Húnavatnssýslur

Heylækur

Frá Mallandi á Skaga um Heylæk að Aravatnsleið.

Ísbirna með tvo húna gekk á land á Skaga árið 2008. Einn björninn hafðist við um skeið í Mallandsskarði, en var skotinn af byssuglöðum eftirlitsaðilum, þegar hann hugðist synda út á sjó.

Byrjum á þjóðvegi 745 við Malland á Skaga. Förum vestsuðvestur eftir jeppaslóð um Heylæk og norðan Selvatns. Síðan til vestnorðvesturs fyrir norðan Rangártjarnir og næst vestsuðvestur að Aravatnsleið milli Hrauns á Skaga og Ketubrunaleiðar milli Keldulands í Húnaþingi og Ketu á Skaga.

6,6 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Jeppafært

Nálægar leiðir: Ketubruni, Aravatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Heggstaðir

Frá þjóðvegi 702 eftir Heggstaðanesi austanverðu að Heggstöðum.

Byrjum hjá þjóðvegi 702. Förum norður eftir Heggstaðanesi austanverðu að Heggstöðum.

9,5 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Bálkastaðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Haukagilsheiði

Frá Haukagili í Vatnsdal að Álkuskála á Grímstunguheiði.

Öldum saman ein mest farna heiðin í Húnaþingi, er farið var suður á Arnarvatnsheiði. Skemmtileg og fjölbreytt reiðleið um land, sem að mestu er gróið, dæmigerð heiði. Rétt austar liggur Grímstunguheiði upp á Stórasand, einnig til Arnarvatns. Vestar liggur Víðidalstunguheiði, sem sameinast þessari leið fyrir norðan Suðurmannasandfell. Vestar er Aðalbólsheiði, þar sem slóðin endar einnig við Arnarvatn. Enn vestar eru svo Núpdælagötur, sem liggja úr Núpsdal að Úlfsvatni og síðan að Norðlingafljóti. Allra vestast er Tvídægra, sem liggur yfir Sléttafell að efstu bæjum í Hvítársíðu og Þverárhlíð. Sú heiði er næst Holtavörðuheiði.

Förum frá Haukagili suður og á ská upp fjallshlíðina, bratt en greiðfært, og suður með Álkugili. Síðan áfram til suðurs yfir Stekkjarlæk og Grafargil, um eyðibýlið Gilhaga. Nokkru sunnar förum við ofan í gilið, þar sem það er orðið að grunnum dal. Þrístapi er á vestari hlið og Skúti á austari hlið. Þar norðan undir er eyðibýlið Skútabær. Slóðin liggur beint suður, um Fossvelli, austan Geirhildartjarnar, sveigir síðan aðeins til suðsuðausturs um Lambatungur, alltaf meðfram Álku / Álftaskálará. Síðan áfram suður vestan við Lambalækjartjarnir að Álkuskála.

24,1 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Álkuskáli: N65 08.824 W20 08.677.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Grímstunguheiði, Hraungarðar, Aðalbólsháls.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson

Haugakvísl

Frá Ströngukvíslarskála að Galtarárskála.

Leiðin liggur um þurrt mólendi. Hin ljóðfræga Galtará er fremur vatnslítil bergvatnsá á Eyvindarstaðaheiði, kemur upp í Galtarárdrögum og fellur í Blöndu. Fræg af kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalokum: “Greiddi ég þér lokka / við Galtará / vel og vandlega; / brosa blómvarir, / blika sjónstjörnur, / roðnar heitur hlýr.” Við ána hafði hann náttstað. Ekki er vitað, hvar Jónas greiddi lokka ástmeyjar sinnar, en ætla má að áningarstaðurinn hafi verið þar sem reiðslóðin Skagfirðingavegur liggur yfir Galtarárdrög, nokkru sunnan núverandi fjallaskála og jeppavegar. Að mestu er farið um þurrt land ofan gróðurlendis Húnavatnssýslu. Ef farin er reiðleiðin, eiga engir jeppar að geta verið þar á ferð. Vékelshaugar heita eftir Vékeli landnámsmanni á Mælifelli, sem fór þangað í landaleit.

Förum frá Ströngukvíslarskála í 540 metra hæð meðfram heimreiðinni frá skálanum að hinum gamla Kjalvegi norður í Skagafjörð. Rétt áður en við komum að jeppaslóðinni yfir að Galtará förum við reiðslóðina til norðurs um Álfgeirstungur. Við förum vestan við Þúfnavatn, yfir Haugakvísl og um Vékelshauga. Þegar við komum að Galtará, erum við komin í Galtarárdrög, á þann stað, þar sem Jónas Hallgrímsson hafði náttstað og greiddi lokka ástmeyjar við Galtará. Héðan förum við norður af slóðinni meðfram vatnslítilli ánni, förum austan við Blönduvatnshæð og vestan við Syðra- og Ytra-Hanzkafell. Komum að skálanum við Galtará í 490 metra hæð, þar sem við mætum jeppaveginum rétt hjá Langaflóa í Blöndulóni.

23,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.

Nálægir ferlar: Guðlaugstungur, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Skiptamelur, Stífluvegur, Fossaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hanzkafell

Frá Seyðisárbrú á Kjalvegi um Hanzkafell að fjallaskálanum Áfanga við Blöndulón.

Leiðin liggur samsíða Kjalvegi nokkru vestar, vestan Hanzkafells og Sandkúlufells. Hún er meginleið hestamanna af Kili norður í Húnavatnssýslur. Við brúna á Seyðisá greinist Kjalvegur í tvennt, þessa vestari leið í Húnavatnssýslur og austari leið í Skagafjörð.

Byrjum við þjóðveg 35 á vegamótum Áfangaleiðar og Stífluvegar við norðvesturhorn Blöndulóns. Förum til suðurs vestan við Blöndulón og Áfangafell að skálanum Áfanga sunnan undir fellinu. Síðan áfram til suðurs vestan við þjóðveginn F35 og vestan Sauðafells. Síðan suður að Hanzkafelli og vestan þess suður að vestanverðu Sandkúlufelli. Meðfram því að vestanverðu og síðan suðaustur að þjóðvegi F35 norðan við brúna á Seyðisá. Þar liggur hinn gamli Kjalvegur milli fjallaskálanna á Hveravöllum og við Ströngukvísl.

28,2 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Áfangi: N65 08.951 W19 43.744.

Nálægir ferlar: Sandkúlufell, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Skagfirðingavegur, Áfangafell, Blönduvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hallárdalur

Frá Vindhæli í Húnaþingi um Skaga til Skíðastaða í Skagafirði.

Konrad Maurer reið dalinn frá Skagafirði til Húnaflóa árið 1858. Lýsir myndarlegum býlum í dalnum, sem nú eru öll í eyði, Þverá, Bergsstaðir, Sæunnarstaðir, Vakursstaðir og Bláland. Lýsir votlendi, þegar vestar dregur í dalnum, og forarmýrum: “Eitt sinn sökk Faxi minn upp í kvið og ég varð að snara mér að baki og það var ekki meira en svo, að grassvörðurinn héldi mér. Með hjálp Ólafs tókst að losa klárinn …”.

Förum frá Vindhæli austur Hallárdal. Til austurs sunnan við Bæjarfell, Hrossafell og Réttarfell í 220 metra hæð milli Réttarfells og Sandfells. Frá Sandfelli förum við austur á brún Laxárdals og síðast norðaustur og niður brekkurnar á þjóðveg 745 norðan Skíðastaða.

19,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Bjarnarfell, Vatnaöxl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gyltuskarð

Frá Litla-Vatnsskarðsleið sunnan Víðidals um Gyltuskarð að Reynistaðarrétt í Skagafirði.

Bratt er úr Víðidal upp í Gyltuskarð, sem er vinalegt og vel gróið, þrátt fyrir hæðina. Bugðóttur slóðinn liggur um Staðarsel, gamalt sel frá Reynistaðarklaustri. Mikið útsýni yfir Skagafjörð er af austurbrún skarðsins sunnan Staðaraxlar.

Byrjum á Litla-Vatnsskarðsleið sunnan við Víðidal og norðan við Þúfnavelli. Sú leið liggur frá Refsstöðum í Laxárdal til Sauðárkróks. Förum skáhallt norðnorðaustur fjallið upp í Gyltuskarð í 470 metra hæð. Síðan austur eftir skarðinu sunnan undir Stakkfelli og Staðaröxl. Að lokum austur sneiðinga um brekkurnar niður að Reynistaðarrétt.

13,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Þúfnavellir: N65 38.330 W19 49.480.

Nálægar leiðir: Litla-Vatnsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Guðlaugstungur

Frá Hveravöllum að Ströngukvíslarskála.

Gamla leiðin um sæmilega gróna víðáttu Eyvindarstaðaheiðar milli Hveravalla á Kili og Skagafjarðar er fjölfarin nú sem endranær. Fyrirtæki í hestaferðum nota þessa leið mikið. Á sumrin fara hér nokkrir hópar með erlenda ferðamenn og stóran hrossarekstur nokkrum sinnum í viku. Farið er um grónar tungur og um vöð á helztu kvíslum Blöndu, einni af annarri. Hér skiptast á mýrar og velgrónir móar, notalegt afréttarland. Sums staðar eru flár með kargaþýfi og voldugum þúfnarústum. Reiðvegurinn liggur um móa, er þurr og vel fær. Hann er einnig notaður af jeppum.

Förum frá Hveravöllum í 640 metra hæð vestur og norður með hestagirðingunni eftir greinilegri slóð, sem liggur nánast hánorður alla leiðina. Við förum yfir þjóðveg 35 hjá brúnni yfir Seyðisá, í 570 metra hæð. Höldum áfram reiðslóðina norður með ánni að austanverðu. Komum að ströngu og stórgrýttu vaði á meginkvísl Blöndu. Síðan áfram norður yfir þægilega Svörtukvísl og Herjólfslæk og loks að vatnsmeiri Ströngukvísl. Leiðin liggur um Biskupstungur, Svörtutungur og Guðlaugstungur. Loks er hægt að fylgja jeppaslóðinni, fara yfir Ströngukvísl á brú og fylgja þaðan heimreið að Ströngukvíslarskála. Eða beygja á Draughálsi til austurs eftir slóð að vaði yfir kvíslina neðan við Ströngukvíslarskála. Hér er myndarlegur skáli í 540 metra hæð, með góðri gistingu. Við erum komin í Ásgeirstungur.

25,2 km
Húnavatnssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Hveravellir: N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.
Strangakvísl: N65 01.958 W19 25.899.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þjófadalir, Stélbrattur, Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar, Hanzkafell, Krákur, Skiptamelur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grímstunguheiði 2

Frá Grímstungu í Vatnsdal um Grímstunguheiði að Arnarvatni.

Þorgils skarði og Sturla Þórðarson sendu framvarðarsveit á undan sér um Grímstunguheiði, þegar þeir fóru að Ásgrími Þorsteinssyni í Hvammi í Vatnsdal árið 1255. “Þeir höfðu hestakost lítinn og fórst þeim seint; en þeir Bergur riðu ákaft norður eftir heiðinni og gátu tekið njósnarmenn Nikuláss hjá Grímstungumannaseljum; voru þeir þegar bundnir og barðir mjög.” Þessi heiði var á Sturlungaöld sjaldnar farin til Vatnsdals en Haukagilsheiði, sem er næst fyrir vestan hana. Báðar höfðu þann kost, að þær lágu ekki um byggðir, svo að minni líkur voru á, að njósn bærist þeim, sem riðið var að.

Förum frá Grímstungu beint suður Tunguna á Grímstunguheiði og suðsuðaustur um Hestás og Sílvatnsás. Síðan vestan við Sílvatn og Austara-Gilsvatn og suður Illaflóa. Þar förum við austan við Þórarinsvatn og vestan við Svínavatn, síðan til suðsuðausturs austan við Gedduvatn og vestan við Galtarvatn að vegamótum. Áfram suður um Birnuhöfða, yfir Bríkarkvíslardrög og suður á Grettishæð í 760 metra hæð. Þar komum við að Skagfirðingavegi yfir Stórasand. Við beygjum til suðvesturs eftir þeirri slóð um sandinn. Förum fyrst norðan og vestan við Grettishæðarvatn. Til vestsuðvesturs um Beinakerlingu og Ólafsvörður fyrir norðan Bláfell. Síðan áfram yfir á Grettistanga við Arnarvatn og síðan suðvestur yfir Skammá, sem rennur milli Réttarvatns og Arnarvatns í 540 metra hæð. Frá Skammá er stutt í fjallaskálann Hnúabak norðvestan Arnarvatns.

24,8 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Öldumóða, Forsæludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grímstunguheiði 1

Frá Grímstungu í Vatnsdal að Öldumóðuskála.

Þorgils skarði og Sturla Þórðarson sendu framvarðarsveit á undan sér um Grímstunguheiði, þegar þeir fóru að Ásgrími Þorsteinssyni í Hvammi í Vatnsdal árið 1255. “Þeir höfðu hestakost lítinn og fórst þeim seint; en þeir Bergur riðu ákaft norður eftir heiðinni og gátu tekið njósnarmenn Nikuláss hjá Grímstungumannaseljum; voru þeir þegar bundnir og barðir mjög.” Þessi heiði var á Sturlungaöld sjaldnar farin til Vatnsdals en Haukagilsheiði, sem er næst fyrir vestan hana. Báðar höfðu þann kost, að þær lágu ekki um byggðir, svo að minni líkur voru á, að njósn bærist þeim, sem riðið var að.

Förum frá Grímstungu beint suður Tunguna á Grímstunguheiði og suðsuðaustur um Hestás og Sílvatnsás. Síðan til suðurs vestan við Sílvatn og Austara-Gilsvatn og suður Illaflóa. Þar förum við austan við Þórarinsvatn og vestan við Svínavatn, síðan til suðsuðausturs austan við Gedduvatn og vestan við Galtarvatn að vegamótum. Þar er slóði um þrjá kílómetra austur í fjallakofann í Öldumóðu.

24,8 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Öldumóða, Forsæludalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grettishæð

Frá Öldumóðuskála að Grettishæðarvatni.

Förum suður frá Öldumóðuskála að Grettishæð og Grettishæðarvatni á Skagfirðingavegi.

17,3 km
Húnavatnssýslur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gilsárvatn

Frá Friðmundarvatnsleið norðan Deildartjarnar um Gilsárvatn að Kjalvegi sunnan orkuversins við Blöndu.

Þetta er gömul reiðleið, stundum kölluð Bugsvegur. Vestan við hana er leiðin um Úlfkelshöfða. Saman eru þessar leiðir gömul þjóðleið milli Vatnsdals og Blöndudals.

Byrjum á Friðmundarvatnsleið frá Blöndulóni að Svínadal. Förum frá norðanverðri Deildartjörn norður yfir Ásendalæk og síðan áfram norður milli Ásendatjarnar að vestan og Gilsárvatns að austan. Um 3 km norðan Gilsárvatns beygjum við til austsuðausturs að þjóðvegi F35.

11,5 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Friðmundarvatn, Öldumóða, Úlfkelshöfði, Stóradalsháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbók FÍ

Gilhagadalur

Frá Bugaskála við Aðalmannsvatn á Eyvindarstaðaheiði að Gilhaga í Skagafirði.

Eiríkur landnámsmaður í Goðdölum sendi Rönguð þræl á fjall í landaleit. Rönguður fór Gilhagadal og síðan um Blönduvöð á Kjöl. Hann fór suður Kjöl og fann í leirflagi fótspor að sunnan. Þar hlóð hann Rangaðarvörðu, sem fyrir löngu er týnd.

Dalurinn er oft talinn austasti hluti Skagfirðingavegar, sem lá um heiðar Húnavatnssýslu til Borgarfjarðar. Mælifellsdalur, sem er aðeins norðar, er hins vegar oft talinn austasti hluti Kjalvegar. Vegirnir mættust á þeim slóðum, þar sem nú er fjallaskáli við Galtará.

Förum frá Bugaskála til austurs fyrir sunnan vatnið, norðaustur yfir Háheiði og austur fyrir Vatnsfell. Síðan norður og niður í Vatnsfellsflóa í Gilhagadal, um hlíðina austan flóans og fram dalinn til norðurs, yfir Gljúfurá í gili og norðaustur og niður að Gilhaga í Skagafirði við veg 752.

23,2 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellsdalur, Eyvindarstaðaheiði.
Nálægar leiðir: Hraungarður, Fossakvísl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Geitland

Frá Bergsstöðum í Miðfirði um eyðibýlið Geitland til Sporðshúsa í Víðidal.

Förum frá Bergsstöðum norðaustur um eyðibýlið Geitland, sunnan Miðfjarðarvatns, að þjóðvegi 1 vestan eyðibýlisins Sporðshúsa í Víðidal.

7,6 km Húnavatnssýslur

Nálægir ferlar: Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hrútafjarðarháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Geitaskarð

Frá Geitaskarði í Langadal um Geitaskarð í Laxárdal.

Upp frá Geitaskarði er um 300 metra brekka upp í skarðið. Eyðibýlið Skarðssel eða Holtstaðasel er í miðju skarðinu. Geitaskarð hefur verið stórbýli frá fornu fari. Þar hafa búið tólf sýslumenn.

Förum frá Geitaskarði norðaustur upp í Geitaskarð í 380 metra hæð og síðan norðaustur um skarðið til Laxárdals.

7,8 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Kirkjuskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort