Norður-Múlasýsla

Búðarháls

Frá Ármótaseli á Jökuldalsheiði um Búðarháls að þjóðvegi 923 vestan Brúar í Jökuldal.

Miklar minjar eru um eyðibýlið í Ármótaseli, enda var þar búið fram til 1943, þótt það sé í 500 metra hæð. Þar var líka fornbýli og ennfremur að Gilsá, sem er þremur km norðan við Ármótasel. Í Víðirhólum var tvíbýli í 540 metra hæð. Þar eru minjar um áveitur, brunnhús og myllu við Brandslind. Við tjörn skammt vestur frá Búðavatni er eyðibýlið Háls, sem var hæsta byggða ból á Íslandi í 585 metra hæð, áður en það fór í eyði árið 1864.

Byrjum við þjóðveg 1 austan eyðibýlisins Ármótasels á Jökuldalsheiði. Förum til suðvesturs vestan við Kiðufell og áfram suðsuðvestur um Hnauslæki á Víðirhóla. Suður um Búðarháls og Búðarvatn á fjallsbrúnina austan við Hnefil. Förum þar suður brekkurnar að þjóðvegi 923 um Jökuldal. Héðan er stutt að fara með þjóðvegi 923 að Brú á Jökuldal, þar sem leiðir liggja til ýmissa átta.

20,5 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Sænautafell, Buskutjörn, Aðalbólsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Buskutjörn

Frá Sænautafellsleið að Brú á Jökuldal.

Veturhús eru frægasta eyðibýlið á Jökuldalsheiði, talin fyrirmynd Halldórs Laxness að Sumarhúsum. Þar var búið til 1941 og stuðst við veiði í Veturhúsatjörn og í Gripdeild. Bærinn var í 556 metra hæð. Byrjum við Sænautafellsleið milli Hákonarstaða á Jökuldal og Sænautasels á Jökuldalsheiði. Það er í 600 metra hæð í skarðinu milli Stóra-Svalbarðs að norðan og Litla-Svalbarðs að sunnan.

Förum suðvestur að eyðibýlinu Veturhúsum. Þaðan suður um Buskutjörn og vestan við fjallaskálann Gripdeild. Austan við Eiríksstaðahnefla og niður að þjóðvegi 923 austan við Eiríksstaði á Jökuldal. Þaðan er stutt leið vestur að Brú á Jökuldal.

13,5 km
Austfirðir

Skálar:
Gripdeild: N65 12.424 W15 25.768.

Nálægar leiðir: Sænautafell, Búðarháls, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Brúnavíkurskarð

Frá Kolbeinsfjöru í Borgarfirði um Brúnavíkurskarð til sæluhússins í Brúnavík.

Fyrrum aðalleiðin til Brúnavíkur eftir greinilegum stíg. Bratt er á köflum niður í víkina.

Förum frá Kolbeinsfjöru austsuðaustur í Brúnavíkurskarð í 350 metra hæð milli Geitfells að sunnan og Gránípu að norðan. Förum síðan í sneiðingum austur og niður í Brúnavík.

3,3 km
Austfirðir

Skálar:
Brúnavík: N65 31.600 W13 41.200.

Nálægar leiðir: Kjólsvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Brúarjökull

Frá Grágæsadalsvegi um Kvíslar að Brúarjökli.

Byrjum við mót vegar í Grágæsadal. Förum suður um Kvíslar að Brúarjökli.

Athugið gosið í Holuhrauni 2014-2015.

9,6 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Brekknaheiði

Frá Þórshöfn á Langanesi um Brekknaheiði að Lómatjörn við Finnafjörð.

Förum frá Þórshöfn á Langanes suðsuðaustur og upp með Fossá að vestanverðu og síðan austan við Selvatn og vestan við Kolluvatn að Þernuvatni vestanverðu. Sunnan þess komum við í 200 metra hæð í Skörðum. Síðan til suðausturs vestan við Sauðvatn og loks um Sauðhöfða að Lómatjörn í Finnafirði við þjóðveg 85.

10,1 km
Þingeyjarsýslur, Austfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Borgarnes

Frá Selsstöðum í Seyðisfirði um Brimnes að Borgarnesi.

Fífldjarfir göngumenn geta klöngrast áfram eftir einstigi um jökulrák fyrir Jökul og niður á tangann Tó. Fólki er ekki ráðlagt að fara þetta. Jökull er rák, sem vatn seytlar á. Af Tó þarf að færa sig upp á næsta hjalla og halda síðan greiða leið um Hjálmárströnd til Loðmundarfjarðar. Frá Borgarnesi er útsýni norður yfir Loðmundarfjörð.

Förum frá Selstöðum eftir jeppaslóð með ströndinni austur að Brimnesi. Síðan um grónar skriður norðaustur að Borgarnesi. Þaðan er varhugaverð gönguleið til Loðmundarfjarðar.

9,7 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Kjólsvík, Loðmundarfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Blautamýri

Frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð um Blautumýri að Hólmatungu við Jökulsá á Dal.

Gunnar Gunnarsson skáld segir í Árbók FÍ 1944: “Eyjasléttan er mótuð gömlum vatnafarvegum, sem nú eru grónir, og er megnið af því véltækt land, en beitiland mikið um víðimóa og mýrar, svo kallaðar “blár”, sem kílar og uppistöður skipta á ýmsa vegu.”

Förum frá Ketilsstöðum hjá brúnni á Fögruhlíðará. Förum suðaustur um Bakkagerði og Blautumýri og síðan suður að Hólmatungu.

5,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Mígandagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Aðalbólsleið

Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal um Eyvindarfjöll til Egilsstaða í Fljótsdal.

Aðalbólsleið er þurrari en aðrar leiðir um Fljótsdalsheiði. Kann að vera Hallfreðargata sú, sem sagt er frá í Hrafnkels sögu Freysgoða. Eftir landnám var Hrafnkelsdalur þéttbyggð sveit með sextán bæjum, Bakkastöðum, Skál, Mógilshálsi, Vaðbrekku, Þrándarstöðum, Þórisstöðum, Hústóft, Tobbhóli, Aðalbóli, Smjörtungufelli, Laugarhúsum, Faxahúsum, Blesatanga, Faxagili, Þuríðarstaðaseli og Glúmsstaðaseli. Þessi mikla byggð í afskekktum fjalladal 90 km frá sjó eyddi landkostum fljótlega og býlum fækkaði. Síðan lagðist dalurinn í eyði í Veiðivatnagosinu á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Förum frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal yfir Hrafnkelu og austsuðaustur á fjallið. Síðan til suðausturs sunnan við Eyvindarfjöll, þar sem við förum yfir þverleið um Fljótsdalsheiði. Við förum áfram suðaustur og yfir veg 910 sunnan við Langavatn, yfir Svartöldu og á brún Fljótsdals ofan við Kleif. Þar förum við niður hlíðina og áfram austur að Egilsstöðum í Norðurdal í Fljótsdal.

23,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Búðarháls, Buskutjörn, Sænautasel, Hvannstóðsfjöll, Brattifjallgarður, Vegkvíslar, Kárahnjúkar, Hölkná, Fljótsdalsheiði, Geldingafell, Byttuskarð, Eyvindarkofaver.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins