

Skálar:
Háumýrar: N64 40.017 W18 27.859
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háumýrar, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Arnarfell, Gásasandur, Miðleið, Eystripollar, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hákambar

Frá Fjalli í Kolbeinsdal um Hákamba að Deplum í Fljótum.

Forðum notuðu Hólamenn þessa leið til skreiðarflutninga úr Ólafsfirði. Hún er sérkennileg fyrir þá sök, að hún þræðir fjallsaxlir og fjallstinda lengri leið en aðrir fjallvegir á landinu. Hún er í um 1000 metra hæð frá Heljardalsheiði til Einstakafjalls. Liggur þvert á ýmsa fjallvegi, Tungnahrygg, Þverárjökul, Deildardalsjökul, Heljardalsheiði, Unadalsjökul og Hvarfdalsskarð.

Förum frá Fjalli austur Kolbeinsdal. Við rétt á bökkum Heljarár innarlega í dalnum, gegnt Elliða, sveigjum við þvert í norður og förum um bratta sneiðinga Heljarbrekkna norður í Heljardal. Þar austan við er Heljarfjall. Norður og upp úr dalnum förum við bratta brekku upp með ánni og Kambagiljum á Heljardalsheiði. Þar skiljast leiðir. Við förum beint norður á Deili og förum austan við hann og beint áfram á Vörðufjall. Vestan við okkur er Deildardalsjökull og síðan Unadalsjökull. Við erum á Hákömbum í 1100 metra hæð. Áfram förum við norður fjallseggina um Geldingadrag að Einstakafjalli. Við förum vestan við fjallið milli þess og Jökulfjalls niður í Mjóafellsdal. Komum í Ólafsfirði að Mjóafelli eða Deplum við þjóðveg 82.

24,1 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Heljardalsheiði: N65 49.658 W18 57.567.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Þverárjökull, Tungnahryggur, Deildardalsjökull, Unadalsjökull, Hvarfdalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Gönguskarð vestra

Frá Akureyrarflugvelli um Gönguskarð að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Förum frá Akureyrarflugvelli austur yfir gömlu brýrnar á Eyjafjarðará og síðan suður með ánni að austan. Svo suðaustur með Þverá og yfir Þverá suðaustur í Garðsárdal, inn dalinn að Gönguskarði til austurs. förum austur, suður og aftur austur um Gönguskarð yfir í Bleiksmýrardal. Þaðan norður dalinn og síðan norður fyrir Tunguöxl, austsuðaustur að Sörlastöðum.

38,5 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Bíldsárskarð, Fnjóskadalur.
Nálægar leiðir: Gásasandur, Bleiksmýrardalur, Melgerðismelar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grímubrekkur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Dalvík um Grímubrekkur að Kálfsá í Ólafsfirði.

Stutt og mikið farin leið áður fyrr, en brött á köflum og nánast ófær hestum.

Förum frá Dalvík beint vestur í mynni Böggvisstaðadals. Síðan beint áfram vestur norðurhlið dalverpis fyrir norðan Grímuhnjúk. Sækjum okkur strax í hæðina og förum hátt í Grímubrekkur í botni dalverpisins. Þar efst heitir Algleymingur í 920 metra hæð. Þaðan förum við fyrst niður skriðuna Bröndólfsbrekku og síðan norður í Kálfsárdal vestan megin Kálfsár og komum niður að Kálfsá við þjóðveg 82 í Ólafsfirði.

12,9 km
Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Heiðarmýrar, Ólafsfjarðarskarð, Drangar, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Geldingsárdrög

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá slóðinni um Vatnahjalla að slóðinni upp úr botni Eyjafjarðar að fjallaskálanum Laugafelli.

Förum frá fjallaskálanum Berglandi á Vatnahjallavegi suður um Geldingsárdrög að slóðinni upp úr botni Eyjafjarðar til fjallaskálans í Laugafelli.

17,3 km
Eyjafjörður

Jeppafært

Skrásetjari: Jón Garðar Snæland
Heimild: Jón Garðar Snæland

Fossabrekkur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Árdal í Ólafsfirði um Fossabrekkur til Héðinsfjarðar.

Byrjum við þjóðveg 803 í Árdal. Förum vestur Árdal og síðan suðvestur Syðri-Árdal alveg inn í botn. Til vesturs upp úr dalbotninum í skarðið í 680 metra hæð fyrir vestan Bangsahnjúk og fyrir austan Möðruvallahnjúk. Þaðan norðvestur og niður í Möðruvallaskál og áfram norðvestur í Héðinsfjörð.

10,0 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Vatnsendaskarð, Rauðskarð, Hólsskarð, Héðinsfjarðará, Sandskarð, Drangar, Hvanndalir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Eystripollar

Frá Sesseljubúð við Vatnahjallaveg um Eystripolla til Laugafells.

Eystripollar eru austan við Austari-Jökulsá, rústaflói með gróðurkraga, sem var einn helzti áfangastaðurinn á Vatnahjallavegi og sjást þar miklir götuslóðar.

Byrjum á Vatnahjallavegi milli Eyjafjarðar og Ingólfsskála. Sunnan Sesseljubúðar og nálægt Eystripollum förum við þverleið til suðsuðausturs um Eystripolla og Lambalæk að Strompaleið, sem liggur milli Ingólfsskála norðan Hofsjökuls og Laugafells við Sprengisand.

9,8 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Sesseljubúð: N65 06.700 W18 25.840.
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt, Háöldur.
Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Gimbrafell, Laugafell, Kiðagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Efrafjall

Frá Máná í Fljótum í Skagafirði um Efrafjall til Siglufjarðar.

Förum frá Máná suður Mánárdal og beint áfram upp á Efrafjall og vestan við Illvirðahnjúk í 540 metra hæð. Áfram suður á fjallsbrún og þar til austurs niður í Skarðsdal. Þaðan norður til Siglufjarðar.

8,4 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Dalaleið, Siglufjarðarskarð, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Drangar

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Karlsá á Ufsaströnd um Dranga að Burstarbrekku í Ólafsfirði.

Stutt leið, en erfið í Dröngum, samt mikið farin fyrrum. Dalvíkurmegin í skarðinu er sennilega of bratt fyrir hesta.

Förum frá Karlsá beint austur Karlsárdal sunnan við Hrafnabjargahnjúk og inn í dalbotn handan hnjúksins. Þaðan förum við beint norður á bratta fjallseggina í 800 metra hæð. Þar heita Drangar í skarðinu. Síðan förum við norður Burstarbrekkudal með Kerahnjúk austan við okkur og Hólkotshyrnu vestan við okkur. Komum niður að Burstarbrekku, förum svo með vegi norður fyrir Ólafsfjarðarvatn til Ólafsfjarðar.

14,5 km
Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Sandskarð, Grímubrekkur, Múlakolla.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Derrisdalur

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Þorvaldsdal um Derrisdal til Sæludals í Skíðadal í Svarfaðardal.

Stundum kallaður Skíðdælingaskarð. Leiðin er ekki fær hestum.

Förum frá Þorvaldsdal suðvestur Nautatungudal og síðan vestnorðvestur Derrisdal og norður skarðið fyrir austan Kistufell í 1040 metra hæð. Þaðan norðvestur í Sæludal og norðnorðvestur með Sæluá að Skíðadalsá.

10,5 km
Eyjafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Þorvaldsdalur, Þverárjökull, Skíðadalsjökull, Heiðinnamannadalur, Holárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Bíldsárskarð

Frá Kaupangri eða Þórustöðum í Eyjafirði að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Tignarlegur fjallvegur með frábæru útsýni yfir Eyjafjörð og Eyjafjarðarsveit. Brött reiðleiðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals um Bíldsárskarð hefur ætíð verið fjölfarin. Núna er hún helzta tengileið hestaferðamanna milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Akureyringar fara þessa leið til Sörlastaða. Það er eyðibýli í umsjá hestamannafélagsins Léttis innarlega í Fnjóskadal, rétt sunnan við mynni Timburvalladals. Í Bíldsárskarði eiga engir bílar að geta verið á ferð. En hér hafa menn böðlazt um á torfæruhjólum og skemmt leiðina.

Byrjum á þjóðvegi 829 sem liggur suður Eyjafjörð austan Eyjafjarðarár. Skilti merkt reiðleiðinni er við þjóðveginn nálægt Þórustöðum sunnan við Kaupangur. Sneiðum norður hlíðina að Bíldsá og förum með henni bratt um sneiðinga upp skarðið. Síðan austur skarðið um Axlir í rúmlega 620 metra hæð. Þaðan förum við til norðausturs sunnan við Sölvagil og fljótt suðaustur frá gilinu niður hlíðarnar að Grjótárgerði í Fnjóskadal. Þar förum við með þjóðvegi 833 suður að Illugastöðum og yfir brú á Fnjóská. Höldum áfram austan ár eftir reiðgötum um eyðibýlið Belgsá suður að mótum Fnjóskár í Bleiksmýrardal og Bakkaár í Timburvalladal. Förum yfir Bakkaá ofan við ármótin og síðan með línuvegi vestan árinnar inn Timburvalladal. Unz við komum að Snæbjarnarstöðum, sem eru andspænis Sörlastöðum austan árinnar. Förum þar austur yfir ána og beint að Sörlastöðum, sem eru í 240 metra hæð. Einnig er hægt að ríða með jeppaslóð austan Bakkaár og fara aldrei yfir ána.

27,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Melgerðismelar, Gönguskarð vestra, Gásasandur, Hellugnúpur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson, Herforingjaráðskort og Sæmundur Eiríksson