Norður-Múlasýsla

Sótaskarð

Frá Langadal við Svartfell um Sótaskarð að Víðidal.

Fornbýlið Sótastaðir var suðvestur af skarðinu. Þar hafa fundizt beitarhúsatættur, en öll landgæði eru horfin í sandblæstri.

Byrjum hjá Jökuldalsheiðarvegi, þjóðvegi 1 hjá Langadal við Svartfell. Förum norðvestur um gilið austan Sandfells, síðan vestnorðvestur sandinn norðan við Farvegsöldu. Loks um Sótaskarð í Víðidalsfjöllum í 600 metra hæð, á þjóðveg 1 í Víðidal.

11,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Leiðaskarð, Byttuskarð, Vopnafjörður, Skjöldólfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Snæfell

Frá Kárahnjúkavegi vestan Glúmsstaðadals um Vesturöræfi og Snæfell í Hátungu við Eyjabakkajökul.

Vesturöræfi eru víðáttumikið votlendi í um og yfir 600 metra hæð, kjörlendi hreindýra. Snæfell er með hæstu fjöllum landsins með óviðjafnanlegu útsýni, 1833 metra hátt. Stíf gönguleið er frá Snæfellsskála á fjallið.

Byrjum við Kárahnjúkaleið rétt vestan Glúmsstaðadals. Við förum til suðvesturs fyrir austan Glúmsstaðadalsá og áfram suðsuðvestur um Vesturöræfi að fjallaskálanum Sauðakofa vestan við Kofaöldu. Síðan til austsuðausturs norðan Sauðahnjúka að Snæfellsskála vestan Snæfells. Þaðan til suðurs fyrir austan Fitjahnjúk og fyrir vestan Þjófahnjúka. Síðan suður á Hátungu.

38,8 km
Austfirðir

Skálar:
Sauðakofi: N64 49.632 W15 47.914.
Snæfell: N64 48.233 W15 38.569.

Nálægar leiðir: Vesturöræfi, Kárahnjúkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Smjörvatnsheiði

Frá Fossvöllum í Jökulsárhlíð að Sunnudal í Vopnafirði.

Leiðin er að mestu leyti vörðuð.

Þekktasti og lengi mest notaði fjallvegurinn milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar. Hann er töluvert langur, tvær þingmannaleiðir. Um hann var lögð vísa í Beinavörðu: “En sá heiðarandskoti / ekki strá né kvikindi, / en hundrað milljón helvíti / af hnullungum og stórgrýti.” Í sóknarlýsingu segir: “Vegurinn er grýttur og allillur yfirferðar, sæmilega varðaður.” Um 20 km af leiðinni eru ofar 600 metrunum. Á Fossvöllum bjó landnámsmaðurinn Þorsteinn torfi. Bærinn er rétt hjá brúnni á Jökulsá á Dal. Á Fossvöllum voru manntalsþing og alþingiskosningar. Á Hrafnabjörgum hafa fundizt leifar af hofi og blóthringur.

Förum frá Fossvöllum vestur á fjallið sunnan við Laxá milli Hrafnabjarga að norðan og Keldudalshæðar á sunnan. Síðan áfram vestur að Fossá, yfir hana og með henni að austanverðu upp Biskupsbrekku að Kaldárhöfða. Þar byrja vörðurnar. Síðan sunnan við höfðann og norðan við Laxárdalshnjúk til vesturs að Fjórðungsvörðu í 710 metra hæð. Nokkru vestar komum við að Beinavörðu og síðan að sæluhúsi á Vöðlum á Smjörvatnsheiði. Þar eru Smjörvötn framundan og við sveigjum til norðurs fyrir austan vötnin. Förum síðan norður og niður Þrívörðuháls, Langahrygg og Tungufell. Og loks um Kisulág að Guðmundarstöðum eða Sunnudal.

35,6 km
Austfirðir

Skálar:
Smjörvatnsheiði: N65 30.096 W14 52.725.
Vaðlabúð: N65 30.288 W14 53.224.

Nálægar leiðir: Hofteigsalda, Sauðahryggur, Lambadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skógaháls

Frá Grágæsadalsleið um Skógaháls við Hálslón á Gæsavatnaleið.

Af slóðinni er stutt að fara að Hafrahvammagljúfri, hrikalegasta gljúfri Íslands. Gljúfrið er 160 metra djúpt og afar þröngt, um tíu kílómetra langt og dýpst við Ytri-Kárahnjúka.

Förum frá Reykjará á Gæsavatnaleið gegnt Múla og höldum suður á Skógaháls og eftir honum endilöngum. Síðan suðvestur Lambafjöll í 780 metra hæð, suður af þeim og suðvestur á Gæsavatnaleið nálægt Háumýrum.

21,9 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skjöldólfur

Frá Skjöldólfsstöðum í Jökuldal um Gestreiðarstaði á þjóðveg 1 í Langadal.

Eyðibýlið Gestreiðarstaðir er örskammt sunnan leiðarinnar, langþráður viðkomustaðir í hrakviðrum eyðimerkurinnar milli Skjöldólfsstaða í Jökuldal og Grímsstaða á Fjöllum. Nafnið Gestreiðarstaðir bendir til, að gestkvæmt hafi verið þar af ferðamönnum í fyrri tíð. Það er talið vera fornbýli. Frá Gestreiðarstöðum mátti komast af þessari leið vetur um Gestreiðarskarð til Möðrudals á Jökuldalsheiði. Einnig var skjól að hafa í gamla daga á Háreksstöðum, þar sem nú er fjallakofi. Háreksstaðir voru áður heiðarbýli og eru líklega einnig fornbýli. Þar var mikill búskapur á 19. öld og margt manna er komið af því fólki, bæði hér á landi og í Vesturheimi.

Förum frá Skjöldólfsstöðum norðnorðvestur upp með Garðá að vestanverðu á Skjöldólfsstaðaheiði. Síðan til norðvesturs sunnan við Sandhæð og um Valgerðarhlaup. Sunnan við Hólmavatn og þvert yfir Skjaldklofaleið milli Vopnafjarðar og Jökuldals. Áfram til norðvesturs norðan við Reiðtjörn og Skipatjörn, yfir þjóðveg 1 hjá eyðibýlinu og fjallakofanum Háreksstöðum. Þaðan vestur hjá Náttmálavörðu, um Götutjarnir og yfir Gestreiðarstaðakvísl um eyðibýlið Gestreiðarstaði. Þaðan mátti komast af þessari leið vetur um Gestreiðarskarð til Möðrudals á Jökuldalsheiði. En við förum norðvestur um Fjárhól á þjóðveg 1 í Langadal.

28,5 km
Austfirðir

Skálar:
Hárekssstaðakofi: N65 24.336 W15 25.298.

Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Gestreiður, Vopnafjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skjaldklofi

Frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði um Skjaldklofa á Búðarhálsleið hjá Víðirhólum. Hliðarleið er niður að Skjöldólfsstöðum.

Oft kölluð Tunguheiði, algengasti vegurinn milli Héraðs og Vopnafjarðar fyrir daga bílsins. “Rösk dagleið, góður vegur og torfærulaus”, segir í gamalli lýsingu, ennfremur “timbri og þungavöru ekið á sleðum síðla vetrar eftir sléttri heiðinni.”

Förum frá Þorbrandsstöðum suður með Hofsá að austan að Tunguseli og upp í Tungukoll austanverðan. Síðan suður með Tunguá, austan við Geldingafell og vestan við Skálafell, Dritfell og Skjaldklofa. Sums staðar í 600 metra hæð. Suður yfir þjóðveg 1 og þjóðveg 901, austan við Lönguhlíð, suður á Búðarhálsleið milli Hnauss og Kiðufells, nálægt eyðibýlinu Víðirhólum.

46,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Geldingafellsskáli: N65 28.394 W15 17.807.

Nálægar leiðir: Sauðahryggur, Fríðufell, Hofsárdalur, Skjöldólfur, Gestreiður, Rangalón, Búðarháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Selárdalur

Frá vegi 85 í Vopnafirði við Selá að Þorvaldsstöðum í Selárdal.

Selárdalur eru allur í eyði utan Hróaldsstaðir yzt í dalnum, en hér voru mörg býli fyrr á öldum. Fremst voru Mælifell og Aðalból og utar í dalnum voru Þorvaldsstaðir og Hamar, Áslaugarstaðir og Leifsstaðir, Breiðamýri og Lýtingsstaðir.

Byrjum við þjóðveg 85 í Vopnafirði norðan við Selá. Förum eftir jeppavegi suðvestur með ánni að Þorvaldsstöðum í Selárdal.

18,5 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hágangar, Dragakofi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sauðahryggur

Frá Sunnuhlíð í Vopnafirði um Sauðahrygg á Skjaldklofaleið við Geldingafell.

Byrjum á þjóðvegi 919 í Vopnafirði. Förum heimreið suður að Sunnuhlíð og áfram suður Sunnudal vestan ár og vestur að Þverlæk undir Gullborg. Suðvestur yfir Bungu, milli Bunguvatna og upp á Sauðahrygg. Mest í 560 metra hæð. Áfram suðvestur á Skjaldklofaleið við norðausturhorn Geldingafells.

25,7 km
Austfirðir

Skálar:
Geldingafellsskáli: N65 28.394 W15 17.807.

Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Hofsárdalur, Fríðufell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sandaskörð

Frá Hjaltastað í Útmannasveit á Héraði að Hvannstóði í Borgarfirði eystra.

Algeng reiðleið milli Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar fyrir lagningu bílvegarins um Vatnsskarð. Um skarðið liggja raflína og gróf jeppaslóð.

Förum frá Hjaltastað suður Skógarás í Geitabjargadal. Þaðan austur um Ánastaði og Rauðulæki og yfir Bjarglandsá. Síðan til norðausturs fyrir Beinageitarfjall, um Innri-Sauðahraun og austur í Sandadal. Þaðan austur um Sandaskörð í 620 metra hæð. Áfram austur fyrir sunnan Tindfell, á jeppaslóð niður að Hólalandi og austur að Hvannstóði.

20,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tröllabotnar, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Rangalón

Frá Grjótgarðshálsi á Jökuldalsheiði um Rangalón í Botna á Jökuldalsheiði.

Rangalón er eyðibýli á heiðinni, þar sem fólk gisti oft á leiðinni milli Möðrudals og Jökuldals. Jörðin hafði góða silungsveiði í Sænautavatni.

Byrjum á fjallvegi F901 á Jökuldalsheiði sunnan Grjótgarðsháls. Förum sunnan vegar austur í Rangalón. Þaðan norðaustur yfir veginn í Bjallkolludal. Síðan austur um Botnahraun á fjallveg F901 austan Botna á Jökuldalsheiði.

10,2 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Sænautafell, Skjaldklofi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Norðdalsskarð

Frá Klyppstað í Loðmundarfirði um Norðdalsskarð að Hjartarstöðum í Eiðaþinghá.

Var löngum alfaravegur, en brekkurnar upp úr Loðmundarfirði eru torfærari en áður var. Tóarvegur er þekktari leið til Fljótsdalshéraðs og liggur sunnar í landinu, upp úr Bárðarstaðadal.

Förum frá Klyppstað vestur í Norðdal og síðan vestnorðvestur dalinn að Kolahrauni. Þar förum við norður og upp í dalbotninn og síðan vestur og upp í Mosdal. Þaðan vestsuðvestur í Norðdalsskarð norðan undir Norðdalshnjúk og beygjum til vesturs, þegar upp er komið. Þar erum við í 900 metra hæð. Förum vestur og vestnorðvestur í Botndal fyrir sunnan Botndalsfjall að Hjartarstöðum.

20,8 km
Austfirðir

Skálar:
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Nálægar leiðir: Tó, Loðmundarfjörður, Hjálmárdalsheiði, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Mígandagil

Frá Landsenda á Héraði um Hellisheiði, Fagradal og Mígandagil til Böðvarsdals í Vopnafirði.

Að hluta er þetta sama leið og bílvegurinn um Hellisheiði, sem fer úr Fönn vestur um Heiðarskarð og niður með Þýfislæk að Dallandi og Eyvindarstöðum í Vopnafirði. Sá vegur er með hæstu þjóðvegum landsins, 700 metra hár, en reiðleiðin um Fagradal er ekki nema 420 metra há, að vísu á tveimur stöðum. Hún var aldrei mikið farin, aðalleiðin var, þar sem bílvegurinn er núna. Einkum er hrikalegt að fara utan í fjallinu Búri.

Byrjum við þjóðveg 917 við Landsenda undir Landsendafjalli við Héraðsflóa. Þaðan liggur fjallvegurinn yfir Hellisheiði upp með Hellisá og upp á Fönn í 420 metra hæð. Þar liggur bílvegurinn til vesturs. Við förum af honum til norðurs með vesturjaðri Hellisheiðar niður í Fagradal, austan við Skinnagilshnjúk og Búr og vestan við Dýjafjall. Höldum okkur vestan við Fagradalsá og förum ekki alveg niður að sjó. Beygjum þvert til vesturs og förum hátt upp í illræmt einstigi um Búr upp í 420 metra hæð, yfir Mígandagil og niður að Böðvarsdal.

10,5 km
Austfirðir

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Blautamýri.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Miðgötumúli

Frá Brú á Jökulsárdal um Miðgötumúla að vegi F910 á Dyngjuhálsi.

Greiðasta leiðin milli Brúar á Jökuldal yfir fjallgarðana vestur að Grjótum við Jökulsá á Fjöllum og síðan norður í Möðrudal. Þetta er auðveldari en lengri leið en nyrðri leiðirnar tvær, Byttuskarð og Brattifjallgarður.

Förum frá Brú á Jökuldal norður þjóðveg F907 og beygjum á þjóðveg F910 til vesturs. Förum vestur yfir Fiskidalsháls, Fiskidal, sunnan Þríhyrnings og norðan Miðgötumúla, sunnan Þríhyrningsvatns og norðan Öskjufjallgarðs að vegi F910 á Dyngjuhálsi.

18,6 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Sænautasel, Grágæsadalur.
Nálægar leiðir: Aðalbólsheiði, Leiðaskarð, Byttuskarð, Hvannstóðsfjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miðfjarðarheiði

Fra Miðfirði um Miðfjarðarheiði að Hágangaleið.

Förum frá botni Miðfjarðar suður og suðsuðvestur á Miðfjarðartungu og síðan Miðfjarðarheiði. Þaðan suður að Djúpavatni vestanverðu. Nokkru sunnan þess eru vegamót við Hágangaleið úr Vopnafirði í Þistilfjörð.

16,1 km
Austfirðir

Skálar:
Miðfjarðarheiði: N65 54.467 W15 14.209.

Nálægar leiðir: Hágangar, Kverkártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Loðmundarfjörður

Frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra um Breiðuvík og Húsavík til Klyppstaðar í Loðmundarfirði.

Hér förum við um litskrúðugasta og eitt fegursta svæði landsins, um gróðursælar víkur og firði undir hvössum og litskrúðugum líparítfjöllum. Skrautlegastur er Hvítserkur úr ljósu flikrubergi. Hvítafjall er mikil ljósgrýtisdyngja. Loðmundarfjörður er einn elzti hluti landsins með bergtegundum, sem eru um tíu milljón ára gamlar. Við Breiðuvík er kennd hin sporöskjulagaða Breiðuvíkureldstöð, sem einkennist mikið af líparíti. Loðmundarfjörður og víkurnar norðan hans eru paradís jarðfræðinga. Þar eru einnig fágætar plöntur, svo sem skollakambur, þúsundblaðarós og þrílaufungur, bjöllulilja, baunagras og gullkollur. Svæðið er einn af Íslands mestu dýrgripum.

Förum frá þjóðveginum innan við Bakkagerði, þar sem hann liggur yfir brúna á Fjarðará. Þar liggur jeppaslóð til suðausturs á Þrándarhrygg. Við fylgjum henni að mestu leyti alla leið. Við höldum áfram suðaustur á Gagnheiði og förum þar í 470 metra hæð norðaustan við Marteinshnjúk. Leiðin liggur í sneiðingum upp í skarðið og úr því aftur niður í Breiðuvík. Þar er sæluhús. Förum síðan vestur dalinn upp með Víkurá, norður fyrir Hvítafjall og síðan með fjallinu að vestan. Þar förum við í sneiðingum upp á Víknaheiði og þar sunnan við Gæsavötn. Þar sveigir leiðin til suðurs og hækkar um Krossmela upp að Hvítserk að vestanverðu og síðan um Húsavíkurheiði suður fyrir fjallið, þar sem við náum 480 metra hæð. Förum austur og niður Vetrarbrekkur í Gunnhildardal, þar sem við höldum til suðurs og niður í Húsavík. Síðan austur að sjó að eyðibýlinu Húsavík. Förum svo aftur vestur dalinn að sæluhúsinu og höldum frá dalbotninum suður á Nesháls milli Nónfjalls að austan og Skælings að vestan. Þar náum við 440 metra hæð. Förum svo í sneiðingum niður í Loðmundarfjörð og förum þar vestur með ströndinni sunnan undir Grjótbrún og Stakkhömrum. Þegar komið er inn undir Stakkahlíð, sveigir vegurinn til suðurs og síðan aftur til vesturs að gistikofanum á Klyppstað.

39,3 km
Austfirðir

Skálar:
Breiðavík: N65 27.830 W13 40.286.
Húsavík: N65 23.716 W13 44.160.
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Kjólsvík, Norðdalsskarð, Tó, Hjálmárdalsheiði, Kækjuskörð, Dalsvarp, Dyrfjöll, Borgarnes, Kjólsvíkurvarp.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort