Norður-Þingeyjarsýsla

Oddsstaðaholt

Frá Sigurðarstaðavatni á Melrakkasléttu um Oddsstaðaholt að Oddsstöðum.

Förum frá Oddsstöðum á Melrakkasléttu austsuðaustur um Oddsstaðaholt að Sigurðarstaðavatni.

4,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Klíningskarð, Oddsstaðir.
Nálægar leiðir: Beltisvatn, Grjótnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öxarfjörður

Frá Snartarstöðum í Öxarfirði að Syðri-Bakka í Kelduhverfi.

Þetta er tengileið milli Kelduhverfis og leiða um Melrakkasléttu. Önnur leið að fjallabaki er kennd við Þverárhyrnu. Öxarfjörður er þurr og mjög gróin sveit, víða skógi vaxin frá fornu fari, notaleg að sumarlagi. Núparnir einkenna landslagið. Í Öxarnúpi er Grettisbæli, þar sem talið er, að Grettir hafi falizt. Mestur hluti þessarar leiðar er með þjóðvegi.

Förum frá Snartarstöðum með þjóðvegi 85 suður Öxarfjörð. Förum um Presthólahraun og Núpasveit, vestan við Valþjófsstaðafjall, framhjá fiskeldi Silfurstjörnunnar við Núpsvatn, meðfram Brunná undir Öxarnúpi. Förum að þjóðvegi 867 yfir Öxarfjarðarheiði, förum hann til austurs einn kílómetra að rétt neðan við Sandfellshaga. Þaðan förum við suður hjá eyðibýlunum Skeggjastöðum og Lækjardal, yfir Brunná og um Tunguhólma, upp á veg 865 að Hafrafellstungu. Förum nokkra tugi metra eftir þeim vegi til vesturs, og síðan áfram suður að Smjörhóli vestan Hafrafells og austan Smjörhólsfells. Sunnan Smjörhóls beygjum við til vesturs niður að Ferjubakka við þjóðveg 85. Þaðan er stutt leið með þeim vegi að brúnni á Jökulsá á Fjöllum. Við förum yfir brúna og fylgjum þjóðvegi 85 um Kelduhverfi, framhjá afleggjara að Tóvegg og Ávegg. Höldum síðan beint norður frá þjóðveginum að Bakkahlaupi og síðan norðvestur með hlaupinu, um Teigjur milli hlaupsins og Skjálftavatna. Förum norður og vestur fyrir Skjálftavötn og komum þar á slóð um eyðibýlið Þórunnarsel að Syðri-Bakka við Bakkahlaup.

55,3 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Klíningsskarð, Rauðhólar, Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Hafrafellsleið, Hljóðaklettar, Keldunesheiði.
Nálægar leiðir: Vellankatla, Beltisvatn, Hólaheiði, Hólsstígur, Ærlækjarsel, Urðir, Súlnafell, Hestatorfa, Dettifossvegur, Hrútafjöll, Bláskógavegur, Krossdalur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson

Öxarfjarðarheiði

Frá Sandfellshaga í Öxarfirði að Sævarlandi í Þistilfirði.

Til skamms tíma var þetta bílvegurinn yfir Öxarfjarðarheiði og áður póstleið. Aðalleiðin frá Öxarfirði til Þistilfjarðar. Hestamenn fara frekar um Rauðhóla og Svalbarðsskarð. Jón Trausti rithöfundur átti um skeið í æsku heima í Hrauntanga.

Byrjum við þjóðveg 85 í Öxarfirði, þar sem hefst þverleiðin yfir Öxarfjarðarheiði rétt norðan við Klifshaga. Við fylgjum þjóðvegi 867 austur í Þistilfjörð. Förum fyrst austur í Sandfellshaga og síðan upp brekkurnar milli Sandfells að sunnan og Þverárhyrnu að norðan. Við förum sunnan við Kálfhól og Kerlingarhrygg. Síðan förum við sunnan við eyðibýlið Hrauntanga. Austan eyðibýlisins förum við hjá fjallaskálanum á Öxarfjarðarheiði. Við höldum áfram austur og upp í Helgafell, þar sem við náum 400 metra hæð. Við förum áfram norðaustur fellið að brekkunum yfir Stóra-Viðarvatni. Við förum þjóðveginum þangað til hann beygir til norðurs. Þar förum við til suðurs eftir gamalli leið um Þjófaklettabrekkur og kjarri vaxnar hlíðar niður að Sævarlandi.

40,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Þverárhyrna, Djúpárbotnar, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Urðir, Biskupsás, Sléttuvegur, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ærlækjarsel

Frá Ferjubakka í Öxarfirði um Ærlækjarsel og Sandá að Núpum í Öxarfirði.

Förum frá Ferjubakka eftir slóð til norðurs meðfram Sandá og um Skinnastað áfram norður Randir á þjóðveg 866. Þar förum við suðvestur yfir brú á veginum yfir Sandá og síðan suðvestur að Bakkahlaupi. Þaðan norðvestur með Bakkahlaupi að Ytri-Bakka. Síðan norðaustur um Skóga og Ærlækjarsel að Hróastöðum við Sandá. Loks yfir Sandá að Núpum í Öxarfirði.

26,8 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Keldunesheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Æðarvötn

Frá Skinnalóni á Melrakkasléttu suður á Raufarhafnarveg.

Förum frá Skinnalóni til suðurs fyrir austan Æðarvötn og síðan um Stórholt að Raufarhafnarvegi, sem liggur frá Blikalóni til Raufarhafnar.

3,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þverárhyrna

Frá Efri-Hólum í Núpasveit um fjallabaksleið að Sandfellshaga í Öxarfirði.

Þetta er leið um grónar heiðar að fjallabaki, aftan við flata móbergshnjúkinn Valþjófsstaðafjall og píramídalaga Þverárhyrnu. Fyrst er farið yfir gróið Rauðhólahraun og síðan reiðgötu um vel gróna haga. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð fyrr en komið er á veginn um Öxarfjarðarheiði.

Förum frá Efri-Hólum veginn vestur að Presthólum. Áður en við komum að bænum beygjum við út af veginum til suðurs í áttina að Valþjófsstaðafjalli. Beygjum síðan austur með norðurhlið fjallsins, förum um Leynidal og síðan um skarðið milli Valþjófsstaðafjalls og Hálsa. Förum svo þvert suður Arnarstaðadal og síðan austur og upp dalinn og síðan til suðurs sama dal, þar sem hann heitir Fremridalur. Þar förum við milli Ytra-Horns og vestan við Sandfellshaga að rétt neðan við bæinn.

27,4 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Rauðhólar, Öxarfjörður, Öxarfjarðarheiði, Hafrafellsleið.
Nálægar leiðir: Hólaheiði, Hólsstígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þeistareykjabunga

Frá Vesturdal við Jökulsá á Fjöllum að Þeistareykjum.

Farið er vestur yfir norðurenda Gjástykkis. Það er landsig með grónu hrauni og ótal gjám, sem snúa suður og norður. Víða þarf að fara varlega, því að göt eru í dráttarvélaslóðinni. Hér liggja slíkar slóðir upp frá hverjum bæ norðan hraunsins, en leiðin liggur að mestu um þverslóðir milli þessara slóða. Erfitt getur verið að rata, nema menn hafi ferilinn í GPS-tæki. Síðasti hluti leiðarinnar liggur yfir gróna Þeistareykjabungu. Á bungunni liggur slóðin um Stóra og Litla-Víti, gígana tvo, þaðan sem hraunin eru runnin. Á Þeistareykjum er eyðibýli, sem sagt er, að bjarndýr hafi eytt. Þar hefst líka við draugurinn Þeistareykjamóri, hundur sem þar drapst. Á Þeistareykjum er mikill jarðhiti, sem til stendur að virkja. Áður var þar unninn brennisteinn.

Byrjum á melnum við veginn fyrir ofan Vesturdal við Hljóðakletta. Við förum beint vestur á Dettifossveg og tæpan kílómetra suður með honum. Beygjum síðan aftur í vestur eftir hliðarslóð tæpa tvo kílómetra. Síðan aftur til suðurs tvo-þrjá kílómetra um Skuggaklett. Þar á eftir beygjum við til vesturs langan veg um Keldunesheiði, fyrst í vestur og síðan í norður. Þá beygjum við til vesturs rúman kílómetra og förum svo enn til suðurs af beinu slóðinni. Sú slóð liggur til Þeistareykja norðan Þeistareykjabungu. Við ætlum hins vegar að fara yfir Þeistareykjabungu og förum langa leið til suðurs áður en við komum að þverleið til vesturs. Sú leið liggur upp á Þeistareykjabungu, framhjá Litla-Víti og Stóra-Víti í 530 metra hæð. Förum síðan beint vestur í skarðið norðan við Bæjarfjall og sunnan við Ketilfjall, og loks niður brekkurnar að skálanum á Þeistareykjum í 350 metra hæð.

34,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000. Hestahólf
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.

Nálægir ferlar: Þeistareykir, Hamrahlíð, Sund.
Nálægar leiðir: Randir, Sandabrot, Hrútafjöll, Dettifossvegur, Jörundur & Eilífur, Hólmatungur, Dettifoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þeistareykir

Frá Kelduhverfi um Þeistareyki á Hólasand.

Á Þeistareykjum er eyðibýli, sem sagt er, að bjarndýr hafi eytt. Þar hefst líka við draugurinn Þeistareykjamóri, hundur sem þar drapst. Á Þeistareykjum er mikill jarðhiti, sem til stendur að virkja. Áður var þar unninn brennisteinn.

Byrjum við þjóðveg 85 í Kelduhverfi, sunnan við Lónslón, hálfum kílómetra vestan við Lón. Þar liggur gamli Reykjaheiðarvegurinn suður með Framfjöllum, fyrst með Hólmafjalli og Stallfjalli, um bæinn Fjöll, síðan meðfram Nafarfjalli og Háskálafjalli. Þá um Áfanga og upp Varnarbrekkur vestan Þríhyrnings. Við suðurenda fjallgarðsins komum við að Sæluhúsmúla, þar sem er fjallakofi í 290 metra hæð. Þar beygjum við af Reykjaheiðarveginum austur Bláskógaveg og komum eftir tæpa tvo kílómetra að jeppafærri þverslóð suður um Rauðhól og Þeistareykjahraun að sæluhúsinu í Þeistareykjum í 360 metra hæð. Förum síðan jeppagötu suður með Bæjarfjalli vestanverðu og Kvíhólafjöllum. Þar erum við í 400 metra hæð. Síðan liggur leiðin suður um Borgarhraun og svo til suðvesturs um Hólasand að þjóðvegi 87 milli Húsavíkur og Mývatns. Þar er sæluhúsið Hólasandur í 360 metra hæð.

31,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.
Þeistareykir : N65 52.565 W16 57.340.
Hólasandur: N65 44.167 W17 06.397.

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Hamrahlíð, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Spóagil, Bláskógavegur, Sæluhúsmúli, Sandabrot, Randir, Draugagrund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Varnarbrekkur

Frá þjóðvegi 85 í Kelduhverfi um Fjöll og Varnarbrekkur að fjallaskálanum Sæluhúsmúla á Reykjaheiði.

Byrjum við þjóðveg 85 í Kelduhverfi, sunnan við Lónslón, hálfum kílómetra vestan við Lón. Þar liggur gamli Reykjaheiðarvegurinn suður með Framfjöllum, fyrst með Hólmafjalli og Stallfjalli, um bæinn Fjöll, síðan meðfram Nafarfjalli og Háskálafjalli. Þá um Áfanga og upp Varnarbrekkur vestan Þríhyrnings. Við suðurenda fjallgarðsins komum við að Sæluhúsmúla á Reykjaheiði, þar sem er fjallakofi í 290 metra hæð.

17,1 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Urðir

Frá Gilhaga í Öxarfirði um Urðir á Öxarfjarðarheiði.

Förum frá Gilhaga norðaustur um Buga og Urðir, yfir þjóðveg 867 að eyðibýlinu Hrauntanga.

16,3 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Öxarfjarðarheiði, Djúpárbotnar, Rauðhólar.
Nálægar leiðir: Súlnafell, Biskupsás.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Upptyppingar

Frá vegamótum þjóðvegar 910 suðaustan við Fremri-Fjallshala yfir Jökulsá til Herðubreiðar og Öskju.

Jeppafær tengileið milli öræfanna vestan og austan Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Brú á Jökulsá sunnan Upptyppinga og á Kreppu í Krepputungu tengja saman öræfi norður- og austurlands. Tungan milli fljótanna er löng, 50-60 km, og mjó, 1-2 km þar sem hún er nyrzt. Upptyppingar eru móbergsfjöll í Ódáðahrauni vestan Krepputungu. Þeir eru tvítyppt fjallaþyrping og eru áberandi kennileiti. Jökulsá á Fjöllum rennur í sveig niður með þeim austanverðum.

Byrjum á þjóðvegi F910 suðaustan við Fremri-Fjallshala. Förum til vesturs á þjóðvegi F910, yfir Dyngjuháls, Kverkfjallaslóð og á brú yfir Kreppu. Suður Krepputungu til Kreppulóns. Síðan norðvestur á brú yfir Jökulsá við Upptyppinga og þaðan norðvestur að Herðubreiðartöglum.

41,0 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Dyngja: N65 09.236 W15 57.400.
Tungubúð: N65 03.623 W16 10.770.

Jeppafært
Athuga nýtt Holuhraun

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Brattifjallgarður, Miðgötumúli, Hvannalindir, Kverkfjöll, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sæluhúsmúli

Frá Húsavík að Sæluhúsmúla á Reykjaheiði.

Um skeið var þetta bílvegurinn yfir í Kelduhverfi, áður en lagður var góður vegur fyrir Tjörnes. Frægar draugasögur eru sagðar af sæluhúsinu gamla undir Sæluhúsmúla. Þar réðst draugur ítrekað á ferðamann og orti: “Enginn bjó mér aumum skjól / úti á dauðans hjarni, / bjóst eg þá í klaka-skjól. / Komdu með mér, Bjarni.” Bjarni svaraði þá: “Sjáðu mig þá aldrei í friði, andskotans karlinn.” Hvarf þá draugurinn. Hér gerðist þjóðsagan um Öxfirðinginn með atgeirinn. Mætti ísbirni á heiðinni og varðist honum með atgeirnum. Nokkru síðar mætti hann Reykdælingi og lánaði honum atgeirinn til að verjast birninum. Þegar björninn sá atgeirinn, lét hann Reykdælinginn í friði, en tók á rás á eftir Öxfirðingnum og drap hann í Varnarbrekkum. Mottó: Aldrei gera öðrum greiða.

Förum frá Húsavík. Farið er með bílvegi alla leiðina. Förum fyrst upp brekkurnar suðaustur frá bænum, sunnan við Botnsvatn, upp á Grjótháls og síðan sunnan við Höskuldarvatn. Þaðan förum við austur um Hellur og Grísatungur að suðurhorni Sæluhúsmúla.

17,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Þeistareykir, Keldunsheiði.
Nálægar leiðir: Höskuldsvatn, Spóagil, Bláskógavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Súlnafell

Frá Flautafelli í Þistilfirði að Gilhaga í Öxarfirði.

Förum frá Flautafelli suðsuðvestur með Flautafelli austanverðu, meðfram Svalbarðsá vestanverðri. Förum norðan við Þverfell til vesturs yfir á Súlnafjallgarð í 390 metra hæð. Þaðan suðvestur í Djúpárbotna og vestur yfir Djúpá. Síðan til vesturs norðan Einbúa, suðvestur að Sauðafellsmúla og að norðurenda Sauðafells. Þá norðvestur um Hornhóla og beygjum til suðvesturs um Buga að Gilhaga.

26,9 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Hafrafellsleið, Djúpárbotnar, Laufskáli.
Nálægar leiðir: Hestatorfa, Urðir, Sléttuvegur, Biskupsás, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sund

Frá Jökulsárbrú í Öxarfirði að Vesturdal við Hljóðakletta.

Hér hafa umsjónarmenn þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur gert hestamönnum gott með því að merkja reiðleið frá Ási inn í Vesturdal fjarri öllum jeppavegum. Nauðsynlegt er að hafa samband við gestastofu þjóðgarðsins við Ásbyrgi áður en farið er um þetta svæði. Netfangið er: jokulsargljufur@ust.is.

Vesturdalur er flatur dalur með þverhníptum veggjum. Þar eru tjarnir með fallegum gróðri. Nær ánni eru Hljóðaklettar, völundarhús klettaborga með skútum og hellum. Þar sunnan við eru drangarnir Karl og Kerling á eyri í gljúfrinu. Norðan Hljóðakletta eru Rauðhólar, leifar fornra eldgíga. Leiðin, sem hér er lýst, er í vesturjaðri þessa svæðis.

Förum frá Jökulsárbrú yfir brúna og vestur með þjóðvegi 85 vestur fyrir Ástjörn. Förum til suðurs af veginum vestan Ástjarnar og Áshöfða að eyðibýlinu Gilsbakka. Við fylgjum merktri reiðleið austan húsa á eyðibýlinu Hvammaseli, fyrst í vestur eftir dráttarvélaslóð og áfram suður um Mela og síðan vestur í Sund, þar sem við förum um hlið á girðingu. Síðan áfram suður um eyðibýlið Rauðhólasel og vestan við Rauðhóla og Langavatnshöfða og vestur og upp á Dettifossveg ofan við Vesturdal. Einnig er hægt að ríða einhesta inn Vesturárdal, í Svínadal og um Hólmatungur upp á veg 862 að Dettifossi vestanverðum. Þaðan eru svo leiðir upp á Mývatnsöræfi. Í Svínadal er hægt að hafa næturhólf fyrir hesta.

15,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Hljóðaklettar, Hólmatungur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Spóagil

Frá Syðri-Tungu á Tjörnesi að Fjöllum í Kelduhverfi.

Oftast er leiðin kölluð Tunguheiði. Þetta er grýtt og gróðurlaus heiði, en útsýni er gott af vestur- og austurbrúnum hennar, einkum af Biskupsási.

Förum frá Syðri-Tungu um móa og mýrar til austurs fyrir norðan Tungunúp og þaðan Skarðsbrekku upp á Tunguheiði, varðaða leið. Á háheiðinni förum við um Lambatorfur og síðan austur um Biskupsás í 480 metra hæð. Niður af heiðinni förum við um Gerðibrekku norðan við Sauðafell. Förum yfir erfitt Spóagil, þar sem það mætir Fjallagili. Loks förum við um vel grónar brekkur niður að Fjöllum.

14,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Þeistareykir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins