Frá Sandskála á Fjöllum um Álandstungu að Ytra-Álandi í Þistilfirði.
Ein stærsta gróna heiði landsins umhverfis Búrfell, sem stendur eitt sér á miðri heiði. Mýrlend heiði í 200-300 metra hæð, þakin vötnum og tjörnum með mýrum og mólendi á milli. Hún er beitiland Öxarfjarðar, Hólsfjalla og Þistilfjarðar, landsins bezta sauðfjárland. Fyrrum voru nokkur býli á heiðinni og við förum hjá sumum þeirra á leiðinni niður Álandstungu til sjávar. Um heiðina renna ýmsar ár, Svalbarðsá, Sandá, Hölkná, Laxá og Hafralónsá þeirra þekktastar. Við fylgjum fyrst Sandá og síðan Hölkná. Önnur leið um heiðina er norður með Hvannstaðafjallgarði í Laufskála og síðan niður með Svalbarðsá til byggða.
Frá Sandskála í 460 metra hæð krækjum við í tæplega 500 metra hæð suður fyrir Mynnisöxl um Hólsmynni og síðan norður á Búrfellsheiði. Við förum milli Hvannstaðafjallgarðs að vestan og Sandár að austan. Þegar við komum nálægt suðausturhorni Búrfells við eyðibýlið Foss, beygir Sandá til austurs og við fylgjum henni. Frá eyðibýlinu Halldórskoti liggur slóðin aftur meira til norðurs og við förum yfir Sandá austan við Stóra-Mosfell. Síðan um eyðibýlið Vatnsenda milli Vatnsendavatns og Vatnsendahnjúks. Þar er gangnamannaskáli í bændaeigu. Við yfirgefum Sandá og förum um skarð milli Vatnsendahnjúks og Hatthóls. Leiðin liggur norður milli eyðibýlanna Hvapps undir Balafelli og Kristjánskots við Hölkná. Förum nálægt Hafursstöðum við Balafell og hjá Nýstöðum við Hölkná. Áfram um Vælindisás og Kerastaðaás, síðan vestan við Syðra-Áland og áfram norður um Lómatjörn og Skógarás. Yfir þjóðveg 85 í Þistilfirði og loks eftir heimreið að bænum Ytra-Álandi, þar sem er bændagisting.
27,0 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Sandskáli: N65 52.389 W16 05.880.
Vatnsendi: N66 00.625 W15 45.510.
Nálægir ferlar: Fjallgarður, Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Sléttuvegur, Búrfellsheiði, Hestatorfa, Smjörbítill, Ferðamannavegur.
Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson og Herforingjaráðskort