Frá Skrapatungurétt í Refasveit um Laxárdal til Bólstaðarhlíðar í Svartárdal.
Laxárdalur er samsíða Langadal og er með mestu dölum sýslunnar, áður þéttbýlasti hluti hennar, en núna að mestu í eyði. Aðeins er búið nyrst á Balaskarði og syðst í Þverárdal. Dalbotninn er í 200-300 metra hæð, ákjósanlegt og vel gróið reiðland. Á Mörk í Laxárdal bjó Jón Jónsson, ættfaðir Harðabóndaættar. Þaðan er líka Erlendur Guðmundsson vesturfari, sem skrifaði æskuminningar sínar í Heima og heiman. Í Kárahlíð ólst upp Rósberg G. Snædal rithöfundur. Í Mánaskál bjó svo Máni, landnámsmaður dalsins. Bæjaröðin frá suðri er þessi: Kálfárdalur, Þverárdalur, Skyttudalur, Mjóidalur, Gautsdalur, Hvammur, Mörk, Litla-Vatnsskarð, Kárahlíð, Refsstaðir, Grundarkot, Vesturá, Eyrarland, Sneis, Tungubakki, Kirkjuskarð, Núpsöxl, Illugastaðir, Núpur, Úlfagil, Mánaskál, Mýrakot, Balaskarð, Skrapatunga.
Förum frá Skrapatungurétt til austurs fyrir sunnan Tunguhnjúk að Balaskarði í Laxárdal. Síðan suður eftir Laxárdal endilöngum. Fyrst suðsuðaustur um Mánaskál að Kirkjuskarði. Við förum suðsuðaustur Laxárdal að Refsstöðum. Áfram suðaustur Laxárdal að Litla-Vatnsskarði. Enn förum við suður Laxárdal að Gautsdal. Áfram suðaustur Laxárdal í Þverárdal, þar sem Laxárdalur endar í suðri. Frá Þverárdal förum við um Þverárdal suður í Bólstaðarhlíð í Svartárdal.
31,1 km
Húnavatnssýslur
Nálægar leiðir: Geitaskarð, Strjúgsskarð, Auðólfsstaðaskarð, Stóra-Vatnsskarð, Reykjaskarð, Litla-Vatnsskarð, Kirkjuskarð, Balaskarð, Vatnaöxl.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort