Þjóðleiðir

Strúturinn

Frá Kalmanstungu hringleið um Strútinn.

Leitið samþykkis í Kalmanstungu.

Sigurður Eiríksson frá Kalmannstungu orti dýrt kveðna vísu um Strútinn: “Lyngs um bing á grænni grund / glingra og syng við stútinn. / Þvinga ég slyngan hófa hund / hringinn kringum Strútinn.”

Förum frá Kalmanstungu. Þar er leið milli vega á Kaldadal og Arnarvatnsheiði. Förum jeppaveg norður með Strúti vestanverðum og síðan eftir slóð austur með fjallinu norðanverðu. Við Strútstagl beygjum við suðurs með fjallinu og síðan til vesturs með því sunnanverðu. Og komum loks aftur í Kalmanstungu.

22,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Norðlingafljót, Kaldidalur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Strútslaug

Frá fjallaskálanum við Álftavötn um Strútslaug að Mælifelli á Mælifellssandi.

Á vef Útivistar segir þetta um laugina: “Rangvellingar hafa kallað hana Hólmsárbotnahver en Skaftfellingar kalla hana Strútslaug og virðist sem það nafn hafi unnið sér fastan sess meðal landsmanna. Fyrir tíma sauðfjárveikivarna gekk fé Rangvellinga og Skaftfellinga töluvert saman á þessum slóðum og smöluðu þá þessar tvær fylkingar þetta svæði saman. Á grasbala ofan við Strútslaug var fyrrum náttstaður gangnamanna. Þessi grasbali gegnir enn því hlutverki að hvíla lúin bein göngumanna, en nú eru það tjöld þeirra sem ganga sér til skemmtunar, sem á honum rísa. “

Förum frá fjallaskálanum við Álftavötn vestur sléttuna og sveigjum við Eldgjá til norðvesturs. Förum nálægt suðurfjallinu og sveigjum til vesturs og suðvesturs inn í suðurjaðar Ófærudals. Síðan áfram suðvestur í Hólmsárbotna norðan Hólmsárlóns og þaðan vestur í Strútslaug sunnan við Laugarháls. Þar er fjallaskálinn Hólmsárbotnar. Frá lauginni förum við suðsuðvestur upp úr dalnum og förum síðan til suðurs um Skófluklif norðvestan Strúts og að fjallaskálanum Strúti. Þaðan förum við suður á Mælifellssand og fyrir austurenda Veðurháls og fyrir vestan Mælifell að þjóðvegi F210 yfir Mælifellssand.

24,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hólmsárbotnar: N63 52.707 W18 55.905.
Strútur: N63 50.317 W18 58.519.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Strompaleið

Frá Hofsafréttarleið að Ingólfsskála að Hofsrafréttarleið til Laugafells í norðurjaðri Sprengisands.

Þetta er jeppafær slóð, styttri en Hofsafréttarleiðin, sem krækir fyrir Orravatnsrústir.

Byrjum við Hofsafréttarleið fyrir sunnan Rauðhóla nokkru austan við Ingólfsskála. Fyrir norðan Rauðhóla er leið til Gimbrafells. Við förum til austurs og mætum þeirri leið sunnan Gimbrafells. Áfram höldum við norðaustur og komum á krossgötur sunnan Orravatns.

14,4 km
Skagafjörður

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Strjúgsskarð

Frá Strjúgsstöðum í Langadal um Strjúgsskarð að Refsstöðum í Laxárdal.

F rá Strjúgsstöðum og Móbergi teygja sig götur upp í skarðið, sem er greiðfært, þegar brekkurnar eru að baki. Í miðju skarðinu eru Haugar tveir, þar sem sagðir eru heygðir landnámsmennirnir Þorbjörn strjúgur á Strjúgsstöðum og Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum eftir að hafa barizt um beit í skarðinu.

Förum frá Strjúgsstöðum norðaustur Strjúgsskarð og síðan um Kárahlíð að Refsstöðum.

6,2 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Litla-Vatnsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Straumfjörður

Frá Álftanesi um Straumfjörð að þjóðvegi 533.

Sæta þarf sjávarfjöllum yfir álinn við Straumfjörð.

Frá Straumfirði var fyrrum stundað útræði. Hamborgarkaupmenn sigldu þangað fyrr á öldum. Einokunarkaupmenn sigldu þangað frá 1669 til 1672. Skip sigldu þangað tíðum síðan og 1863 varð Straumfjörður löggiltur verslunarstaður. Borgarnes tók síðan við og lagðist verzlun af í Straumfirði um aldamótin 1900. Síðastur kaupmanna þar var Ásgeir Eyþórsson, faðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Siglingin inn Straumfjörð er varasöm og fórust þar kaupskip. Minnisstætt er, þegar Pourquoi pas? steytti á skerinu Hnokka og brotnaði í spón í miklu fárviðri haustið 1936. 39 menn fórust og einn komst lífs af.Pourquoi pas?

Förum frá Álftanesi vestur um Álftanesvog norðvestur í Kóranes. Síðan norður um Búðarey og vestur yfir álinn til Straumfjarðar. Þaðan með heimreiðinni norður að þjóðvegi 533.

7,2 km
Snæfellsnes-Dalir

Erfitt fyrir göngufólk

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sigursteinn Sigursteinsson

Straumfjarðará

Frá Skógarnesi að Stakkhamri á Snæfellsnesi.

Þetta er vestasti hluti Löngufjara. Þær eru leirur, sem koma upp á fjöru, en verða að sjó á flóði. Lögð hefur verið reiðslóð yfir mýrarnar frá Skógarnesi að Straumfjarðará. Þar heitir Tjaldtangi, sem farið er út á fjöruna. Þar handtók Jón biskup Arason árið 1549 Árna Arnórsson prófast. Ofar með ánni og vestan hennar er Búðarhamar, þar sem leiðarþing voru fyrr á öldum. Í Skógarnesi bjó á sautjándu öld Þorbjörn Þórðarson, sem kallaður var Æri-Tobbi. Í upphafi tuttugustu aldar var verzlunarstaður í Skógarnesi, fyrst frá Tangsverzlun í Stykkishólmi og síðan einnig frá Jóni Björnssyni & Co. í Borgarnesi. Þessi verzlun lagðist af upp úr 1920. Leifar sjást enn af mannvirkjum þessara verzlana.

Förum frá Skógarnesi um slóð norðvestur frá bænum og síðan eftir henni til suðvesturs og fyrir austan tún á eyðibýlinu Ytra-Skógarnesi og niður í fjöru. Fylgjum fjörunni út fyrir túnin og síðan yfir leiru upp í Tanga, þar sem er reiðslóð til norðvesturs að Straumfjarðará. Þar er Gullsteinn við fjöruna. Við förum norður fjöruna og um Tjaldtanga yfir í Landbrotavík, þar sem vaðið er. Fara þarf gætilega yfir vaðið og eingöngu á fjöru. Steinn er þar í miðri ánni og er vaðið talið fært, þegar hann sést. Einnig er hægt að fara upp eftir ánni og fara yfir hana töluvert vestar. Frá vaðinu förum við vestur um Skíðishólma. Þaðan má taka stefnu beint á bæjarhúsin í Stakkhamri og taka land norðarlega í fjörunni. Við förum hins vegar vestur í Stakkhamarsnes og fylgjum því sjávarmegin unz við komum að Stakkhamri. Þar förum við til norðurs að bænum.

12,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Saltnesáll, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Skógarnesfjörur, Löngusker.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Strandaheiði

Frá Holti í Holtsdal um Vatnskleifar að Skógi á Rauðasandi.

Heitið Sandsheiði er oftar notað um þessa heiði. Jóhann Svavarsson: “…frá gamalli rétt ofan brúar á Holtsá. Gatan liggur upp hallandi hjalla um Akurgötu. Þegar Akurgötu sleppir liggur leið til vesturs yfir Þverá. … Frá Þverá taka við melhjallar að Vatnakleifum, Vatnakleifarhorn er til vesturs, endi Skarðabrúna. Átjánmannabani er nafn á vatni sem liggur undir Hvarfhól sem er hæsti hluti heiðarinnar. … Leið liggur til suðvesturs og eru þar sérstæðar jarðmyndanir sem heita Moldhaugar. Hrólfsvirki er til norðurs. Leið til Skógardals á Rauðasandi liggur um svæði sem ber nafnið Gljá. … Leiðin frá Gljá að Skógardal liggur um melhjalla, farið er yfir Þverá, þaðan liggur leið norðan ár til Skógardals. Sandsheiði var fjölfarinn fjallvegur, flutningaleið frá verstöðvum í Útvíkum.”

Byrjum norðan við Holtsá og förum vestur og upp Akurgötu sunnan í Hagamúla. Vestnorðvestur um Þverárlautir upp á Vatnskleifar í 460 metra hæð. Síðan vestsuðvestur Sandsheiði sunnan Hrólfsvirkis og norðan Molduxa. Niður Skógardal sunnan við Mábergsfjall að vegi 614 við Skóga og Móberg.

14,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hreggstaðadalur, Sigluneshlíðar, Bjarnagata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stóruvallaheiði

Frá Þingskálum á Rangárvöllum um Stóruvallaheiði að Leirubakka í Landssveit.

Góður moldarvegur svigar um hólana.

Förum frá Þingskálum vestur að Ytri-Rangá og norður um vað á ánni. Þaðan norður í Hrólfsskálahelli og vestur í Gróf og norður í Bjalla. Þaðan norðaustur um Stóruvallaheiði að Stóruvöllum og síðan að þjóðvegi 26 austan Skarðs. Förum með þjóðveginum austur að Leirubakka.

18,1 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Heklubraut, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Réttarnes, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Stóru-Laxárvað

Frá Laxárdal í Gnúpverjahreppi að Hruna í Hrunamannahreppi.

Þetta er hluti hinnar fornu þjóðleiðar milli Nautavaðs á Þjórsá og Kópsvatnseyra á Hvítá með viðkomu í Hruna.

Förum frá Laxárdal suðvestur um Leirdal og vestur um vað á Stóru-Laxá sunnan við Bláhylshnúk. Þaðan norðnorðvestur um Hrunalaug að Hruna.

4,2 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað, Litla-Laxá.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Hlíðarfjall.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Stóriskyggnir

Frá Kirkjuskarði í Hrunamannahreppi um Stóraskyggni að Jötu.

Á móts við Jötu er skilti sem vísar veg vestur Skipholtsfjall að einu af byrgjum Fjalla-Eyvindar. Hann fæddist og ólst upp þar í nágrenninu, á Hlíð, þar sem foreldrar hans bjuggu. Jón, bróðir Eyvindar, bjó líka hér í nágrenninu, í Skipholti. Stundum kom Eyvindur þangað úr útlegð sinni af öræfum og leyndist þar í skreiðarskemmu í skjóli bróður síns eða við skápinn í Skipholtsfjalli. Eyvindur var í tuttugu ár í útlegð á fjöllum og bjó víða, enda mátti alltaf búast við eftirleit yfirvaldsins. Bezt bjó hann í Eyvindarkofaveri á Sprengisandi. Minnisvarði um hann er á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum, þar sem hann var bóndi um skeið.

Förum frá Kirkjuskarði norður um Stóraskyggni, Kotlaugafjall og Skipholtsfjall og loks austur á slóðina milli Foss og Jötu.

9,41 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Hrunamannahreppur, Skipholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jón Hermannsson

Stóri-Meitill

Frá Kolviðarhóli við Skarðsmýrarfjall að Vindheimum í Ölfusi.

Leiðin liggur samsíða Þrengslum um þremur kílómetrum austar í landinu. Sérstakrar varúðar þarf að gæta við þjóðveg 1 vegna hraðrar bílaumferðar. Þetta er grösug leið, sem hentar hestum. Hér var þjóðleiðin yfir Hellisheiði fyrr á öldum, þangað til bílvegir tóku við, fyrst um Kamba og síðan einnig um Þrengsli.

Förum frá Kolviðarhóli suður með Litla-Reykjafelli, bögglumst yfir þjóðveg 1 um Hellisheiði. Síðan beint suður að austanverðu við Stóra-Meitil, um Lágaskarð milli Stóra- Meitils að suðvestan og Lákahnjúks að norðaustan. Síðan að vestanverðu við Stóra-Sandfell, þar sem leiðin nær 300 metra hæð. Þá vestan við Nyrðri-Eldborg og síðan að vestanverðu við Syðri-Eldborg. Þar förum við fyrst þvert austur og síðan suður og niður í Sanddali og milli Innbruna og Eldborgarhraun að vestanverðu og Lönguhlíðar að austanverðu, austan við Krossfjöll að Raufarhól og Raufarhólshelli. Förum síðan suðsuðvetur ofan af heiðinni niður að Þrengslavegi við Fjallsenda í Ölfusi. Einnig er unnt að fara áfram suðaustur undir Lönguhlíð og loks um Skóghlíð niður í Ölfus.

16,3 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Þrengsli, Hellisheiði, Skóghlíð, Hellisheiði, Hengladalaá, Ölkelduháls, Ölfusvatnsá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Stórisandur

Frá Arnarvatni um Stórasand til Öldumóðuskála á Grímstunguheiði.

Aðrir heiðavegir á svæðinu eru: Norðlingafljót, Arnarvatnsheiði, Tvídægra, Núpdælagötur 1 og 2, Aðalbólsheiði, Víðidalstunguheiði, Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Grímstunguheiði, Öldumóða, Skagfirðingavegur, Sandkúlufell, Bláfell, Fljótsdrög. Sjáið texta með þeim slóðum.

Skammá er stutt á milli Réttarvatns og Arnarvatns. Þar orti Jónas Hallgrímsson: “Og undir Norðurásnum / er ofurlítil tó / og lækur líður þar niður / um lágan hvannamó.” Athyglisvert er að í Sturlungu er Stórisandur sjaldan farinn, menn fóru þá af Arnarvatnsheiði norður í Húnaþing og þaðan um byggðir lengra norður.

Förum frá Skammá austnorðaustur slóð um Stórasand, fyrst fyrir norðan Bláfell, þar sem við komum að fjögurra alda gömlum Ólafsvörðum, sem hlaðnar voru af Ólafi biskup Hjaltasyni og mönnum hans. Áfram höldum við austnorðaustur um Beinakerlingu að Grettishæðarvatni. Við förum norður fyrir vatnið um Bríkarkvíslardrög og Birnuhöfða. Síðan austur um Öldumóðuhöfðaása að Öldumóðuskála.

20,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Öldumóða: N65 10.928 W19 54.823.

Nálægir ferlar: Suðurmannasandfell, Arnarvatnsheiði, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Norðlingafljót, Bláfell, Sandkúlufell.
Nálægar leiðir: Grímstunguheiði, Öldumóða, Skagfirðingavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stóradalsháls

Frá Ytri-Löngumýri í Blöndudal um Svínadal til Eldjárnsstaða í Blöndudal.

Stóradalsháls er mikill ás með melum og mýrum. Leiðin liggur ofan garða í Stóradal, sem að fornu hét Sléttárdalur. Þar bjó á 19. öld Kristján ríki Jónsson, sem rak sauðina suður Kjöl að vetrarlagi 1858, sem frægt varð.

Förum frá Löngumýri vestur fyrir Stóradalsháls og síðan til suðurs vestan til í Stóradalshálsi og suður um Sléttárdal. Sunnan við eyðibýlið Stóradalssel sveigjum við til suðausturs fyrir norðan Barðalækjartjörn. Síðan austur yfir Gilsá norðan við Gilsvatn og austur yfir þjóðveg F35. Síðast í sneiðingum suðaustur Eldjárnsstaðabungu niður að Eldjárnsstöðum.

15,5 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Gilsárvatn

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Stóra-Laxá

Frá Laxárdal í Gnúpverjahreppi að Kaldbaki í Hrunamannahreppi.

Stóra-Laxá er ein af meiriháttar laxveiðiám landsins. Fjöldi laxa er ekki mikill, en margir stórir veiðast þar, einkum í efsta veiðisvæði árinnar og þá einkum, þegar liðið er á veiðitímann. Árin er raunar fremur þekkt fyrir stórbrotna náttúru, mikil gil og erfiða aðkomu á mörgum stöðum. Úr því hefur verið bætt með göngustígum og göngubrú.

Förum frá Laxárdal suðvestur um Leirdal, vestur yfir Stóru-Laxá sunnan Blágilshnúks. Síðan norðnorðaustur fyrir vestan Blágilshnúk, vestan Folaldahlíðar, að Hörgsholti. Norðvestur á Kaldbaksveg og eftir honum norðnorðaustur að Kaldbaki.

10,0 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Kaldbaksvað, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Hildarfjall, Sólheimar, Stóru-Laxárvað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Stífluvegur

Frá norðvesturhorni Blöndulóns um Blöndustíflu að Galtará á Eyvindarstaðaheiði.

Þessi leið hefur tekið við af Skagfirðingavegi síðan Blöndulón var gert. Riðið er eftir stíflunni við Blöndulón.

Byrjum hjá norðvesturhorni Blöndulóns. Förum norðaustur fyrir lónið og svo suðaustur um Réttabungu. Síðan norðaustur yfir Blöndustíflu og suðaustur um Reftjarnabungu. Austur um Galtarárflóa og suður með Galtará. Endum í fjallaskálanum við Galtará.

14,4 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl, Mælifellsdalur.
Nálægar leiðir: Friðmundarvatn, Áfangafell, Fossaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort