Þjóðleiðir

Sælingsdalur

Frá Sælingsdalstungu um Sælingsdal að Skeggaxlarskarði.

Rétt innan við Sælingsdal eru gamlar tóftir, sem kallast Bollatóftir. Þar vó Helgi Harðbeinsson Bolla Þorleiksson í hefndarskyni fyrir víg Kjartans Ólafssonar. Í Sælingsdalstungu var löngum höfuðból. Þar bjó Snorri goði Þorgrímsson eftir að hann flutti frá Helgafelli. Þar bjuggu síðar afkomendur Snorra lögmanns Þórðarsonar. Lengi var hún í ætt Lofts hirðstjóra Ormssonar. Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Þar er sú hin fræga laug, sem var miðstöð félagslífs í Hvammssveit og Saurbæ að fornu. Hún hefur nú verið endurbyggð.

Förum frá Sælingsdalstungu norðvestur Sælingsdal um Ránarskriðu og Ránarvelli að bænum Sælingsdal og þaðan til norðvesturs fyrir austan Skálatind. Norðan Skálatinds er leið norður á Sælingsdalsheiði til Staðarhóls. En við förum áfram vestur dalbotninn og um Merkjahrygg vestur og upp í Skeggaxlarskarð. Frá Skeggaxlarskarði eru margar leiðir í ýmsa dali.

12,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Sælingsdalsheiði, Villingadalur, Hvarfdalur, Búðardalur, Hvammsdalur, Hólafjall, Hvammsá, Náttmálahæðir, Skothryggur, Flekkudalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sælingsdalsheiði

Frá Sælingsdalstungu um Sælingsdalsheiði að Staðarhóli í Dölum.

Innst úr Sælingsdal liggur leið um Sælingsdalsheiði niður í Hvammsdal, annars vegar að Múlabæjum og hins vegar að Staðarhóli þar sem Sturla Þórðarson bjó. Þarna er sögusvið Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Í Sælingsdal eru Bollatóftir skammt frá Sælingsdalsá. Þar var Bolli Þorleiksson drepinn í hefndarskyni vegna vígs Kjartans Ólafssonar. Mág-Snorri drukknaði á Snorravaði í Sælingsdalsá. Sighvatur Úlfsson, mágur hans, fór við fimmta mann að leita líksins, en þeir fórust allir í snjóskriðu. Einar Þorgilsson og menn hans flúðu upp heiðina undan Hvamm-Sturlu og mönnum hans árið 1171. Varð orrusta milli þeirra á heiðinni.

Förum frá Sælingsdalstungu norðvestur Sælingsdal um Ránarskriðu og Ránarvelli að bænum Sælingsdal og þaðan til norðvesturs fyrir austan Skálatind. Þar förum við beint norður á Sælingsdalsheiði í 420 metra hæð. Síðan beint norður af heiðinni niður í Víðibotna í Hvammsdal. Áfram norðvestur dalinn, hjá Kjarlaksvöllum og Þverfelli og loks norður í Staðarhól.

17,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Ásólfsgata, Búðardalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Sýrfell

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá enda þjóðvegar 425 við Rauðhóla á Reykjanesi um Sýrfell að Grindavíkurvegi 43 við Bláa lónið.

Byrjum úti á Reykjanesi, þar sem þjóðvegur 425 endar við Rauðhóla. Fylgjum jeppaslóð og förum til norðausturs með Sýrfelli austanverðu. Komum á reiðleið um Einiberjahól og förum síðan norðaustur um Sandfellsdal og loks til austurs fyrir norðan Þorbjörn að Bláa lóninu.

15,0 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Skjótastaðir, Einiberjahóll, Stapafell, Skipsstígur, Skógfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Svínbjúgur

Frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg að Hítardal á Mýrum.

Þetta er skemmtilegasta leiðin um hálendið milli Mýra og Dala, enda er hún með öllu ófær jeppum. Tignarlegt er að koma á brún Svínbjúgs og horfa yfir Hítarvatn og fjallahringinn. Í Hólmi suðvestan vatnsins bjó Björn Hítdælakappi og þar var hann veginn í Hvítingshjöllum. Hítardalur er ein af sögufrægum jörðum landsins. Þar bjó Snorri Sturluson um skeið. Og þar varð mannskæðasti bruni landsins árið 1148, þegar Magnús biskup Einarsson brann þar inni með 80 manns. Hítardals er víða getið í Sturlungu. Í Selárdal er áin Skrauma, heitir eftir tröllskessu, sem missti son í ána. Því lagði hún svo á, að tuttugu manns skyldu drukkna í henni. Nú munu nítján hafa farizt þar, síðast 1806, þegar feðgar frá Gautastöðum drukknuðu í henni.

Förum frá Hóli vestur Hólsskarð yfir í Selárdal og síðan suður þann dal meðfram ánni Skraumu, vestan Hólsfjalls og austan Selárdalsborgar, síðan inn þverdalinn Burstardal sunnan við Hellufjall og vestan við Burst. Við förum dalinn til enda upp á Svínbjúg, grýttan hrygg á vatnaskilum. Beygjum til vesturs norðan við Svínbjúg og förum síðan niður sneiðinga um grónar brekkur að eyðibýlinu Tjaldbrekku við Hítarvatn. Förum niður með vatninu norðan- og vestanverðu, um eyðibýlið Gínanda, yfir Hítará og að eyðibýlinu Hólmi, þar sem er fjallaskáli. Síðan með vegi frá Hólmi, milli Hróbjarga að vestan og Bæjarfells að austan, suður að Hítardal.

29,7 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Fagraskógarfjall, Sópandaskarð, Rauðamelsheiði, Lækjarskógarfjörur.
Nálægar leiðir: Hítardalur, Lambahnúkar, Hallaragata, Eyðisdalur, Miðá, Klifháls.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson

Svínárnes

Frá Helgaskála til Svínárnesskála á Hrunamannaafrétti.

Förum frá Helgaskála norðvestur með línuvegi og síðan norðnorðaustur um Stóraversöldu og Búrfellsmýrar að Sandá og í Svínárnesskála.

25,4 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Ísahryggur, Hrunamannaafréttur.
Nálægar leiðir: Svínárbotnar, Kjalvegur, Harðivöllur, Sandá, Grjótá, Grjótártunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Svínaskarð

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hrafnhólum í Mosfellssveit um Svínaskarð að Norðlingavaði í Kjós.

Þetta er hluti leiðar frá Reykjavík upp í Kjós og Hvalfjörð. Skarðið styttir leiðina úr Mosfellssveit í Kjós og var oft fjölfarið með lestarflutninga. Göturnar eru glöggar og leiðin er greið hestum, en er ekki bílfær. Þó hafa menn þjösnast um hana á fólksbílum, fyrst upp úr 1930, en þá var bíllinn hreinlega borinn á köflum. Jeppar hafa spillt gömlum hleðslum, sem víða eru í giljum. Veðrasamt getur verið í skarðinu og hafa menn orðið þar úti, síðast skólapiltur um aldamótin 1900. Úr skarðinu er auðvelt að ganga á Móskarðshnúka og Skálafell. Móskarðshnúkar eru úr líparíti, ljósir að lit.

Förum frá Hrafnhólum norður frá bænum um Þverárdal, austan við Bæjarfell og vestan við Haukafjöll, að Móskarðshnjúkum. Undir þeim förum við til austurs að Skálafelli og síðan norðvestur upp skarðið milli Skálafells og Móskarðshnjúka. Í skarðinu rennur Skarðsá og förum við upp norðvestan hennar. Í miðju Svínaskarði erum við á mjóum hrygg í 480 metra hæð. Þar henda menn steini í grjóthólinn Dysina. Leiðin norður úr skarðinu er brattari og krókóttari, liggur á brúnum á þröngu giljum. Förum þar norðaustur og niður í Svínadal, norður um Þjóðholt og sumarhús í Flesjum að Norðlingavaði á Laxá, austan Möðruvalla í Kjós.

13,2 km
Reykjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Mosfellssveit, Mosfellsheiði, Stardalsleið, Selkotsleið, Maríuhöfn, Seljadalur, Reiðhjalli.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Svínanes

Hringleið um Svínanes milli Kvígindisfjarðar og Illugastaða í Skálmarfirði.

Leiðin er löng og erfið með bröttum hlíðum og skriðurunnum. Víða er birkikjarr. Undirlendi er helzt yzt á nesinu, þar sem Geirmundur heljarskinn hélt svínin, sem gáfu nesinu nafn.

Förum frá bænum Kvígindisfirði suður með Kvígindisfirði, um Svínanes og Kumbaravog. Síðan með ströndinni vestur fyrir Svínanesfjall og norður með Skálmarfirði um Selsker og Seltanga til Illugastaða.

26,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Bæjarnes, Skálmardalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Svínadalur

Frá Þuríðarstöðum í Eyvindardal í Fagradal um Svínadal og meðfram Búðará til Kollaleiru í Reyðarfirði.

Leiðin liggur samsíða Fagradal að austanverðu, milli Fljótsdalshéraðs og Reyðarfjarðar.

Förum frá Þuríðarstöðum til suðurs inn í Svínadal. Hæstur er dalurinn í 580 metrum. Förum áfram til suðurs. Þegar við komum suður úr dalnum, förum við suðvestur yfir Kollaleiruháls að Kollaleiru í Reyðarfirði.

15,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Fönn, Eskifjarðarheiði, Hjálpleysa, Þórdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Svelgur

Frá Kollabúðum í Þorskafirði á reiðleiðina um Þorskafjarðarheiði til Ísafjarðardjúps.

Á Kollabúðum voru haldnir Kollabúðafundir á 19. öld og þar hafa Þorskafjarðarþing líklega verið háð að fornu. Þjóðverjar höfðu hér verzlun í lok 16. aldar.

Förum frá Kollabúðum norður Kollabúðardal austan Hvannahlíðarfjalls um Svartagil og Þingmannarjóður. Norðan Hvannahlíðarfjalls förum við sneiðinga norðnorðvestur Nautatungur upp á Þorskafjarðarheiði. Komum þar á Fjölskylduholti á reiðleiðina yfir heiðina við Fremri-Fjalldalsá.

11,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þorskafjarðarheiði, Kollabúðarheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sveinstindur

Frá Langasjávarleið að Sveinstindi við Skaftá.

Á nat.is segir svo: “Sveinstindur (1090m) er áberandi, keilulagaður tindur í Fögrufjöllum við suðurenda Langasjávar á Skaftártunguafrétti. Hann er hæstur fjalla á þessu svæði, sést víða að og útsýni af honum er mikið. Fjallið er auðgengt. Þorvaldur Thoroddsen gaf því nafn Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings.”

Förum frá Langasjó til suðurs vestur með Sveinstindi að Hellnafjalli. Til suðausturs norðan við Hellnafjall, og síðan norður að Sveinstindi.

7,6 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Sveinstindur: N64 05.176 W18 24.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Langisjór, Breiðbakur, Skælingar.
Nálægar leiðir: Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Svartárbugar

Frá fjallaskálanum í Árbúðum að fjallaskálanum í Svartárbotnum.

Förum frá fjallaskálanum Árbúðum yfir Svartá og norðnorðaustur meðfram ánni um Svartárbuga alla leið í að fjallaskálanum í Svartárbotnum.

18,0 km
Árnessýsla

Skálar:
Svartárbotnar: N64 44.630 W19 25.927.
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Svarthamragil

Tengileið milli Kerlingarháls og Brúðgumaskarðs á Hnjótsheiði.

Byrjum austan við Stæður á Brúðgumaskarðsleið. Förum til austurs sunnan í Hnjótsheiði á Dalverpisveg. Tengir saman Breiðuvík og Sauðlauksdal.

2,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Brúðgumaskarð, Dalverpisvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Svartárbotnar

Frá Svartárbotnaskála a Kili um Kjalfell að Hveravöllum.

Beinahóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum og þar er minnisvarði um Reynistaðabræður, sem urðu þar úti í stórviðri haustið 1780. Látið beinaleifarnar liggja óhreyfðar. Af Rjúpnafelli er gott útsýni yfir Kjöl og Hveravelli. Tveimur kílómetrum norðan fellsins er stór hraunhóll með mörgum vörðum. Í hólnum er hellir, sem opinn er í báða enda, kallaður Grettishellir.

Byrjum hjá vegi 35 við Fosstorfur á Kili. Förum norðvestur hjá Svartárbotnaskála yfir Vestri-Svartárbotna. Til norðurs austan Kjalfells og vestan Beinahóls, norður um Kjalhraun, hjá Grettishelli í 700 metra hæð og síðan vestan Rjúpnafells. Á veg 35, að Hveravöllum.

4,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Svartárbotnar: N64 44.630 W19 25.927.
Hveravellir : N64 51.960 W19 33.260.
Hveravellir eldri: N64 52.013 W19 33.756.

Nálægir ferlar: Jökulfall, Þjófadalir, Stélbrattur, Guðlaugstungur.
Nálægar leiðir: Kjalfellsleið, Krákur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Svartaskarð

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Furufirði um Svartaskarð til Óspakshöfða í Þaralátursfirði.

Heitar uppsprettur og sundlaug eru í Reykjafirði. Slóðin um Svartaskarð er grýtt og erfið og snjóþung á vetrum. Óspakshöfði er kenndur við Óspak þann, sem í Eyrbyggju fór ránsferðir um Vestfirði og bjó á Óspakseyri í Bitrufirði.

Förum frá sæluhúsinu í Furufirði suður yfir dalinn og þaðan ógreinilega sneiðinga suðsuðvestur og upp á Reiðhjalla. Þar verður slóðin skýrari og vel vörðuð austsuðaustur og upp í Svartaskarð í 420 metra hæð. Þar er gott útsýni til Drangajökuls. Úr skarðinu förum við austur um greinilegan sneiðing um hjalla og síðan austnorðaustur og niður varðaða götu til Óspakshöfða.

6,7 km
Vestfirðir

Skálar:
Furufjörður: N66 15.888 W22 14.152.

Nálægar leiðir: Reykjafjarðarháls, Skorarheiði, Bolungarvíkurbjarg, Furufjarðarnúpur, Þaralátursnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Svartagil

Frá Arnbjargarlæk í Þverárhlíð um Hallarmúla að Svartagili í Norðurárdal.

Byrjum hjá þjóðvegi 522 milli Arnbjargarlækjar og Spóamýrar í Þverárhlíð, Förum norðvestur á Hallarmúla og fyrir sunnan Mjóavatn. Síðan norður og niður á veg 527 í Norðurárdal, nálægt eyðibýlinu Svartagili.

3,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Skálavatn, Fiskivatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort