Húnavatnssýslur

Auðólfsstaðaskarð

Frá Auðólfsstöðum í Langadal um Auðólfsstaðaskarð að Gautsdal í Laxárdal.

Skarðið er lágt og fljótfarið. Í miðju skarðinu eru tóftir Hávarðsstaða. Norðar er Gautshóll, þar sem landnámsmaðurinn Gautur hinn einhenti á að vera heygður. Laxárdalur var fyrrum fjölbýl sveit, en er nú allur kominn í eyði.

Förum frá Auðólfsstöðum í Langadal norðaustur jeppaveg um Auðólfsstaðaskarð að eyðibýlinu Gautsdal í Laxárdal. Þar er leið norður-suður um Laxárdal.

4,0 km
Húnavatnssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Laxárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Arnarvatnsheiði

Frá Fellaskála á Haukagilsheiði um Arnarvatn í Álftakrók á Arnarvatnsheiði.

Sjá líka greinar um aðrar heiðar á svæðinu: Norðlingafljót, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Stórisandur, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög.

Borgfirðingar riðu þessa leið til Örlygsstaðabardaga 1238. Þórður kakali reið heiðina 1243 í hefndarferð fyrir víg föður síns og bræðra í Örlygsstaðabardaga. Þorgils skarði Böðvarsson fór hana 1253 á leið frá Hólum í Hjaltadal til Skálholts. Árið 1255 reið hann enn um heiðina í aðför að Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni og Hrafni Oddssyni á Þverárfundi.

Förum frá Fellaskála við Kolgrímsvötn sunnan Suðurmanna-Sandfells, í 590 metra hæð. Fylgjum jeppaslóð til suðurs vestan við Fossabrekkur, unz við komum hjá Grettishöfða að jeppaslóð yfir Stórasand. Förum þá slóð til suðvesturs að Skammá, sem rennur úr Réttarvatni í Arnarvatn, í 540 metra hæð. Förum suðvestur yfir ána og síðan suður fyrir Arnarvatn. Þar förum við af nyrðri slóðinni um Arnarvatnsheiði yfir á syðri slóðina, um Arnarvatnshæðir. Ferillinn sýnir þá millileið um fimm kílómetrum vestan við Skammá. Betra er samt að fara yfir á syðri slóðina í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá Skammá. Beygjum til suðvesturs eftir syðri slóðinni og fylgjum henni áfram suðvestur um Mordísarhæð. Förum suðaustan við Mordísarvatn að skálanum í Álftakróki í 480 metra hæð.

26,0 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Fellaskáli: N65 02.510 W20 17.340.
Álftakrókur: N64 53.274 W20 26.388.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Norðlingafljót, Fljótsdrög.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Aðalbólsheiði

Frá byggð í Núpsdal í Miðfirði suður að Arnarvatni.

Sú vestasta af jeppafærum heiðum milli Holtavörðuheiðar að vestan og Kjalvegar að austan. Vestar liggja Tvídægra og Núpdælagötur. Þær eru blautar og lítið farnar nú á tímum, því að gert hefur verið jeppafært suður hinar heiðarnar. Allt þetta svæði er þakið tjörnum og flóum og illfærum mýrum.

Kolbeinn ungi Arnórsson reið Núpdælagötur í nóvemberlok 1242 með lið sitt í fyrirsát að Þórði kakala Sighvatssyni í Borgarfirði. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Komust þeir hraktir niður í Hvítársíðu og yfir Hvítá í Reykholt.

Byrjum í Núpsdal í Miðfirði, þar sem þjóðvegur 704 mætir vegi inn í Austurárdal sunnan við eyðibýlið Barkarstaði og norðan við Núpsdalstungu. Fylgjum veginum suður Austurárdal að Aðalbóli og síðan áfram jeppaslóð suður heiðina. Komum að eyðibýlinu Aðalbreið í dalbotninum og förum þar upp með gjúfri Austurár, síðan yfir ána og vestan við Tungukoll í 480 metra hæð. Förum norðan og austan við Hólmavatn og síðan vestan við Nyrðri-Stórhól. Sunnan hans sveigir vegurinn frá suðri til suðausturs, framhjá afleggjara til suðurs að fjallaskálanum Lónaborg. Við höldum áfram norðan við Austur-Grandalón og komum brátt að norðvesturhorni Arnarvatns. Þar í 540 metra hæð er skálinn Hnúabak, sem heitir eftir hæð norðan vatnsins. Frá skálanum er síðan stutt leið með Arnarvatni vestanverðu og austan við Svartarhæð að Norðlingafljóti og þjóðleiðinni yfir Arnarvatnheiði.

40,0 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.
Lónaborg: N64 57.560 W20 26.720.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Suðurmannasandfell.
Nálægar leiðir: Aðalbólsháls, Steinheiði, Fljótsdrög, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Aðalbólsháls

Frá fjallaskálanum Mönguhóli að Aðalbóli í Austurárdal.

Aðalbólsháls var lengi torleiði hið mesta. Allt þetta svæði er þakið tjörnum og flóum og illfærum mýrum. Þetta er dráttarvélaslóð, sem liggur ekki alveg á sama stað og gamla reiðleiðin, sem lá mest um ófærur í mýrum.

Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli segir svo í árbók FÍ 1962: “Í þá daga höfðu menn með sér reipi með lipurri högld á endanum, þegar farið var í smalamennsku og útreiðar. Þetta reipi var notað, þegar hrossin lágu í og gátu ekki losað sig. Því var brugðið utan um háls hrossins og dregið í högldina og togað í eins og afl mannsins leyfði. Þegar herti að hálsinum og hesturinn ætlaði að kafna, neytti hann allra krafta til að komast upp, og þetta dugði oft vel. Þetta hét að hengja hest upp úr feni.” Í bókinni segir hann frá svaðilför sinni á þessari leið, þegar hann missti margsinnis hestana niður í fenin á heiðunum milli Grímstungu og Aðalbóls.

Byrjum tveim kílómetrum sunnan við vegamót Víðidalstunguheiðar og Haukagilsheiðar, rétt sunnan Haugakvíslar. Við förum skamma leið suður og suðvestur að fjallaskálanum við Haugakvísl. Þaðan vestur að fjallaskálanum Bleikskvísl við Víðidalsá. Síðan liggur leið okkar suður að vötnunum Fimmmenningum. Þar endar dráttarvélaslóðin. Svo vestur um Aðalbólsháls til Aðalbóls í Austurárdal í Miðfjarðardölum.

23,6 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Haugakvísl: N65 08.719 W20 18.565.
Bleikskvísl: N65 09.400 W20 26.575
Mönguhóll: N65 09.149 W20 33.226

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Aðalbólsheiði.
Nálægar leiðir: Hraungarðar,Víðidalstunguheiði, Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort