Þjóðleiðir

Staðarfjall

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Geirmundarstöðum í Selárdal um Staðarfjall til Staðar í Steingrímsfirði.

Leiðin er fremur brött upp með Þjóðbrókargili.

Förum frá Geirmundarstöðum eftir jeppaslóð norðvestur Selárdal og síðan áfram vestan Selár að Þjóðbrókargili. Síðan segir á Vestfjarðavefnum: “Er þá gengið upp með Þjóðbrókargili í Selárdal og heilsað upp á steinrunna tröllið Þjóðbrók sem forðum elti Gissur smalamann frá Stað. Gengið er hjá Steingrímshaugi þar sem Steingrímur trölli er dysjaður hæst á fjallinu ofan við Stað og síðan fram fjallið og niður með Kirkjutungum innan við Stað. Gönguleiðin yfir Staðarfjall var merkt árið 2004 af sjálfboðaliðahópi.”

12,9 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Kollabúðaheiði, Steinrímsfjarðarheiði, Trékyllisheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sprengisandur

Frá Suðurlandi til Norðurlands milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.

Allar aldir hafa verið tvær leiðir um Sprengisand fyrir utan Bárðargötu. Önnur leiðin lá úr byggð vestan Þjórsár og hin austan Þjórsár. Vestari leiðin hefur einkum verið notuð af hestafólki, því að hún er grónari. Hér er vestari leiðinni lýst frá suðri til norðurs undir heitunum Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar, Háumýrar, Háöldur og Kiðagil. Austurleiðinni er lýst undir heitunum Nýidalur og Fjórðungsalda. Sjáið leiðarlýsingar Sprengisands á viðkomandi stöðum. Sprengisandur var kallaður Gásasandur og Sandur í Sturlungu. Á fyrsta nákvæma Íslandskortinu frá 1849 eru vestari og eystri leiðirnar tengdar saman um Sóleyjarhöfðavað.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Sprengisandi. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti. Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa.

? km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Háöldur, Háumýrar, Nýidalur, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar,Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Spóagil

Frá Syðri-Tungu á Tjörnesi að Fjöllum í Kelduhverfi.

Oftast er leiðin kölluð Tunguheiði. Þetta er grýtt og gróðurlaus heiði, en útsýni er gott af vestur- og austurbrúnum hennar, einkum af Biskupsási.

Förum frá Syðri-Tungu um móa og mýrar til austurs fyrir norðan Tungunúp og þaðan Skarðsbrekku upp á Tunguheiði, varðaða leið. Á háheiðinni förum við um Lambatorfur og síðan austur um Biskupsás í 480 metra hæð. Niður af heiðinni förum við um Gerðibrekku norðan við Sauðafell. Förum yfir erfitt Spóagil, þar sem það mætir Fjallagili. Loks förum við um vel grónar brekkur niður að Fjöllum.

14,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Þeistareykir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Spákonufell

Frá Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði að Heydalsá í Steingrímsfirði.

Förum frá Litla-Fjarðarhorni norður í sneiðingi upp fjallshlíðina í Deildarskarð. Þaðan norður heiðina fog yfir drög Hvalsárdals fyrir austan Spákonufell í 280 metra hæð. Norður af heiðinni vestan í Geitafelli og niður að þjóðvegi 61 við Heydalsá.

8,8 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Bitruháls.
Nálægar leiðir: Hamarssneiðin, Steinadalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sótaskarð

Frá Langadal við Svartfell um Sótaskarð að Víðidal.

Fornbýlið Sótastaðir var suðvestur af skarðinu. Þar hafa fundizt beitarhúsatættur, en öll landgæði eru horfin í sandblæstri.

Byrjum hjá Jökuldalsheiðarvegi, þjóðvegi 1 hjá Langadal við Svartfell. Förum norðvestur um gilið austan Sandfells, síðan vestnorðvestur sandinn norðan við Farvegsöldu. Loks um Sótaskarð í Víðidalsfjöllum í 600 metra hæð, á þjóðveg 1 í Víðidal.

11,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Leiðaskarð, Byttuskarð, Vopnafjörður, Skjöldólfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sópandi

Frá Sópandi í Lónafirði til Barðsvíkur á Hornströndum.

Leiðin er oftast kölluð Þrengsli. Erfitt er að finna slóðina, sem hún farin til austurs.

Förum frá Sópanda austur Sópanda upp í Þrengsli norðan við Hyrnukjöl í 400 metra hæð. Síðan austur Barðsvík að sæluhúsi við suðurenda Barðsvíkur.

10,4 km
Vestfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar: Barðsvík: N66 20.117 W22 14.000.

Nálægar leiðir: Hornstrandir, Bolungarvíkurheiði, Göngumannaskörð, Fannalág, Lónafjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sópandaskarð 3

Frá Torfhvalastöðum við Langavatn að Stóra-Vatnshorni í Haukadal.

Jeppaslóðin gerir leiðina fljótfarna hestamönnum, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins. Hér er farin reiðslóðín austan Langavatns.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Leið þessi er fær jeppum vestan Langavatns og norður á Skógarströnd. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá fjallaskálanum Torfhvalastöðum norður með vatninu austanverðu og síðan yfir í vesturhlið Langadals, þar sem við komum að jeppavegi. Honum fylgjum við norður að Víðamúla og förum áfram vestan múlans, en austan Fossamúla og Þrúðufells. Þar erum við komin í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Höldum svo áfram þröngt skarðið og þröngan Laugardal og fylgjum síðan Hörðudalsá norður að þjóðvegi 54 um Skógarströnd. Við förum norðaustur með þeim vegi yfir þjóðveg 60 um Miðdali, yfir gömlu brúna á Haukadalsá og síðan með þjóðvegi 586 norðan Haukadalsvatns að Stóra-Vatnshorni.

44,5 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson

Sópandaskarð 2

Frá Torfhvalastöðum við Langavatn að Hamraendum í Miðdölum.

Jeppaslóðin gerir leiðina fljótfarna hestamönnum, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins. Hér er farin reiðleiðin austan Langavatns.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Leið þessi er fær jeppum vestan Langavatns og norður á Skógarströnd. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Snorri Sturluson fór hér um 1225 til að fara á svig við frænda sinn Sturlu Sighvatsson á Sauðafelli. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá fjallaskálanum Torfhvalastöðum norður með vatninu að austanverðu og síðan upp á jeppaslóð norður Langavatnsdal um Rauðhól. Áður en komið er inn í Víðidal beygjum við til norðvesturs fyrir Fossamúla og síðan milli Víðimúla að austan og Þrúðufells að vestan upp í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Næst förum við brekkurnar úr skarðinu norður í Þrúðudal, undir Hálfdánarmúla austanverðum og síðan undir Þrúðufelli. Þar heitir dalurinn Laugardalur. Þegar við komum að Tungu og Seljadal förum við áfram norður dalinn austan við Hörðudalsá. Við Hörðuból komum við niður á þjóðveg 54 um Skógaströnd. Fylgjum þeim vegi til austurs að Hamraendum.

34,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sópandaskarð 1

Frá Grenjum á Mýrum til Hörðubóls í Hörðudal.

Jeppaslóðin flýtir fyrir ferð hestamanna, en dregur um leið úr fortíðartilfinningu svæðisins.

Til skamms tíma ráku Borghreppingar fé sitt þessa leið heim úr Seljalandsrétt í Hörðudal. Af Langavatnsmúla er afar víðsýnt og leiðin sunnan hans er um gróið hraunaland og melhæðir. Öll þessi leið er fær jeppum. Áður fyrr var Langidalur og Sópandaskarð fjölfarin leið milli byggða. Hennar er getið í Laxdælu og Sturlungu. Hér riðu Þorgils Hölluson, Bolli og Þorleikur Bollasynir í aðför að Helga Harðbeinssyni að Vatnshorni í Skorradal. Á Sturlungaöld bjó Lauga-Snorri Þórðarson í Laugardal og var hann hliðhollur Sturlungum. Lauga-Snorri féll í Örlygsstaðabardaga 1238 þegar hann reyndi að verja Sturlu Sighvatsson.

Förum frá eyðibýlinu Grenjum norður slóð um Grenjadal meðfram Langá, undir Grenjamúla. Síðan til vesturs að Rauðukúlu og norðvestur að Lambafelli og með austurhlið þess norður að Fjallakofanum við Sandvatn. Síðan áfram norðvestur með fjöllunum, yfir Kvígindisdal og upp Langavatnsmúla vestan Langavatns. Niður af fjallinu austanverðu innan við Langadal og áfram norður Langavatnsdal um Rauðhól. Áður en við komum inn í Víðidal beygjum við til norðvesturs fyrir Fossamúla. Síðan milli Víðimúla að austan og Þrúðufells að vestan upp í Sópandaskarð í 380 metra hæð. Næst förum við brekkurnar úr skarðinu norður í Þrúðudal, undir Hálfdánarmúla austanverðum og síðan undir Þrúðufelli. Þar heitir dalurinn Laugardalur. Þegar við komum að Tungu og Seljadal förum við austur yfir dalinn að Hlíð og síðan áfram norðvestur dalinn austan við Hörðudalsá. Við Hörðuból komum við niður á þjóðveg 54 um Skógarströnd.

42,8 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Skálar:
Fjallakofinn: N64 45.463 W21 51.351.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mýravegur, Hraundalur, Jafnaskarð, Svínbjúgur, Rauðamelsheiði, Skógarströnd, Lækjarskógarfjörur, Sanddalur, Miðdalir, Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Gufá, Hrosshyrna, Skarðheiðarvegur, Klif, Lambahnúkar, Eyðisdalur, Hallaragata, Miðá, Prestagötur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Útivistarkort

Sólheimatunga

Frá þjóðvegi 1 við Gljúfurá í Borgarfirði um Norðurá að Stafholti í Stafholtstungum.

Förum frá brúnni yfir Gljúfurá eftir veiðivegi austan árinnar að vaði á Norðurá andspænis Stafholtsfjalli. Að lokum austur yfir ána að Stafholti.

3,0 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Sólheimar

Frá Núpstúni í Hrunamannahreppi um Sólheima að eyðibýlinu Hörgsholti.

Förum frá Núpstúni austur fyrir Núpstúnskistu og norður með henni og Galtafelli meðfram Stóru-Laxá að Sólheimum. Þaðan vestan Bláhylshnjúks, vestan Álatjarnar, yfir Nónása og loks að Hörgsholti.

11,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Stóru-Laxárvað, Galtafellsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sóleyjarhöfðavað

Frá fjallaskálanum í Tjarnarveri að fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða.

Hluti vörðuðu Sprengisandsleiðarinnar. Kaflarnir eru, taldir frá suðri: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás 1, Tjarnarver, Sóleyjarvað. Handan Sóleyjarvaðs tekur við slóðin Háumýrar og síðan Háöldur til Laugafells eða Gásasandur til Þingeyjarsýslu.

Sóleyjarhöfði er austan vaðsins. Nafnið stafar af gulum mosagróðri.

Förum frá fjallaskálanum í Tjarnarveri vörðuðu reiðleiðina norður með Þjórsá að vaði hjá fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða. Vaðið er traust, en djúpt. Það er riðið í tveimur kvíslum um eyri í miðri ánni. Vestari kvíslin er miklu meiri. Á vaðinu sjálfu er góður hraunbotn, en ofan og neðan þess er hætt við sandbleytum.

3,5 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Tjarnarver : N64 31.948 W18 49.139.
Sóleyjarhöfði: N64 33.110 W18 46.270.

Nálægir ferlar: Háumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið og Herforingjaráðskort

Sóleyjarbakki

Frá Gunnbjarnarholti um Sóleyjarbakkavað að Sóleyjarbakka.

Byrjum hjá þjóðvegi 30 við Gunnbjarnarholt. Förum þaðan norður yfir Stóru-Laxá að þjóðvegi 340 milli Birtingaholts og Sóleyjarbakka.

2,1 km
Árnessýsla

Nálægar leiðir: Iðubrú, Hvítárbakkar, Þjórsárbakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Snæfjallaheiði

Frá Berjadalsá á Snæfjallaströnd um Snæfjallaheiði að Kumlá í Grunnavík.

Gömul og grýtt póstleið. Fara þarf varlega, því að leiðin er víða nálægt brúnum Vébjarnarnúps. Uppi á heiðinni er leiðin vel vörðuð. Um tvær leiðir er að velja. Sú nyrðri er með stærri vörðum og er hún vetrarleið. Syðri leiðin er betri yfirferðar að sumri.

Sumarliði Brandsson póstur hrapaði með hesti sínum fyrir bjargbrjún Vébjarnarnúps árið 1920 og fórust báðir. Þegar leit var gerð að honum, fórust þrír leitarmenn í snjóflóði. Síðar fundust pósttaska og reiðtygi Sumarliða á klettasnös.

Förum frá Berjadalsá upp með Íralæk rétt utan við Berjadalsá um sneiðinga upp á grösugan Reiðhjalla í fjallsbrúninni. Síðan norðvestur um Snæfjallaheiði í 470 metra hæð. Að lokum bratta sneiðinga austnorðaustur að Nesi eða Kumlá í Grunnavík. Þaðan er stutt leið norður að Stað.

12,6 km
Vestfirðir

Skálar:
Sútarabúðir: N66 14.722 W22 52.290.

Nálægar leiðir: Vébjarnarnúpur, Höfðaströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Snæfell

Frá Kárahnjúkavegi vestan Glúmsstaðadals um Vesturöræfi og Snæfell í Hátungu við Eyjabakkajökul.

Vesturöræfi eru víðáttumikið votlendi í um og yfir 600 metra hæð, kjörlendi hreindýra. Snæfell er með hæstu fjöllum landsins með óviðjafnanlegu útsýni, 1833 metra hátt. Stíf gönguleið er frá Snæfellsskála á fjallið.

Byrjum við Kárahnjúkaleið rétt vestan Glúmsstaðadals. Við förum til suðvesturs fyrir austan Glúmsstaðadalsá og áfram suðsuðvestur um Vesturöræfi að fjallaskálanum Sauðakofa vestan við Kofaöldu. Síðan til austsuðausturs norðan Sauðahnjúka að Snæfellsskála vestan Snæfells. Þaðan til suðurs fyrir austan Fitjahnjúk og fyrir vestan Þjófahnjúka. Síðan suður á Hátungu.

38,8 km
Austfirðir

Skálar:
Sauðakofi: N64 49.632 W15 47.914.
Snæfell: N64 48.233 W15 38.569.

Nálægar leiðir: Vesturöræfi, Kárahnjúkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort