Húnavatnssýslur

Krákur

Frá Fljótsdrögum um Kráksskarð til Hveravalla.

Tengileið milli Arnarvatnsheiðar og Kjalar. Afskekktasti kafli algengrar hringleiðar kringum Langjökul. Sáralítið farin og alveg ómerkt. Einnig er farið sunnan Kráks um Heiðingjaskarð eða Þröskuld. Svæðið umhverfis Hundavötn heitir Ömrur, enda þykir það ömurlegt og gróðurlaust.

Förum frá Hveravöllum í 650 metra hæð norðvestur um Tjarnardali, yfir Hvannavallakvísl og fyrir framan Dauðsmannsgil að Gónhól. Þar beygjum við til vestnorðvesturs yfir Djöflasand að Brúarfjöllum. Förum þar vestur og síðan norðvestur yfir skarðið sunnan við Hnjúka og síðan til norðurs austan megin við Hundavatn eystra. Norðan vatnsins er Búrfell og við förum sunnan þess í norðvesturátt. Stefnum á Kráksskarð milli Kráks að sunnanverðu og Krákshala að norðanverðu, förum þar í 950 metra hæð. Beygjum síðan til suðvesturs og förum töluvert sunnan Búrfells og Búrfellstjarnar að fjallaskálanum í Fljótsdrögum í 560 metra hæð.

33,7 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Hveravellir: N64 52.013 W19 33.756.
Fljótsdrög: N64 54.884 W20 08.437.

Nálægir ferlar: Fljótsdrög, Bláfell, Guðlaugstungur, Þjófadalir, Stélbrattur.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar, Kjalfellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ólafur Flosason

Kirkjuskarð

Frá Kirkjuskarði í Laxárdal um Kirkjuskarð á Vatnaaxlarleið í Skálahnjúksdal.

Undirlendi er lítið í Mjóadal, þurrlent með valllendi í hlíðum. Gálgagil er, þar sem mætast Balaskarð, Mjóidalur, Hvammshlíðardalur og Ambáttardalur. Þar segir sagan, að níu þjófar hafi verið hengdir. Aðeins norðar á dalamótunum er eyðibýlið Höskuldsstaðasel. Ambáttardalur er votlendur og liggur slóðin vel sunnan árinnar.

Förum frá Kirkjuskarði norðnorðaustur Kirkjuskarð í 620 metra hæð og síðan norður Mjóadal að Gálgagili. Sunnan Hvammshlíðarfjalls förum við norðaustur eftir Ambáttardal að mótum Laxár og Mörár í Skálahnjúksdal. Þar liggur Vatnaaxlarleið milli Gauksstaða á Skaga og Veðramóta í Skarðshreppi í Skagafirði.

14,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Geitaskarð, Balaskarð, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kiðaskarð

Frá Hvíteyrum í Skagafirði að Stafni í Svartárdal.

Hér var fyrrum fjölfarið milli byggða. Bændur úr Skagafirði, sem áttu fé í Stafnsrétt, ráku það austur um skarðið og gera enn. Skarðið er þröngt, en greiðfært.

Förum fráá Hvíteyrum stuttan spöl norður veginn og beygjum síðan vestur eftir þjóðvegi 751 að Mælifellsá. Beygjum þaðan suðurs á brúna á Mælifellsá og förum þrjá kílómetra vestur Mælifellsdal. Þar er þverleið norður yfir Mælifellsá á grýttu vaði og upp með henni að vestanverðu. Síðan þverbeygjum við til vesturs sunnan Selhnjúks upp í Kiðaskarð. Þröngt er skarðið, sveigir til suðurs og síðan aftur til vesturs. Þar komum við upp á Þröskuld í 550 metra hæð. Þaðan liggur leiðin til vesturs á fjallinu og síðan til suðurs og vesturs á fjallsbrúnina fyrir ofan Stafn í Svartárdal. Förum brattan sneiðing niður fjallið að Stafnsrétt.

14,5 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Hvammsdalur, Vesturheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ketubruni

Frá Keldulandi í Húnaþingi um Ketubruna að Ketu á Skaga í Skagafirði.

Ketubruni eru háir og lítt grónir hraunhólar með djúpum bollum milli hólanna. Leiðin liggur raunar norðvestan við Ketubruna, sem eru á miðjum skaganum.

Leiðarlýsing í Árbók FÍ 2007: “Var farið um Moldás, eftir fjöruborði Langavatns og yfir Langavatnsá á ósnum, síðan áfram með vatninu upp að tveimur tjörnum í Langavatnsflóa. Yfir vík á neðri tjörninni, beygt til hægri upp í jaðar á lágu holti, upp með því, beygt til vinstri, fyrir illfærustu keldu Langavatnsflóa. Þaðan upp í Háaleiti, framhjá gamalli torfvörðu. Áfram yfir Háaleiti, skammt vestan við Háaleitis-tjörnina, áfram út holtin. Þar sér á stöku stað fyrir merkingu leiðar með smá vörðum eða steinum reistum á rönd. Götuslitur langleiðina austur undir vestara Höfðavatn. Framhjá vatninu að suðaustanverðu.”

Byrjum á þjóðvegi 745 um Skaga norðan við Kelduland. Förum norðaustur með Fjallsöxl og vesturenda Langavatns. Síðan norðaustur um Bessalækjarbreiður og norðvesturhorn Ketubruna í 200 metra hæð, norðaustur um Höfðavötn og austan við Skálavatn. Síðan um Urðarselstjörn norðaustur á þjóðveg 745 við Ketu á Skaga.

21,8 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Aravatn, Heylækur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kattarrófa

Frá Tjörn á Vatnsnesi að Syðri-Þverá í Hópi.

Margrét Friðriksdóttir skrifar: “Dalurinn þrengist þegar innar dregur og þar fór að ganga betur. Innst er snarbratt einstigi, svokölluð Kattarrófa, sem liðast uppá Heiðargöturnar. Þar tókst að halda stóðinu slöku um stund áður en við byrjuðum að feta okkur upp Kattarrófuna sem reyndist ekki nærri því eins ægileg og maður hafði búið sig undir og því létt framundan. Hinar svokölluðu Heiðargötur voru talsvert ógreinilegri en maður hefði búist við af “fornri þjóðleið” og svo var stóðið ekki alveg sammála knöpunum um hvar best væri að fara. Skemmst er frá því að segja að fjallið er alsett pyttum og mýrarflákum af verstu gerð, vægast sagt erfitt yfirferðar.”

Förum frá Tjörn suður Katadal inn í dalbotn. Þaðan upp Kattarrófu og suður Heiðargötur, suður Dagagil og Þverárgil. Síðan austur að Syðri-Þverá.

15,9 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Hópið, Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Langihryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Járnhryggir

Frá Bollastöðum í Blöndudal um Járnhryggi að Barkarstöðum í Svartárdal.

Í Laxárdal er til annar Járnhryggur. Örnefnin vísa líklega til járnvinnslu úr mýrarauða til forna.

Förum frá Bollastöðum norðaustur yfir Járnhryggi í 390 metra hæð og síðan áfram norðaustur og niður heiðina að Barkarstöðum.

4,8 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Fossaleið, Valadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ingólfsskáli

Frá Kjalvegi F35 vestan Skiptahóls norður fyrir Hofsjökul í Ingólfsskála.

Þetta er jeppaslóð, sem liggur heldur norðar en gamli Eyfirðingavegurinn. Í Svörtutungum ofanverðum er víða fjölbreyttur gróður í votu landi. Þar er farið yfir Blöndu á grýttu vaði með góðum botni. Annars staðar á leiðinni eru víðast urðir og melar og sandar. Þetta er að mestu friðað svæði, frá Blöndukvíslum að Sátu. Það er eitt stærsta rústasvæði landsins og eitt af varplöndum gæsa.

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

Byrjum hjá Kjalvegi F35 í 630 metra hæð austan Rjúpnafells og vestan Skiptahóls á Kili. Förum norðaustur yfir Blöndukvíslar og austur yfir Svörtukvíslar. Síðan norður fyrir Þverbrekku og Sátu, þar sem leiðin liggur austur frá Sátu að jökli í 840 metra hæð. Síðan til norðausturs og norður fyrir Krókafell að Ingólfsskála í 830 metra hæð norðan Hofsjökuls.

37,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Ingólfsskáli: N65 00.452 W18 53.820.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Eyvindarstaðaheiði, Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Fossakvísl, Svartárbotnar, Kjalfellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvinverjadalur

Núna kallaður Hveravellir. Dalurinn er raunar öll lægðin frá Hveravöllum að Dúfunefsfelli. Algengur fundarstaður höfðingja á Sturlungaöld.

Sjá að öðru leyti texta um Kjalveg og Hveravelli. Frásagnir af ferðum og hrakningum manna um hávetur á Kjalvegi og Arnarvatnsheiði benda til eindreginnar forlagatrúar. Væru menn feigir, þá voru þeir feigir, annars ekki.

Kolbeinn ungi Arnórsson reið suður á Hvinverjadal 1238, þar sem komið var með fanga til hans 9. ágúst. Síðan fór hann suður Kjöl til fundar við Gissur Þorvaldsson. 15. ágúst fóru Kolbeinn og Gissur með 1100 manna lið norður Kjöl á leið í Örlygsstaðabardaga. 1252 kom Gissur Þorvaldsson út og mælti sér mót við syni sína í Hvinverjadal og voru þar mætt hundruð manna. Oddur Þórarinsson fór frá Valþjófsstað til Haukadals fyrir jól 1254 og síðan í desember norður á Kjöl. Lenti þar í hríðviðri og komst við illan leik í Hvinverjadal og var þar á nýársnótt. Daginn eftir hélt hann með sína menn áfram niður í Svartárdal og síðan til Skagafjarðar. Árið 1257 fór Þorgils skarði Böðvarsson norður Kjöl og var um nótt í sæluhúsinu í Hvinverjadal. Dreymdi hann þá fyrir um andlát sitt.

? km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Hveravellir : N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.

Nálægir ferlar: Þjófadalir, Guðlaugstungur, Stélbrattur.
Nálægar leiðir: Kjalfellsleið, Svartárbotnar, Krákur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hvammsdalur

Frá Hvammi í Svartárdal um Hvammsdal upp á Kiðaskarðsleið.

Förum frá Hvammi austur Hvammsdal sunnanverðan og síðan suðaustur meðfram Hvammsá á Kiðaskarðsleið í 550 metra hæð vestan við Kiðaskarð. Sú leið er milli Stafnsréttar í Svartárdal og Mælifells í Skagafirði.

5,9 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Kiðaskarð, Valadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Húnaþing

Frá Stað í Hrútafirði að Dæli í Víðidal.

Þetta er tengileið milli heiða í Dalasýslu og Húnavatnssýslum. Að mestu farin á lítið keyrðum innansveitarvegum og á heiðarbútum milli dala.

Frá Stað er farið upp Haukadalsskarð í Miðdali og um Laxárdalsheiði eða Sölvamannagötur vestur í Laxárdal. Frá Aðalbóli í Miðfirði er farið upp Aðalbólsheiði, frá Dæli í Víðidal er farið upp Víðidalstunguheiði, frá Haukagili í Vatnsdal er farið upp Haukagilsheiði og frá Grímstungu í Vatnsdal er farið upp Grímstunguheiði á Stórasand. Fjórar síðastnefndu heiðarnar liggja að Arnarvatnsheiði að suðvestan og Skagfirðingavegi að suðaustan.

Við Miðfjarðarrétt sæta hestamenn stundum áreiti bóndans á Brekkulæk, sem telur sig eiga réttina og reiðleiðir í Húnaþingi.

Förum frá Stað upp fyrir tún og síðan norður með þjóðvegi 1 einn kílómetra. Áður en við komum að Brandagili snúum við til austurs eftir jeppaslóð yfir Hrútafjarðarháls, norðan og austan við Hólmavatn og síðan suðaustur niður að Húki í Miðfirði. Þaðan förum við með þjóðvegi 705 norður Vesturdal og síðan austur yfir þjóðveg 704. Svo með Miðfjarðará um Miðfjarðarrétt og norður fyrir Brekkulæk og síðan norðaustur á þjóðveg 704 handan dalsins. Með þjóðveginum förum við tvo kílómetra til norðurs og síðan með þjóðvegi 714 yfir í Fitjárdal. Gamla leiðin úr Miðfirði í Fitjárdal er aðeins sunnar, frá Bjargshóli austur í Finnmörk. Í Fitjárdal förum við til norðurs eftir sama vegi, en beygjum til suðausturs eftir Króksvegi til Valdaráss. Þar förum við norður með Víðidalsá og yfir ána að vegi 715 sunnan við Stóru-Ásgeirsá. Þann veg förum við suður að Dæli í Víðidal, þar sem er bændagisting.

52,7 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur, Tvídægra, Finnmörk, Víðidalstunguheiði.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Hrútafjarðarháls

Frá Þóroddsstöðum í Hrútafirði að Stafalæk í Vesturdal.

Förum frá Þóroddsstöðum norðaustur yfir Sandhólahraun, sunnan við Grensvatn, um Hest, á leið 704 við Stafalæk.

12,1 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Húnaþing.
Nálægar leiðir: Geitland, Finnmörk.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hrútafjarðará

Ýmis vöð á Hrútafjarðará.

Vaðið á Hrútafjarðará vestan við Stað í Hrútafirði, við botn fjarðarins, var löngum samgöngumiðstöð. Þangað liggja leiðir að sunnan um Holtavörðuheiði og að vestan um Haukadalsskarð og Sölvamannagötur. Áfram liggja svo austur leiðir um Hrútafjarðarháls og síðan vestur um Húnaþing eða suður Tvídægru. Frásögnin hér að neðan af ferðum vígamanna í desember 1943, sýnir, að oft lögðu menn hart að sér í samskiptum við náttúruöflin. Samanber líka ferð Kolbeins unga Arnórssonar með mikinn her um Núpdælagötur og Tvídægru í nóvemberlok árið áður.

“En er þeir Ásbjörn [Guðmundsson] komu til Staðar í Hrútafjörð var flæður sævar. Var þá eigi reitt yfir vaðal. Var fjörðurinn eigi ruddur af ísum, en árnar ófærar hið næsta. Biðu þeir þar lengi um daginn fjörunnar. En er á tók líða daginn vildu þeir fyrir hvern mun vestur yfir ána, því að þeim þótt eigi örvænt nema eftir þeim mundi riðið … Ríða þeir nú upp með ánni og finna hvergi þar er þeim þætti yfir fært. Ásbjörn eggjaði, að þeir skyldu á ríða og kallaði þá raga og kvað ekki áræði með þeim … En er þeim voru minnst vonir hleypti Ásbjörn út á ána, en hesturinn missti þegar fótanna og rak þegar í kaf hvort tveggja … Drukknaði Ásbjörn þar og fannst eigi fyrr en um vorið eftir.”

4,4 km
Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Holtavörðuheiði, Sölvamannagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Hraungarður

Frá Bugaskála við Aðalmannsvatn á Eyvindarstaðaheiði suður um Hraungarða í Fossabrekkur.

Jeppafær slóð um eyðilegt land, hraun og sanda og urðarhryggi, síðari hlutinn í um 700 metra hæð.

Förum frá Bugaskála í 570 metra hæð til suðurs austan Hanzkafella, suður um Brunabrekkur og vestan við Bugahæð að Ytra-Skiptafelli austanverðu. Fjórum kílómetrum sunnan fellsins skiptist leiðin. Fossakvíslarleið liggur til austurs, en við förum áfram suður Haugahraun í Hraungarða. Við förum til suðurs vestan við Hraungarðshaus. Tveimur kílómetrum sunnan hans beygjum við til austurs í Fossabrekkur, þar sem slóðin endar í 700 metra hæð.

32,9 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Gilhagadalur, Fossakvísl, Skiptamelur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hraungarðar

Frá Haukagilsheiðarvegi um Víðidalstunguheiðarveg og Aðalbólshálsleið að Suðurmannasandfellsleið.

Heiðavegirnir á svæðinu eru þessir: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Hraungarðar eru jökulruðningur. Byrjum við Geirhildarlæk hjá Geirhildartjörn á Haukagilsheiði. Förum suður á Sjónarhól og þaðan suðvestur fyrir norðan Sjónarhólstjarnir að Hraungörðum, þar sem er leið um Víðidalstunguheiði norðan úr Víðidal. Áfram förum við suður að vegamótum leiðar vestur um Aðalbólsháls. Við förum áfram suður yfir Haugakvísl að leiðinni um Suðurmannasandfell.

11,6 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Víðidalstunguheiði, Aðalbólsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Hópið

Frá Stóru-Borg í Hópi að Blönduósi.

Þessa leið má aðeins ríða undir leiðsögn staðkunnugra, enda verður að sæta sjávarföllum á vaðinu. Sögufræg leið á löngum grynningum yfir Hópið milli Myrkurbjarga og Vonarlands. Flóðs og fjöru gætir í Hópi, sem er fimmta í röðinni af stærstu vötnum landsins. Í svörtum Þingeyrasandi eru víða gróðurflesjur. Þar eru ýmsar reiðleiðir umhverfis hið forna höfuðból Þingeyrar, eina þekktustu jörð landsins. Þar var öldum saman klaustur og bókagerðarsetur. Þekktur hestamaður, Jón Ásgeirsson, bjó á Þingeyrum upp úr 1900. Sonur hans, Ásgeir Jónsson frá Gottorp, skrifaði í bókunum Horfnum góðhestum af föður sínum og hestum hans margar hestasögur, sem gerðust á Þingeyrasandi og nágrenni.

Förum frá Stóru-Borg norður með þjóðvegi 717. Þar sem sá vegur beygir til vesturs, förum við beint áfram norður og að baki Ásbjarnarness niður að Hópi. Við förum norður með vatninu vestanverðu, framhjá eyðibýlinu Ásgarði og að Vaðhvammi undir Myrkurbjörgum, þar sem við förum yfir Hópið til norðausturs á löngu vaði yfir að Vonarlandi. Síðan förum við Þingeyrarsand til austurs að eyðibýlinu Geirastöðum og þaðan norður að vaðinu á Húnavatni, um einn kílómetra norðan við Akur. Þar förum við yfir um og síðan meðfram vatninu til norðurs um Brandanes og þaðan norðvestur að Húnsstöðum. Þaðan förum við yfir þjóðveg 1 og áfram á veiðivegi upp með Laxá í Ásum, vestan og norðan við Holtsbungu. Við komum að þjóðvegi 731 og beygjum með honum til norðvesturs að Kleifum við Blönduós.

32,5 km
Húnavatnssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Borgarvirki.
Nálægar leiðir: Húnavað.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson