Húnavatnssýslur

Ölvesvatn

Frá Hvalnesi á Skaga um syðra Ölvesvatn að Refshalaleið við Fossá.

Byrjum við þjóðveg 745 sunnan við Hvalneslæk á Skaga. Förum til vestsuðvesturs fyrir sunnan Melrakkafell að Fossvatni. Síðan til suðsuðvesturs fyrir austan Ölvesvatn, um Bekki og síðan vestan við Selvatn. Suðsuðvestur um Hnausabrekkur og fyrir vestan Hraunvatn. Síðan á Fossbungu og á Refshalaleið við Fossá.

12,9 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Refshali, Bjarnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öldumóða

Frá Gafli í Svínadal um Öldumóðuskála að Arnarvatni.

Þetta er ein af nokkrum húnvetnskum leiðum, sem lágu suður á Skagfirðingaveg um Stórasand. Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Grettishæð er talin vera sami staður og Grettishúfa, þar sem Grettis saga segir, að Þorbjörn önglull hafi grafið höfuð Grettis Ásmundarsonar.

Förum frá Gafli til suðurs vestan Hrafnabjargartjarnar og Kúputjarnar, Friðmundarvatns og Eyjatjarnar. Síðan yfir Vatnsdalsá og austan og sunnan Rifkelshöfða. Þaðan suður að Öldumóðu og svo austan við Þjófahæðir suður á Grettishæð. Við förum suðvestur um Stórasand um Beinkerlingu og Ólafsvörður norðan Bláfells að Skammá við Arnarvatn.

31,1 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Nálægir ferlar: Sandkúlufell, Bláfell, Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Þverflár, Úlfkelshöfði, Dalsbunga, Friðmundarvatn, Áfangi, Stórisandur, Grímstunguheiði, Skagfirðingavegur, Forsæludalur, Gilsárvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þverflár

Frá Marðarnúpi í Vatnsdal að Hrafnabjörgum í Svínadal.

Bratt er frá Marðarnúpi austur á fjallið, en þó er þar skýr reiðgata.

Förum frá Marðarnúpi í sneiðingum suðaustur og upp á Marðarnúp. Síðan til austnorðausturs um Marðarnúpsfjall og yfir Þverflár. Suðaustan við Leirtjarnir og sunnan við Axlir í 570 metra hæð. Næst austur og niður með Kaldaklofslækjum að norðanverðu. Loks norðnorðaustur að eyðibýlinu Marðarnúpsseli sunnan við Hrafnabjörg.

12,0 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Öldumóða, Úlfkelshöfði, Dalsbunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Víðidalstunguheiði

Frá Dæli í Víðidal í Húnaþingi um Víðidalstunguheiði að vegamótum Víðidalstunguheiðar og Haukagilsheiðar við Hraungarða.

Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Förum frá Dæli suður með þjóðvegi um Víðidalstungu að Kolugili. Þaðan áfram jeppaslóð suður dalinn. Sunnan Hrappstaða förum við á ská upp austurhlíðina og austur með Gaflsá. Síðan suður með fjallinu og frá fjallinu vestan við Gaflstjörn. Framhjá fjallaskála við Fosshól og síðan suður með Öxná. Þaðan suðaustur um Stóra-Skálshæð og vestan við Þrístiklu að mótum Haukagilsheiðarvegar.

29,7 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Fosshóll: N65 15.718 W20 29.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Húnaþing, Borgarvirki, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Hraungarðar, Aðabólsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Vesturheiði

Frá Hólsdal í Svartárdal um Vesturheiði að Fossaleið á Eyvindarstaðaheiði.

Fyrr á öldum var þetta ein af leiðum Húnvetninga suður á Skagfirðingaveg um Stórasand.

Byrjum við Fossa í Hólsdal, skammt sunnan Stafnsréttar í Svartárdal. Förum jeppaslóð um sneiðinga vestur á Vesturheiði og síðan suðvestur um Litlaflóa og Stóruflá að Fossaleið, sem liggur úr Blöndudal að skálanum við Galtará.

8,2 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Fossaleið, Kiðaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vatnsskarð

Milli Bólstaðarhlíðar í Svartárdal og Víðimýrar í Skagafirði.

Þetta var allar aldir og er enn höfuðleiðin milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Enn má sjá minjar um póstleiðina vestan lækjar við Víðimýri. Hún lá beint milli Arnarstapa og Víðimýrar. 1238: Lið Sturlu Sighvatssonar eltir lið Kolbeins unga Arnórssonar austur yfir Vatnsskarð. 1253: Heinrekur biskup og Þorgils skarði ríða saman á Vatnsskarð. Sama ár ríða Þorgils og Gissur Þorvaldsson saman á skarðið. 1254: Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fara austur yfir skarðið til að herja á Odd Þórarinsson Svínfelling. 1255: Þorgils skarði ríður Vatnsskarð vestur í Dali eftir Þverárfund.

Förum frá Bólstaðarhlíð upp fyrir þjóðveg 1 og til suðausturs og síðan austurs upp hlíðina ofan þjóðvegar undir Botnastaðafjalli og Gilshálsi. Austan undir hálsinum er þverleið til Laxárdals og að Skarðsá í Sæmundarhlíð. En við förum yfir þjóðveginn og austur að Vatnshlíðarvatni sunnanverðu. Frá horni Vatnshlíðarvatns förum við enn yfir þjóðveginn og til norðausturs ofan við Sæmundará og neðan við þjóðveginn. Áfram beina stefnu yfir þjóðveginn að Arnarstapa og þaðan austur og niður að Víðimýri .

16,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Valadalur, Laxárdalur, Reykjaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnaöxl

Frá Gauksstöðum á Skaga suður um Vatnaöxl að Veðramótum við Gönguskörð í Skagafirði.

Þetta er löng leið suður-norður um fjallgarðinn milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu.

Förum frá Gauksstöðum suður með Bjarnarfelli að austanverðu og vestan við Bjarnarvötn. Beygjum suðvestur fyrir Réttarfell og förum suðvestur um Þverárkvíslar í Engjadal vestan við Sandfell. Við förum suðaustur með Sandfelli og þvert yfir þjóðveg 744. Síðan suður Skálahnjúksdal. Áfram til suðurs austan við Fannstóð og síðan vestan við Skálarhnjúk og Vatnsöxl. Þar er fjallaskálinn Trölli. Beygjum síðan til austurs fyrir sunnan Vatnsöxl og förum norðaustur Kálfárdal niður að þjóðvegi 744 hjá Veðramótum.

34,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Trölli: N65 42.603 W19 53.163.

Nálægar leiðir: Litla-Vatnsskarð, Kirkjuskarð, Balaskarð, Hallárdalur, Refshali.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Valadalur

Frá Leifsstöðum í Svartárdal um Valadal að Stóra-Vatnsskarði í Skagafirði.

Ein af leiðum Skagfirðinga suður á Kjalveg.

Förum frá Leifsstöðum norðnorðaustur og upp á Hraun í 500 metra hæð. Síðan norður um Klittur og þaðan norður og austnorðaustur um Valadal og norðaustur að þjóðvegi 1 við Stóra-Vatnsskarð.

11,6 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Járnhryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Úlfkelshöfði

Frá Þórormstungu í Vatnsdal að vegamótum á Helluvörðuhálsi norðan Friðmundarvatns.

Þórormstunga er sögufrægur staður. Þar bjó á landnámsöld Þórormur, fóstri Þorkels kröflu. Um miðja 19. öld bjó þar Jón Bjarnason hinn stjörnufróði, sem fylgdist með gangi himintungla og samdi dagatöl.

Förum frá Þórormstungu austsuðaustur Kárdal og á Vaglabungu. Síðan austsuðaustur um Vaglaháls og austur á Úlfkelshöfða í 440 metra hæð. Loks austur að vegamótum á Helluvörðuási.

14,2 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dalsbunga, Forsæludalur, Þverflár, Öldumóða, Friðmundarvatn, Forsæludalur, Gilsárvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tvídægra

Frá Skeggjastöðum í Vesturárdal í Miðfirði til Þorvaldsstaða í Hvítársíðu.

Um Tvídægru segir Stefán Jónsson á Húki í árbók FÍ 1962: “Leiðin liggur inn með Vesturá og síðan inn með Lambá og þá suður yfir Sléttafell, um Skipthól vestan við Króksvatn, þá um Staðarhól, austan við Dofinsfjöll, yfir Lambatungur og á Selhæð á Þorvaldsstaðahálsi, og svo ofan að Þorvaldsstöðum.”

Í Heiðarvígasögu segir frá fyrri bardaga Barða og flokks hans við Borgfirðinga hjá Langavatni norðan undir Dofinsfjöllum og síðari bardaga þeirra hjá Krókavatni sunnan undir Sléttafelli. Sagan segir frá klækjum Barða, sem faldi liðsmenn sína, svo að Borgfirðingar töldu sér sigur vísan og riðu sem ákafast til sóknar. Hertækni Barða var hin sama og hjá Gengis Kahn. Um Tvídægru segir Þorvaldur Thoroddsen: “Hún er á sumrum einn með lökustu fjallvegum, því að þar er manni boðið upp á holurðir, fen, fúamóa með urð undir og aðrar svipaðar trakteringar, en villist menn út af götuslitrunum, verða fyrir manni ótræðisflóar, sem varla halda manni, hvað þá hesti.” Þessi lýsing á raunar við um Núpdælagötur eins og Tvídægru. Hugsanlegt er, að Kolbeinn ungi hafi riðið Tvídægru, þegar hann fór til Borgarfjarðar að Þórði kakala með 600 manna lið 27. nóvember 1242. Öskubyl gerði á flokkinn um nóttina og urðu nokkrir menn úti.

Förum frá Skeggjastöðum. Þetta er nánast bein lína norður-suður. Leiðin er ekki merkt á korti. Hún er svo lítið farin, að víða sést engin slóð og vörðubrot eru fá og fallin. Nyrsti hluti hennar, norðan Sléttafells, er stundum nefndur Húksheiði. Sunnan Króksvatns er fjallaskálinn Húksheiði. Tvídægra nær 400 metra hæð við Langavatn, sunnan Króksvatns. Mikið er af mýrum og smávötnum á leiðinni og getur hún orðið torfær í rigningatíð. Að vetrarlagi getur hún hins vegar verið skjótfarin á harðfenni. Þetta er stytzta leiðin milli byggða í Húnaþingi og Borgarfirði, ef Holtavörðuheiði er frátalin. Sennilega eru allir látnir, sem þekktu þessa leið.

46,9 km
Húnavatnssýsla, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Húksheiði: N64 56.760 W20 49.046.

Nálægir ferlar: Húnaþing, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Kjarardalur, Strúturinn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Suðurmannasandfell

Frá Álkuskála til Arnarvatns.

Álkuskáli er kenndur við Álftaskálará á Haukagilsheiði. Dæmigerð reiðleið um opnar og víðfeðmar heiðar Húnavatnssýslna. Að miklu leyti er landið gróið á þessari leið norðan Fellaskála. Mestur hluti hennar er á jeppaslóð, sem liggur úr Víðidal upp á Víðidalstunguheiði. Síðari hluti leiðarinnar, þegar komið er suður fyrir Fellaskála, er í vesturjaðri Stórasands. Þar lá hinn forni Skagfirðingavegur úr Borgarfirði eftir að ferðir lögðust að mestu af um Kjöl. Stórisandur er lítt gróið hæðaland, í 700-800 m hæð, í Húnaþingi norðan Langjökuls. Milli Arnarvatnsheiðar og Kjalvegar norðan Seyðisár. Þarna eru jökulsorfin og víða stórgrýtt grágrýtishraun, sem eru þó víða greiðfær. Borgfirðingar riðu þessa leið til Örlygsstaðabardaga 1238.

Förum frá Álkuskála í 560 metra hæð eftir reiðgötu til vesturs og suðvesturs að slóð norðan úr Víðidal. Fylgjum þeirri slóð til suðurs, í tæplega 600 metra hæð, vestur fyrir Litla-Sandfell og Suðurmanna-Sandfell. Komum að Fellaskála austan við Kolgrímsvötn. Fylgjum jeppaslóðinni áfram til suðurs vestan við Fossabrekkur, unz við komum hjá Grettishöfða að jeppaslóð yfir Stórasand. Förum þá slóð til vesturs að Skammá, sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn. Förum yfir ána og síðan suður fyrir Arnarvatn og vestur fyrir það að Hnúabaksskála norðvestan við vatnið, í 540 metra hæð.

38,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Álkuskáli: N65 08.824 W20 08.677.
Fellaskáli: N65 02.510 W20 17.340.
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði, Fljótsdrög, Arnarvatnsheiði, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Hraungarðar, Aðalbólsháls, Víðidalstunguheiði, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Strjúgsskarð

Frá Strjúgsstöðum í Langadal um Strjúgsskarð að Refsstöðum í Laxárdal.

F rá Strjúgsstöðum og Móbergi teygja sig götur upp í skarðið, sem er greiðfært, þegar brekkurnar eru að baki. Í miðju skarðinu eru Haugar tveir, þar sem sagðir eru heygðir landnámsmennirnir Þorbjörn strjúgur á Strjúgsstöðum og Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum eftir að hafa barizt um beit í skarðinu.

Förum frá Strjúgsstöðum norðaustur Strjúgsskarð og síðan um Kárahlíð að Refsstöðum.

6,2 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Litla-Vatnsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stórisandur

Frá Arnarvatni um Stórasand til Öldumóðuskála á Grímstunguheiði.

Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Skammá er stutt á milli Réttarvatns og Arnarvatns. Þar orti Jónas Hallgrímsson: “Og undir Norðurásnum / er ofurlítil tó / og lækur líður þar niður / um lágan hvannamó.” Athyglisvert er að í Sturlungu er Stórisandur sjaldan farinn, menn fóru þá af Arnarvatnsheiði norður í Húnaþing og þaðan um byggðir lengra norður.

Förum frá Skammá austnorðaustur slóð um Stórasand, fyrst fyrir norðan Bláfell, þar sem við komum að fjögurra alda gömlum Ólafsvörðum, sem hlaðnar voru af Ólafi biskup Hjaltasyni og mönnum hans. Áfram höldum við austnorðaustur um Beinakerlingu að Grettishæðarvatni. Við förum norður fyrir vatnið um Bríkarkvíslardrög og Birnuhöfða. Síðan austur um Öldumóðuhöfðaása að Öldumóðuskála.

20,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót, Bláfell, Sandkúlufell.
Nálægar leiðir: Grímstunguheiði, Öldumóða, Skagfirðingavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stóradalsháls

Frá Ytri-Löngumýri í Blöndudal um Svínadal til Eldjárnsstaða í Blöndudal.

Stóradalsháls er mikill ás með melum og mýrum. Leiðin liggur ofan garða í Stóradal, sem að fornu hét Sléttárdalur. Þar bjó á 19. öld Kristján ríki Jónsson, sem rak sauðina suður Kjöl að vetrarlagi 1858, sem frægt varð.

Förum frá Löngumýri vestur fyrir Stóradalsháls og síðan til suðurs vestan til í Stóradalshálsi og suður um Sléttárdal. Sunnan við eyðibýlið Stóradalssel sveigjum við til suðausturs fyrir norðan Barðalækjartjörn. Síðan austur yfir Gilsá norðan við Gilsvatn og austur yfir þjóðveg F35. Síðast í sneiðingum suðaustur Eldjárnsstaðabungu niður að Eldjárnsstöðum.

15,5 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Gilsárvatn

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort