Norður-Múlasýsla

Gestreiður

Frá Skjaldklofaleið ofan Skjöldólfssstaða á Jökuldal að Ferjuhyl á Jökulsá á Fjöllum.

Fyrr á öldum var þetta höfuðleið Austfirðinga yfir Jökulsá og einnig síðar til Möðrudals. Löngum var þetta póstleið Austfirðinga um Möðrudal. Skammt er af leiðinni norður að eyðibýlinu Gestreiðarstöðum, sem veitti ferðalöngum skjól á langri ferð milli byggða.

Í Ljósvetningasögu segir frá ferð Þorkels Geitissonar til Þorsteins Síðu-Hallssonar: “Um sumarið búast þeir heiman að með sex tigu manna hvorir og ríða til Jökulsár. En þá voru góð vöð á ánni víða. Þar skiptu þeir liði. Þorkell og Þorsteinn og þrír aðrir fóru alfaraleið til Vaðlaþings, en flokkurinn allur fór fyrir ofan Mývatn til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði.” Þeir fóru yfir Jökulsá við Ferjufjall eins og Sámur í Hrafnkels sögu Freysgoða.

Byrjum við norðurenda Skjaldklofa ofan Skjöldólfsstaða á Jökuldal. Við förum vestur yfir þjóðveg 1. Síðan áfram til vesturs norðan við Lindarsel, sunnan við Þrívörður, norðan við Axlir og Einbúa, vestur um nyrðra Gestreiðarskarð, vestur Dyngjuskarð, um Dyngjudyr og Staðarás og síðan í Möðrudal. Þaðan suðvestur til Húshólsfells og austan við fellið að Kjalfellshnaus, síðan í Lónabotna og loks suðvestur að gömlum ferjustað á Jökulsá á Fjöllum við Ferjuhyl andspænis Ferjufjalli.

36,1 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Grágæsadalur.
Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Skjöldólfur, Leiðaskarð, Byttuskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fríðufell

Frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði að Mel við Hofsá.

Þar sem fjallaskálinn Melur er núna, var áður heiðarbýlið Melur, í 460 metra hæð.

Förum frá Þorbrandsstöðum suðvestur með Þorbrandsstaðahálsi og Gullborg að Tungukolli. Síðan suðvestur upp hlíðina í Tungukoll. Þá suðvestur að Fríðufelli, suður með fellinu, suðvestur yfir Sauðárdal, að fjallakofanum Mel við Hofsá nálægt vegamótum þjóðvega 1 og 85.

28,3 km
Austfirðir

Skálar:
Melur: N65 28.254 W15 26.941.

Nálægar leiðir: Hofsárdalur, Skjaldklofi, Sauðahryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fljótsdalsheiði

Frá Sauðabanalækjum ofan við Bessastaði í Fljótsdal um Fljótsdalsheiði til Aðalbóls í Hrafnkelsdal.

Þetta er syðsta leiðin um Fljótsdalsheiði. Þær greinast við Vegufs. Meginleiðin lá nokkru norðar, til Brúar í Jökuldal, hér kölluð Vegkvíslar. Nyrsta leiðin lá svo um Klaustursel og Sænautasel til Möðrudals, hér kölluð Þrívörðuháls.

Hrafnkels saga Freysgoða segir, að utan á Eyvindarfjöllum hafi Eyvindur Bjarnason, bróðir Sáms, fallið fyrir Hrafnkeli Freysgoða við Eyvindartorfu og sé þar heygður. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos í Veiðivötnum á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Byrjum hjá vegi 910 við Sauðabanalæk á fjallsbrúninni ofan við Bessastaði. Förum norðvestur um Vegufs. Við förum vestur um Sandskeið að Ytri-Vegakvísl. Suðvestur í Eyvindarkofaver og vestur um Fjallaskarð. Síðan suðvestur með Eyvindarfjöllum. Suðvestur um Sanda á veg 910, norðan Ytra-Kálfafells. Þar förum við beint vestur og niður að Laugarhúsum í Hrafnkelsdal, förum vestur yfir Hrafnkelu og norður að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

34,2 km
Austfirðir

Skálar:
Fjallaskarð: N65 01.685 W15 22.312.

Nálægir ferlar: Sænautasel. Nálægar leiðir: Þrívörðuháls, Vegkvíslar, Eyvindará, Aðalbólsleið, Hölkná, Vesturöræfi, Eyvindarkofaver, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fallegiklettur

Frá Skeggjastöðum í Jökuldal um Fljótsdalsheiði að Fjallsseli í Fellum.

Forn leið yfir Fljótsdalsheiði austanverða.

Förum frá Skeggjastöðum suðaustur Skeggjastaðaheiði og Teigaselsheiði og suður fyrir Tindafell, þar sem við beygjum til austurs. Förum sunnan Litla-Sandvatns og norðan Sandvatns, á veg um Grasöxl og Fallegaklett suðaustur að Fjallseli í Fellum. Þar er komið á leið frá Hróarstungu um Stekkás að Lagarfljóti.

5,6 km
Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Kortavefur LH

Eyvindarkofaver

Frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal um Eyvindarkofaver að þjóðvegi 910 norðaustan við Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði.

Hrafnkels saga Freysgoða segir, að utan á Eyvindarfjöllum hafi Eyvindur Bjarnason, bróðir Sáms, fallið fyrir Hrafnkeli Freysgoða við Eyvindartorfu og sé þar heygður. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos við Veiðivötn á síðari hluta 15. aldar. Á síðari árum útlegðar sinnar er sagt, að Fjalla-Eyvindur hafi um skeið hafzt við í Eyvindarkofaveri hjá Eyvindarfjöllum og lagzt á fé bænda. Þeir hafi farið að honum, en hann komist undan á handahlaupum. Festust hestar þeirra í Eyvindarkeldu og slapp hann við svo búið. Örnefnin á svæðinu eru þó fremur kennd við Eyvind, bróður Sáms í Hrafnkels sögu Freysgoða.

Förum frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal austur yfir Hrafnkelu og áfram austur á brattann og beygjum suður fyrir Háurð. Síðan suðaustur um Skál að Hölkná og nokkurn spöl suður með ánni. Síðan aftur suðaustur í Fjallaskarð í Eyvindarfjöllum. Austan skarðsins er fjallakofinn Fjallaskarð við Eyvindarkofaver. Við förum austsuðaustur að þjóðvegi 910 á Fljótsdalsheiði.

20,0 km
Austfirðir

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Fjallaskarð: N65 01.685 W15 22.312.

Nálægar leiðir: Fljótsdalsheiði, Vegkvíslar, Sænautasel, Aðalbólsleið, Kárahnjúkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyvindará

Frá Grund í Jökuldal um Fljótsdalsheiði að Bessastöðum í Fljótsdal.

Hliðarleið af gamalli þjóðleið austur-vestur yfir Fljótsdalsheiði og liggur hún norður að Jökulsá andspænis Grund á Jökuldal í stað Brúar.

Byrjum austan Jökulsár á Dal, andspænis Grund í Jökuldal. Þangað er stutt frá brúnni milli Klaustursels og Hákonarstaða. Förum suður með Eyvindará, síðan austur um Ytri-Vegakvísl og Sandskeiðiskíl, suðsuðaustur á Vegufs. Þaðan er leið norður Þrívörðuháls. Við förum suðaustur að vegi 910 við Sauðabanalæk ofan við Bessastaði í Fljótsdal.

23,8 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Vegkvíslar, Fljótsdalsheiði, Þrívörðuháls, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Eyjar

Frá þjóðvegi 984 við Heyskála um Eyjar að mótum Jökulsár á Dal og Lagarfljóts.

Farið er eftir gömlum götum um landgræðslusvæði.

Förum frá Heyskálum norðaustur með Selfljóti út að hafi. Þaðan um þrjá kílómetra vestur um Sjávarsandsþúfur meðfram ströndinni að Klúkuleiru. Síðan suðvestur um Jórvíkurrima upp að þjóðvegi 984 rétt austan við Stekkamela. Þaðan til vesturs norðan þjóðvegarins að Hóli við Lagarfljót. Norðaustur meðfram fljótinu út að sjó og síðan vestur með sjávarkambinum út að sameiginlegum ósi Lagarfljóts og Jökulsár. Unnt er að panta ferju fyrir göngufólk yfir fljótið.

27,4 km
Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyjabakkar

Frá Snæfellsskála um Eyjabakka að Laugarfellsskála.

Ekki er fært með hesta um sjálfa Eyjabakka, aðeins í jarðri þeirra. Hafið samband við skálavörðinn í Snæfellsskála.

Frægt votlendi suðaustan undir Snæfelli, sem átti að leggja undir virkjunarlón. Leiðin liggur milli Snæfells og Eyjabakka og er ekki jeppafær vegna bleytu. Eyjabakkar eru um tíu kílómetra frá jökli og hallinn afar lítill, um fimm metrar á allri leiðinni. Jökulsá á Fljótsdal flæmist um bakkana. Þetta er gamalt lónstæði, blautt gróðurlendi, sem er kjörlendi fyrir heiðagæs. Á leiðinni má meðal annars sjá brok og stör, fjalldrapa, blágresi, steindeplu, mýrelftingu og klukkublóm.

Förum frá Snæfellsskála til suðurs fyrir austan Langahnjúk. Beygjum síðan til austurs um Þjófadali. og síðan norðaustur með Snæfelli. Förum yfir Þjófagilsá og undir Snæfellshálsi meðfram Eyjabökkum norðaustur um Snæfellsnes og um Hafursárufs og undir Hafursfelli og Laugafelli, skammt frá Kirkjufossi, í Laugarfellsskála. Þaðan er stutt norður á þjóðveg 910.

35,5 km
Austfirðir

Skálar:
Snæfell: N64 48.233 W15 38.569.
Hálsakofi: N64 46.036 W15 30.633.
Laugakofi: N63 59.392 W19 03.683.

Nálægar leiðir: Vesturöræfi, Snæfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eiríksstaðavegur

Frá Eiríksstöðum í Jökuldal um Eiríksstaðaveg til Bessastaða í Fljótsdal.

Þekkt leið úr Hrafnkels sögu Freysgoða. Fyrrum var kláfur yfir Jökulsá á Dal við annan hvern bæ. Nú fara þeir, sem koma þessa leið, yfir ána á brú hjá Brú.

Byrjum handan fljótsins andspænis Eríksstöðum í Jökuldal. Þangað er stutt leið frá Brú, þar sem margar leiðir koma saman. Förum austur á fjallið að Sauðá og síðan suðaustur með ánni að Eyvindará. Þar beygir slóðin til austurs og liggur fyrir sunnan Vegakvísl ytri. Við förum áfram austur og yfir Sanskeiðiskíl að Vegufs. Við förum suðaustur að Sauðabanalækjum við þjóðveg 910 ofan við Bessastaði.

22,5 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Vegkvíslar, Eyvindará, Fljótsdalsheiði, Þrívörðuháls, Aðalbólsleið, Buskutjörn, Búðarháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Einbúi

Frá Haugsvatnsleið um Einbúa að Haugsleið á Haugsöræfum.

Byrjum í Heljardal vestan Stakfells. Förum suður af Heljardalsleið úr Þistilfirði. förum um Lindir í skarðið vestan við Einbúa í 600 metra hæð. Úr skarðinu beygjum við til suðvesturs að suðurhorni Haugsvatns, þar sem við mætum Heljardalsleið og Haugsleið, sem liggur úr Vopnafirði vestur að Grímsstöðum á Fjöllum.

12,6 km
Þingeyjarsýslur, Austfirðir

Nálægar leiðir: Heljardalur, Haugsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Dyrfjöll

Hringleið frá Lobbuhrauni um Hvolsmæli, Dimmadal og Jökuldal.

Hrikalegt og fallegt landslag undir Dyrfjöllum. Þau eru hæstu fjöll við Borgarfjörð. Hæsti tindur þeirra er 1136 metrar. Þau bera nafn af Dyrum, klettaskarði, sem er í fjallgarðinum miðjum. Dyrnar eru í 856 m hæð og erfitt að fara þar um nema fyrir vana fjallgöngumenn. Dyrfjöll eru oft kölluð Útverðir Austurlands í norðri. Jóhannes Sveinsson, Kjarval, notaði þau oft sem fyrirmynd, enda var hann uppalinn á Borgarfirði. Finna má í þjóðsögum sagnir um álfakóng, Grýlu og jólasveinanna í Dyrfjöllum. Neðri hluti þeirra mynda háa móbergshamra, sem mynduðust í öskjuvatni. Efstu hraunlögin eru svo úr basalti. Beggja vegna Dyra eru framhlaup frá jökulskeiðum. Stórurð, Urðardalur og Dyrfjalladalur bera vott um þennan framburð. Lobbuhraun í Borgarfirði eru sams konar framburður.

Byrjum í Lobbuhrauni við þjóðveg 946 í Borgarfirði eystra. Förum fyrir sunnan Jökulsá vestur á fjallið og upp á Hvolsmæli í 440 metra hæð. Þaðan förum við suðvestur í Dimmadal. Síðan sveigjum við norður með Dyrfjöllum í Jökuldal. Þaðan suðaustur undir Dyrfjallatindi og Jökulsárufs og síðan austur dalinn og inn á upphaflegu slóðina norðaustan Hvolsmælis. Fylgjum henni til baka að Lobbuhrauni.

13,8 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður, Kjólsvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Dragakofi

Frá Húsatungu í Selárdal í Vopnafirði að Dragakofa.

Förum frá Húsatungu vestnorðvestur á fjallið og síðan vestur fyrir Almenningsvötn. Norður með þeim að vestanverðu og síðan vestur að Dragakofa í 550 metra hæð.

11,0 km
Austfirðir

Skálar:
Dragakofi: N65 47.741 W15 14.615.

Nálægar leiðir: Selárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Dimmifjallgarður

Frá Fremri-Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði um Dimmafjallgarð til Grímsstaða á Fjöllum.

Þetta var aðalleiðin úr Vopnafirði til Gömlu-Grímsstaða á Fjöllum, áður en Grímsstaðir voru fluttir þangað sem þeir nú eru. Þetta er langur, óvarðaður og erfiður fjallvegur, sem oft hefur reynzt hættulegur. 10. febrúar 1874 fóru tveir menn af Hólsfjöllum austan úr Vopnafirði með hesta og æki á Dimmafjallgarð. Stórhríð brast á og urðu mennirnir úti. Fundust ekki fyrr en eftir tvær vikur. Stóð þá hesturinn yfir þeim með tauminn frosinn við jörð. Hann lifði af.

Byrjum við þjóðveg 915 í Vesturárdal við Fremri-Hlíð. Förum norðvestur upp á Vesturárdalsháls og síðan vestsuðvestur á Búrfell. Frá tindi Búrfells förum við vestur að Selá og vestsuðvestur með henni sunnanverðri. Förum vestsuðvestur þvert yfir Vegafjall og niður á Sléttasand. Þaðan áfram vestsuðvestur að Dimmafjallgarði og förum þar inn í Dimmagil og þaðan vestur um Selárbotna og fyrir norðan Svartfell og Einbúa. Áfram vestur yfir fjallgarðinn að Bæjargróf á Fjöllum. Síðan norðnorðvestur um Viðarlandsbrekkur að Grímsstöðum á Fjöllum.

55,4 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Péturskirkja, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Vopnafjörður, Haugsleið, Heljardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Dalsvarp

Frá sæluhúsinu í Breiðuvík um Dalsvarp til sæluhússins í Húsavík.

Förum frá sæluhúsinu í Breiðuvík suður að eyðibýlinu Litluvík og þaðan suður með Dalsá í Litluvíkurdal upp í Dalsvarp í 440 metra hæð. Þaðan milli Mosfells að austan og Leirufjalls að vestan suður í Mosdal. Vestur um Mosdal um Herjólfsvíkurvarp í 540 metra hæð og suðvestur í Gunnhildardal. Þar komum við á jeppaslóðina milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Fylgjum henni suður og niður í botn Húsavíkur og austur yfir Víkurá að sæluhúsinu í Húsavík.

12,6 km
Austfirðir

Skálar:
Breiðavík: N65 27.830 W13 40.286.
Húsavík: N65 23.716 W13 44.160.

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Byttuskarð

Frá Brú á Jökuldal til Möðrudals á Jökuldalsheiði.

Gömul þjóðleið, stundum kölluð Fremri-Hestleið til aðgreiningar frá Ytri-Hestleið um Hvannárgil sunnan Brattafjallgarðs. Vörðubrot sjást enn á leiðinni vestur af Byttuskarði og síðan um Grjót að Bæjaröxl. Þar suður af öxlinni þræðir gatan um eins konar hlið milli tveggja varða á klettum uppi.

Leiðin liggur beint við þeim, sem fyrr á öldum fóru beint frá Bæjaröxl norðvestur að Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall, þegar þar var ferja yfir á Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir, að Sámur fór norður til Brúar á Jökuldal og þaðan yfir Möðrudalsheiði og gisti þar um nótt. Þaðan til Herðubreiðartungu og fyrir ofan Bláfjall, síðan í Króksdal og suður Sprengisand til Sauðafells og loks til Þingvalla.

Förum frá Brú á Jökuldal eftir jeppaslóð norður múlann fyrir vestan Þverá og að Svínabúðalæk. Þar beygjum við af slóðinni norðvestur að fjallgarðinum vestan Matbrunnavatns. Þar skiljast leiðir. Brattifjallgarður liggur um Leiðaskarð og Hvannárgil til Möðrudals. En við förum beint vestur á fjallið og síðan vestur yfir þveran Langadal í Byttuskarð í Mynnisfjallgarði. Þaðan förum við um Byttugil vestur um fjallgarðinn. Þegar við erum komin vestur úr honum, förum við til norðvesturs með Eggertshnjúki norðaustanverðum og á jeppaslóð, sem liggur milli Möðrudals og Arnardals. Fylgjum þeirri slóð til Möðrudals eða höldum áfram norðvestur að Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall.

21,4 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Sænautasel.
Nálægar leiðir: Leiðaskarð, Sótaskarð, Gestreiður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Kárahnjúkar, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins